Pavlova í formi með lakkrískurli og súkkulaðirúsínum


IMG_6151Gleðilega hátíð! 🙂 Þessi 17. júní var ansi blautur og hráslagalegur en á þjóðhátíðardaginn fyrir tveimur árum var ég nýfarin að blogga og þá skrifaði ég þessa færslu. Sá þjóðhátíðardagur var það hlýr og góður að við gátum borðað kvöldmatinn úti en sumarið 2012 var reyndar óvenju þurrt og hlýtt. Í kvöld voru sem sagt engar aðstæður til þess að grilla eða borða úti en samt sem áður snæddum við afar ljúffenga máltíð sem ég ætla að setja hér inn á bloggið sem allra fyrst.

Um síðustu helgi var matarboð hjá foreldrum mínum þar sem við systkinin lögðum til nokkra rétti. Ég tók að mér eftirréttinn eins og oft áður, mér finnst ofsalega gaman að búa til eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni prófaði ég mig áfram með Pavlovu í formi. Það er rosalega þægilegt að gera Pavlovu í eldföstu móti, bæði fljótlegt og einfalt. Að þessu sinni setti ég allskonar gúmmelaði saman við réttinn sem kom afar vel út. Ég átti kassa með súkkulaðirúsínum og salthnetum og sá í hendi mér að það færi vel út í rjómann. Hins vegar er litla frænka mín með bráðaofnæmi fyrir salthnetum þannig að ég notaði bara súkkulaðirúsínurnar að sinni en ætla að prófa að hafa líka salthneturnar næst. Uppskriftin er stór en það er ekkert mál að helminga hana og nota þá minna eldfast mót.

IMG_6149

IMG_6152

Uppskrift (f. 8 – 10)

  • 8 eggjahvítur
  • 400 gr sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk edik (t.d. borðedik eða hvítvínsedik)
  • 1 poki Nóa lakkrískurl (150 g)
  • 1/2 líter rjómi
  • 150 g Nóa og Siríus súkkulaðirúsínur
  • 1 pakki kókosbollur (4 stykki), skornar fremur smátt
  • 100 gr Siríus suðusúkkulaði + 1-2 msk rjómi eða mjólk
  • Ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, hindber, blæjuber, kíwi, vínber og ástaraldin

IMG_6125

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur stífþeyttar, sykri bætt smám saman út í ásamt ediki og salti. Að síðustu er lakkrískurlinu bætt út í. Marengsinn settur í eldfast mót (mótið sem ég notaði er ca. 35×25 cm.) og bakaður við 175 gráður í 30 mínútur, þá er lækkað niður í 135 gráður og bakað í 30 mínútur til vibótar. Eftir það er slökkt á ofninum og marengsinn látin kólna í ofninum, helst yfir nóttu, þó ekki nauðsyn. Rjóminn er þeyttur, Siríus súkkulaðirúsínum er því næst bætt út í ásamt kókosbollunum og rjómanum síðan smurt yfir marengsinn.

IMG_6129Skreytt með berjum og ávöxtum. Ég notaði jarðarber (2 box), bláber (1 box), blæjuber (1 box) og 2 ástaraldin. Að lokum er suðusúkkulaði brætt, mjólk eða rjóma blandað saman við til að þynna blönduna og súkkulaðinu dreift yfir berin og ávextina.

IMG_6135

IMG_6142IMG_6156

Pavlova


Ég bakaði Pavlovu í vikunni þegar Vilhjálmur hélt upp á 12 ára afmælið sitt. Á myndinni er ég einmitt að horfa inn um stofugluggann á forviða afmælisgesti sem skildu ekkert í af hverju ég skaust út í garð með tertuna áður en hún var borin á borð! 🙂 Ég nota Pavlovu uppskrift frá Jóa Fel sem mér finnst mjög góð, ég hef þó aukið við magnið af rjómanum í uppskriftinni. Tertan er stór þannig að það þarf að gera ráð fyrir stórum kökudisk. Þá kom sér vel nýi flotti kökudiskurinn frá Brynju!

Pavlova er ein af mínum uppáhaldstertum. Stökkur marengs sem er mjúkur í miðjunni og þakinn rjóma og berjum, gerist ekki betra!  Það er hægt að velja hvaða ber sem er á tertuna, mér finnst sérstaklega gott að nota ástaraldin og hindber. Ég var með að auki jarðarber á þessari tertu. Tertan er nefnd eftir Önnu Pavlovu, sem var þekkt rússnesk ballerína. Þegar hún heimsótti Ástralíu og Nýja Sjálandi á öðrum áratug síðustu aldar var þessi terta fundin upp þar henni til heiðurs (það var nú samt örugglega eins og að kasta perlum fyrir svín, ég get samt ekki ímyndað mér að ballerínur borði mikið af marengstertum! ). Það sem er frábrugðið við marengsinn í Pavlovunni er að í hann er sett edik. Hann gerir það að verkum að marengsinn helst mjúkur í miðjunni.

Uppskrift

Botn:
8 stk eggjahvítur
400 g sykur
1 1/2 tsk edik
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt

Rjómakrem:
4-5 dl rjómi
4 msk flórsykur
1/2 tsk vanilludropar

Fersk ber eða ávextir eftir smekk

Þeytið eggjahvítur og bætið sykri, ediki, salti og vanilludropum við. Þeytið þar til sykur er vel uppleystur og marengsinn er orðinn stífur. Smyrjið marengsinn út á smjörpappír 26 cm hring (verið óhrædd, marengsinn á að vera svona stór og hár) setjið á plötu og bakið við 100° í 2 klukkustundir. Slökkvið á ofninum og látið kólna í honum.

Þeytið rjóma og blandið flórsykri og vanilludropum saman við. Setjið ofan á tertuna og skreytið með berjum og eða ávöxtum. Dæmi: jarðarber, hindber, ástaraldin, bláber, kíwi, blæjuber, brómber og mangó.