Ísgerð er vinsæl fyrir hátíðarnar. Ég er almennt ekki mikið gefin fyrir ís en mér finnst heimagerður ís mjög góður og geri alltaf mismunandi tegundir af ísum fyrir jólahátíðina. Hér eru nokkrar tegundir sem ég mæli með! 🙂
Greinasafn fyrir merki: heimagerður ís
Toblerone jólaís með hnetum og banönum
Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði
Vanilluís með Dumle-núggati og smjörsteiktum kanileplum
Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum
Vanilluís með Dumle-núggati og smjörsteiktum kanileplum
Eins og ég hef sagt frá kom yfir mig ísgerðarlöngun nú í desember og ég bjó til nokkra mismunandi ísa fyrir hátíðarnar. Ég var dálítið ánægð með mig þegar ég var búin að þróa uppskriftina að þessum ís því mér fannst hann svo himneskt góður og smjörsteiktu kanileplin settu algjörlega punktinn yfir i-ið. Mér fannst ofboðslega gott að fá svona stökka núggat áferð á Dumle molana í ísnum og lítið mál að búa það til. Stórfjölskyldunni var boðið upp á þennan ís yfir hátíðarnar og gáfu honum öll toppeinkunn! 😉 Það er varla hægt að vera með hátíðlegri eftirrétt nú um áramótin og reyndar er þetta eftirréttur sem sómir sér vel allt árið um kring! 🙂
Uppskrift f. 6
- 2 pokar Dumle Orginal karamellur (samtals 240 g)
- 5 eggjarauður
- 5 msk sykur
- 5 dl rjómi, léttþeyttur
- 2 vanillustangir, klofnar í tvennt og fræin skafin úr
Ofn er hitaður í 180 gráður við blástur. Dumle karamellunum er raðað á ofnplötur klæddar bökunarpappír. Sett inn í ofn við 180 gráður í um það bil 5-7 mínútur eða þar til karamellurnar hafa bráðnað. Gæta þarf þess að þær brenni ekki. Þegar karamellurnar hafa kólnað eru þær saxaðar niður.
Rjómi þeyttur. Eggjarauður og sykur þeytt saman þar til blandan verður ljós og loftmikil. Þá er þeyttum rjóma, vanillufræjum og Dumle-núggati bætt varlega út í og blandað vel saman með sleikju. Sett í ísform eða 24 cm smelluform og fryst í minnst 5 tíma. Borið fram með heitum smjörsteiktum kanileplum.
Smjörsteikt kanilepli:
- 4 rauð epli
- 3/4 dl púðursykur
- 1 tsk kanill
- 1 msk smjör.
Eplin eru afhýdd og skorin í fremur þunna báta. Púðursykri og kanil blandað saman og eplunum velt upp úr blöndunni. Smjör hitað á pönnu og eplin steikt í nokkrar mínútur á meðalhita þar til þau hafa mýkst vel.
Toblerone jólaís með hnetum og banönum
Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.
Uppskrift:
- 5 dl rjómi
- 5 eggjarauður + 1 msk sykur
- 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
- 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
- 200 g Toblerone
- 1 hvítur marengsbotn
- 1 banani
- ca. 60 g heslihnetur
Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.