Kanilsnúða-rúlluterta


img_4120

Svíar eru svo miklir snillingar, halda upp á dag kanilsnúðarins í dag! Af hverju eigum við ekki svona skemmtilega daga hér á Íslandi? Ég elska kanilsnúða og bara allt bakkelsi með kanil. Ég sá þessari kanilsnúða rúllutertu bregða fyrir á nokkrum sænskum bloggum og gat ekki stillt mig um að prófa. Reyndar breytti ég uppskriftinni dálítið, skipti t.d. út hveiti fyrir kartöflumjöl því það gerir kökuna léttari. Kosturinn við rúllutertur eru að þær eru svo rosalega fljótlegar í bakstri, það tók mig innan við hálftíma að baka þessa. Vissulega eru þetta engir ”kanilsnúðar”, þótt rúllutertan sé kennd við kanilsnúða, heldur er það aðallega kanillinn sem minnir á snúðana góðu og svo fyllingin. En herre gud hvað þetta er hættulega góð kaka!! Kremið gæti ég borðað með skeið .. kannski gerði ég það, smá .. ekki dæma mig! 😉 Þetta er nýjasta uppáhalds ”my go to” kaka þegar ég þarf að búa til rosalega góða köku á stuttum tíma. Fram af þessu hefur það verið þessi kaka sem ég hef bakað vandræðalega oft! Það ætti ekki að koma á óvart að sú kaka heitir líka ”kanilsnúða” eitthvað þó engir kanilsnúðar komi við sögu … ég bara elska kökur sem innihalda kanil! 🙂

img_4125

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 dl sykur
  • 0,5 dl mjólk
  • 1 dl hveiti
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk vanillusykur
  • 2 tsk kanill
  • Fylling
  • 150 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk kanill
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 dl flórsykur
  •  + perlusykur og/eða sykur

Ofn stilltur á 250 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Kartöflumjöli, hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil er blandað saman og bætt varlega út í, ásamt mjólkinni, með sleikju. Því næst er deiginu helt á ofnplötu, klædda bökunarpappír, og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á sykurstráðan bökunarpappír.

Hráefnum í fyllinguna er þeytt saman í ca. 2-4 mínútur. Fyllingunni er því næst dreift yfir kaldan botninn og kökunni rúllað upp á lengdina með hjálp bökunarpappírsins.

img_4130

 

Bananakaka með kanilívafi


Bananakaka með kanilívafi

Núna er kominn nóvember og aðventan mun skella á áður en þið vitið af – trúið mér! Í ár hef ég sett sjálfri mér afar háleit markmið varðandi jólin og þetta „búin að öllu fyrir jólin“ dæmi! Þannig er mál með vexti að síðastliðin ár hef ég verið í meistaranámi í háskólanum og ég get staðfest það að þegar húsmóðir þarf að fara í jólapróf, svo ekki sé talað um að skila af sér meistararitgerð fyrir jól auk þess að eiga eiginmann sem er á vöktum sólarhringum saman, þá hefur það býsna slæm áhrif á jólaundirbúninginn – eða réttara sagt andlega heilsu húsmóðurinnar. Ég er svona týpa sem vil ekki slá af neinu, mér dytti til dæmis aldrei í hug að sleppa því að senda út 100 stykki jólakort. Í fyrra var ég að skila af mér meistararitgerðinni minni um jólin, vann við hana nótt og dag og ákvað því að pakka inn jólagjöfunum á mjög einfaldan hátt, þetta varð útkoman.

548770_485563878151708_1794840187_nJá, þið skiljið kannski vandamálið! Fyrir nokkrum árum setti einhver vinur minn á Facebook status á Þorláksmessukvöldi um að viðkomandi væri búinn að öllu og sötraði hvítvínsglas við kertaljós (sem ætti að vera ólöglegur status by the way!). Á þeim tímapunkti sat ég sveitt við jólagjafainnpökkun, þrif og fleira og hét sjálfri mér því að næstu jól þá væri það ég sem sæti með hvítvínsglas á Þorláksmesskvöld við arineld, búin að öllu. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þetta einfaldlega ekki tekist enn. Hluti af vandamálinu er að ég er með frestunaráráttu í sambland við fullkomnunaráráttu – blanda sem virkar býsna illa verð ég að segja. Í ár mun þetta hins vegar takast hjá mér, ég finn það á mér! Núna er markmiðið mitt að vera búin að pakka inn jólagjöfum, gera jólakort, kaupa jólaföt á börnin og allt þetta sem þarf að gera fyrir jólin, áður en aðventan rennur upp. Svo ætla ég bara að njóta aðventunnar án nokkurra kvaða. Ég ákvað að skrifa þetta hér á alheimsnetið til þess að veita sjálfri mér aðhald! 😉 Í guðanna bænum ýtið við mér þegar aðventan nálgast – ég ætla að standa við þetta í ár! Satt að segja er ég komin vel áleiðis, ég er næstum því búin með jólagjafirnar, búin að kaupa jólafötin á börnin og er að byrja að vinna í jólakortunum!

