Dumle ostakaka


 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! 🙂
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111

Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði


Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði

Ég er ekki mikið fyrir ís en þessi ís finnst mér dásamlega góður, börnin mín eru sannarlega sammála mér, sérstaklega Vilhjálmur minn sem elskar marsípan og ís – hvað þá þegar þetta tvennt kemur saman! Það er líka svo hátíðlegt að nota marsípan í ís, hann verður sannkallaður jólaís fyrir vikið! Ég nota alltaf ferskar vanillustangir í heimalagaðan ís, mér finnst það svo mikið betra en að nota vanilludropana enda eru þeir tilkomnir frá því að við höfðum ekki aðgang að ferskum vanillustöngum. Oftast er ekki einu sinni ekta vanilla í vanilludropum þannig að ég hvet ykkur til að nota vanillustangirnar. Það er ekkert mál að kljúfa þær með hníf og skafa svo fræin úr báðum helmingunum með beittum hníf. Þessi ís er fljótgerður og mér finnst hann fullkominn sem jólaís! 🙂

IMG_8390

Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 4 eggjarauður
  • 60 g sykur
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 100 g Odense marsípan, skorið í litla bita (gott að skera það hálffrosið)
  • 100 g Daimkúlur (1 poki)

IMG_8393

Léttþeytið rjómann. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og loftmikil. Bætið léttþeyttum rjóma, vanillufræum, marsípani og daim kúlum út í. Hellið blöndunni í ísform eða t.d. 22 cm hringlaga smelluform og frystið. Gott er að bera ísinn fram með heitri súkkulaðisósu (hér á myndinni bætti ég um enn betur og notaði Dumle go nuts sósu, þ.e. súkkulaði, karamellu og hnetur – uppskrift er að finna hér.)

IMG_8429

Ris a la mande ostakaka með kirsuberjasósu


Ris a la mande ostakaka með hindberjasósu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og margt um að vera. Ofan á allt, sem uppteknar húsmæður eru að sýsla við á aðventunni, hélt ég loksins upp á afmælið hennar Jóhönnu fyrir stelpurnar í bekknum. Þetta voru orðin síðustu forvöð, barnið á afmæli snemma að hausti og nú eru að koma áramót! Ástæðan fyrir þessari frestun var að hún vildi halda upp á afmælið með bestu vinkonunni sem á afmæli í desember. Eins eru stelpurnar í árganginum (samkennsla) 28 stykki og varla framkvæmanlegt annað en að vera tvær saman ef halda á afmælið á einhverjum stað. Stelpurnar vildu hafa afmælið í Lazer tag og þá er innifalin pizza. En þær vildu að auki hafa yfirvaraskeggjaþema (!) og við mæðurnar vildum hafa þetta sem allra einfaldast. Við leituðum því á náðir Önnu konditori sem hristi fram úr erminni rosa flottri yfirvaraskeggja-tertu! 🙂 Afar þægileg leið til að halda upp á afmælið, stelpurnar alsælar og við mæðurnar ekki síður sælar að þurfa varla að gera nokkuð.

IMG_8297

Tuttugu (2×10 ára) yfirvaraskeggja kerti í stíl! 🙂

IMG_8289

Diskarnir og servíettur að sjálfsögðu í stíl líka.

En að öðru, hátíðareftirréttum! Ég sá mynd um daginn frá dönsku heimasíðu Philadelphia ostsins sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Þetta var Ris a la mande ostakaka – svo ákaflega girnileg. Ég gat ekki ímyndað mér annað en þessi blanda væri dásamlega góð. Ég elska jú bakaðar ostakökur og finnst Ris a la mande afskaplega góður eftirréttur. Að auki var í uppskriftinni bæði marsípan og hvítt súkkulaði, þetta gat nú varla klikkað. Ég ákvað að prófa að búa til þessa ljúffengu ostaköku og maður minn hvað hún er góð! 🙂 Frábærlega skemmtilegt líka að hafa marsípan í botninum, það er eitthvað sem ég ætla að prófa á fleiri tegundum ostakaka.

IMG_8338IMG_8360

Ég gat auðvitað ekki annað en breytt aðeins uppskriftinni. Til dæmis bætti ég við kanil í kökuna. Ég veit að það er ekki hefðbundið fyrir Ris a la mande en mér finnst kanill bara svo góður og hann smellpassar við kökuna. En hún verður aðeins dekkri fyrir vikið. Eins setti ég matarlím í kirsuberjakremið en það var ekki í upprunalegu uppskriftinni. En þessi kaka er sérdeilis hátíðleg, bæði í útliti og á bragðið, og passar því einstaklega vel sem eftirréttur um jólin eða áramótin. Ekki spillir fyrir að hana er hægt að útbúa með 1-2 daga fyrirvara.

