Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði


Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaðiEf þið hugsið eins og ég þá eruð þið nú þegar fallin fyrir þessari köku bara með því að lesa titilinn á bloggfærslunni, bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – hvernig er ekki hægt að falla fyrir slíku! Það er samt algjört vesen hversu erfitt það er að taka myndir af brúnum matréttum og kökum og láta góða bragðið skila sér í gegnum myndirnar. En trúið mér, þessi kaka er algjört æði! Þetta er kaka sem er „must try“ gott fólk! 🙂

IMG_6048

 

Uppskrift: 

  • 3 stórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl ab-mjólk eða súrmjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • 5 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g Siríus konsum suðusúkkulaðidropar (1 poki)

Ofn hitaður í 175 gráður við undir og yfirhita. 24 cm form er smurt að innan. Bananar eru stappaðir og settir í hrærivélaskál. Hnetusmjöri, sykri, púðursykri ab-mjólk, bræddu smjöri og eggjum bætt út í og öllu hrært saman þar til deigið verður slétt. Þá er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við.  Að síðustu er súkklaðidropunum hrært saman við deigið.  Deiginu er að lokum hellt í bökunarformið og bakað við 175 gráður í um það bil 50-60 mínútur. Kakan er góð borin fram volg en ekki síðri eftir að hún er orðin köld.

IMG_6038IMG_6039IMG_6046

 

Bananakaka með núggatsúkkulaði


IMG_1146Bananakaka með núggatsúkkulaði

Í hvert sinn sem ég sé eitthvað nýtt og girnilegt súkkulaði á markaðnum fer hugur minn á flug og ég reyni að finna leið til þess að koma því köku! Síðast gerði ég til dæmis tilraunir með Pipp með bananabragði sem lukkaðist vel. Að þessu sinni var það nýja rjómasúkkulaðið með frönsku núggati frá Nóa og Siríus sem heillaði mig. Mér finnst mjúkt núggat ekki gott en ég er hrifin af stökku frönsku núggati. Ég ákvað að setja það í eina af mínum uppáhaldskökum, bananaköku, og sá ekki eftir því. Góð kaka varð enn betri! Svona bananakökur myndast reyndar ekkert svakalega vel þannig að þið verðið bara að taka orð mín trúanleg! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g mjúkt smjör
  • 1 dl. sykur
  • 1 dl. púðursykur
  • 2 stór egg
  • 5 dl. Kornax hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 3 meðalstórir bananar (vel þroskaðir)
  • 150 g rjómasúkkulaði með frönsku núggati, saxað smátt

Bananakaka með núggatsúkkulaði

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smjöri og sykur hrært vel saman. Eggjum bætt út í, einu í senn. Þurrefnum blandað saman og sáldrað út í. Bananar maukaðir og þeim hrært saman við deigið. Í lokin er súkkulaðinu blandað saman við deigið. Degið sett í hringlaga smurt form form. Bakað í ca. 40-45 mínútur (fer eftir ofnum) eða þar til kakan er bökuð í gegn. Það gæti þurft að setja álpappír yfir hana undir lok bökunartímans ef hún er farin að dökkna mikið.

IMG_1135Bananakaka með núggatsúkkulaði

Súkkulaðiterta með bananakremi


Súkkulaðiterta með bananakremi

Ég get varla beðið eftir því að setja inn uppskriftina af þessari tertu hingað á síðuna! Ég held að flestar fjölskyldur eigi í handraðanum uppskrift að tertu eða köku sem hefur fylgt þeim lengi og er bökuð við hátíðleg tækifæri í fjölskyldunni. Árið 1971 fékk mamma þessa uppskrift frá bekkjarsystur sinni í þáverandi Fósturskóla Íslands. Þessi terta hefur verið bökuð við ófáar skírnir, fermingar og afmæli í fjölskyldunni okkar í meira en 40 ár og er alltaf jafn vinsæl. Það er langt síðan ég hef bakað tertuna en ég hafði hana í afmælinu hennar Jóhönnu Ingu um daginn og þá rifjaðist upp fyrir mér hversu dásamlega góð mér þykir hún! Ég skreyti tertuna alltaf eins og mamma gerði ávallt – með rjóma úr rjómasprautu og niðursoðnum perum. Mér finnst það alveg ómissandi! 🙂 Þessa tertu verðið þið bara að prófa!

