Kryddkaka


Þessi uppskrift af kryddköku er komin frá ömmu minni, hún kallar kökuna reyndar kryddjólaköku. Ömmu er nú farið að bregða fyrir oft á blogginu mínu sem er eiginlega skrítið í ljósi þess að hún heldur því fram að sér þyki agalega leiðinlegt að elda mat og baka! En það hefur þó ekki komið í veg fyrir að hún eldi mat upp á hvern einasta dag og baki kökur auk þess sem hún vann meira að segja í eldhúsi í mörg ár. Amma segist samt ekkert skilja í því að ég hafi gaman að því að laga mat, sá áhugi sé allavega ekki frá sér kominn! 🙂 En amma er með á hreinu gamlar og góðar íslenskar uppskriftir eins og þessa kryddköku. Þetta er feikigóð kaka sem er afar einfalt að búa til. Amma setur yfirleitt í hana rúsínur en ég sleppi þeim, krakkarnir vilja þær ekki og mér finnst kakan líka betri án rúsína. Þessi uppskrift dugar í tvö jólakökuform sem eru  25 x 11 cm.

Uppskrift:

  • 500 gr hveiti
  • 150 gr púðursykur
  • 150 gr sykur
  • 3 egg
  • 250 gr smjör, mjúkt (við stofuhita)
  • 2 tsk matarsódi
  • 2 tsk kanill
  • 2 tsk negull
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 dl mjólk eða súrmjólk

Aðferð:

Ofninn stilltur 180 gráður. Allt hráefnið sett saman í skál og hrært saman. Deiginu skipt í tvö smurð jólakökuform,  25 x 11 cm, og þau bökuð við 180 gráður í ca. 45 mínútur.