Hvítar sörur


IMG_4290

Ég geri alltaf hefbundnar sörur fyrir jólin en get alveg staðist freistinguna að eiga þær í frysti. Þessar hvítu sörur gerði ég hins vegar í fyrsta sinn í fyrra og þær get ég engan veginn staðist! Uppskriftin kemur frá Jóa Fel og þær eru algjört sælgæti. Ef ég þyrfti að velja bara eina tegund til að gera fyrir jól þá yrðu þessar himnesku sörur fyrir valinu. Ég gaf afa box með svona sörum og hann var alveg vitlaus í þær, sagði að þetta væru bestu smákökur sem hann hefði smakkað á níutíu ára ævi sinni, ekki slæmur dómur það! 🙂

IMG_4291

IMG_4298

Botn:

  • 9 stk. eggjahvítur
  • 85 g sykur
  • 430 g flórsykur
  • 515 g möndlur

Ofn hitaður í 180 gráður. Eggjahvítur þeyttar og sykur sett rólega útí, stífþeytt. Möndlur maukaðar mjög smátt í matvinnsluvél, flórsykrinum blandað saman við. Þessu er síðan blandað varlega saman við stífþeytta marengsinn með sleikju. Sprautað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ca. 12 mínútur við 180 gráður. Kælt áður en kremið er sett á.

Krem:

  • 240 g sykur
  • 200 ml vatn
  • 8 stk. eggjarauður
  • 180 g hvítir súkkulaðidropar
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1.5 tsk vanilludropar

Hjúpur:

  • Hvítir súkkulaðidropar

Sykur og vatn sett í pott og htiað upp í 116 gráður eða þar til sírópið fer aðeins að þykkna. Eggjarauður þeyttar til hálfs og þá er sírópinu hellt mjög varlega út í rauðurnar í mjórri bunu á meðan þeytingin er á miðlungshraða. Því næst er aukið við hraðann og þeytt í ca. 3-4 mínútur. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Á meðan er smjör (við stofuhita) bætt út í þeytinguna (best er að nota hendur) og síðan er súkkulaði og vanillu bætt út í. Hrært þar til myndast gott smjörkrem). Best er að nota hendur en það er hægt að nota spaðann á hrærivélinni og vinna rólega. Kreminu er sprautað á, eða því smurt, á botnana. Þá eru þær kældar í frysti í ca. 20 mínútur. Hvítt súkkulaði fyrir hjúpinn er brætt og sörunum (kremhliðinni) er dýft ofan í hjúpinn. Best er að geyma sörurnar í frysti og bera fram kaldar.

IMG_4294

 

 

Hægelduð nautalund


img_7387img_8178

Ljúfir jóladagar eru liðnir sem voru dálítið sérstakir fyrir þær sakir að þetta voru fyrstu jól okkar fjölskyldunnar í nýja húsinu. Það er ólíkt rúmbetra heldur en gamla húsið okkar en það hús var hins vegar alltaf ákaflega notalegt þrátt fyrir smæðina. Við erum afar ánægð með að hafa tekist að gera þetta stóra hús ekki síður heimilislegt og það var gott að vera hér um jólin og geta til dæmis haldið 20 manna jólaboð án nokkurra vandkvæða.

fullsizerender

Árið 2016 var viðburðarríkt og einkenndist af miklum framkvæmdum og flutningum. Þessa dagana erum við oft að rifja upp þegar við fjölskyldan, á gamlárskvöldi í fyrra, skutumst upp í hús rétt fyrir miðnætti. Við klofuðum yfir spýtur og verkfæri til þess að komast upp á efstu hæð og horfa á útsýnið út úr nýja húsinu á miðnætti.

fullsizerender-2

Þá var búið að rífa bókstaflega allt út úr húsinu og meira að segja saga úr stóran hluta af útveggjunum þannig að það var erfitt að ímynda sér að þetta yrði nokkurn tímann notalegt heimili. Það er því alltaf jafn skemmtilegt og í raun ótrúlegt að virða fyrir sér breytingarnar.

