Sjöholukaka


IMG_0302Um daginn héldum við upp á afmæli yngsta barnsins og á boðstólum var auðvitað allt sem hugur afmælisbarnsins girntist. Fyrst á lista var eplakaka en það er klárlega uppáhaldskakan hennar. Svo vildi hún fá ljósbláa köku og hafði alveg ákveðnar skoðanir á þvi hvernig hún átti að líta út. Ég hef jafn gaman að bakstri eins og mér finnst leiðinlegt að skreyta kökur, ég er bara ekki mikil föndurmanneskja. Ég leitaði því enn og aftur til Önnu frænku sem er með Önnu konditori og er algjör listakona auk þess sem kökurnar hennar eru lostæti. Jóhanna mín var ekkert smá ánægð með að fá afmælisköku einmitt eins og hún hafði óskað sér.

IMG_0219 IMG_0211IMG_0220

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag langaði Jóhönnu að baka köku sem passaði vel því á „skrolli“ mínu í gegnum Instagram reikningana sem ég fylgi sá ég sömu kökuna hjá tveimur sænskum matarbloggurum sem mig langaði einmitt að prófa. Ég gat auðvitað ekki setið á mér og við prófuðum að baka kökuna. Hins vegar var ég ekki hrifin af bragðinu af glassúrinum í þessari uppskrift og ég ákvað að búa frekar til súkkulaði-karamellukrem og nota í staðinn. Mér fannst það koma mikið betur úr og gera kökuna afar gómsæta. Þetta er er tilvalin kaka fyrir helgarkaffið! 🙂

IMG_0294

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 dl sjóðandi vatn

Ofn hitaður í 175 gráður við undir/yfirhita. Egg og sykur hrært þar til létt og ljóst. Smátt og smátt er hveiti og lyftidufti bætt út í og í lokin heita vatninu. Deiginu hellt í smurt smelluform (24 cm). Kakan bökuð neðarlega í ofninum við 175 gráður í 35-40 mínútur.

Karamellukrem:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör

Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til að hún þykknar, tekur ca. 10 mínútur, gott að hræra í svolítið á meðan. Þá er potturinn tekin af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman.

Sjö holur gerðar með skafti á skeið í heita kökuna þegar hún kemur úr ofninum (ca. 2 cm í ummál) og heitu kreminu hellt yfir kökuna þannig að holurnar fyllast. Kökunni leyft að kólna um stund og kremið stífna áður en kakan er borin fram.

IMG_0290IMG_0305

Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði


Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaðiEf þið hugsið eins og ég þá eruð þið nú þegar fallin fyrir þessari köku bara með því að lesa titilinn á bloggfærslunni, bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – hvernig er ekki hægt að falla fyrir slíku! Það er samt algjört vesen hversu erfitt það er að taka myndir af brúnum matréttum og kökum og láta góða bragðið skila sér í gegnum myndirnar. En trúið mér, þessi kaka er algjört æði! Þetta er kaka sem er „must try“ gott fólk! 🙂

IMG_6048

 

Uppskrift: 

  • 3 stórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl ab-mjólk eða súrmjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • 5 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g Siríus konsum suðusúkkulaðidropar (1 poki)

Ofn hitaður í 175 gráður við undir og yfirhita. 24 cm form er smurt að innan. Bananar eru stappaðir og settir í hrærivélaskál. Hnetusmjöri, sykri, púðursykri ab-mjólk, bræddu smjöri og eggjum bætt út í og öllu hrært saman þar til deigið verður slétt. Þá er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við.  Að síðustu er súkklaðidropunum hrært saman við deigið.  Deiginu er að lokum hellt í bökunarformið og bakað við 175 gráður í um það bil 50-60 mínútur. Kakan er góð borin fram volg en ekki síðri eftir að hún er orðin köld.

