Karrí er krydd sem ég held mikið upp á. Um daginn keypti ég svo fallega þorskhnakka og ákvað að búa til góða karrísósu með fisknum. Mér datt í hug að bæta líka við eplum og lauk enda fer það einstaklega vel með karrí. Úr varð ofsalega góður fiskréttur sem ég get ekki beðið eftir að búa til aftur. Þennan verðið þið að prófa! 🙂
Uppskrift:
- 800 g þorskhnakkar eða annar hvítur fiskur
- 3 msk hveiti
- 1 1/2 tsk karrí
- salt og pipar
- olía og/eða smjör til steikingar
- 1 stórt eða 2 lítil græn epli, rifinn gróft
- 1 laukur, saxaður smátt
- 1 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
- 1 msk karrí
- 3 dl matreiðslurjómi
hveiti, karrí, salti og pipar hrært saman. Fiskurinn skorinn í hæfilega bita og þeim velt vel upp úr blöndunni. Fiskurinn er steiktur stutt á báðum hliðum, upp úr smjöri og olíu, þar til hann hefur náð smá lit. Þá er hann veiddur af pönnunni og lagður til hliðar. Smjöri bætt á pönnuna við þörfum og laukur steiktur. Þegar hann hefur mýkst er eplum bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund. Þá er rjóma, karrí og kjúklingakrafti bætt út á pönnuna. Sósan er gjarnan smökkuð til með meira karrí, salti og pipar. Því næst er fiskurinn lagður ofan í sósuna og lok sett á pönnuna. Látið malla á meðalhita í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer eftir þykkt fisksins). Borið fram með hrísgrjónum og salati.