Þorskhnakkar í karrísósu með lauk og eplum


img_4086-1

Karrí er krydd sem ég held mikið upp á. Um daginn keypti ég svo fallega þorskhnakka og ákvað að búa til góða karrísósu með fisknum. Mér datt í hug að bæta líka við eplum og lauk enda fer það einstaklega vel með karrí. Úr varð ofsalega góður fiskréttur sem ég get ekki beðið eftir að búa til aftur. Þennan verðið þið að prófa! 🙂

img_4099

Uppskrift:

  • 800 g þorskhnakkar eða annar hvítur fiskur
  • 3 msk hveiti
  • 1 1/2 tsk karrí
  • salt og pipar
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 1 stórt eða 2 lítil græn epli, rifinn gróft
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
  • 1 msk karrí
  • 3 dl matreiðslurjómi

hveiti, karrí, salti og pipar hrært saman. Fiskurinn skorinn í hæfilega bita og þeim velt vel upp úr blöndunni. Fiskurinn er steiktur stutt á báðum hliðum, upp úr smjöri og olíu, þar til hann hefur náð smá lit. Þá er hann veiddur af pönnunni og lagður til hliðar. Smjöri bætt á pönnuna við þörfum og laukur steiktur. Þegar hann hefur mýkst er eplum bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund. Þá er rjóma, karrí og kjúklingakrafti bætt út á pönnuna. Sósan er gjarnan smökkuð til með meira karrí, salti og pipar. Því næst er fiskurinn lagður ofan í sósuna og lok sett á pönnuna. Látið malla á meðalhita í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn (fer eftir þykkt fisksins). Borið fram með hrísgrjónum og salati.

img_4091img_4092

Steikur fiskur með grænmeti og sýrðum rjóma með graslauk


Steiktur fiskur með grænmeti og sýrðum rjóma með graslauk

Í dag er Valborgarmessukvöld haldin hátíðleg í Svíþjóð. Í raun er Valborgarmessan 1. maí, þá var abbadísin Valborg tekin í heilagra manna tölu. Svíarnir kalla hinsvegar kvöldið fyrir 1. maí Valborgsmässoafton. Kvöldið í kvöld snýst þó ekki lengur um heilögu Valborgu heldur er þetta nokkurs konar vorfagnaður Svía. Þá hittast vinir gjarnan og snæða saman kvöldverð. Seinna um kvöldið eru svo brennur hér og þar og þangað flykkjast bæði fullorðnir og börn, þeir fyrrnefndu gjarnan með bjór í hönd! Þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi hittum við oftast vini okkar í hverfinu sem við bjuggum í á þessu kvöldi, snæddum með þeim í heimahúsi eða á einhverjum veitingastað í hverfinu okkar og fórum svo saman á brennu. Mér er því hugsað sérstaklega mikið til vina okkar í Frösunda í kvöld.

Hér á Íslandi var engin sérstakur fagnaður í kvöld en hins vegar útbjó ég einn af mínum uppáhalds fiskréttum. Það er þó varla hægt að gefa uppskrift af þessum rétti, meira svona leiðbeiningar! En ég hvet alla sem hrifnir eru af steiktum fiski að prófa þessa útgáfu. Það er ekki verra að þetta er ákaflega einfaldur matur að útbúa enda næstum því keyptur tilbúinn! Ég hef ekki enn fundið rafhlöðuna í stóru vélina mína né gefið mér tíma til að kaupa nýja rafhlöðu. Þessar myndir eru því teknar með Canon Powershot vél. Ég er eiginlega steinhissa á því hvað þessi myndavél tekur góðar myndir, miðað við að þetta er bara lítil automat vél, þó mér finnist ég algjörlega handlama að vera ekki með stóru myndavélina mína. Stellið fallega er úr Cup Company, þessi rauði diskur heitir Fay Red, ótrúlega gaman að borða af svona fallegum diski!

Fiskurinn:

Ég kaupi fiskinn í Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni. Þeir selja fisk í einstaklega góðum raspi sem er mjög vel kryddaður og bragðgóður. Galdurinn er hins vegar að biðja um þorsk í raspi. Þeir eru svo liðlegir hjá Hólmgeiri að þeir setja hvaða fisk sem er í rasp fyrir mann. Stundum hef ég líka látið þá setja Löngu eða Blálöngu fyrir mig í rasp, það er ákaflega góður fiskur líka. Í kvöld var ég með þorsk, sjáið hvað hann er þykkur og girnilegur!

