Mascarpone þeytingur með berjum og Toffypops


Í gærkvöldi hittist matarklúbburinn okkar sem er alltaf tilhlökkunarefni. Eitt af því dásamlega við þennan klúbb, fyrir utan frábæra félagsskapinn, er að strákarnir elda og skipuleggja allt, við konurnar mætum bara og látum dekstra við okkur með mat og víni! 🙂 Þeir koma alltaf jafnmikið á óvart og galdra fram hvern gómsæta réttinn á fætur annars í hverju boði. Í gær kom það í hlut Elfars að gera eftirréttinn. Hann kom heim frá Stokkhólmi seinni partinn í gær og réðst strax í eftirréttagerð. Þessi eftirréttur heppnaðist svo rosalega vel hjá honum að rétturinn fær klárlega sína eigin færslu hér á blogginu!

Uppskrift f. 8-10:

 • 750 g mascarpone ostur
 • 6 dl rjómi, þeyttur
 • 300 g flórsykur
 • 2 msk vanillusykur
 • 1 vanillustöng, klofin á lengdina og kornin skafin úr
 • 3 pakkar Toffypops kex
 • ber til skreytingar t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber og ástaraldin.

Rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Toffypops kexið er saxað niður og það sett í botninn á eldföstu móti. Örlítið af kexinu tekið til hliðar til að dreifa yfir réttinn í blálokin. Mascarpone ostinum, flórsykri, vanillusykri og vanillukornum blandað saman og þeytt þar til blandan verður létt. Þeytta rjómanum bætt varlega út í með sleikju. Rjómaostakremið smurt yfir Toffytops kexið. Skreytt með berjum og restinni af kexinu stráð yfir.

Cesar salat


Cesar salatið er klassískt og hrikalega gott! Sá sem á heiðurinn af salatinu var Bandaríkjamaðurinn Cesar Cardini, sem var af ítalsk-mexíkóskum uppruna. Hann átti heima í San Diego en vann á veitingastað í Tijuana, Mexíkómegin við landamærin og sagan segir að salatið hafi orðið til á þjóðarhátíðardegi Bandaríkjanna árið 1924. Það var svo mikið að gera á veitingastaðnum hjá Cesari að hráefnin kláruðust og síðustu gestir kvöldsins fengu þetta salat sem hann gerði úr þeim hráefnum sem eftir voru í eldhúsinu.

Í dag er Cesar salatið til í ótal útgáfum. En upprunalega uppskriftin er með romansalati, brauðteningum, parmesan osti og dressingu. En svo er oft bætt við við kjúklingi, beikoni og einnig hefur ansjósum verið bætt í dressinguna nú á síðari tímum og mörgum finnst þær gefa ómissandi bragð.

Mér finnst mikilvægast að nota rétt salat og búa til brauðteningana sjálf, þeir verða svo ljúffengir að hægt er að borða þá eintóma! En auðvitað er líka hægt að kaupa þá tilbúna líka.

Þegar kemur að dressingunni er, eins og áður var sagt, mjög algengt að nota ansjósur. Ég hef ekki notað þær fyrr en í þetta sinn. Ég verð að viðurkenna að þessi litlu kvikindi eru ekki girnileg að sjá! Ég held að ég hafi notað aðeins of mikið af þeim því mér fannst ansjósu bragðið verða of yfirgnæfandi (ég minnkaði magnið í uppskriftinni hér að neðan). Svo fannst mér þær svo ólystugar í útliti að ég held að það hafi haft áhrif á upplifununni á dressingunni! En ansjósur fást í t.d. Hagkaup, þær eru í kæli hjá síldinni og kavíarnum (í litlum pakkninum eins og niðursoðnar sardínur). Cesar salat er auðvelt að búa til og einstaklega ljúffengt!

