Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu


Fyrr í sumar var ég að kaupa kjöt í versluninni ,,Til sjávar og sveita“ þegar ég sá þar krukku af Dulce de leche. Ég vissi ekki hvers konar sósa þetta var en keypti eina krukku fyrir forvitnissakir (Sósan fæst líka í Þinni verslun). Núna lét ég loksins verða af því að skoða þessa sósu betur. Þá kom berlega í ljós að ég er jú bara leikmaður á matargerðarsviðinu því þessi sósa er vel þekkt. Dulce de leche er karmellusósa búin til úr niðursoðinni sætri mjólk. Hún er upprunnin frá Suður Ameríku og var fyrst framleitt þar fyrir yfir 100 árum til að varðveita mjólk yfir sumarmánuðina.  Sósuna er hægt að nota á marga mismunandi vegu, gott er að nota hana á pönnukökur t.d. með ís og svo fer hún líka sérlega vel með marengsbotni eða í bökur með rjóma og ferskum ávöxtum.  Það er sem sagt hægt að kaupa karmellusósuna tilbúna, eins og ég gerði að þessu sinni, eða búa hana til með því að setja niðursoðna sætmjólk í dós í pott með vatni og sjóða.

Niðursoðnu sætmjólkina er hægt að fá í Kosti og í verslunum með asíska matvöru. Miðinn er tekinn af dósinni og hún er sett í pott og hann fylltur vatni, það þarf að vera vatn yfir dósinni.  Látið suðuna koma upp og lækkið svo niður um helming þannig að vatnið rétt bárast. Látið sjóða í þrjár klukkustundir, því lengur sem mjólkin er soðin þess mun þykkari verður karamellan. Það þarf að sjá til þess að það sé alltaf vatn yfir dósinni á meðan suðu stendur gott er að snúa dósinni einstaka sinnum. Dósin er svo tekin úr pottinum og hún látin standa á borði í svona 20 mínútur áður en hún er opnuð. Það er líka hægt að geyma hana í ísskáp yfir nótt ef ekki á að nota hana strax.  Ef karamellan er of stíf er hægt að velgja aðeins í henni í potti eða örbylgjuofni.

Í Englandi var farið að gera ,,Banoffee pie“ fyrir um það bil 40 árum. Það er baka með kexbotni, Dulce de leche karamellusósu, banönum og rjóma. ,,Banoffee“ er orð sem hefur meira að segja fest sig í sessi í ensku yfir allt sem bragðast eða lyktar eins og blanda af banönum og karamellu! Hér er ég með uppskrift af sambærilegri böku og það er vel hægt að skipta út karamellusósunni í þessari böku fyrir Dulce de leche karamellusósuna. Mig langaði að gera böku úr þessari Dulce de leche karamellusósu sem ég hafði keypt en langaði ekki að gera ,,Banoffee“ böku þar sem ég gerði sambærilega slíka böku nýlega. Ég ákvað því að nota hindber í stað banana. Karamellan er sæt en hindberin eru súrsæt og með mildum rjómanum þá getur þessi blanda varla klikkað! Uppskrift:

  • 200 gr Digestive
  • 100 gr smjör
  • 500 gr hindber (má nota frosin hindber sem hafa verið afþýdd)
  • 400 gr Dulce de leche karamellusósa (eða ein dós niðursoðin sætmjólk soðin eftir leiðbeiningunum hér að ofan)
  • 300 ml rjómi
  • súkkulaðispænir til skreytingar

Aðferð: Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Blöndunni þrýst í botninn á forminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna áður en karamellusósan er sett á botninn. Þegar karamellusósunni hefur verið hellt yfir botninn er hindberjunum raðað yfir og að lokum þeyttum rjóma. Skreytt með súkkulaðispæni. Leyfið bökunni gjarnan að brjóta sig í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en hún er borin fram.