eldhusfrastofuimg_2181IMG_0825img_2179IMG_0820img_2177img_3459img_3460img_3461img_3462img_4785img_4907

img_5019

img_2186

En nú er gamlárskvöld að renna upp og ekki seinna vænna að víkja að matseldinni. Venjulega höfum við kalkún í matinn á gamlárskvöld en ég er farin að kaupa kalkúnabringur í stað þess að hafa heilan kalkún. Kalkúnabringurnar hægelda ég, geri góða sósu og allskonar gómsætt meðlæti. Að þessu sinni var ég hins vegar með kalkúnabringur í jólaboði á annan í jólum og við erum enn að borða afgangana. Við ákváðum því að breyta til fyrir gamlárskvöld og hafa eitthvað sem er líka í miklu eftirlæti hjá okkur, hægeldaða nautalund. Fyrir nokkru rakst ég á frábæra uppskrift frá Ragnari Frey, lækninum í eldhúsinu, sem ég styð mig við og síðan þá hefur nautalundin hjá mér alltaf heppnast fullkomlega. Ragnar Freyr er mikið að nota sous vide hægeldun en til þess þarf sérstakar græjur. Ég er alls ekki mikil græjumanneskja í eldhúsinu og var því afar glöð þegar ég sá að Ragnar benti á aðra frábærlega einfalda aðferð sem hægt væri að nota til þess að ná fram sömu hægelduninni. Og ég segi það og skrifa, þessi aðferð er algjörlega skotheld, nautalundinn verður fullkomlega elduð á þennan hátt! Sumir hafa áhyggjur af því að plastið fari inn í ofn. Ragnar Freyr, sem bæði er læknir og snillingur í eldhúsinu, fullyrðir það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því þar sem það hvarfast engin efni úr plastinu við 60 gráðu hita. Með þessari lungamjúku og hægelduðu nautalund er gott að bera fram góðar kartöflur, t.d. kartöflugratín eða Hasselback kartöflur. Ég prófaði um daginn að gera Hasselback kartöflur úr sætkartöflum og mæli algjörlega með því.

IMG_2328 img_7304

Mér finnst bearnaise-sósa ómissandi með nautalundinni og er með góða uppskrift að henni hér. Ég skal hins vegar líka benda ykkur á frábæra og einfalda leið til þess að verða ykkur út um góða bearnaise-sósu til að einfalda lífið. Bestu tilbúnu bernaisesósurnar fást hjá Hamborgarabúllunni og í Seljakjör á Seljabraut (sósa sem þau búa til sjálf), mæli með þeim! 🙂

Hægelduð nautalund (f. ca. 4)

  • 1 kíló nautalund
  • 1-2 msk smjör
  • 1 msk ólífuolía
  • salt & nýmalaður svartur pipar
  • plastfilma

Ef nautalundin er frosin þá er hún látið þiðna í ísskáp í einn til tvo sólarhringa. Nokkrum tímum áður en kjötið er eldað er það tekið úr ísskáp, snyrt við þörfum og látið ná stofuhita. Bakarofn hitaður í 60 gráður við undir- og yfirhita.  1 msk ólífuolía og 1 msk smjör er sett á pönnu og látið hitna vel. Þá er kjötið kryddað með pipar og steikt við háan hita í ca. 2 mínútur á öllum hliðum. Því næst er það látið kólna í um það bil 5-10 mínútur. Bakarofn hitaður í 60 gráður við undir- og yfirhita. Nú er kjötinu vafið þétt inn í plastfilmu nokkra vafninga. Kjötmæli er stungið í kjötið (í gegnum plastið) og það sett inn í 60 gráðu heitan ofn í um það bil 3 ½ – 4 tíma eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 60 gráðum. Þá er það tekið út úr ofninum, plastið tekið af og kjötið steikt örstutta stund upp úr smjöri og ólífuolíu á heitri pönnu á öllum hliðum, kryddað með salti og meiri pipar ef með þarf. Að lokum er kjötið látið hvíla undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið niður. Óhætt er að láta kjötið bíða upp undir klukkustund undir álpappír og handklæði/viskastykki.

img_8165img_8171img_8172

Rocky road súkkulaðismákökur


img_4254

Þá er aðventan gengin í garð, nokkrum hefðbundunum aðventuverkum lokið og fleiri í bígerð. Í síðstu viku átti ég frábæra stund með skemmtilegu fólki þegar við vinkonurnar fórum í árlega kransagerð þar sem ég bjó til bæði hurðarkrans og aðventukrans.

img_4285

Sem betur fer er Fríða æskuvinkona mín blómaskreytir og getur leiðbeint mér í kransagerðinni því föndur er ekki mín sterka hlið. Ég get til dæmis aldrei munað hvernig vefja á þennan blessaða krans og þarf að fá hjálp frá Fríðu á hverju einasta ári! 🙂

img_4284

 