Uppskrift:

 • kjúklingabringur eða kjúklingalundir
 • romansalat (ég fann það ekki í Hagkaup og keypti íssalat sem er þykkt og stökkt og kom því vel út), rifið niður gróft
 • parmesan ostur, rifinn gróft t.d. með ostaskera eða grófu hliðinni á rifjárni
 • beikon, steikt þar til það verður stökkt, skorið í bita
 • brauðteningar
 • salatdressing

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

Kjúklingabringur:

Kjúklingabringur eru kryddaðar með salti, pipar og jafnvel kjúklingakryddi (ég notaði Best á allt) og grillaðar á útigrilli eða snöggsteiktar á pönnu og svo settar í ofn þar til þær eru eldaðar í gegn. Þegar bringurnar hafa jafnað sig eftir eldun eru þær sneiddar niður.

Salatdressing:

 • 1.5 dl góð ólívuolía
 • 1 fersk eggjarauða
 • 2-3 ansjósur (má sleppa)
 • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir mjög smátt
 • 1 msk Worchestershire-sósa
 • 2 msk Dijon sinnep
 • 1 sítróna, safinn pressaður
 • 2 tsk hvítvínsedik (má sleppa)
 • salt og pipar

Öll hráefni, fyrir utan ólífuolíu, eru sett í matvinnsluvél eða mixer. Ólífuoíunni er hellt út í með mjórri bunu á meðan hrært er. Dressingin verður þá þykk og góð.

Salatið er sett í skál og dressingunni bætt saman við. Brauðteningum og rifna parmesan ostinum er bætt saman við og loks er kjúklingi og beikoni dreift yfir.

Sænskir snúðar með vanillu- og rjómaostakremi


Þegar ég sá þessa uppskrift á sænsku bloggi þá fannst mér hún fyrir það fyrsta líta afar girnilega út en að auki leit hún út fyrir að vera voðalega auðveld! Ég hafði rétt fyrir mér, þessi snúðar eru svakalega góðir og þetta er fljótgerð og auðveld uppskrift. Samt tókst mér næstum því að klúðra henni! Ég er ekki alveg viss um hvað ég gerði rangt en snúðarnir hjá mér voru ekkert líkir fyrirmyndinni! Aðallega var það vanillukremið sem var allt öðruvísi í útliti, bragðið var reyndar rosalega gott. En kremið átti samkvæmt upphaflegu uppskriftinni að vera meira gult og ekki að brúnast svona í ofninum. Ég held að ég viti ástæðuna fyrir því að kremið hjá mér var hvítt, ég hef líklega þeytt þeytt það alltof mikið, ég hugsa að það eigi bara að hræra það saman létt með gaffli. Ég hins vegar þeytti það í hrærivélinni það til kremið varð létt og ljóst. Að auki klikkaði næstum því hjá mér bökunartíminn, það var á mörkunum að ég bakaði snúðana nóg, þeir voru orðnir vel dökkir að utan en samt á mörkunum að vera bakaðir í gegn. Ég bakaði þá í rúmar 15 mínútur, 20 mínútur eru líklega nær lagi. En góðir voru þeir! Alveg hrikalega góðir meira að segja! Ég hvet ykkur til að prófa og gera ekki mín mistök og athuga hvort snúðarnir verði ekki fallegri en mínir!

Uppfærsla: það var nú svo skrítið að daginn eftir voru snúðarnir allt öðruvísi í útliti, kremið hafði sest betur og var orðið gulleitt eins og hjá fyrirmyndinni. Þannig að þetta var kannski ekkert svo galið hjá mér eftir allt saman! 🙂 En ég mæli samt með því að píska bara kremið létt með gaffli.

