Svíar eru svo miklir snillingar, halda upp á dag kanilsnúðarins í dag! Af hverju eigum við ekki svona skemmtilega daga hér á Íslandi? Ég elska kanilsnúða og bara allt bakkelsi með kanil. Ég sá þessari kanilsnúða rúllutertu bregða fyrir á nokkrum sænskum bloggum og gat ekki stillt mig um að prófa. Reyndar breytti ég uppskriftinni dálítið, skipti t.d. út hveiti fyrir kartöflumjöl því það gerir kökuna léttari. Kosturinn við rúllutertur eru að þær eru svo rosalega fljótlegar í bakstri, það tók mig innan við hálftíma að baka þessa. Vissulega eru þetta engir ”kanilsnúðar”, þótt rúllutertan sé kennd við kanilsnúða, heldur er það aðallega kanillinn sem minnir á snúðana góðu og svo fyllingin. En herre gud hvað þetta er hættulega góð kaka!! Kremið gæti ég borðað með skeið .. kannski gerði ég það, smá .. ekki dæma mig! 😉 Þetta er nýjasta uppáhalds ”my go to” kaka þegar ég þarf að búa til rosalega góða köku á stuttum tíma. Fram af þessu hefur það verið þessi kaka sem ég hef bakað vandræðalega oft! Það ætti ekki að koma á óvart að sú kaka heitir líka ”kanilsnúða” eitthvað þó engir kanilsnúðar komi við sögu … ég bara elska kökur sem innihalda kanil! 🙂
Uppskrift:
- 3 egg
- 2 dl sykur
- 0,5 dl mjólk
- 1 dl hveiti
- 1 dl kartöflumjöl
- 1 tsk lyftiduft
- 1 msk vanillusykur
- 2 tsk kanill
- Fylling
- 150 g smjör, við stofuhita
- 1 msk kanill
- 2 msk vanillusykur
- 1 dl flórsykur
- + perlusykur og/eða sykur
Ofn stilltur á 250 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Kartöflumjöli, hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil er blandað saman og bætt varlega út í, ásamt mjólkinni, með sleikju. Því næst er deiginu helt á ofnplötu, klædda bökunarpappír, og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á sykurstráðan bökunarpappír.
Hráefnum í fyllinguna er þeytt saman í ca. 2-4 mínútur. Fyllingunni er því næst dreift yfir kaldan botninn og kökunni rúllað upp á lengdina með hjálp bökunarpappírsins.