IMG_6038IMG_6039IMG_6046

 

Kanilkaka


IMG_1488Við fjölskyldan fórum aftur í kvöldsund núna í vikunni, það er svo notarlegt að fara í heitan pott í myrkri og kulda! Þá borðum við klukkan sex og drífum okkur svo í Árbæjarlaugina. Þar leika krakkarnir sér og við Elfar náum að spjalla í rólegheitunum í nuddpottinum. Æðislegt, mæli með því! Fyrr þann sama dag bakaði ég köku sem ég ætla að gefa uppskriftina af. Þannig var nefnilega mál með vexti að Jóhanna Inga kom heim úr skólanum þann daginn og var svo ægilega svöng. Það kom svo í ljós að hún var ekki venjulega svöng heldur kökusvöng! 😉 Ég hafði beðið eftir tækifæri til þess að baka köku sem ég fann uppskrift af fyrir nokkru, kanilköku með haframjöli. Ég er mjög hrifin af öllu bakkelsi með kanil og var nokkuð viss um að mér þætti þessi kaka góð. Við mægður skelltum því í eina kanilköku og hún var rosalega einföld og góð. Hættulega góð á meðan hún er enn heit, nýkomin út úr ofninum!

Uppskrift

  • 4 dl sykur
  • 150 g smjör, brætt
  • 2 stór egg eða 3 lítil
  • 3 dl mjólk
  • 7 dl hveiti
  • 4 tsk vanillusykur
  • 3 tsk lyftiduft

Ofn hitaður í 225 gráður (undir og yfirhiti). Smjör og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er mjólkinni bætt við og að lokum þurrefnunum. Deiginu helt í smurt kökuform (ég notaði form sem er 26 cm x 39 cm).

Stökkur kanil/hafratoppur

  • 200 gr smjör
  • 2 dl. sykur
  • 4 tsk kanil
  • 3 dl haframjöl

Smjörið brætt í potti. Potturinn tekinn af hellunni og restinni af hráefnunum bætt út í. Þá er blandað hituð og blandað saman. Blöndunni er síðan dreift yfir kökuna. Bökuð í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur. Látið ykkur ekki bregða þó að yfirborðið á kökunni verði hæðótt, þannig á það að vera!

IMG_1484

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi


Þessi kaka afar sniðug að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota hrærivél, hún er bara gerð í potti. Þess vegna er hægt að gera hana hvar sem er, t.d. í sumarbústað. Í öðru lagi er hér um bil ekkert hveiti í henni og það er hægt að skipta því út fyrir maísenamjöl ef maður vill hafa hana hveitilausa. Í þriðja lagi þá er hún svakalega góð! 🙂 Kremið er afsakaplega ljúffengt, gert úr Pipp súkkulaði með karamellu, það er líka hægt að nota Pipp með piparmyntukremi ef maður er hrifnari af piparmyntu. Í kökunni er kaffi en mér finnst kaffi afskaplega bragðvont og forðast yfirleitt allt kaffi í kökum, tertum og eftirréttum. Ég hef hins vegar ekkert fundið fyrir kaffibragðinu í þessari köku hingað til. En svo bar við í þetta sinn að mér fannst of mikið kaffibragð af henni. Það var ekki fyrr en núna í þessum skrifuðu orðum að ég uppgötvaði að ég hafði notað tvær matskeiðar af kaffinu í stað tveggja teskeiða, mæli ekki með því! Hins vegar fannst engum öðrum en mér of mikið kaffibragð af kökunni þannig það virtist ekki koma að sök!

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 180 gr smjör
  •  2 tsk instant Nescafe, kaffiduft mulið, t.d. í morteli (má sleppa)
  •  2 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

Krem:

  •  25 gr smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með karamellukremi (selt í 100 gr. plötum) eða með piparmyntu

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Súkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Neskaffi mulið mjög smátt (ég gerði það í morteli) og því bætt út í ásamt sykri og eggjum, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 45 – 50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún má vera blaut í miðjunni.

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. jarðaberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.