Uppskrift, ca. 20 snúðar:
5 dl mjólk
150 gr smjör, við stofuhita
1 pakki þurrger
1 dl sykur
0,5 tsk salt
10-13 dl hveiti
Fylling (ath. það varð talsverður afgangur af þessari uppskrift, 2/3 nægir alveg):
150 g smjör, við stofuhita
200 g philadelphia rjómaostur
3 dl flórsykur
2 msk vanillusykur
Egg til að pensla með
sænskur perlusykur (pärlsocker – sjá færslu um hann hér).
Hitið mjólkina þannig að hún verði volg og hrærið gerið út í. Bætið við linu smjöri, sykri, salti og hveitinu. Hnoðið deigið þar til það verður slétt. Hellið deginu í ofnskúffu (ég klæddi hana með smörpappír) og þrýstið deginu út í alla kanta þannig að yfirborðið verði slétt. Látið hefast í ca. 30 mínútur. Búið til holur í degið með ca. þremur fingrum með jöfnu millibili (ca. 20 eða 5×5). Blandið saman hráefnunum í kremið (ég sem sagt þeytti kremið en það á að hræra hráefnin létt saman með gaffli) og setjið væna klípu af kremi í hverja holu (ca. 1 msk). Það er líka gott að prófa að setja t.d. jarðaberjasultu með ofan í nokkrar holur. Ég ætla að prófa það næst! Penslið deigið með eggi og ef þið eigið sænskan perlusykur (pärlsocker) má strá honum yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15- 20 mínútur. Leyfið snúðunum að kólna aðeins áður en þeir eru skornir niður í 20 bita, með krem í miðju hvers bita.
Þeir líta kannski bara þokkalega út þar til að þið fáið að sjá fyrirmyndina …..

Belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti


Þessa dagana er fámennt á heimilinu. Ósk var að fara til Madrid með Versló bekknum sínum í tengslum við spænskuáfanga. Elfar er í Stokkhólmi vegna rannsóknarverkefnis og verður þar í heila viku. Alexander er í prófum í læknisfræðinni og sést því lítið heima. Það eru því bara ég og yngri krakkarnir í kvöldmat. Þegar við Jóhanna Inga vorum úti í búð spurði ég hvað hana langaði að borða í kvöldmat. Það stóð ekki á svari, vöfflur! Það er reyndar ekki eins út í hött og það hljómar! Við erum með tvöfaldan ríkisborgararétt, erum Svíar líka, og þeir borða bæði vöfflur og pönnukökur í kvöldmat og það með rjóma og sultu meira að segja! Það er löng hefð í Svíþjóð að borða baunasúpu á fimmtudögum. Hefðin á uppruna sinn frá miðöldum. Þá var baunasúpan soðin með vænum kjötbita og var snædd á fimmtudögum en á föstudeginum var fastað. Pönnukökurnar voru bornar á borð sem eftirréttur á eftir baunasúpunni til þess að veita góða magafylli fyrir föstuna daginn eftir. Þessi hefð er enn ótrúlega rík í Svíþjóð. Í til dæmis flestum mötuneytum,  á elliheimilum, í mörgum skólum og á fjölmörgum veitingastöðum er baunasúpa í matinn á fimmtudögum auk pönnukaka og stundum vaffla í eftirrétt. Ég mundi allt í einu eftir því að ég skoðaði Gestgjafann á biðstofu um daginn og sá svo girnilega uppskrift af ósætum belgískum vöfflum með bæði parmesan osti og rjómaosti. Ég hafði tekið mynd á símann minn af uppskriftinni og gat því verslað það sem þurfti í uppskriftina. Kvöldmaturinn hjá okkur var því hálfgerður morgunmatur og/eða ný útgáfa af sænskum fimmtudagseftirrétti: belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti með spældu eggi og beikoni! Ég notaði belgíska vöfflujárnið mitt en það er líka hægt að nota venjulegt vöfflujárn. Það er svolítil kúnst að gera vöfflur stökkar. En ég er búin að uppgötva frábært ráð þegar kemur að belgískum vöfflum. Það er að rista þær í brauðrist eftir bökun! Þær verða mjög stökkar að utan, mjúkar að innan og rjúkandi heitar. Svo er gott að nota íslenskt smjör ofan á þær sjóðandi heitar, þá bráðnar það og gerir vöfflurnar ómótstæðilegar! Ég geri því alltaf svolítið af aukavöfflum sem ég geymi og hægt er að rista daginn eftir.

Uppskrift:

 • 250 gr hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti eða grófu spelti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 40 gr parmesan ostur (rifinn)
 • 3 egg
 • 4 dl mjólk
 • 70 gr rjómaostur
 • 70 gr smjör, brætt
 • salt og pipar

Hitið vöfflujárnið og blandið saman hveiti, lyftidufti og parmesan osti saman í skál. Bætið eggjum og 2 dl af mjólkinni út í og hrærið saman í kekkjalaust deig. Hrærið rjómaost saman við og síðan smjör og afganginn af mjólkinni. Bragðbætið með salti og pipar. Bakið vöfflurnar þar til þær hafa fengið góðan lit. Afar gott er að setja vöfflurnar í brauðrist og smyrja þær með smjöri.

