Steikur fiskur með grænmeti og sýrðum rjóma með graslauk


Steiktur fiskur með grænmeti og sýrðum rjóma með graslauk

Í dag er Valborgarmessukvöld haldin hátíðleg í Svíþjóð. Í raun er Valborgarmessan 1. maí, þá var abbadísin Valborg tekin í heilagra manna tölu. Svíarnir kalla hinsvegar kvöldið fyrir 1. maí Valborgsmässoafton. Kvöldið í kvöld snýst þó ekki lengur um heilögu Valborgu heldur er þetta nokkurs konar vorfagnaður Svía. Þá hittast vinir gjarnan og snæða saman kvöldverð. Seinna um kvöldið eru svo brennur hér og þar og þangað flykkjast bæði fullorðnir og börn, þeir fyrrnefndu gjarnan með bjór í hönd! Þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi hittum við oftast vini okkar í hverfinu sem við bjuggum í á þessu kvöldi, snæddum með þeim í heimahúsi eða á einhverjum veitingastað í hverfinu okkar og fórum svo saman á brennu. Mér er því hugsað sérstaklega mikið til vina okkar í Frösunda í kvöld.

Hér á Íslandi var engin sérstakur fagnaður í kvöld en hins vegar útbjó ég einn af mínum uppáhalds fiskréttum. Það er þó varla hægt að gefa uppskrift af þessum rétti, meira svona leiðbeiningar! En ég hvet alla sem hrifnir eru af steiktum fiski að prófa þessa útgáfu. Það er ekki verra að þetta er ákaflega einfaldur matur að útbúa enda næstum því keyptur tilbúinn! Ég hef ekki enn fundið rafhlöðuna í stóru vélina mína né gefið mér tíma til að kaupa nýja rafhlöðu. Þessar myndir eru því teknar með Canon Powershot vél. Ég er eiginlega steinhissa á því hvað þessi myndavél tekur góðar myndir, miðað við að þetta er bara lítil automat vél, þó mér finnist ég algjörlega handlama að vera ekki með stóru myndavélina mína. Stellið fallega er úr Cup Company, þessi rauði diskur heitir Fay Red, ótrúlega gaman að borða af svona fallegum diski!

Fiskurinn:

Ég kaupi fiskinn í Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni. Þeir selja fisk í einstaklega góðum raspi sem er mjög vel kryddaður og bragðgóður. Galdurinn er hins vegar að biðja um þorsk í raspi. Þeir eru svo liðlegir hjá Hólmgeiri að þeir setja hvaða fisk sem er í rasp fyrir mann. Stundum hef ég líka látið þá setja Löngu eða Blálöngu fyrir mig í rasp, það er ákaflega góður fiskur líka. Í kvöld var ég með þorsk, sjáið hvað hann er þykkur og girnilegur!

IMG_9299

Sósan:

Sýrður rjómi með graslauk og lauk. Þetta er ákaflega fersk og góð sósa og passar afar vel með steiktum fiski.

IMG_9310

Grænmetið:

Sveppir, laukur og rauð paprika er steikt upp úr smjöri, saltað og piprað. Passar einstaklega vel með steiktum fiski.

IMG_9287

Annað meðlæti:

Kartöflur og ferskt salat.

Þetta getur varla orðið einfaldara eða betra! 🙂

IMG_9289