Ostakökudesert með hindberjasósu


Ostakökudesert með hindberjasósuÉg er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.
IMG_7260
Uppskrift f. 6:
  • 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 300 g Digestive kex
  • 300 g frosin hindber, afþýdd
  • 1.5 msk sykur
  • ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
  • fersk myntublöð (má sleppa)

IMG_7257

Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangnum af hindberjunum (200 grömm) eru maukuð vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnin eru búin. Að lokum er skeytt með berjum og jafnvel ferskum myntublöðum.
IMG_7265

Bananapæ með karamellusósu og Daim súkkulaði


IMG_7333Um síðustu helgi héldum við upp á 10 ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Hún er svo mikill heimshornaflakkari að þemað sem hún valdi sér í ár var París! Draumur hennar um að sjá New York rættist í sumar og nú stendur Parísarferð efst á óskalistanum. Við keyptum skemmtilegar Parísar servíettur, glös, blöðrur og dúk á Amazon í Bandaríkjunum sem setti tóninn fyrir afmælisþemað í ár. IMG_7432IMG_7436Jóhanna skoðaði Parísartertur á netinu og var með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig tertan ætti að vera. Eins og mér finnst gaman að baka þá finnst mér alltaf jafn erfitt að skreyta afmælisterturnar. Það fer nefnilega ekkert sérlega vel saman að vera með metnað í afmælistertum en hafa svo ekkert sérstaklega mikla skreytingahæfileika! 😉 Ég dreg alltaf þetta verkefni fram á síðustu stundu og er því yfirleitt nóttina fyrir afmælið í eldhúsinu að reyna að skreyta og skera út afmæliskökur sem krakkarnir hafa óskað eftir. Í ár ákvað ég að gera mér lífið létt og bað Önnu frænku mína, sem er konditor, um að gera afmælistertuna og það var frábær ákvörðun.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Kakan varð jú fyrir það fyrsta dásamlega falleg og góð, var nákvæmlega eins og Jóhanna mín óskaði sér og ég sjálf gat dundað mér við hefðbundinn kökubakstur og brauðréttagerð án þess að eiga kökuskreytingar hangandi yfir mér!

IMG_7356

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

IMG_7349 Ég var hins vegar mjög ánægð með ættingja mína sem héldu í fyrstu að ég hefði gert þessa glæsilega köku, það er mikið hrós fyrir manneskju með þumalputta á öllum þegar kemur að skreytingum! 🙂 Anna er menntaður konditor og er með Facebook síðu hér.

IMG_7336

Ein kakan í afmælinu sem fékk mikið lof var þetta banana-karamellupæ. Sjálfri finnst mér allt sem hefur samsetninguna bananar, karamellur og rjómi ákaflega gott. Ég setti inn uppskrift af svipaðri böku hér en það þarf að hafa meira fyrir henni enda er karamellusósan heimagerð. Þetta pæ er hins vegar ótrúlega fljótlegt og einfalt en sjúklega gott og hentar mjög vel sem eftirréttur. Hugmyndin kom út frá þessari karamellusósu sem ég keypti í Þinni verslun og var búin að eiga inni í skáp þónokkuð lengi. Ég fór á síðuna hjá þeim og sá að þessar vörur eru seldar á eftirfarandi stöðum: í Melabúðinni, Hagkaup Garðabæ, Hagkaup Kringlunni, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Vínberinu Laugavegi, Garðheimum, Kjöthöllinni Háaleitisbraut, Þinni Verslun í Breiðholti, Mjólkurstöðinni Neskaupsstað, Blómasetrinu Borganesi og Býflugan og blómið á Akureyri.

IMG_7321

Uppskrift:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör, brætt
  • 3 stórir þroskaðir bananar eða 4 litlir
  • 1 krukka karamellusósa frá Stonewall Kitchen (Stonewall Kitchen Sea Salt Caramel Sauce 347g)
  • 500 ml rjómi
  • 2 tvöföld Daim súkkulaði (56 g stykkið), saxað

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Blöndunni þrýst ofan í smurt eldfast bökuform. Botninn bakaður í 10 mínútur og leyft að kólna. Rjóminn er þeyttur. Bananar eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir kaldan botninn. Því næst er helmingnum af karamellusósunni dreift yfir bananana og hluta af rjómanum dreift yfir. Þá er restinni af banönunum dreift yfir rjómann, þá afgangnum af karamellusósunni og að lokum er öllum rjómanum smurt yfir eða sprautað með rjómasprautu. Söxuðu Daim súkkulaði er að síðustu dreift yfir rjómann.