Um daginn efndi Nói og Siríus til uppskriftasamkeppni. Þeir leituðu að uppskrift til að setja í uppskriftabæklinginn sinn árið 2012.  Ég sendi inn uppskrift af uppáhaldskökunni minni, kirsuberjatertunni góðu. Ég vann ekki en fékk aukaverðlaun fyrir ,,girnilegustu uppskriftina“! Verðlaunin voru karfa með bökunarvörum. Þegar ég sótti körfuna kom í ljós að þetta var aldeilis rausnarleg karfa, hún var troðfull af Nóa og Siríus vörum og hafði auk þess að geyma bæði stóran konfektkassa og uppskriftabókina þeirra, Súkkulaðiást! Vel gert Nói! 🙂

Boeuf bourguignon


Jæja, þá er maður bara farinn að slá um sig með frönskum titlum! Boeuf bourguignon er þekktur franskur kjötréttur. Boeuf þýðir nautakjöt en bourguignon er héraðið Búrgúnd í Frakklandi og vísar til þess að kjötið er soðið í Búrgúnd rauðvíni. Mig hefur langað til að elda gúllas um tíma, það er líklega haustið sem hefur þessi áhrif. Þegar ég fór að skoða uppskriftir af gúllasi datt ég hvað eftir annað niður á uppskriftir af Boeuf bourguignon og varð að prófa. Gúllas er í raun allt annar réttur. Þá er átt við ungverskt gúllas sem í er meðal annars kartöflur, laukur og paprikukrydd. En orðið gúllas er hins vegar almennt notað hérlendis yfir alla pottrétti sem innihalda nautakjöti í bitum. Þetta er einfaldur réttur að útbúa og fljótgerður, þá meina ég að koma kjötréttinum í pottinn. Hins vegar þarf rétturinn að malla í allavega tvo tíma. Þetta er því upplagður réttur til að laga á laugardegi. Byrja snemma í eldhúsinu, kveikja á kertum, opna rauðvín og sötra þær dreggjar sem ekki fara í pottinn, á meðan beðið er eftir að ljúffengur kjötrétturinn verði tilbúinn. Þessi eldunaraðferð gerir kjötið ákaflega meyrt og gott. Já sko, að elda kjötið svona lengi meina ég, ekki að drekka rauðvín á meðan … þó hjálpar það örugglega líka! 🙂 Þó svo að strangt til tekið eigi að nota Búrgúnd rauðvín þá notaði ég nú bara það rauðvín sem við áttum hér heima. Það þarf ekki að óttast að sósan verði eitthvað áfeng, allt áfengið gufar upp á meðan kjötrétturinn mallar í þessa tvo tíma, eftir stendur bara ákaflega bragðgóð sósa! Með réttinum bjó ég til kartöflumús, ég elska kartöflumús! Ég geri hana á mjög hefðbundinn hátt, stappa kartöflurnar, bæti við mjólk, sykri, salti og smá pipar. Til hátíðarbrigða bæti ég stundum við smá rjómaosti. Að auki bjó ég til afar einfalt og gott hrásalat, mér finnst það passa mikið betur með svona rétti heldur en ferskt salat, uppskriftin fylgir hér að neðan.

Uppskrift f ca. 6:

 • 1.5 kg. nautakjöt, t.d. gúllas
 • 1 bréf beikon
 • 2 laukar, saxaðir smátt
 • 250 gr sveppir, skornir í fjórðunga
 • 5-6 dl rauðvín
 • 4 msk tómatpúrra
 • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • ca 3 msk smjör til steikingar
 • 3 msk hveiti
 • 1 tsk kjötkraftur
 • 1 msk salt
 • 1 tsk timjan (þurrkað eða ferskt)
 • 1 tsk steinselja (þurrkuð eða fersk)
 • 1 tsk grófmalaður hvítur pipar
 • 1/2 dl rauðvínsedik