IMG_8356 IMG_8347

Uppskrift:

Botn:

  • ca. 20 Lu Digestive kex (300 g)
  • 100 g smjör
  • 140 g Odense marsípan

Ostakremið:

  • 300 g tilbúinn kaldur hrísgrjónagrautur (ég bjó hann til úr grautarhrísgrjónum)
  • 600 g Philadelphia Orginal
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 120 g möndlur án hýðis

Ofan á kökuna:

  • 1 ferna kirsuberjasósa (500 ml)
  • 2 msk portvín (má sleppa)
  • 1 msk flórsykur
  • 2 blöð matarlím
  • 100 g hvítt Toblerone (má sleppa)

Ofn stilltur á 160 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt smelluform (ca. 24 cm), gjarnan klætt bökunarpappír og blöndunni þrýst ofan í botninn. Botninn bakaður í 5 mínútur og látin kólna. Marsípanið skorið þunnt og því dreift yfir kaldan kexbotninn.

IMG_8340

Möndlur grófsaxaðar og þær þurrristaðar á pönnu þar til þær hafa fengið góðan lit og þær svo kældar. Rjómaostur og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt á milli en þó ekki mjög lengi. Hrísgrjónagrautnum smátt og smátt bætt út í og þeytt á meðan. Vanillusykri, kanil og möndlum er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Blöndunni hellt yfir kex/marsípan botninn og bakað við 160 gráður í 45 -50 mínútur. Gott er að slökkva þá á ofninum og leyfa kökunni að standa í ofninum í 45 mínútur í viðbót á meðan ofninn kólnar.

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í um það bil 5 mínútur. Á meðan er kirsuberjasósan sett í pott ásamt flórsykri og portvíni og allt látið að malla í smá stund. Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk er mesta vatnið kreyst úr þeim og þeim bætt út í sósuna. Potturinn er tekinn af hellinni og hrært vel þar til matarlímið hefur leyst upp. Kirsuberjasósunni er að síðustu hellt yfir kalda ostakökuna (sem er enn í forminu) og sett inn í ísskáp í minnst 6 tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Áður en kakan er borin fram er gott að saxa niður hvítt Toblerone og setja ofan á kökuna.

IMG_8380

Stellið fallega er úr Green gate frá Cup Company.

IMG_8368

Salthnetuterta með Dumle karamellukremi‏


Salthnetuterta með Dumle karamellukremi Ég verð að deila með ykkur uppskrift að svo dásamlega góðri tertu. Ég fór með hana í stórt fjölskylduboð um daginn og þar var fólk hreinlega að missa sig yfir þessar tertu. Ég er að baka hana aftur núna í kvöld og ætla að fara með hana á kökuhlaðborð í skóla barnanna á morgun. Ég er meira að segja að hugsa um að baka hana aftur fyrir aðventuboð á sunnudaginn. Ég náði nefnilega bara að smakka örlítinn bita af þessari ljúffengu tertu í boðinu um daginn og er búin að dreyma um að baka hana aftur við fyrsta tækifæri. Ég held að ég geti fullyrt að þessi tertuuppskrift sé alveg skotheld! 🙂 IMG_8083 Uppskrift:

  • 4 eggjahvítur (lítil egg)
  •  3 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 160 g Ültje salthnetur
  • 80 g Ritz kex

Dumle krem:

  • 60 g smjör
  • 1 poki dökkt Dumle (110 g) eða orginal
  • 4 eggjarauður

Ofan á kökuna:

  • 3 dl rjómi
  • 40 g Ültje salthnetur, saxaðar gróft
  • nokkrir Dumle molar, skornir eða klipptir í þrennt.

IMG_8072

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Salthnetur og Ritzkex mulið smátt í matvinnsluvél og bætt út í marengsinn með sleikju ásamt vanillusykri og lyftidufti. Deiginu er hellt í 24 cm smellu- eða silíkonform. Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 25-30 mínútur.

Smjör er sett í pott og brætt við meðalháan hita. Dumle molum er bætt út í og allt látið bráðna, kælt lítillega. Eggjarauður eru þeyttar ljósar og léttar og bræddu Dumleblöndunni bætt út í. Kakan er sett á kökudisk og Dumlekreminu dreift yfir kökuna. Að lokum er rjóminn þeyttur og honum dreift yfir kökuna. Skreytt með gróft söxuðum salthnetum og niðurskornum Dumle karamellum. Salthnetuterta með Dumle karamellukremiIMG_8084

Hafradraumur með súkkulaði og döðlum


Hafradraumur með döðlum og súkkulaði1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! 🙂 Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.

Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! 🙂 Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra. IMG_8039

Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)

  • 
230 g smjör, við stofuhita
  • 
200 g púðursykur
  • 
60 g sykur
  • 
2 egg
  • 
2 tsk vanillusykur
  • 
220 g hveiti
  • 
1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 
270 g haframjöl
  • 200 g döðlur, saxaðar smátt
  • 150 g suðusúkkulaðidropar

Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír.  Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð. 
IMG_8037

IMG_8033