IMG_7330IMG_7335

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Key lime baka


IMG_7288Í dag er stóra stelpan okkar 19 ára! Tíminn líður svo ótrúlega hratt, það hljómar eins og klisja en er þó svo satt. Maður er svo önnum kafin við uppeldið þegar börnin eru lítil að tíminn líður án þess að eftir því sé tekið. Skyndilega einn daginn eru litlu börnin horfin og í staðinn komnar fullorðnar manneskjur! Ótrúlegt og dásamlegt en kannski örlítið tregafullt líka! 🙂

Að vanda fær afmælisbarnið á heimilinu að velja uppáhaldsmatinn sinn, að auki er boðið upp á köku, pakka og afmælissöng. Það kom mér ekki á óvart að Ósk valdi sushi í afmælismatinn.

IMG_7224Það kom mér heldur ekki á óvart að hana langaði hvorki í köku né eftirrétt, hún er ekkert hrifin af sætmeti. Algjör synd því mér finnst skemmtilegast að búa til eftirrétti og baka kökur! Ég lét það þó ekki á mig fá og notaði tækifærið að búa til böku sem ég er búin að horfa til lengi. Þó svo að afmælisbarnið vildi ekki böku þá komu amman og afinn í heimsókn og nutu góðs af henni með okkur fjölskyldunni. Og það má með sanni segja að þessi baka hafi slegið í gegn! Að vísu fannst yngstu krökkunum hún ekkert sérstök en okkur hinum fannst hún svo afskaplega ljúffeng, hún fór til dæmis strax á topp fimm kökulistann hjá Alexander. Þið verðið að prófa þessa dásemd!

IMG_7258

Þessi baka kemur líka úr uppskriftabók Hummingbird bakaríisins eins og ostakökubrownie kakan. „Key lime pie“ er bandarískur eftirréttur gerður úr limesafa, eggjarauðum og niðursoðinni sætmjólk. Ofan á bökuna er settur þeyttur rjómi en upprunalega var sett þeytt eggjahvíta ofan á bökuna, sem sagt marengs. Nafnið er dregið af Keys í Florída eftir límónunum (lime) sem vaxa þar. Þær eru talsvert minni (þarf að nota ca 12 á móti 4 venjulegum) og beiskari en þessar hefðbundnu límónur sem við þekkjum. Key límónurnar hafa einstaka sinnum verið til í Hagkaup. Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir hefðbundnum límónum. Ég er ekkert mikið fyrir rétti með miklum sítrusi en þessa böku á ég klárlega eftir að búa til aftur, hún er dásamlega fersk og góð. Kjörin eftirréttur til dæmis eftir þunga máltíð. Næst er ég spennt fyrir því að prófa hana með marengs þó svo að þeytti rjóminn passi líka afar vel við bökuna.

sætmjólkVarðandi sætu niðursoðnu mjólkina þá fæst hún í Kosti, Melabúðinni, búðum sem selja asískar vörur og stundum í Hagkaup. Hafið þið kannski séð hana í fleiri búðum? Þegar ég fór í Kost síðast fann ég ekki þessa sætu mjólk og þurfti að spyrja um hana. Þá var hún falin einhverstaðar á bakvið. Stúlkan sagði að þeir mættu í raun ekki lengur selja hana. Mér skilst að þetta snúist um hvernig þessi mjólk er tolluð. Ég keypti allavega nokkuð margar dósir, það er svo mikið af skemmtilegum réttum sem hægt er að nota þessa sætu niðursoðnu mjólk í. Ég tala nú ekki um að búa til gómsæta karamellusósu úr henni!

Nýjasta græjan í eldhúsinu kom sér vel við eftirréttagerðina í dag. Inga frænka gaf okkur þetta Microplane úr Kokku í jólagjöf, alveg magnað áhald við til dæmis rif á sítrónum og límónum. Mæli sannarlega með því!

IMG_7201

Sushi kvöldsins kom frá Tokyo sushi, við erum mjög hrifin af því, frábært sushi á mjög góðu verði.