Ég er aðeins sterkari á svellinu í eldhúsinu og nú þegar eru komnar tvær sortir inn í frysti. Ég gerði tæpar 400 sörur með mömmu og Ingu frænku. Auk þess gerði ég um helgina hvítar sörur í fyrsta sinn, sem mér finnst hrikalega góðar. Þar með er upptalið það sem ég ætla að eiga tilbúið í kökuboxum fyrir jólin, allt annað má borða strax. Ég þurfti ekki að segja fjölskyldunni það tvisvar þegar ég bakaði þessar kökur eitt kvöldið í síðustu viku. Kökurnar runnu ljúflega niður með mjólkurglasi og kláruðust allar sama kvöld! 🙂 En smákökur eru líka bestar nýbakaðar og um jólin er maður hvort sem er alltaf að borða, það er algjör óþarfi að bæta á sig smákökum þá! 🙂 Þessar kökur eru svo hrikalega góðar, seigar og djúsí súkkulaðikökur með stökkum salthnetum, karamellum og seigum sykurpúðum, dúndurblanda og algjört nammi!

img_4245

Uppskrift: 

  • 350 g suðusúkkulaði
  • 40 g smjör
  • 2 egg
  • 150 g sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 35 g hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • ca. 40 st litlir sykurpúðar (fást m.a. í Söstrene Grene)
  • ca. 60 g karamellukurl, hjúpað (Nói Siríus)
  • ca. 1 dl salthnetur
Suðusúkkulaði og smjör brætt í potti við vægan hita og leyft að kólna aðeins. Egg, sykur og vanillusykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er hveiti og lyftidufti bætt út í og síðustu er brædda súkkulaðinu og smjörinu bætt varlega saman við deigið. Deigið er kælt í ísskáp í um það bil 30 mínútur.
Ofn hitaður í 175 gráður við undir-yfirhita. Bökunarplata er klædd bökunar pappír og deigið er sett í litlar hrúgur á pappírinn með tveimur teskeiðum og flatt örlítið út með blautum fingurgómum ef með þarf. Þá er sett dálítið af salthnetum og karamellukurli á hverja köku ásamt 2-3 litlum sykurpúðum. Bakað í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur. Kökurnar eiga að vera mjúkar þegar þær koma út, þær harðna þegar þær kólna.
img_4232img_4250

Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði


Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði

Ég er ekki mikið fyrir ís en þessi ís finnst mér dásamlega góður, börnin mín eru sannarlega sammála mér, sérstaklega Vilhjálmur minn sem elskar marsípan og ís – hvað þá þegar þetta tvennt kemur saman! Það er líka svo hátíðlegt að nota marsípan í ís, hann verður sannkallaður jólaís fyrir vikið! Ég nota alltaf ferskar vanillustangir í heimalagaðan ís, mér finnst það svo mikið betra en að nota vanilludropana enda eru þeir tilkomnir frá því að við höfðum ekki aðgang að ferskum vanillustöngum. Oftast er ekki einu sinni ekta vanilla í vanilludropum þannig að ég hvet ykkur til að nota vanillustangirnar. Það er ekkert mál að kljúfa þær með hníf og skafa svo fræin úr báðum helmingunum með beittum hníf. Þessi ís er fljótgerður og mér finnst hann fullkominn sem jólaís! 🙂

IMG_8390

Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 4 eggjarauður
  • 60 g sykur
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 100 g Odense marsípan, skorið í litla bita (gott að skera það hálffrosið)
  • 100 g Daimkúlur (1 poki)

IMG_8393

Léttþeytið rjómann. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og loftmikil. Bætið léttþeyttum rjóma, vanillufræum, marsípani og daim kúlum út í. Hellið blöndunni í ísform eða t.d. 22 cm hringlaga smelluform og frystið. Gott er að bera ísinn fram með heitri súkkulaðisósu (hér á myndinni bætti ég um enn betur og notaði Dumle go nuts sósu, þ.e. súkkulaði, karamellu og hnetur – uppskrift er að finna hér.)