Þessar jólahugleiðingar eiga svolítið við uppskrift dagsins því í henni er kanill og kanill er jú einstaklega jólalegt krydd. Ég elska kanil, sérstaklega í allskonar bakkelsi. Ég elska líka bananakökur. Það var því meiri snilldin að blanda þessu tvennu saman. Kakan sló í gegn hjá fjölskyldunni, þið verðið bara að prófa hana um helgina! 🙂

IMG_0946

Uppskrift:

  • 130 g smjör
  • 200 g sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 stór egg
  • 260 g Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk kanill
  • 2 stórir bananar eða 3 litlir, stappaðir

Kanilsykurblanda

  • 1 dl sykur
  • 2 msk púðursykur
  • 3 tsk kanill

Ofn hitaður í 175 gráður og smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært saman þar til að blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er vanillusykri, hveiti, matarsóda og kanil bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast saman. Að lokum er stöppuðum banönum blandað vel saman við deigið. Bökunarformið er smurt að innan og 1/3 af deiginu er smurt yfir botninn á forminu. Hráefnunum í kanilsykurblöndunni er blandað vel saman og 1/3 hennar dreift jafnt yfir deigið.

IMG_0930Þá er helmingnum af deiginu sem eftir er smurt yfir kanilsykurblönduna. Það er allt í lagi þó það náist ekki alveg að dreifa úr deiginu út í alla kanta. Því næst er helmingnum af kanilsykurblöndunni dreift yfir deigið. Að lokum restinni af deiginu smurt ofan á og endað á því að strá restinni af kanilsykurblöndunni yfir. Bakað í ofni við 175 gráður í 45-55 mínútur eða þar til kakan er farin að losna frá köntunum og kökuprjóni sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn út.

IMG_0950

Kanilkaka


IMG_1488Við fjölskyldan fórum aftur í kvöldsund núna í vikunni, það er svo notarlegt að fara í heitan pott í myrkri og kulda! Þá borðum við klukkan sex og drífum okkur svo í Árbæjarlaugina. Þar leika krakkarnir sér og við Elfar náum að spjalla í rólegheitunum í nuddpottinum. Æðislegt, mæli með því! Fyrr þann sama dag bakaði ég köku sem ég ætla að gefa uppskriftina af. Þannig var nefnilega mál með vexti að Jóhanna Inga kom heim úr skólanum þann daginn og var svo ægilega svöng. Það kom svo í ljós að hún var ekki venjulega svöng heldur kökusvöng! 😉 Ég hafði beðið eftir tækifæri til þess að baka köku sem ég fann uppskrift af fyrir nokkru, kanilköku með haframjöli. Ég er mjög hrifin af öllu bakkelsi með kanil og var nokkuð viss um að mér þætti þessi kaka góð. Við mægður skelltum því í eina kanilköku og hún var rosalega einföld og góð. Hættulega góð á meðan hún er enn heit, nýkomin út úr ofninum!

Uppskrift

  • 4 dl sykur
  • 150 g smjör, brætt
  • 2 stór egg eða 3 lítil
  • 3 dl mjólk
  • 7 dl hveiti
  • 4 tsk vanillusykur
  • 3 tsk lyftiduft

Ofn hitaður í 225 gráður (undir og yfirhiti). Smjör og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er mjólkinni bætt við og að lokum þurrefnunum. Deiginu helt í smurt kökuform (ég notaði form sem er 26 cm x 39 cm).

Stökkur kanil/hafratoppur

  • 200 gr smjör
  • 2 dl. sykur
  • 4 tsk kanil
  • 3 dl haframjöl

Smjörið brætt í potti. Potturinn tekinn af hellunni og restinni af hráefnunum bætt út í. Þá er blandað hituð og blandað saman. Blöndunni er síðan dreift yfir kökuna. Bökuð í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur. Látið ykkur ekki bregða þó að yfirborðið á kökunni verði hæðótt, þannig á það að vera!

IMG_1484