IMG_7223

En þá að uppskriftinni af þessari ljúffengu límónuböku!IMG_7257Uppskrift Key Lime baka:

Botn:
400 g Digestive kex (1 pakki)
200 g brætt smjör

Fylling:
8 eggjarauður
1 dós sæt niðursoðin mjólk (condensed milk)
safi af 4 límónum (lime)
4 dl rjómi, þeyttur

Ofninn stilltur á 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við brædda smjörið. Blandan sett í bökunarform með lausum botni eða bökuform og henni þrýst i í botninn og upp í hliðarnar á forminu. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er bökubotninn kældur. Þar sem mér liggur alltaf á setti ég hann út í smástund þar til hann var orðin nægilega kaldur til að fara í ísskáp. Botninn þarf að vera alveg kaldur þegar fyllingin er sett á hann.
Ofninn lækkaður í 150 gráður. Athugið, þegar fyllingin er blönduð saman á að nota venjulegan þeytara ekki rafmagnsþeytara eða hrærivél. Eggjarauðum, niðursoðnu sætu mjólkinni og safanum frá límónunum (lime) blandað saman í skál og þeytt með handafli í smá stund þar til blandan þykkist örlítið. Þá er fyllingunni hellt ofan á kaldan botninn og bakað í ofni í 20-35 mínútur (ég bakaði bökuna í 25 mínútur). Kælt í ísskáp í minnst klukkutíma, helst lengur. Áður en bakan er borin á borð er þeytti rjóminn settur yfir bökuna (ég notaði rjómasprautu), gjarnan skreytt með dálítlum fínrifnum límonuberki. Njótið! 🙂

IMG_7281

Mascarpone þeytingur með berjum og Toffypops


Í gærkvöldi hittist matarklúbburinn okkar sem er alltaf tilhlökkunarefni. Eitt af því dásamlega við þennan klúbb, fyrir utan frábæra félagsskapinn, er að strákarnir elda og skipuleggja allt, við konurnar mætum bara og látum dekstra við okkur með mat og víni! 🙂 Þeir koma alltaf jafnmikið á óvart og galdra fram hvern gómsæta réttinn á fætur annars í hverju boði. Í gær kom það í hlut Elfars að gera eftirréttinn. Hann kom heim frá Stokkhólmi seinni partinn í gær og réðst strax í eftirréttagerð. Þessi eftirréttur heppnaðist svo rosalega vel hjá honum að rétturinn fær klárlega sína eigin færslu hér á blogginu!

Uppskrift f. 8-10:

  • 750 g mascarpone ostur
  • 6 dl rjómi, þeyttur
  • 300 g flórsykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, klofin á lengdina og kornin skafin úr
  • 3 pakkar Toffypops kex
  • ber til skreytingar t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber og ástaraldin.

Rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Toffypops kexið er saxað niður og það sett í botninn á eldföstu móti. Örlítið af kexinu tekið til hliðar til að dreifa yfir réttinn í blálokin. Mascarpone ostinum, flórsykri, vanillusykri og vanillukornum blandað saman og þeytt þar til blandan verður létt. Þeytta rjómanum bætt varlega út í með sleikju. Rjómaostakremið smurt yfir Toffytops kexið. Skreytt með berjum og restinni af kexinu stráð yfir.

Ananasbaka


Ég hef séð sömu uppskriftina af ananasböku bregða fyrir á nokkrum sænskum matarbloggum og uppskriftasíðum. Alls staðar fær þessi uppskrift þvílíkt góða dóma og hrós hjá þeim sem hafa prófað. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég las hvað væri uppskriftinni þá var ég ekkert of spennt. Í henni eru afar fá hráefni og aðaluppistaðan er ananas úr dós! Gæti þetta mögulega verið gott? Ég tók áhættuna og lagaði þessa böku í eftirrétt um daginn þegar ég var með sænska gesti í heimsókn. Ég hugsaði sem svo að ég væri örugg með ljúffenga sashimi forréttinn (sem ég fæ ekki nóg af!) og svo ofnbakaða þorskinn með pístasíusalsa í aðalrétt. Ég gæti því vel tekið áhættu með eftirréttinn. Þetta er mögulega fljótlegasti eftirrétturinn sem ég hef nokkurn tímann búið til! Ég held að ég hafi örugglega verið innan við 10 mínútur að útbúa þessa böku fyrir ofninn. Þegar bakan kom út úr ofninum fannst mér hún líta afar óspennandi út og var viss um að hún væri ekki góð. En ég verð að viðurkenna að þessi ananasbaka kom verulega á óvart! Hún var afar ljúffeng, sérstaklega með vanilluís. Gestirnir voru mjög hrifnir en þau eru hins vegar einstaklega kurteist fólk og hefðu örugglega aldrei sagt neitt annað! En þessi baka er að mínu mati afskaplega fljótgerð, verulega ódýr og afar gómsæt! 🙂

