Marengsterta með Freyju karamellurjóma og Hrískúlum


 

img_4119img_4113

Ég hef talað um það áður hér á blogginu, að þegar ég sé nýtt sælgæti á markaðnum, þá er ég alltaf spenntust fyrir því að finna því einhvern skemmtilegan farveg í uppskriftum. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá nýja Hrísið með Freyjukaramellubragði var að þessar súkkulaðikúlur myndu passa eins og hönd í hanska við gómsæta marengstertu. Mér datt síðan í hug að búa til karamellurjóma úr Freyju karamellum. … og herregud hvað þetta varð geggjaður rjómi!

Það munaði litlu að hann kæmist ekki á milli botnanna því ég þurfti ”aðeins” að smakka hann til dálítið of oft! 😉 Það væri örugglega geggjað að útbúa svona karamellurjóma og bera fram með berjum og ávöxtum eða með góðri súkkulaðiköku. Það er allavega næst á dagskrá hjá mér. Það er ekkert flókið að búa hann til, bara tvennt sem þarf að passa. Annars vegar að láta ekki rjómann sjóða og hins vegar að gefa honum góðan tíma til að kólna alveg. Það er því mjög hentugt að nota hann á marengstertu því það er einmitt terta sem maður bakar oftast daginn áður. Ég bakaði marengsbotnanna að kvöldi ásamt því að útbúa rjómann. Daginn eftir þeytti ég rjómann og setti saman tertuna, einfalt og fljótlegt. Ég tók hana með með í vikulega sunnudagskaffið hjá okkur fjölskyldunni og sló tertan í gegn. Þetta er terta sem verður sannarlega bökuð aftur og aftur!

img_4114

Uppskrift:

Marengs:
  • 300 g sykur
  • 6 eggjahvítur
  • 3 bollar Kornflex eða Rice krispies
  • 1 tsk lyftiduft

Rjómafylling:    hris

  • 5 dl rjómi
  • 150 g Freyju karamellur, klipptar í litla bita
  • 200 g Hrís með Freyjukaramellum
  • 250 g fersk jarðarber, skorin í bita

Súkkulaðikrem:

  • 6 eggjarauður
  • 6 msk flórsykur
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 50 g Freyjukaramellur, klipptar í litla bita
  • 1-2 msk rjómi eða mjólk
Marengs: Ofn hitaður í 140 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar ásamt lyftidufti og sykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Kornflexi eða Rice krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Karamellurjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu lækkað í meðalhita og karamellunum, sem búið er að klippa í minni bita, er bætt út rjómann. Þá er hrært þar til karamellurnar hafa bráðnað. Athugið að rjóminni má alls ekki sjóða! Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli, í minnst 4 tíma, eða þar til blandan er orðin alveg köld. Best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og loks er jarðaberjunum og hrískúlunum blandað varlega saman við með sleikju.img_4110

Súkkulaðikrem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Suðusúkkulaði og karamellur er sett í pott ásamt 1-2 msk af rjóma eða mjólk (eftir þörfum) og brætt við meðalhita. Þegar súkkulaðiblandan er bráðnuð er hún látin kólna dálítið og því næst bætt út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Ef súkkulaðiblandan er mjög þunn er hægt að setja hana í ísskáp í dálítla stund til þess að hún þykkni áður en henni er dreift yfir tertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum, hindberjum og blæjuberjum. img_4112img_4115

Kanilsnúða-rúlluterta


img_4120

Svíar eru svo miklir snillingar, halda upp á dag kanilsnúðarins í dag! Af hverju eigum við ekki svona skemmtilega daga hér á Íslandi? Ég elska kanilsnúða og bara allt bakkelsi með kanil. Ég sá þessari kanilsnúða rúllutertu bregða fyrir á nokkrum sænskum bloggum og gat ekki stillt mig um að prófa. Reyndar breytti ég uppskriftinni dálítið, skipti t.d. út hveiti fyrir kartöflumjöl því það gerir kökuna léttari. Kosturinn við rúllutertur eru að þær eru svo rosalega fljótlegar í bakstri, það tók mig innan við hálftíma að baka þessa. Vissulega eru þetta engir ”kanilsnúðar”, þótt rúllutertan sé kennd við kanilsnúða, heldur er það aðallega kanillinn sem minnir á snúðana góðu og svo fyllingin. En herre gud hvað þetta er hættulega góð kaka!! Kremið gæti ég borðað með skeið .. kannski gerði ég það, smá .. ekki dæma mig! 😉 Þetta er nýjasta uppáhalds ”my go to” kaka þegar ég þarf að búa til rosalega góða köku á stuttum tíma. Fram af þessu hefur það verið þessi kaka sem ég hef bakað vandræðalega oft! Það ætti ekki að koma á óvart að sú kaka heitir líka ”kanilsnúða” eitthvað þó engir kanilsnúðar komi við sögu … ég bara elska kökur sem innihalda kanil! 🙂

img_4125

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 dl sykur
  • 0,5 dl mjólk
  • 1 dl hveiti
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk vanillusykur
  • 2 tsk kanill
  • Fylling
  • 150 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk kanill
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 dl flórsykur
  •  + perlusykur og/eða sykur

Ofn stilltur á 250 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Kartöflumjöli, hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil er blandað saman og bætt varlega út í, ásamt mjólkinni, með sleikju. Því næst er deiginu helt á ofnplötu, klædda bökunarpappír, og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á sykurstráðan bökunarpappír.

Hráefnum í fyllinguna er þeytt saman í ca. 2-4 mínútur. Fyllingunni er því næst dreift yfir kaldan botninn og kökunni rúllað upp á lengdina með hjálp bökunarpappírsins.

img_4130

 

Þorskhnakkar í karrísósu með lauk og eplum


img_4086-1

Karrí er krydd sem ég held mikið upp á. Um daginn keypti ég svo fallega þorskhnakka og ákvað að búa til góða karrísósu með fisknum. Mér datt í hug að bæta líka við eplum og lauk enda fer það einstaklega vel með karrí. Úr varð ofsalega góður fiskréttur sem ég get ekki beðið eftir að búa til aftur. Þennan verðið þið að prófa! 🙂

img_4099

Uppskrift:

  • 800 g þorskhnakkar eða annar hvítur fiskur
  • 3 msk hveiti
  • 1 1/2 tsk karrí
  • salt og pipar
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 1 stórt eða 2 lítil græn epli, rifinn gróft
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
  • 1 msk karrí
  • 3 dl matreiðslurjómi

hveiti, karrí, salti og pipar hrært saman. Fiskurinn skorinn í hæfilega bita og þeim velt vel upp úr blöndunni. Fiskurinn er steiktur stutt á báðum hliðum, upp úr smjöri og olíu, þar til hann hefur náð smá lit. Þá er hann veiddur af pönnunni og lagður til hliðar. Smjöri bætt á pönnuna við þörfum og laukur steiktur. Þegar hann hefur mýkst er eplum bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund. Þá er rjóma, karrí og kjúklingakrafti bætt út á pönnuna. Sósan er gjarnan smökkuð til með meira karrí, salti og pipar. Því næst er fiskurinn lagður ofan í sósuna og lok sett á pönnuna. Látið malla á meðalhita í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer eftir þykkt fisksins). Borið fram með hrísgrjónum og salati.

img_4091img_4092