Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum


Ég stenst fáar freistingar þegar kemur að eftirréttum en eitt af því fáa sem ég stenst auðveldlega er ís. Þess vegna var ég alveg hissa hvað ég kolféll fyrir þessum heimatilbúna ís. En það er franska núggatið í ísnum sem gerir útslagið, það er alveg svakalega gott! Það er ekkert flókið að búa það til. Mér finnst best að nota grófsaxaðar, afhýddar möndlur. Eftir að þær hafa verið karamelluseraðar og látnar kólna er gott að saxa þær niður enn frekar en þær límast líka svolítið saman við kælinguna. Eins finnst mér flest sem inniheldur perur eða epli gott og ekki verður það verra súkkulaðisoðið! Ég mundi það of seint að það átti að súkkulaðisjóða perurnar heilar og skera þær eftir suðu en ég gerði það einmitt í fyrra þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn. Núna skar ég þær í báta fyrir suðu en ég mæli með hinu fyrrnefnda, perurnar halda meira perubragði og eru í betra jafnvægi við súkkulaðið ef þær eru soðnar heilar. Það er líka gott að hafa bara heitu súkkulaðisósuna ef manni finnst of mikið umstang að hafa perurnar líka.

Uppskrift f. 6

Núggat:

  • 80 gr afhýddar möndlur, saxaðar gróft
  • 90 gr sykur

Hitið afhýddar möndlur og sykur á pönnu þar til sykurinn verður gullinbrúnn og hjúpar möndlurnar vel. Hellið blöndunni á smjörpappír og látið kólna. Saxið möndlurnar frekar smátt.

Núggatís:

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk sykur
  • 5 dl rjómi, léttþeyttur
  • 1 tsk vanilludropar (ég notaði eina vanillustöng í staðinn, stöngin klofin og fræin skafin innan úr)
  • núggatið

Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og loftmikil. Bætið léttþeyttum rjóma, vanilludropum (eða vanillufræum) og núggati út í og blandið vel saman. Frystið.


Súkkulaðisoðnar perur:

  • 3/4 lítri vatn
  • 1 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 1/2 vanillustöng
  • 4 perur, afhýddar

Sjóðið vatn, sykur, kakó og vanillustöng saman. Bætið perum út í og látið sjóða við vægan hita í 1 klukkustund, hreyfið við þeim öðru hvoru. Látið perurnar kólna í leginum. Skerið þær í báta áður en þær eru bornar fram.

Heit súkkulaðisósa:

  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 30 gr smjör
  • 2 msk síróp
  • 1 dl rjómi

Setjið allt í pott og bræðið saman.

Ísinn má laga með tveggja vikna fyrirvara. Perurnar geymast í 2-3 daga í kæli og súkkulaðisósan geymist í eina viku í kæli.

10 hugrenningar um “Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

  1. Almáttugur minn… Mig langar í allt á þessari síðu. Hvort ætti eg að byrja á þessu eða perunum sem ertu fylltaf hvítu súkkulaði! ?
    Takk fyrir að deila.

  2. Bakvísun: Eftirréttir fyrir gamlárskvöld | Eldhússögur

  3. Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur

  4. Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur

  5. Ég gerði núggat ísinn núna rétt í þessu og bíð spennt eftir jólunum að fá að smakka! Takk fyrir þetta, gaman að sjá annað en Toblerone ísinn (sem er þó æði)

  6. Bakvísun: Fimm ljúffengir ísar fyrir hátíðarnar | Eldhússögur

  7. Nú rignir yfir þig spurningum frá mér 😉 er að skipuleggja laufabrauðsdag með nokkrum vinum, þar sem við borðum góðan jolamat og skýrum út og steikjum laufabrauð ( og að sjálfsögðu glögg á kantinum) og svo hlakka ég svo til að taka nýja eldhúsið mitt í notkun að ég er á fullu að leita að einhverju nýju sem ég get þó undirbúið aðeins áður. En að spurningunni, er ekki best ef að perurnar eru frekar harðar en vel þroskaðar?

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.