Uppskrift:

Bökudeig:

150 gr smjör
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
3- 3 1/2 dl hveiti

Fylling:

ca 400 gr maukaður ananas (sigtaður þannig að vökvinn renni af)
1 dós sýrður rjómi ( 34 %)
1 egg
3/4 dl sykur
1.5 msk vanillusykur
1 dl kókosmjöl (má sleppa)

Aðferð:

Ofninn er stilltur á 175 gráður. Hráefnið í bökubotninn er blandað saman í matvinnsluvél þar til það verður að deigi (það er í lagi þótt það sé laust í sér) og síðan er deiginu þrýst vel í botninn á bökuformi (ca. 22-24 cm, líka hægt að nota lausbotna kökuform). Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að skera smjörið í litla bita og vinna deigið saman í höndunum.
Hráefnunum í fyllinguna er blandað saman og hellt yfir bökubotninn. Bakað í ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur. Borið fram volgt eða kalt með vanilluís eða rjóma (mér fannst bakan best köld og með ís!)

Súkkulaði – tvenna með hindberjum


Súkkulaði og hindber, tvenna sem ég mun aldrei fá nóg af! Ég prófaði þennan eftirrétt í fyrsta sinn í gærkvöldi og hann skaust strax á top 10 listann yfir uppáhalds eftirrétti og trónir þar mjög ofarlega! Ekki nóg með að hann sé dásamlega bragðgóður heldur er hann afar auðveldur að búa til. Fersk hindber kosta yfirleitt hönd, fót og frumburð manns að auki! Ekki nóg með það heldur eru oftast talsvert af berjunum ónýt í boxinu. Svona spari á ég því alltaf þessi hindber sem fást í Kosti, til að nota í góða eftirrétti. Þau kosta reyndar heilmikið en ekki jafn mikið og fersk. En þá fær maður stór og ljúffeng hindber sem eru næstum því eins og nýtínd þegar þau eru afþýdd, öll heil og alltaf til reiðu í frystinum. Ladys fingers eru fingurkökur sem eru þekktastar fyrir að vera notaðar í Tiramisu (einn af fáum eftirréttum sem ég borða ekki, mér finnst kaffi svo vont!), þær eru meðal annars til í Bónus. Það er líka Ribena saft í uppskriftinni eða Creme de Cassi líkjör en ég átti hvorugt til og setti í staðinn örlítið af sérrý.

Uppskrift (fyrir 4-6 glös)

  • 250 gr hreint mjólkursúkkulaði
  • 100 gr suðusúkkulaði
  • 1/4 dl mjólk
  • 1 peli rjómi
  • 150 gr frosin hindber, afþýdd
  • 200 gr fersk hindber (ég notaði frosin sem ég afþýddi)
  • 1-2 msk sítrónusafi
  • 2 msk flórsykur eða eftir smekk
  • 8-10 fingurkökur (Lady fingers)
  • 3 msk vatn
  • 1 msk Creme de Cassis-líkjör eða 1 msk Ribena-safi

Saxið allt súkkulaðið og setjið í skál. Hitið mjólkina og 3 msk af rjómanum við meðalhita og hellið yfir súkkulaðið. Hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Ef súkkulaðið bráðnar ekki alveg má setja það yfir vatnsbað í augnablik. Látið súkkulaðið kólna svolítið og þeytið restina af rjómanum á meðan. Bætið þeytta rjómanum varlega saman við súkkulaðið og kælið í ísskáp. Setjið nú frosnu hindberin (afþýdd) í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og flórsykri og maukið vel. Sigtið hratið frá maukinu og setjið 4-5 msk af hindberjasósunni í djúpan disk ásamt vatninu og líkjörnum. Dýfið fingurkökunum (brjótið þær ef það þarf til að þær passi í glösin) ofan í vökvann og þekjið botninn á glösunum með þeim. Setjið nokkur hindber ofan á kökurnar og hellið svo súkkulaðiblöndunni yfir. Gott getur verið að setja súkkulaðið í einnota sprautupoka og sprauta ofan í glösin. Setjið afganginn af hindberjunum ofan á súkkulaðimúsina. Látið plastfilmu yfir glösin og geymið í ísskáp í minnst tvær klukkustundir. Setjið afganginn af hindberjasósunni ofan á hindberin áður en glösin eru borin fram.

