Ofnbakaður kjúklingur í dijon- og basilíkusósu


IMG_1338

Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂

IMG_1330

Uppskrift:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
  • 3-4 msk dijon sinnep
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • flögusalt og grófmalaður svartur pipar
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.

IMG_1334IMG_1340

Rósmarínkjúklingur með parmaskinku


Rósmarínkjúklingur með parmaskinku

Það er langt síðan að ég hef sett inn uppskrift að hefðbundum mat. Mikið hefur borið á eftirréttum og kökum hér á síðunni upp á síðkastið þannig að nú er komið að hollum og dásamlega góðum kjúklingarétti. Þó svo að ekki hafi borið mikið á kjúklingi hér á Eldhússögum undanfarnar vikur þá hef ég samt eldað kjúklingarétt hér um bil daglega í allt sumar. Ég hef grillað, steikt og bakað kjúkling – eldað meðal annars indverska, ítalska og asíska kjúklingarétti og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Gert sama kjúklingaréttinn aftur og aftur, með smá tilfærslum, til þess að ná réttinum eins fullkomnum og völ er á. Það má með sanni segja að yngri börnin á heimilinu séu orðin leið á kjúklingi en við Elfar og stóru krakkarnir erum alltaf jafn hrifin, ég held að ég geti aldrei fengið leið á kjúklingi! Afraksturinn af þessu öllu mun birtast á öðrum vettvangi en á blogginu mínu seinna í haust og ég hlakka mikið til.

IMG_1733

Þessi kjúklingaréttur er ákaflega bragðmikill og góður. Maríneraður hvítlaukur sem er svo bakaður í ofni verður ákaflega bragðgóður og lyftir kjúklingnum upp á næsta bragðstig. Yngstu krakkarnir voru reyndar ekkert yfir sig hrifin en við fullorðna fólkið nutum þessa réttar til hins ýtrasta með glasi af góðu rauðvíni í hönd.

Uppskrift: 

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði 1 poka af frystum úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry)
  • 1 bréf parmaskinka
  • ca. 12 stykki marineruð hvítlauksrif í olíu (koma í krukku frá Paradiso)
  • 1 knippi ferskt rósmarín
  • 1 knippi fersk salvía
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 dl balsamedik
  • flögusalt (ég notaði rósmarín flögusalt frá Falkberg)
  • grófmalaður svartpipar

IMG_1709

 Ofn hitaður í 180 gráður. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti og pipar. Ein lítil grein af salvíu og ein lítil grein af rósmarín er lögð inn í hvert læri og lærið hálfvafið utan um kyddjurtirnar. Því næst er parmaskinku vafið utan um kjúklinginn. Kjúklingurinn eru lagður í eldfast mót. Þá er ólífuolíunni og balsamedik blandað saman. Ég notaði dálítið af olíunni sem hvítlaukurinn lá í á móti ólífuolíunni. Blöndunni er dreift yfir kjúklinginn og því næst er hvítlauknum dreift yfir. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.
IMG_1734
Athugið að þegar kjúklingsins er neytt þá eru kryddjurtirnar teknar frá.

Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238