Hvítar sörur


IMG_4290

Ég geri alltaf hefbundnar sörur fyrir jólin en get alveg staðist freistinguna að eiga þær í frysti. Þessar hvítu sörur gerði ég hins vegar í fyrsta sinn í fyrra og þær get ég engan veginn staðist! Uppskriftin kemur frá Jóa Fel og þær eru algjört sælgæti. Ef ég þyrfti að velja bara eina tegund til að gera fyrir jól þá yrðu þessar himnesku sörur fyrir valinu. Ég gaf afa box með svona sörum og hann var alveg vitlaus í þær, sagði að þetta væru bestu smákökur sem hann hefði smakkað á níutíu ára ævi sinni, ekki slæmur dómur það! 🙂

IMG_4291

IMG_4298

Botn:

  • 9 stk. eggjahvítur
  • 85 g sykur
  • 430 g flórsykur
  • 515 g möndlur

Ofn hitaður í 180 gráður. Eggjahvítur þeyttar og sykur sett rólega útí, stífþeytt. Möndlur maukaðar mjög smátt í matvinnsluvél, flórsykrinum blandað saman við. Þessu er síðan blandað varlega saman við stífþeytta marengsinn með sleikju. Sprautað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ca. 12 mínútur við 180 gráður. Kælt áður en kremið er sett á.

Krem:

  • 240 g sykur
  • 200 ml vatn
  • 8 stk. eggjarauður
  • 180 g hvítir súkkulaðidropar
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1.5 tsk vanilludropar

Hjúpur:

  • Hvítir súkkulaðidropar

Sykur og vatn sett í pott og htiað upp í 116 gráður eða þar til sírópið fer aðeins að þykkna. Eggjarauður þeyttar til hálfs og þá er sírópinu hellt mjög varlega út í rauðurnar í mjórri bunu á meðan þeytingin er á miðlungshraða. Því næst er aukið við hraðann og þeytt í ca. 3-4 mínútur. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Á meðan er smjör (við stofuhita) bætt út í þeytinguna (best er að nota hendur) og síðan er súkkulaði og vanillu bætt út í. Hrært þar til myndast gott smjörkrem). Best er að nota hendur en það er hægt að nota spaðann á hrærivélinni og vinna rólega. Kreminu er sprautað á, eða því smurt, á botnana. Þá eru þær kældar í frysti í ca. 20 mínútur. Hvítt súkkulaði fyrir hjúpinn er brætt og sörunum (kremhliðinni) er dýft ofan í hjúpinn. Best er að geyma sörurnar í frysti og bera fram kaldar.

IMG_4294