Beikonið er steikt, umfram fita þerruð af því og það skorið í bita. Pannan er ekki þvegin! Annar laukurinn (fínsaxaður) ásamt rauðvínsedik og pipar látið malla í stórum potti. Smjöri er bætt við á pönnuna sem beikonið var steikt á og kjötið brúnað. Síðan er kjötið fært yfir í pottinn (ásamt steikarvökvanum af pönnunni) og hveitinu sáldrað yfir kjötið. Tómatpúrru, hvítlauk, timjan, steinselju, kjötkrafti og salti bætt út í. Rauðvíninu er svo hellt út í. Lok sett á pottinn og kjötið látið malla í ca. tvo tíma.

Sveppir og laukur steikt á pönnu í smjöri og látið malla þar til vökvinn er gufaður upp. Sveppum og lauk síðan bætt út í kjötpottinn þegar um það bil hálftími er eftir af eldunartímanum. Á sama tíma er gott að smakka sósuna og bragðbæta með kryddum ef þarf.
Kjötrétturinn er borinn fram með kartöflumús eða kartöflum og heimatilbúnu hrásalati.
Heimatilbúið hrásalat:
 • 1/4 hvítkálshaus
 • 1/2 dós sýrður rjómi
 • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman. Þetta hrásalat er líka ægilega gott með heilgrilluðum kjúkling! Þessi mynd er tekin í fallegu umhverfi Patreksfjarðar þar sem við dvöldum í viku síðastliðið sumar.

/>

Ananasbaka


Ég hef séð sömu uppskriftina af ananasböku bregða fyrir á nokkrum sænskum matarbloggum og uppskriftasíðum. Alls staðar fær þessi uppskrift þvílíkt góða dóma og hrós hjá þeim sem hafa prófað. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég las hvað væri uppskriftinni þá var ég ekkert of spennt. Í henni eru afar fá hráefni og aðaluppistaðan er ananas úr dós! Gæti þetta mögulega verið gott? Ég tók áhættuna og lagaði þessa böku í eftirrétt um daginn þegar ég var með sænska gesti í heimsókn. Ég hugsaði sem svo að ég væri örugg með ljúffenga sashimi forréttinn (sem ég fæ ekki nóg af!) og svo ofnbakaða þorskinn með pístasíusalsa í aðalrétt. Ég gæti því vel tekið áhættu með eftirréttinn. Þetta er mögulega fljótlegasti eftirrétturinn sem ég hef nokkurn tímann búið til! Ég held að ég hafi örugglega verið innan við 10 mínútur að útbúa þessa böku fyrir ofninn. Þegar bakan kom út úr ofninum fannst mér hún líta afar óspennandi út og var viss um að hún væri ekki góð. En ég verð að viðurkenna að þessi ananasbaka kom verulega á óvart! Hún var afar ljúffeng, sérstaklega með vanilluís. Gestirnir voru mjög hrifnir en þau eru hins vegar einstaklega kurteist fólk og hefðu örugglega aldrei sagt neitt annað! En þessi baka er að mínu mati afskaplega fljótgerð, verulega ódýr og afar gómsæt! 🙂

Uppskrift:

Bökudeig:

150 gr smjör
1 dl sykur
1 tsk lyftiduft
3- 3 1/2 dl hveiti

Fylling:

ca 400 gr maukaður ananas (sigtaður þannig að vökvinn renni af)
1 dós sýrður rjómi ( 34 %)
1 egg
3/4 dl sykur
1.5 msk vanillusykur
1 dl kókosmjöl (má sleppa)

Aðferð:

Ofninn er stilltur á 175 gráður. Hráefnið í bökubotninn er blandað saman í matvinnsluvél þar til það verður að deigi (það er í lagi þótt það sé laust í sér) og síðan er deiginu þrýst vel í botninn á bökuformi (ca. 22-24 cm, líka hægt að nota lausbotna kökuform). Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að skera smjörið í litla bita og vinna deigið saman í höndunum.
Hráefnunum í fyllinguna er blandað saman og hellt yfir bökubotninn. Bakað í ofni við 175 gráður í 25-30 mínútur. Borið fram volgt eða kalt með vanilluís eða rjóma (mér fannst bakan best köld og með ís!)

Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos


Mig langaði til að útbúa kjúklingarétt í anda kjúklingasúpunnar góðu en sem væri meira eins og pottréttur. Ég ákvað að nota hráefni sem mér þykir gott, setti „dash“ af þessu og hinu og útkoman varð dásamlega góð! Ég reyndi þó að mæla hvað ég setti í réttinn því ég lendi oftar en ekki í vandræðum hér blogginu þegar ég þarf að skrifa nákvæmlega upp mælieiningar og aðferðir á réttum sem ég bý til. Hér voru nokkrir vinir barnanna í mat þannig að við vorum níu sem borðuðum og að auki varð afgangur. Ég gef hins vegar upp magn hér að neðan sem er fyrir færri, kannski 4-5. Hér lendi ég aftur í vandræðum, mér finnst mjög erfitt að áætla hvað réttirnir duga fyrir marga! Einn vinur okkar hjóna segir að ég eldi alltaf eins og fyrir heilt kínverskt þorp! 🙂 Það eru nú kannski ýkjur en við, fullorðni hlutinn af fjölskyldunni allavega, borðum öll eins og hestar! 😉 Að auki er mín versta martröð að maturinn dugi ekki fyrir þá sem borða! Þið sem prófið réttina megið því gjarnan skilja eftir skilaboð hvað magnið dugar fyrir marga hjá ykkur!

Uppskrift f. ca. 5

 • smjör eða olía til steikingar
 • 1 kíló kjúklingabringur eða kjúklingalundir, skornar í bita
 • 1 púrrlaukur, saxaður
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 2 epli, flysjuð og skorin í bita
 • 1 tsk karrí
 • 1 tsk kjúklingakraftur (eða 1/2 tengingur)
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 2 dl matreiðslurjómi (líka hægt að nota kaffirjóma eða hefðbundinn rjóma)
 • 4-5 msk mango chutney
 • 1 bréf beikon (ég notaði extra þykkt frá Ali)
 • salt og pipar
 • kjúklingakrydd eftir smekk
 • sósujafnari (eða maizena mjöl)
 • 1-2 dl kasjúhnetur, gróft saxaðar
 • 1-2 dl kókosmjöl

Beikoni er raðað á ofngrind með ofnplötu beint undir, þannig rennur umframfita á ofnplötuna. En ef manni langar ekki að skrúbba ofngrind og ofnplötu er hægt að raða beikoninu á ofnplötu með smjörpappír undir. Þá rennur fitan ekki af beikoninu og því þarf að þerra það mjög vel þegar það er tilbúið. Bakað í ofni á blástri við 200 gráður í ca. 12-14 mínútur eða þar til beikonið er mátulega stökkt. Þá er það tekið úr ofninum, raðað á eldhúspappír og meiri eldhúspappír settur ofan á. Pappírnum er þrýst vel ofan á beikonið og öll umfram fita þerruð í burtu. Beikonið er svo skorið, klippt eða rifið í bita. Auðvitað má líka steikja beikonið á pönnu. Mér finnst ofn-aðferðin samt mikið þægilegri og þá er hægt að byrja á því að útbúa sjálfan kjúklingaréttinn á meðan beikonið er í ofninum.

Gróft saxaðar kasjúhnetur eru ristaðar á þurri pönnu við háan hita, hrært stöðugt í þeim,  þar til þær hafa náð lit, þá er þeim hellt í skál.

Kókosmjöl er ristað á þurri pönnu við háan hita, stöðugt hrært í kókosmjölinu, þar til það hefur náð góðum lit, þá er því hellt í skál.