IMG_8429

Ris a la mande ostakaka með kirsuberjasósu


Ris a la mande ostakaka með hindberjasósu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og margt um að vera. Ofan á allt, sem uppteknar húsmæður eru að sýsla við á aðventunni, hélt ég loksins upp á afmælið hennar Jóhönnu fyrir stelpurnar í bekknum. Þetta voru orðin síðustu forvöð, barnið á afmæli snemma að hausti og nú eru að koma áramót! Ástæðan fyrir þessari frestun var að hún vildi halda upp á afmælið með bestu vinkonunni sem á afmæli í desember. Eins eru stelpurnar í árganginum (samkennsla) 28 stykki og varla framkvæmanlegt annað en að vera tvær saman ef halda á afmælið á einhverjum stað. Stelpurnar vildu hafa afmælið í Lazer tag og þá er innifalin pizza. En þær vildu að auki hafa yfirvaraskeggjaþema (!) og við mæðurnar vildum hafa þetta sem allra einfaldast. Við leituðum því á náðir Önnu konditori sem hristi fram úr erminni rosa flottri yfirvaraskeggja-tertu! 🙂 Afar þægileg leið til að halda upp á afmælið, stelpurnar alsælar og við mæðurnar ekki síður sælar að þurfa varla að gera nokkuð.

IMG_8297

Tuttugu (2×10 ára) yfirvaraskeggja kerti í stíl! 🙂

IMG_8289

Diskarnir og servíettur að sjálfsögðu í stíl líka.

En að öðru, hátíðareftirréttum! Ég sá mynd um daginn frá dönsku heimasíðu Philadelphia ostsins sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Þetta var Ris a la mande ostakaka – svo ákaflega girnileg. Ég gat ekki ímyndað mér annað en þessi blanda væri dásamlega góð. Ég elska jú bakaðar ostakökur og finnst Ris a la mande afskaplega góður eftirréttur. Að auki var í uppskriftinni bæði marsípan og hvítt súkkulaði, þetta gat nú varla klikkað. Ég ákvað að prófa að búa til þessa ljúffengu ostaköku og maður minn hvað hún er góð! 🙂 Frábærlega skemmtilegt líka að hafa marsípan í botninum, það er eitthvað sem ég ætla að prófa á fleiri tegundum ostakaka.

IMG_8338IMG_8360

Ég gat auðvitað ekki annað en breytt aðeins uppskriftinni. Til dæmis bætti ég við kanil í kökuna. Ég veit að það er ekki hefðbundið fyrir Ris a la mande en mér finnst kanill bara svo góður og hann smellpassar við kökuna. En hún verður aðeins dekkri fyrir vikið. Eins setti ég matarlím í kirsuberjakremið en það var ekki í upprunalegu uppskriftinni. En þessi kaka er sérdeilis hátíðleg, bæði í útliti og á bragðið, og passar því einstaklega vel sem eftirréttur um jólin eða áramótin. Ekki spillir fyrir að hana er hægt að útbúa með 1-2 daga fyrirvara.

IMG_8356 IMG_8347

Uppskrift:

Botn:

  • ca. 20 Lu Digestive kex (300 g)
  • 100 g smjör
  • 140 g Odense marsípan

Ostakremið:

  • 300 g tilbúinn kaldur hrísgrjónagrautur (ég bjó hann til úr grautarhrísgrjónum)
  • 600 g Philadelphia Orginal
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 120 g möndlur án hýðis

Ofan á kökuna:

  • 1 ferna kirsuberjasósa (500 ml)
  • 2 msk portvín (má sleppa)
  • 1 msk flórsykur
  • 2 blöð matarlím
  • 100 g hvítt Toblerone (má sleppa)

Ofn stilltur á 160 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt smelluform (ca. 24 cm), gjarnan klætt bökunarpappír og blöndunni þrýst ofan í botninn. Botninn bakaður í 5 mínútur og látin kólna. Marsípanið skorið þunnt og því dreift yfir kaldan kexbotninn.

IMG_8340

Möndlur grófsaxaðar og þær þurrristaðar á pönnu þar til þær hafa fengið góðan lit og þær svo kældar. Rjómaostur og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt á milli en þó ekki mjög lengi. Hrísgrjónagrautnum smátt og smátt bætt út í og þeytt á meðan. Vanillusykri, kanil og möndlum er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Blöndunni hellt yfir kex/marsípan botninn og bakað við 160 gráður í 45 -50 mínútur. Gott er að slökkva þá á ofninum og leyfa kökunni að standa í ofninum í 45 mínútur í viðbót á meðan ofninn kólnar.

