Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði


Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaðiEf þið hugsið eins og ég þá eruð þið nú þegar fallin fyrir þessari köku bara með því að lesa titilinn á bloggfærslunni, bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – hvernig er ekki hægt að falla fyrir slíku! Það er samt algjört vesen hversu erfitt það er að taka myndir af brúnum matréttum og kökum og láta góða bragðið skila sér í gegnum myndirnar. En trúið mér, þessi kaka er algjört æði! Þetta er kaka sem er „must try“ gott fólk! 🙂

IMG_6048

 

Uppskrift: 

  • 3 stórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl ab-mjólk eða súrmjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • 5 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g Siríus konsum suðusúkkulaðidropar (1 poki)

Ofn hitaður í 175 gráður við undir og yfirhita. 24 cm form er smurt að innan. Bananar eru stappaðir og settir í hrærivélaskál. Hnetusmjöri, sykri, púðursykri ab-mjólk, bræddu smjöri og eggjum bætt út í og öllu hrært saman þar til deigið verður slétt. Þá er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við.  Að síðustu er súkklaðidropunum hrært saman við deigið.  Deiginu er að lokum hellt í bökunarformið og bakað við 175 gráður í um það bil 50-60 mínútur. Kakan er góð borin fram volg en ekki síðri eftir að hún er orðin köld.

IMG_6038IMG_6039IMG_6046

 

Bananakaka með núggatsúkkulaði


IMG_1146Bananakaka með núggatsúkkulaði

Í hvert sinn sem ég sé eitthvað nýtt og girnilegt súkkulaði á markaðnum fer hugur minn á flug og ég reyni að finna leið til þess að koma því köku! Síðast gerði ég til dæmis tilraunir með Pipp með bananabragði sem lukkaðist vel. Að þessu sinni var það nýja rjómasúkkulaðið með frönsku núggati frá Nóa og Siríus sem heillaði mig. Mér finnst mjúkt núggat ekki gott en ég er hrifin af stökku frönsku núggati. Ég ákvað að setja það í eina af mínum uppáhaldskökum, bananaköku, og sá ekki eftir því. Góð kaka varð enn betri! Svona bananakökur myndast reyndar ekkert svakalega vel þannig að þið verðið bara að taka orð mín trúanleg! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g mjúkt smjör
  • 1 dl. sykur
  • 1 dl. púðursykur
  • 2 stór egg
  • 5 dl. Kornax hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 3 meðalstórir bananar (vel þroskaðir)
  • 150 g rjómasúkkulaði með frönsku núggati, saxað smátt

Bananakaka með núggatsúkkulaði

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smjöri og sykur hrært vel saman. Eggjum bætt út í, einu í senn. Þurrefnum blandað saman og sáldrað út í. Bananar maukaðir og þeim hrært saman við deigið. Í lokin er súkkulaðinu blandað saman við deigið. Degið sett í hringlaga smurt form form. Bakað í ca. 40-45 mínútur (fer eftir ofnum) eða þar til kakan er bökuð í gegn. Það gæti þurft að setja álpappír yfir hana undir lok bökunartímans ef hún er farin að dökkna mikið.

IMG_1135Bananakaka með núggatsúkkulaði

Bananakaka með hvítu súkkulaðikremi


Nú er aðventan að bresta á og fyrsta jólaljósið er komið í gluggann hjá okkur. Ég féll fyrir þessari jólastjörnu í verslun í gær og hengdi hana upp í stofunni um leið og ég kom heim. Nú get ég get ekki beðið eftir því að ná í allt hitt jóladótið um helgina. Elfar er í ljósadeildinni á heimilinu. Hann leggur sig alltaf í lífshættu við að setja seríu í stóra grenitréið okkar sem er líklega orðið einir fimm, sex metrar á hæð eða jafnvel hærra. Nú bar svo við að serían bilaði auk þess sem hann þurfti að skreppa til Svíþjóðar og er svo að fara í nokkra daga til Barcelona á morgun. Ég er því orðin afar óþolinmóð yfir því að fá ljósin í tréið en ég þarf víst að bíða róleg í nokkra daga í viðbót.

Við mæðgur bökuðum þessa sjúklega góðu köku í dag, við mælum virkilega með henni! 🙂 Þetta er kaka sem batnar bara með tímanum, hún er best geymd í kæli yfir nóttu og borin fram daginn eftir.

Uppskrift bananakaka:

  • 2 stórir bananar, mjög vel þroskaðir, stappaðir
  • 100 gr sýrður rjómi
  • 2 stór egg
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 170 gr púðursykur
  • 1 dl matarolía
  • 170 gr hveiti
  • 30 gr maizenamjöl
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Stappaðir bananar og sýrður rjómi þeytt. Eggjum bætt við einu í senn ásamt vanillusykri. Því næst er púðursykrinum bætt út og hrært í ca. eina mínútu. Svo er olíu bætt við smátt og smátt, þá er hveiti, maizenamjöli, matarsóda, lyftidufti og salti bætt út í og þeytt í smá stund þar til deigið hefur blandast vel saman.

Deiginu hellt í bökunarform og kakan bökuð í miðjum ofninum í ca. 40-45 mínútur við 175 gráður, fer eftir stærð bökunarformsins. Því næst er kakan látin kólna áður en kremið er settt á.

Hvítt súkkulaðikrem:

  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 100 gr. rjómaostur (gjarnan Philadelphia), við stofuhita
  • 30 gr. smjör, skorið í litla bita
  • nokkrir sítrónudropar (má sleppa)

Hvítt súkkulaði brætt við vægan hita yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðið er næstum því bráðnað er það tekið af hitanum og hrært rólega í því þar til það er alveg bráðnað. Nú er það látið kólna þar til það er ekki heitt lengur en þó enn í fljótandi formi. Þá er því helt í skál ásamt restinni af hráefnunum og þeytt þar til kremið er orðið slétt.  Kremið er borið á kalda kökuna. Best er að leyfa kreminu að stífna með því að geyma kökuna í ísskáp.