Setjið olíu eða klípu af smjör á pönnu og steikið púrrlauk og hvítlauk í stutta stund, gætið þess að hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið kjúklingi út í, saltið og piprið, kryddið með karrí og kjúklingakryddi. Steikið þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit, bætið eplunum út í og steikið í ca. mínútu í viðbót. Ef pannan er lítil er gott á þessum tímapunkti að færa réttinn frá pönnunni yfir í stóran pott. Þá er bætt út í mango chutney, kókosmjólk, rjóma, sýrðum rjóma auk kjúklingakrafts. Að auki er beikoni (sem hefur verið steikt og skorið í bita) bætt út í. Réttinum leyft að malla í ca. 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Sósan smökkuð til með salti, pipar og/eða karrí. Til að þykkja sósuna er hægt að nota sósujafnara eða hræra smá maizena mjöl út í vatn, hella því svo út í sósuna og láta suðuna koma upp, leyfa svo réttinum að malla í dálitla stund í viðbót þar til sósan hefur þykknað. Rétturinn er borinn fram með ristuðu kókosmjöli, ristuðum kasjúhnetum (jafnvel líka sýrðum rjóma) auk hrísgrjóna eða kúskús (ég notaði kúskús). Gott er einnig að bera fram ferskt salat sem inniheldur ferskt mangó.

Brauðbollur með gulrótum og kotasælu


Í dag rötuðu Eldhússögur í sunnudagsblað Morgunblaðið. Ég var beðin um að gefa uppskrift af bestu súpunni minni.  Ég prófaði nokkrar súpur en niðurstaðan var alltaf sú sama hjá mér og öðrum fjölskyldumeðlimum, fiskisúpan vestan og kjúklingasúpan með karrí og eplum hafa vinninginn! Ég valdi þá síðastnefndu í blaðið auk ljúffengra brauðbolla með kotasælu og gulrótum. Það kom ljósmyndari frá Morgunblaðinu og smellti af myndum af herlegheitunum (allar myndirnar í  þessari færslu eru þó teknar af mér). Það var að auki tekið smá viðtal við mig. Nú skil ég hvernig stjörnunum líður þegar þær eru misskildar og mistúlkaðar í viðtölum! 😉 Ég sagði við blaðamanninn að heimasíðan yrði í framtíðinni góður vettvangur fyrir krakkana til að sækja uppskriftirnar mínar. Alexander hefur til dæmis oft talað um það að hann þurfi að eignast hina og þessa uppskrift hjá mér þegar hann flytur að heiman. Í viðtalinu er hins vegar talað um að ég eigi fleiri en eitt barn sem er þegar flutt að heiman! Það verður hressandi fyrir Ósk og Alexander (og kannski ákveðin pressa!) að lesa þær fréttir þegar þau vakna í dag, ekki lýgur Mogginn! 🙂

Brauðbollurnar eru einfaldar en afskaplega bragðgóðar og mjúkar, sérstaklega nýbakaðar.

Brauðbollur með gulrótum og kotasælu

 • 50 g ferskt pressuger eða 1 bréf þurrger
 • 5 dl volgt vatn
 • 4 dl fínrifnar gulrætur
 • 250 g kotasæla
 • 2 tsk salt
 • 1 msk olía
 • 4 dl heilhveiti
 • 12 dl hveiti
 • 1 egg til penslunar
 • graskersfræ eða sesamfræ
Pressugerið er mulið út í vatnið í skál. Restinni af hráefnunum bætt út í, hveitinu síðast. Deigið hnoðað í vél eða höndunum þar til það er orðið slétt. Því næst er það látið hefast undir blautum klút í 30 mínútur. Ofninn stilltur á 225 gráður. Deigið hnoðað í stutta stund á hveitistráðu borði. Því er svo skipt í tvennt og rúllað í tvær lengjur. Lengjurnar eru skornar í tíu jafna bita hvor. Bitarnir eru mótaðir í bollur sem er raðað á ofnplötu með bökunarpappír undir. Brauðbollurnar penslaðar með eggi og graskersfræjum eða sesamfræjum dreift yfir. Bollurnar látnar hefast í 20 mínútur. Bakað í miðjum ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur og brauðbollurnar látnar kólna á grind.

