Ég bakaði Pavlovu í vikunni þegar Vilhjálmur hélt upp á 12 ára afmælið sitt. Á myndinni er ég einmitt að horfa inn um stofugluggann á forviða afmælisgesti sem skildu ekkert í af hverju ég skaust út í garð með tertuna áður en hún var borin á borð! 🙂 Ég nota Pavlovu uppskrift frá Jóa Fel sem mér finnst mjög góð, ég hef þó aukið við magnið af rjómanum í uppskriftinni. Tertan er stór þannig að það þarf að gera ráð fyrir stórum kökudisk. Þá kom sér vel nýi flotti kökudiskurinn frá Brynju!
Pavlova er ein af mínum uppáhaldstertum. Stökkur marengs sem er mjúkur í miðjunni og þakinn rjóma og berjum, gerist ekki betra! Það er hægt að velja hvaða ber sem er á tertuna, mér finnst sérstaklega gott að nota ástaraldin og hindber. Ég var með að auki jarðarber á þessari tertu. Tertan er nefnd eftir Önnu Pavlovu, sem var þekkt rússnesk ballerína. Þegar hún heimsótti Ástralíu og Nýja Sjálandi á öðrum áratug síðustu aldar var þessi terta fundin upp þar henni til heiðurs (það var nú samt örugglega eins og að kasta perlum fyrir svín, ég get samt ekki ímyndað mér að ballerínur borði mikið af marengstertum! ). Það sem er frábrugðið við marengsinn í Pavlovunni er að í hann er sett edik. Hann gerir það að verkum að marengsinn helst mjúkur í miðjunni.
Uppskrift
Botn:
8 stk eggjahvítur
400 g sykur
1 1/2 tsk edik
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt
Rjómakrem:
4-5 dl rjómi
4 msk flórsykur
1/2 tsk vanilludropar
Fersk ber eða ávextir eftir smekk
Þeytið eggjahvítur og bætið sykri, ediki, salti og vanilludropum við. Þeytið þar til sykur er vel uppleystur og marengsinn er orðinn stífur. Smyrjið marengsinn út á smjörpappír 26 cm hring (verið óhrædd, marengsinn á að vera svona stór og hár) setjið á plötu og bakið við 100° í 2 klukkustundir. Slökkvið á ofninum og látið kólna í honum.
Þeytið rjóma og blandið flórsykri og vanilludropum saman við. Setjið ofan á tertuna og skreytið með berjum og eða ávöxtum. Dæmi: jarðarber, hindber, ástaraldin, bláber, kíwi, blæjuber, brómber og mangó.
Vá, hvað þetta er flott kaka og örugglega æðislega góð. Enn eitt sem ég verð að prófa hér af síðunni! Gaman líka að sjá mynd af flottu tvíburasystur minni 🙂
Sætan þín! og kakan var sjúúúúklega góð 🙂
Er að baka tertuna góðu kemur í ljós eftir 2 tíma eða svo hv..mun hafa tekist til..
Ég er spennt að heyra Lóa! 🙂
OMG hvad thetta er fullkomid hja ther Dröfn. Var ad gera pavlovu sem eg aetla ad bera fram a morgun. Hef ekki gert hana i mörg ar. Hvad tharf rjominn ad vera lengi a til ad bleyta upp marensinn, eda er thad kannski otharfi af thvi hun er adeins seigari en venjulegur marens?
KUTGW(keep up the good work)
Loa
Sæl er hægt að geyma kökuna bakaða á borði í 2-3daga.Er betra að setja rjóman á sama dag og hún er borðuð.Ef maður bakar litlar svona köku t.d. Eins og undirskál á stærð ,sem desert fyrir 8 manns, þarf maður að hafa sama bökunar tíma. Bestu kv Guðrún
Bakvísun: Pavlova í fínu formi | Eldhússögur
Bakvísun: Eftirréttir fyrir gamlárskvöld | Eldhússögur
Notaði þess uppskrift í afmæli dóttur minnar nema bætti við bleikum matarlit í pavlovað og rjómann + setti fullt af nammi í rjómann áður en ég setti á botninn, þemað hjá prinsessunni var bleikt 😉 Ótrúlega gott!
Gaman að heyra Hafdís, takk fyrir kveðjuna! 🙂
Tertan var mjög djúsí.allir sögðu nammi, namm.Dóttir mín svaka hrifin. Að vísu hef ég bakað pavlovu áður, en bökunartíminn allt öðruvísi .Þessi bökunat tími mjög góður. Takk fyrir.
Gott að heyra Lóa! 🙂
Snilldaruppskrift! Hef gert hana nokkru sinnum og hún er fullkomin í hvert skipti 🙂
Frábært Ólöf! 🙂
Sæl og takk fyrir góða uppskrift. Ég er búin að baka hana nokkrum sinnum og alltaf slær hún í gegn. En ég velti því fyrir mér hvort að mér sé óhætt að frysta marengsinn og geyma hann áður en ég set rjómann á?
Sæl Þuríður og takk fyrir góða kveðju! 🙂 Það er ekkert mál að frysta Pavlovu. Hún þarf að vera alveg köld, gott er að leggja eldhúspappír yfir hana (dregur í sig mögulegan vökva) og henni er svo pakkað vel inn í filmuplast. Þegar hún er afþýdd þarf hún að standa í minnst 2 tíma frammi við stofuhita áður en rjóminn er settur á.
þarf ekki undir og yfir hita eða má hún bakast á blæstri?
Ég hef notað undir- og yfirhita fyrir þessa uppskrift Herdís! Gangi þér vel! 🙂
Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur
Prófaði þessa á gamlársdag en því miður mistókst hún hjá mér- kannski vegna þess að eggin voru stór og pavlovan var ekki bökuð í gegn eftir tvo tímana- komst ekki að mistökunum fyrr en ég bar hana fram. En hún leit stórkostlega vel út- og rjómakremið var gott!! Gengur betur næst!!
En hvað það var leiðinlegt að heyra Valdís. Mér finnst samt mjög skrítið að botninn hafi ekki verið bakaður eftir svona langan tíma. Burtséð frá stærð eggjanna þá ætti þetta að vera nægur tími. Eðli Pavlovunnar er að hún er stökk að utan en mjög mjúk inni, svolítið „chewy“ og eiginlega svolítið eins og hún sé ekki bökuð í gegn. Var marengsinn kannski svoleiðis hjá þér?
Ef ég geri hana kvöldinu áður en ég ætlað nota hana er betra að setja rjómann strax og geyma inn í kæli? Ef ekki hvernig geymi ég pavlovuna?
Best er að geyma sjálfan botninn bara á eldhúsborðinu yfir nóttina og pakka honum vel inn í plast. Settu svo rjómann á sama dag og þú berð fram tertuna! 🙂
Þessi skoraði fullt hús stiga hjá afmælisgestum, enda ótrúlega ljúffeng!
Takk fyrir góða síðu sem ég nota ansi oft.
Hvaða Edik notar þú í þessa uppskrift?
Borðedik
Bakvísun: Pavlova | Binnubúr
Er í lagi að geyma hana í frysti ? Þarf að nýta eggjahvítur
Það er ekkert mál að frysta Pavlovu. Hún þarf að vera alveg köld, gott er að leggja eldhúspappír yfir hana (dregur í sig mögulegan vökva) og henni er svo pakkað vel inn í filmuplast. Þegar hún er afþýdd þarf hún að standa í minnst 2 tíma frammi við stofuhita áður en rjóminn er settur á.