Ef þið hugsið eins og ég þá eruð þið nú þegar fallin fyrir þessari köku bara með því að lesa titilinn á bloggfærslunni, bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – hvernig er ekki hægt að falla fyrir slíku! Það er samt algjört vesen hversu erfitt það er að taka myndir af brúnum matréttum og kökum og láta góða bragðið skila sér í gegnum myndirnar. En trúið mér, þessi kaka er algjört æði! Þetta er kaka sem er „must try“ gott fólk! 🙂
Uppskrift:
- 3 stórir bananar, vel þroskaðir
- 1 dl hnetusmjör
- 1 dl sykur
- 1 dl púðursykur
- 1 dl ab-mjólk eða súrmjólk
- 100 g smjör, brætt
- 2 egg
- 5 dl Kornax hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk vanillusykur
- 1/2 tsk salt
- 150 g Siríus konsum suðusúkkulaðidropar (1 poki)
Ofn hitaður í 175 gráður við undir og yfirhita. 24 cm form er smurt að innan. Bananar eru stappaðir og settir í hrærivélaskál. Hnetusmjöri, sykri, púðursykri ab-mjólk, bræddu smjöri og eggjum bætt út í og öllu hrært saman þar til deigið verður slétt. Þá er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við. Að síðustu er súkklaðidropunum hrært saman við deigið. Deiginu er að lokum hellt í bökunarformið og bakað við 175 gráður í um það bil 50-60 mínútur. Kakan er góð borin fram volg en ekki síðri eftir að hún er orðin köld.