IMG_9299

Sósan:

Sýrður rjómi með graslauk og lauk. Þetta er ákaflega fersk og góð sósa og passar afar vel með steiktum fiski.

IMG_9310

Grænmetið:

Sveppir, laukur og rauð paprika er steikt upp úr smjöri, saltað og piprað. Passar einstaklega vel með steiktum fiski.

IMG_9287

Annað meðlæti:

Kartöflur og ferskt salat.

Þetta getur varla orðið einfaldara eða betra! 🙂

IMG_9289

Pönnusteiktur parmesanþorskur með tómatrisotto


IMG_8505Eftir ótrúlega mildan vetur gerði veturkonungur vart við sig í dag. Þá er afskaplega ljúft að þurfa bara ganga 190 metra í vinnuna og þurfa ekkert að hreyfa bílinn! 🙂 Ekki er síðra að vinna í sama skóla og börnin ganga í og þurfa því ekki að hafa áhyggjur af þeim til og frá skóla. Þegar ég og börnin komu heim í dag nutum við þess að vera inni í veðrinu, lágum undir teppi, lásum og höfðum það notalegt. Í kvöldmat eldaði ég frábærlega góðan þorsk sem Elfar sótti úr Fiskbúð Hólmgeirs á leiðinni heim úr vinnunni. Með þorsknum hafði ég tómatrisotto. Ég minnist þess varla að hafa nokkurn tímann eldað risotto áður. Mér finnst risotto gott en ég hef tekið það í mig að það sé afar flókið að elda risotto rétt, slíkt sé ekki á hvers manns færi! Ég afsannaði það nú á það í kvöld, risottóið var nú barasta mjög vel heppnað þrátt fyrir reynsluleysi mitt! 🙂 Við hjónin ákváðum að blása á hversdaginn, kveiktum á kertum og fengum okkur sitt hvort hvítvínsglasið með fisknum! Mikið var það nú gott! 🙂 Mér finnst smá hvítvínsdreitill gera svo mikið fyrir góða fiskrétti.

Uppskrift f. ca 4:

  • 600 g hvítur fiskur, ég notaði þorsk
  • 2 dl hveiti
  • 2 egg
  • 4 dl parmesan, fínrifinn
  • salt og pipar

Tómatrisotto

  • 250 g kokteiltómatar
  • 2 skarlottulaukar eða 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 msk smjör
  • 2 dl risotto
  • 1 dl hvítvín
  • 2 dl tómatsafi (ég nota „passerade tomater“ sem eru í fernu)
  • 5 dl vatn
  • 2 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
  • 25 g smjör
  • 2 dl parmesanostur, rifinn

Kokteiltómatar eru settir í mjög stutta stund í sjóðandi vatn þar til hýðið losnar. Þá eru tómatarniar teknir upp úr, kældir undir köldu vatni, hýðið tekið af þeim og þeir skornir í tvennt og geymdir. Laukur og hvítlaukur eru saxaðir fínt og steikt í meðalstórum potti i stutta stund. Þá er risotto bætt út í ásamt hvítvíni og soðið niður í ca. 3 mínútur á fremur háum hita. Því næst er tómatsafanum bætt út í, hrært vel í blöndunni og hitinn lækkaður. Vatnið er soðið og blandað vel saman við kjúklingakraftinn. Nú er risottið soðið í ca. 18 mínútur við meðalhita og kjúklingsoði reglulega hellt út í, ca. 1 dl í hvert sinn. Það þarf að hræra í risottoinu mjög vel og reglulega. Í lokinn er 2 dl af parmesanosti bætt út í ásamt smjöri og kokteiltómötunum. Á meðan risottið er sýður er fiskurinn útbúinn (ekki gleyma samt að hræra oft í risottoinu á meðan!). Fiskurinn er skorinn í meðalstóra bita. Hveiti, salti (ég notaði lítið salt þar sem parmesanosturinn er saltur) og pipar blandað saman á einn disk, eggjum vispað létt saman með gaffli á öðrum disk og rifinn parmesan ostur settur á þann þriðja. Fisknum er fyrst velt upp úr hveiti, þá eggjum og svo parmesan osti. Fiskurinn er svo steiktur upp úr góðri klípu af smjöri á pönnu, á báðum hliðum, þar til hann er steiktur í gegn. Borið saman með tómatrisotto og góðu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_8509