Brauðbollur með gulrótum og kotasælu og Eldhússögur í Mogganum


Í dag rötuðu Eldhússögur í sunnudagsblað Morgunblaðið. Ég var beðin um að gefa uppskrift af bestu súpunni minni.  Ég prófaði nokkrar súpur en niðurstaðan var alltaf sú sama hjá mér og öðrum fjölskyldumeðlimum, fiskisúpan vestan og kjúklingasúpan með karrí og eplum hafa vinninginn! Ég valdi þá síðastnefndu í blaðið auk ljúffengra brauðbolla með kotasælu og gulrótum. Það kom ljósmyndari frá Morgunblaðinu og smellti af myndum af herlegheitunum (allar myndirnar í  þessari færslu eru þó teknar af mér). Það var að auki tekið smá viðtal við mig. Nú skil ég hvernig stjörnunum líður þegar þær eru misskildar og mistúlkaðar í viðtölum! 😉 Ég sagði við blaðamanninn að heimasíðan yrði í framtíðinni góður vettvangur fyrir krakkana til að sækja uppskriftirnar mínar. Alexander hefur til dæmis oft talað um það að hann þurfi að eignast hina og þessa uppskrift hjá mér þegar hann flytur að heiman. Í viðtalinu er hins vegar talað um að ég eigi fleiri en eitt barn sem er þegar flutt að heiman! Það verður hressandi fyrir Ósk og Alexander (og kannski ákveðin pressa!) að lesa þær fréttir þegar þau vakna í dag, ekki lýgur Mogginn! 🙂

Brauðbollurnar eru einfaldar en afskaplega bragðgóðar og mjúkar, sérstaklega nýbakaðar.

Brauðbollur með gulrótum og kotasælu

 • 50 g ferskt pressuger eða 1 bréf þurrger
 • 5 dl volgt vatn
 • 4 dl fínrifnar gulrætur
 • 250 g kotasæla
 • 2 tsk salt
 • 1 msk olía
 • 4 dl heilhveiti
 • 12 dl hveiti
 • 1 egg til penslunar
 • graskersfræ eða sesamfræ
Pressugerið er mulið út í vatnið í skál. Restinni af hráefnunum bætt út í, hveitinu síðast. Deigið hnoðað í vél eða höndunum þar til það er orðið slétt. Því næst er það látið hefast undir blautum klút í 30 mínútur. Ofninn stilltur á 225 gráður. Deigið hnoðað í stutta stund á hveitistráðu borði. Því er svo skipt í tvennt og rúllað í tvær lengjur. Lengjurnar eru skornar í tíu jafna bita hvor. Bitarnir eru mótaðir í bollur sem er raðað á ofnplötu með bökunarpappír undir. Brauðbollurnar penslaðar með eggi og graskersfræjum eða sesamfræjum dreift yfir. Bollurnar látnar hefast í 20 mínútur. Bakað í miðjum ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur og brauðbollurnar látnar kólna á grind.

Kryddkaka


Þessi uppskrift af kryddköku er komin frá ömmu minni, hún kallar kökuna reyndar kryddjólaköku. Ömmu er nú farið að bregða fyrir oft á blogginu mínu sem er eiginlega skrítið í ljósi þess að hún heldur því fram að sér þyki agalega leiðinlegt að elda mat og baka! En það hefur þó ekki komið í veg fyrir að hún eldi mat upp á hvern einasta dag og baki kökur auk þess sem hún vann meira að segja í eldhúsi í mörg ár. Amma segist samt ekkert skilja í því að ég hafi gaman að því að laga mat, sá áhugi sé allavega ekki frá sér kominn! 🙂 En amma er með á hreinu gamlar og góðar íslenskar uppskriftir eins og þessa kryddköku. Þetta er feikigóð kaka sem er afar einfalt að búa til. Amma setur yfirleitt í hana rúsínur en ég sleppi þeim, krakkarnir vilja þær ekki og mér finnst kakan líka betri án rúsína. Þessi uppskrift dugar í tvö jólakökuform sem eru  25 x 11 cm.

Uppskrift:

 • 500 gr hveiti
 • 150 gr púðursykur
 • 150 gr sykur
 • 3 egg
 • 250 gr smjör, mjúkt (við stofuhita)
 • 2 tsk matarsódi
 • 2 tsk kanill
 • 2 tsk negull
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 dl mjólk eða súrmjólk

Aðferð:

Ofninn stilltur 180 gráður. Allt hráefnið sett saman í skál og hrært saman. Deiginu skipt í tvö smurð jólakökuform,  25 x 11 cm, og þau bökuð við 180 gráður í ca. 45 mínútur.