Pestóhakkhleifur með mozzarella og sólþurrkuðum tómötum.


 

IMG_3212Flestir kannast við að grípa hvað oftast í kjúkling og nautahakk þegar kemur að innkaupum og eldamennsku. Hvort tveggja er jú á góðu verði og svo eru líka ótal leiðir sem hægt er að nota til þess að gera skemmtilegar uppskriftir úr þessum hráefnum.
Um daginn prófaði ég mig áfram með ljúffengt Jamie Oliver pestó og sólþurrkaða tómata ásamt nautahakki og útkoman var réttur sem okkur öllum í fjölskyldunni fannst hrikalega góður.  Tilvalinn og gómsætur helgarréttur að mínu mati! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g nautahakk
  • 2 egg
  • ¾ dl brauðmylsna
  • ½  krukka (ca. 100 g) Jamie Oliver rautt pestó
  • salt & pipar
  • sojasósa

Fylling:

  • 5-8 st Jamie Oliver sólþurrkaðir tómatar
  • 120 g mozzarella ostakúla
  • 1 tsk oregano krydd
  • 1 tsk basiliku krydd
  • salt & pipar

Sósa:

  • ½ krukka Jamie Oliver rautt pestó
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi 

IMG_3211

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eldfast mót smurt að innan. Hakki blandað vel saman við egg, brauðmylsnu og pestó, kryddað með salti og pipar. Hakkið er mótað í aflangan ferning. Mozzarella osturinn er skorin í litla bita og sólþurrkaðir tómatar saxaðir smátt. Þessu er blandað saman í skál með oregano kryddi og basiliku kryddi ásamt salti og pipar. Fyllingunni er dreift í miðjuna á hakkið og hleifnum lokað þétt. Gott er að smyrja hann með sojasósu. Hleifurinn er settur í ofn í eldföstu móti við 180 gráður í 30-40 mínútur (það er í lagi þó svo að hleifurinn opnist á meðan eldun stendur). Borið fram með t.d. hrísgrjónum, grænmeti og pestórjómasósu.

Sósan: rjómi og pestó hrært saman í pott og hitað. 

IMG_3230IMG_3237

Fiskisúpa með karrí og eplum


IMG_3375

Mér finnst fiskisúpur með bestu súpum sem ég fæ. Alla helgina var ég búin að vera með löngun í góða fiskisúpu og ég hlakkaði mikið til að komast í fiskbúð í dag, kaupa ferskan fisk og búa til gómsæta súpu. Ég sótti innblástur frá nokkrum öðrum súpum á blogginu mínu og mér fannst útkoman satt best að segja himneskt góð … svona fer nú lítið fyrir hógværðinni hjá mér! 😉 En mér til varnar voru fjölskyldumeðlimirnir alveg sammála mér og við Elfar borðuðum gjörsamlega yfir okkur af þessari dásamlegu súpu.

IMG_3379

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1 líter fiskisoð (gert úr 3 fiskiteningum)
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 msk tómatmauk (tomato paste)
  • ca. 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 stórt grænt epli, flysjað og skorið í bita
  • 800 g þorskhnakkar (eða annar góður þéttur, hvítur fiskur), skorinn í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • pipar

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er fiskisoði, kókosmjólk, rjóma, tómatmauki, eplum og kartöflum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru hér um bil soðnar í gegn. Þá er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í stutta stund þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er  söxuðum kóríanderlaufum bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar. Súpan er gjarnan borin fram með góðu brauði.

IMG_3380

Ofnbakaður kjúklingur í dijon- og basilíkusósu


IMG_1338

Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂

IMG_1330

Uppskrift:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
  • 3-4 msk dijon sinnep
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • flögusalt og grófmalaður svartur pipar
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.

IMG_1334IMG_1340

Kladdkaka með mjúkum marengs


IMG_2787
IMG_2793Mikið er nú dásamlegt að snjórinn sé farin, farið sé að hlýna og að birtan sé loksins komin! Dagsbirtan er svo mikill vinur matarbloggara, það er ægilega leiðinlegt að taka matarmyndir í skammdeginu. Við fjölskyldan erum smátt og smátt að hreiðra um okkur í nýja húsinu. Ég er að vinna í blogginnleggi með myndum um nýja eldhúsið sem mun birtast innan skamms. Ég er ægilega ánægð með eldhúsið og finnst það hafa lukkast mjög vel, sem og allar endurbæturnar á húsinu.

Að þessu sinni ætla ég að skrá hér inni á síðuna enn eina kladdköku uppskrift, þær verða aldrei of margar. Í þessari uppskrift kemur saman sænska kladdkakan og rússneska mjúka marengs Pavlovan með ”dash” af súkkulaðihnetusmjöri, sem er skemmtileg og ljúffeng blanda.

Súkkulaðikaka:

  • 150 g smjör
  • 300 g suðusúkkulaði
  • 1.5 dl sykur
  • 3 egg
  • 2 dl hveiti
  • 2 msk kakó

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur
  • 1 tsk ljóst edik
  • 2 msk sterkja (t.d. majsenamjöl)
  • ca. 1 dl súkkulaðihnetusmjör

Bakarofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) er klætt bökunarpappír. Smjör og súkkulaði er brætt saman yfir vatnsbaði. Egg og sykur þeytt saman og síðan er hveiti og kakói bætt út í. Þá er súkkulaði-smjörblöndunni bætt út í smátt og smátt þar til allt hefur blandast saman. Deigið er sett í formið og bakað í ofni við 175 gráður í ca. 20 mínútur. Þá er kakan tekin út og ofninn hækkaður í 200 gráður. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt á meðan. Því næst er ediki og sterkju bætt út í. Súkkulaðihnetusmjörið er hitað í örbylgju ofni í ca. 20 sekúndur eða þar til það verður dálítið fljótandi en þó alls ekki of heitt. Þá er því bætt varlega út í marengsinn með sleikju en fallegt er að blanda því bara létt saman við marengsinn svo að hann verði fallega marmaramunstraður. Marengsinn er settur yfir kökuna og bakað í ca. 20-25 mín til viðbótar. Gott er að fylgjast vel með kökunni þvi marengsinn getur orðið dökkur og því þarf mögulega að setja álpappír yfir hana þegar um helmingur af bökunartímanum er liðinn. Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma. IMG_2800