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í um það bil 5 mínútur. Á meðan er kirsuberjasósan sett í pott ásamt flórsykri og portvíni og allt látið að malla í smá stund. Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk er mesta vatnið kreyst úr þeim og þeim bætt út í sósuna. Potturinn er tekinn af hellinni og hrært vel þar til matarlímið hefur leyst upp. Kirsuberjasósunni er að síðustu hellt yfir kalda ostakökuna (sem er enn í forminu) og sett inn í ísskáp í minnst 6 tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Áður en kakan er borin fram er gott að saxa niður hvítt Toblerone og setja ofan á kökuna.

IMG_8380

Stellið fallega er úr Green gate frá Cup Company.

IMG_8368

Hafradraumur með súkkulaði og döðlum


Hafradraumur með döðlum og súkkulaði1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! 🙂 Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.

Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! 🙂 Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra. IMG_8039

Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)

  • 
230 g smjör, við stofuhita
  • 
200 g púðursykur
  • 
60 g sykur
  • 
2 egg
  • 
2 tsk vanillusykur
  • 
220 g hveiti
  • 
1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 
270 g haframjöl
  • 200 g döðlur, saxaðar smátt
  • 150 g suðusúkkulaðidropar

Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír.  Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð. 
IMG_8037

IMG_8033

Jólamolar með karamellu Pippi


Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

  • 120 g smjör (við stofuhita)
  • 100 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk bökunarkakó
  • 280 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ¼ – ½ tsk salt
  • 200 g Pipp með karamellu
  • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948

Heimalagað rauðkál


IMG_2588Það er bara einn ókostur við jólin, þau eru of stutt og líða alltof hratt! Við höfum átt afar notalega jóladaga. Elfar var í fríi um þessi jól en það er alltaf svo gott þegar hann fær hátíðardagana óskerta með okkur fjölskyldunni án þess að þurfa að fara á sjúkrahúsið. Við vorum hér heima á aðfangadagskvöld með foreldrum mínum og ömmu og afa. Það má með sanni segja að allir hafi fengið góðar gjafir og börnin voru himinlifandi og þakklát fyrir allt sem þau fengu. Það var svolítið gaman að því að Eldhússögur fengu jólagjöf í ár! 🙂

IMG_2539

Anna Sif vinkona útbjó þennan sniðuga hitaplatta úr vintöppum og að auki fylgdi með heimatilbúin chili/sólberjasulta. Eldhússögur þakka fyrir þessa frábæru gjöf! 🙂

IMG_2445Yngstu börnin á aðfangadagskvöld

Á jóladag hittist stórfjölskyldan í ljúffengum brunch heima hjá mömmu og pabba. Hér er hægt að sjá fleiri myndir frá Eldhússögum á Instagram. Það er alltaf mjög afslappað í jóladagsboðinu, til dæmis mættu mín börn í náttfötunum og Bára litla frænka kom í prinsessubúningi. Ég er eiginlega að hugsa um að leggja fram þá tillögu að allir mæti bara í náttfötunum eða í prinsessubúningum að ári! Næsta jólaboð er ekki fyrr en á sunnudaginn þannig að við áttum daginn í gær alveg fyrir okkur. Það var því bara sofið, spilað, lesið, leikið með jólagjafirnar og seinnipartinn fórum við niður á tjörn á skauta og höfðum með okkur heitt kakó.

IMG_2549 Um kvöldið fengum við okkur hangikjöt sem ég eldaði í ofninum. Hér er hægt að sjá uppskriftina. Með hangikjötinu finnst mér alveg nauðsynlegt að hafa grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, laufabrauð og kartöfluuppstúf ásamt jólaöli.

IMG_2619

Eftir matinn var haldið áfram með afslöppun við kertaljós og kósýheit. Öll fjölskyldan horfði á kvikmyndina Hobbitann þar sem að bíóferð á Hobbitann 2 er í bígerð um helgina.

IMG_2632

En víkjum að rauðkálinu með hangikjötinu – það er ekkert erfitt að útbúa eigið rauðkál. Eini ókosturinn er að lyktin sem kemur þegar það er búið til er ekkert sérlega góð – en góða bragðið bætir hana upp! 🙂 Það er svo mikill munur á heimalögðuðu rauðkáli og því tilbúna að þessu tvennu er ekki saman að jafna.