Pavlova í fínu formi


Ég hef áður sett hér inn uppskrift af Pavlovu, þeirri dásemdar tertu. Þetta er hins vegar rosalega góð öðruvísi útgáfa af Pavlovu, bökuð af móður minni, gestabloggara dagsins! 🙂 Hér er marengsinn settur í eldfast mót sem getur verið handhægt og sniðugt. Nóa kroppi er svo bætt út í rjómann sem gerir réttinn sérstaklega góðan! Það er líka hægt að nota súkkulaðirúsínur ef maður kýs það frekar. Ofan á rjómann er hægt að nota hvaða ávexti eða ber sem er. Hér notaði mamma jarðaber, vínber og íslensk bláber.

Uppskrift:

  • 8 eggjahvítur
  • 400 gr sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk edik
  • 1/2 líter rjómi
  • Nóa kropp eða súkkulaðirúsínur
  • ávextir og/eða ber
  • 100 gr suðusúkkulaði

Eggjahvítur stífþeyttar, sykri bætt smám saman út í ásamt edik og salti. Marengsinn settur í eldfast mót og bakaður við 175 gráður í 30 mínútur, þá er lækkað niður í 135 gráður og bakað í 30 mínútur til vibótar. Eftir það er slökkt á ofninum og marengsinn látin kólna í ofninum, helst yfir nóttu. Rjómi þeyttur, Nóa kroppi bætt út í og rjómanum síðan smurt yfir marengsinn. Skreytt með berjum og eða ávöxtum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, kiwi eða ástaraldin. Að lokum er suðusúkkulaði brætt og dreift yfir berin og ávextina. Það er hægt að dreifa brædda súkkulaðinu yfir réttinn með skeið. En það er líka hægt að setja súkkulaðið í lítin poka, klippa örlítið gat á eitt hornið og sprauta því svo yfir (það má þó ekki vera það heitt að það bræði pokann).

Döðlueftirréttur


DöðlueftirrétturHugsa sér að það sé þegar kominn september! Börnin eru komin á kaf í skólann, íþróttir, tónlistaskólann og allt sem því fylgir. Ég er að vinna að meistararitgerðinni minni sem er 30 einingar (jafngildir heilli önn) sem fjallar um rafbækur og rafbókavæðingu á Íslandi, ásamt því að vinna hlutastarf í rannsóknarverkefni á Landspítalanum. Auk þess er ég að reyna að vera dugleg að mæta í ræktina og skokka, það geri ég eingöngu til að geta borðað meiri mat! Eftir á að hyggja hefði verið snjallt af mér að reyna að tengja efni meistararitgerðar minnar þessum bloggskrifum. Ég hefði örugglega getað tengt bloggið við námið mitt á einhvern hátt þar sem að ég er í upplýsingafræði sem er afar vítt svið. Þá hefði ég allavega afsökun fyrir því að ritgerðaskrifin endi oft þannig að ég sé að skoða uppskriftir á netinu! 😉

En uppskrift dagsins er einkar ljúffengur eftirréttur sem er bæði fljótlegur og auðveldur. Þetta er líka efttirréttur sem hentar vel að bera fram fyrir marga. Ekki hræðast áfengið í réttinum. Ég er lítið fyrir eftirrétti með miklu líkjörsbragði og notaði því bara rúmlega eina matskeið af líkjörnum, það gaf afar milt og gott bragð. Ég átti ekki Bailey’s en notaði Grand Marnier í staðinn sem kom vel út.

Í upprunalegu uppskriftinni voru mælieiningarnar í bollum sem mér finnst alveg óþolandi! Ég meina, veit einhver hver þessi bolli er? Er það kaffibolli, tebolli, espressobolli…?? Og þá hvaða stærð? Ég er löngu hætt að nenna að engjast um yfir þessu vandamáli, sérstaklega eftir að ég braut uppáhaldsbollann minn við það að mæla hveiti eitt sinn (sem sannaði það að bollar eiga bara alls ekki heima í hveitidöllum!) Núna skoða ég alltaf töflur þar sem bollum er breytt yfir í grömm en það er auðvitað mjög misjafnt eftir hráefninu hversu mörg grömm eru í bolla. Þið þurfið því ekki að hárreyta ykkur yfir þessu vandamáli þar sem að ég gef mælieiningarnar upp í óvéfengjanlegum grömmum! 🙂

Uppskrift f. 4

  • 300 gr döðlur, skornar í litla bita
  • 100 gr. suðusúkkulaði, saxað
  • 2 græn epli, flysjuð og skorin í bita
  • Bailey’s líkjör

Saxið döðlur, súkkulaði og epli í meðalstóra bita og setjið í skál. Hellið Bailey’s líkjörnum yfir og látið standa í kæli í um það bil 1 klukkustund.