Súkkulaðiterta með bananakremi

Uppskrift, botnar:

  • 4 egg
  • 200 g. sykur
  • 1 dl hveiti
  • 2 msk kakó
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 tsk lyftiduft

 Ofn hitaður í 180 gráður við blástur. Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum blandað varlega saman við með sleikju. Tvö smelluform (24 cm) smurð að innan. Deiginu er skipt á milli formanna tveggja og bakað við 180 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kantarnir á botnunum eru farnir að losna aðeins frá formunum. Botnarnir eru látnir kólna alveg áður en bananakremið er sett á milli botnanna.

 Bananakrem:

  • 100 g. smjör (mjúkt)
  • 70 g. flórsykur
  • 4 bananar, stappaðir

Smjör og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt. Þá er stöppuðum banönum bætt út í. Gott er að kæla kremið dálítið áður en það er sett á milli botnanna.

Súkkulaðikrem ofan á:

  • 100 g. smjör (mjúkt)
  • 100 g. flórsykur
  • 120 g. suðusúkkulaði
  • 1 egg
  • 1 tsk. vanillusykur

Til skreytingar:

  • þeyttur rjómi
  • niðursoðnar perur

 Smjöri, flórsykri og egg þeytt saman. Súkkulaðið er brætt og kælt aðeins áður en því er hellt saman við blönduna. Kreminu er smurt ofan á tertuna og á hliðarnar. Það er fallegt að skreyta tertuna með þeyttum rjóma og niðursoðnum perum.

IMG_7068

Banana-súkkulaðikaka


Ég fékk um daginn þessa rausnarlegu gjafakörfu frá Nóa og Siríus í uppskriftasamkeppni sem var á þeirra snærum. Í henni leyndist allskonar góðgæti sem hefur satt best að segja gengið ágætlega á! Í gær átti ég á þrjá banana sem voru orðnir ansi brúnir og ég ákvað að ég yrði að nýta þá í eitthvað gott. Ég gramsaði síðan ofan í gjafakörfunni, sem enn hefur að geyma ýmisskonar gúmmelaði og fann þar poka af suðusúkkulaðidropum frá Nóa og Siríus. Afraksturinn af samrunanum sem átti sér stað í framhaldinu var snilldin ein! Banana-súkkulaðikaka sem er afskaplega auðveld að baka og dásamlega ljúffeng.  Kakan var enn volg þegar ég bar hana fram og hún var auðvitað afar ljúffeng þannig. En ég náði að smakka síðasta bitann þegar hún var orðin köld og þá var hún eiginlega betri! Með dálitlum þeyttum rjóma þá er orðin til afar gómsætur eftirréttur.  Þið bara verðið að prófa þessa! Næst ætla ég að blanda bæði hvítu og dökku súkkulaði í kökuna.

Annars drógum við krakkarnir fram í dag ,,jól í skókassa“ kassann okkar. Ég vona að flestir þekki til þessa verkefnis, en KFUM og KFUK standa fyrir því frábæra framtaki árlega. Verkefnið snýst um að safna jólagjöfum í skókassa fyrir fátæk og munaðarlaus börn í Úkraínu. Ég safna hlutum (og stórum skókössum!) allt árið fyrir þetta verkefni og í dag drógum við krakkarnir fram allt góssið til að skoða hvað vantaði upp á. Lokaskiladagur er 10. nóvember og ég vona innilega að sem flestir taki þátt í þessu þarfa og þakkláta verkefni!

Uppskrift:

  • 75 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 msk mjólk
  • 1/4 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 stór egg
  • 2-3 þroskaðir bananar (ég notaði 3 litla)
  • 150 gr suðusúkkulaðidropar eða suðusúkkulaði, saxað smátt
  • 2 1/2 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi

Aðferð

  1. Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin aðskilin og eggjahvítan þeytt þar til hún verður stíf.
  2. Smjör brætt í potti við vægan hita, kælt dálítið.
  3. Sykur, mjólk, salt og vanillusykur sett í skál ásamt brædda smjörinu og hrært.
  4. Eggjarauðunum bætt út í.
  5. Bananar stappaðir og þeim hrært út í deigið ásamt súkkulaðinu.
  6. Hveiti og matarsóda blandað út í og hrært
  7. Að síðustu er eggjahvítunum bætt varlega út í með sleikju.
  8. Deiginu hellt í smurt tertuform (smelluform eða sílíkonform, ca. 24 cm) og bakað í ofni við 175 gráður í 30-40 mínútur. Best er ef kakan er enn dálítið blaut í miðjunni þegar hún er tekin út úr ofninum. Kakan er dásamlega góð borin fram með þeyttum rjóma eða ís og hún er ekki síðri þegar hún er orðin köld, jafnvel betri!