Uppskrift:

  • 1 miðlungsstór rauðkálshaus, kjarninn fjarlægður og kálið sneitt fínt.
  • 2 græn epli, flysjuð og skorin í teninga
  • 2/3 dl rauðvínsedik,
  • 1 dl sykur
  • 2/3 dl óblönduð sólberjasaft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 msk smjör
  • til hátíðarbrigða er hægt að sjóða rauðkálið með 2-3 negulnöglum eða stjörnuanís ásamt 1-2 kanilstöngum.

Látið allt saman í stóran pott og hitið rólega upp, látið sjóða við vægan hita í einn og hálfan til tvo tíma. Smakkið til þegar helmingur er liðinn af suðutíma, ef kálið er of súrt þá er sykri bætt við en ef það er of sætt þá þarf að bæta við aðeins meira af edik eða sólberjasaft. Nauðsynlegt er að smakka til rauðkálið á þessum tímapunkti, þ.e. eftir hálfan suðutíma til þess að það verði gott. Þegar suðu lokið er kálið sett í krukkur, leyft að kólna aðeins og svo sett ísskáp.IMG_2590

Jólagrauturinn hennar ömmu


Jólagrautur

Aðfangadagur er runninn upp og það ríkir mikil tilhlökkun hér á heimilinu. Allir krakkarnir (líka þessi stærstu) fengu náttföt í skóinn en Kertasníkir hefur aldrei brugðið útaf venjunni varðandi þá hefð. Auk þess er þar alltaf að finna gúmmelaði sem gott er að maula yfir barnaefninu og ásamt ískaldri kók í gleri sem ratar ávallt í skóinn á aðfangadag . Hann er sniðugur þessi Kertasníkir! 🙂

Ég er farin að huga að jólamatnum en í kvöld koma foreldrar mínir til okkar auk ömmu, afa og Ingu frænku. Það verður ekki brugðið útaf venjunni í kvöld frekar en önnur aðfangadagskvöld. Amma mun koma með jólagrautinn sem hún verður búin að standa yfir og elda með natni í nokkrar klukkustundir. Hún hefur eldað jólagrautinn á sama hátt í 60 ár og það er ekkert sem slær honum við, hann er dásamlega þykkur, mjúkur og gómsætur. Það er einn af hápunktum jólanna að borða jólagrautinn hennar ömmu með ljúffengri heimatilbúinni krækiberjasaft og kanelsykri. Hefðirnar eru það miklar í kringum jólagrautinn að amma kemur meira að segja með sérstakt kar og skeið undir kanelsykurinn sem er frá langömmu minni.

IMG_6486Mikil spenna ríkir varðandi möndluna og það er regla að sá sem fær möndluna feli hana þar til allir eru búnir að borða grautinn sinn. Þegar krakkarnir hafa fengið möndluna hafa þau verið ótrúlega klár að halda pókerandliti og fela möndluna undir tungunni alla máltíðina, jafnvel þó þau hafi verið mjög ung að árum. 🙂 Hér vann hins vegar amma möndluna! 🙂

amma

Jólasteikin okkar er hamborgarhryggur með dásamlega góðri sósu og hefðbundu meðlæti og í eftirrétt er heimatilbúinn Toblerone ís og vanilluís ásamt konfekti að sjálfsögðu. Ég ætla að skrá hjá mér hér í uppskriftasafnið á Eldhússögum uppskriftina að jólagrautnum hennar ömmu þó svo að ég viti að það sé varla hægt að elda grautinn eins og hún gerir hann.

IMG_6469Við mamma í eldhúsinu, ég í meðlætinu og mamma að hella jólagrautnum yfir í tarínuna.

IMG_2395

Uppskrift:

  • 4 bollar hrísgjón (River)
  • vatn
  • 3 lítrar nýmjólk + 1 líter
  • salt

Hrísgrjónin sett í pott ásamt vatni (vatnið látið fljóta aðeins yfir hrísgrjónin). Suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og hrísgrjónin soðin í klukkutíma, vatni bætt við eftir þörfum. Eftir klukkutíma eru þremur lítrum af mjólk bætt við smátt og smátt út í pottinn og hrært oft og reglulega í grautnum. Grauturinn er smakkaður til með salti. Eftir þrjá tíma kemur amma með grautinn heim til mín, hitar hann upp aftur í pottinum og hrærir um það bil 1 líter af mjólk út í grautinn eða þar til hann verður mátulega þykkur. Grauturinn er borinn fram með krækiberjasaft og kanelsykri.IMG_6482