Karamellusósa:

  • 200 gr sykur
  • 50 gr smjör
  • 2 1/2 dl rjómi

Bræðið sykur og smjör saman á pönnu við fremur háan hita. Hellið rjómanum saman við og hrærið þar til að sósan þykknar.

Hellið karamellusósunni yfir ávextina. Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu


Fyrr í sumar var ég að kaupa kjöt í versluninni ,,Til sjávar og sveita“ þegar ég sá þar krukku af Dulce de leche. Ég vissi ekki hvers konar sósa þetta var en keypti eina krukku fyrir forvitnissakir (Sósan fæst líka í Þinni verslun). Núna lét ég loksins verða af því að skoða þessa sósu betur. Þá kom berlega í ljós að ég er jú bara leikmaður á matargerðarsviðinu því þessi sósa er vel þekkt. Dulce de leche er karmellusósa búin til úr niðursoðinni sætri mjólk. Hún er upprunnin frá Suður Ameríku og var fyrst framleitt þar fyrir yfir 100 árum til að varðveita mjólk yfir sumarmánuðina.  Sósuna er hægt að nota á marga mismunandi vegu, gott er að nota hana á pönnukökur t.d. með ís og svo fer hún líka sérlega vel með marengsbotni eða í bökur með rjóma og ferskum ávöxtum.  Það er sem sagt hægt að kaupa karmellusósuna tilbúna, eins og ég gerði að þessu sinni, eða búa hana til með því að setja niðursoðna sætmjólk í dós í pott með vatni og sjóða.

Niðursoðnu sætmjólkina er hægt að fá í Kosti og í verslunum með asíska matvöru. Miðinn er tekinn af dósinni og hún er sett í pott og hann fylltur vatni, það þarf að vera vatn yfir dósinni.  Látið suðuna koma upp og lækkið svo niður um helming þannig að vatnið rétt bárast. Látið sjóða í þrjár klukkustundir, því lengur sem mjólkin er soðin þess mun þykkari verður karamellan. Það þarf að sjá til þess að það sé alltaf vatn yfir dósinni á meðan suðu stendur gott er að snúa dósinni einstaka sinnum. Dósin er svo tekin úr pottinum og hún látin standa á borði í svona 20 mínútur áður en hún er opnuð. Það er líka hægt að geyma hana í ísskáp yfir nótt ef ekki á að nota hana strax.  Ef karamellan er of stíf er hægt að velgja aðeins í henni í potti eða örbylgjuofni.

Í Englandi var farið að gera ,,Banoffee pie“ fyrir um það bil 40 árum. Það er baka með kexbotni, Dulce de leche karamellusósu, banönum og rjóma. ,,Banoffee“ er orð sem hefur meira að segja fest sig í sessi í ensku yfir allt sem bragðast eða lyktar eins og blanda af banönum og karamellu! Hér er ég með uppskrift af sambærilegri böku og það er vel hægt að skipta út karamellusósunni í þessari böku fyrir Dulce de leche karamellusósuna. Mig langaði að gera böku úr þessari Dulce de leche karamellusósu sem ég hafði keypt en langaði ekki að gera ,,Banoffee“ böku þar sem ég gerði sambærilega slíka böku nýlega. Ég ákvað því að nota hindber í stað banana. Karamellan er sæt en hindberin eru súrsæt og með mildum rjómanum þá getur þessi blanda varla klikkað! Uppskrift:

  • 200 gr Digestive
  • 100 gr smjör
  • 500 gr hindber (má nota frosin hindber sem hafa verið afþýdd)
  • 400 gr Dulce de leche karamellusósa (eða ein dós niðursoðin sætmjólk soðin eftir leiðbeiningunum hér að ofan)
  • 300 ml rjómi
  • súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð: Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Blöndunni þrýst í botninn á forminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna áður en karamellusósan er sett á botninn. Þegar karamellusósunni hefur verið hellt yfir botninn er hindberjunum raðað yfir og að lokum þeyttum rjóma. Skreytt með súkkulaðispæni. Leyfið bökunni gjarnan að brjóta sig í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram.