Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði


Bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaðiEf þið hugsið eins og ég þá eruð þið nú þegar fallin fyrir þessari köku bara með því að lesa titilinn á bloggfærslunni, bananakaka með hnetusmjöri og súkkulaði – hvernig er ekki hægt að falla fyrir slíku! Það er samt algjört vesen hversu erfitt það er að taka myndir af brúnum matréttum og kökum og láta góða bragðið skila sér í gegnum myndirnar. En trúið mér, þessi kaka er algjört æði! Þetta er kaka sem er „must try“ gott fólk! 🙂

IMG_6048

 

Uppskrift: 

  • 3 stórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl ab-mjólk eða súrmjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • 5 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g Siríus konsum suðusúkkulaðidropar (1 poki)

Ofn hitaður í 175 gráður við undir og yfirhita. 24 cm form er smurt að innan. Bananar eru stappaðir og settir í hrærivélaskál. Hnetusmjöri, sykri, púðursykri ab-mjólk, bræddu smjöri og eggjum bætt út í og öllu hrært saman þar til deigið verður slétt. Þá er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við.  Að síðustu er súkklaðidropunum hrært saman við deigið.  Deiginu er að lokum hellt í bökunarformið og bakað við 175 gráður í um það bil 50-60 mínútur. Kakan er góð borin fram volg en ekki síðri eftir að hún er orðin köld.

IMG_6038IMG_6039IMG_6046

 

Bananakaka með núggatsúkkulaði


IMG_1146Bananakaka með núggatsúkkulaði

Í hvert sinn sem ég sé eitthvað nýtt og girnilegt súkkulaði á markaðnum fer hugur minn á flug og ég reyni að finna leið til þess að koma því köku! Síðast gerði ég til dæmis tilraunir með Pipp með bananabragði sem lukkaðist vel. Að þessu sinni var það nýja rjómasúkkulaðið með frönsku núggati frá Nóa og Siríus sem heillaði mig. Mér finnst mjúkt núggat ekki gott en ég er hrifin af stökku frönsku núggati. Ég ákvað að setja það í eina af mínum uppáhaldskökum, bananaköku, og sá ekki eftir því. Góð kaka varð enn betri! Svona bananakökur myndast reyndar ekkert svakalega vel þannig að þið verðið bara að taka orð mín trúanleg! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g mjúkt smjör
  • 1 dl. sykur
  • 1 dl. púðursykur
  • 2 stór egg
  • 5 dl. Kornax hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 3 meðalstórir bananar (vel þroskaðir)
  • 150 g rjómasúkkulaði með frönsku núggati, saxað smátt

Bananakaka með núggatsúkkulaði

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smjöri og sykur hrært vel saman. Eggjum bætt út í, einu í senn. Þurrefnum blandað saman og sáldrað út í. Bananar maukaðir og þeim hrært saman við deigið. Í lokin er súkkulaðinu blandað saman við deigið. Degið sett í hringlaga smurt form form. Bakað í ca. 40-45 mínútur (fer eftir ofnum) eða þar til kakan er bökuð í gegn. Það gæti þurft að setja álpappír yfir hana undir lok bökunartímans ef hún er farin að dökkna mikið.

IMG_1135Bananakaka með núggatsúkkulaði

Súkkulaði- og bananakaka


Súkkulaði- og bananakaka

Ég get ekki annað en komið mér beint á efninu í dag! Ég bakaði svo svakalega góða köku að það hálfa væri nóg! Hún var svo góð að þegar ég mundaði myndavélina skömmu eftir að kakan kom úr ofninum þá var bara 1/4 eftir af henni! Ef ég reyni að lýsa þessari köku þá er botninn dásamlega djúsí og blautur súkkulaðikökubotn. Bananakakan sem liggur ofan á súkklaðibotninum er mátulega sæt og pínulítið stökk, með ferskum og suðrænum bananakeim, þessi blanda gerir þetta eina þá bestu köku sem ég hef bragðað! Það er svo gott við þessa köku að hún er ekki massív og er líka svo passlega sæt. Það er sko vel hægt að fá sér þrjár sneiðar – hverja á eftir annarri … ekki það að ég hafi gert það samt! Ókei, ókei, ég viðurkenni það!! Ég var satt best að segja búin að halda mér frá sætindum í viku áður en ég, grunlaus um hvað í vændum væri, bakaði þessa köku! Eins og lög gera ráð fyrir varð ég auðvitað að smakka pínulítinn bita af kökunni. Fyrir bloggið sjáið þið til. Áður en ég vissi af var ég búin með þrjár sneiðar, ég gat bara ekki hamið mig, kakan er algjört sælgæti! Þar með var sætindisbindindið rofið með stæl- takk blogg!!

IMG_9531

Athugið að kakan (þ.e. súkkulaðibotninn) er mjög blaut, hún á að vera það. Það er því hálfvonlaust að ætla að færa kökuna á kökudisk. Ég er reyndar svo heppin að eiga frábært kökuform sem er eins og kökudiskur sem smelluforminu er smellt beint á (sést hér). Formið mitt er 26 cm, þess vegna varð kakan hjá mér frekar þunn. Mér fannst það ekkert koma að sök. En ef þið viljið þykkari köku þá er betra að nota 22 cm eða 24 cm form. Þá þarf jafnvel líka að bæta við örfáum mínútum við bökunartímann. Það er líka mikilvægt að hræra, ekki þeyta, deigið í kökuna. Það þýðir að nota á hrærarann á hrærivélina, ekki þeytarann.

IMG_9530

Nú er ég búin að mæra kökuna svo mikið að þið eruð væntanlega komin með miklar væntingar! 🙂 Ég held að kakan standi undir þessum væntingum því allir fjölskyldumeðlimir á okkar heimili kolféllu fyrir kökunni. Pabbi kom í heimsókn og fékk þá eina sneið (hann var sem sagt aaaðeins viljasterkari en ég!) ásamt kaffi (borið fram á sjúklega sæta stellinu frá Cup Company) og hann slóst samstundis í aðdáendalið okkar hinna! Nú þurfa allir að skella í eina svona köku og láta svo vita hvað ykkur finnst! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (ekki ólívuolía)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1/4 tsk salt
Súkkulaðikrem:
  • 2 1/2 msk kakó
  • 1 tsk vanillusykur
Bananakrem
  • 1 þroskaður banani, stappaður
  • 1 tsk vanillusykur
Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Egg, sykur, olía og brætt smjör hrært saman. Því næst er hveiti og salti bætt út í og hrært saman við deigið. Þá er deiginu skipt í tvo jafna hluta. Kakói og vanillusykri er sigtað út í annan hlutann og blandað varlega saman við deigið. Banana og vanillusykri er bætt út hinn hlutann og blandað vel saman við deigið.

IMG_9515
Smelluform, 24 cm, er smurt og súkkulaðideiginu er hellt í formið, því er smurt vel út í kantana á forminu og jafnað út. Þá er banankreminu hellt varlega yfir súkkulaðideigið og breitt varlega úr því með sleikju án þess að það blandist saman við súkkulaðideigið. Bakað við 200 gráður í ca. 20 mínútur, kakan á að vera blaut. Borin fram með þeyttum rjóma eða ís – við komumst reyndar aldrei svo langt! 🙂

IMG_9532