Beikonvafin kjúklingalæri fyllt með mozzarella og basiliku


Beikonvafinn mozzarella og basiliku kjúklingur Það þarf vart annað en að lesa nafnið á þessari uppskrift til þess að vita að hún sé góðgæti! Kjúklingaréttir sem í er mozzarella og fersk basilika geta hreinlega ekki klikkað og þegar beikon hefur bæst í hópinn þá er dýrðin innsigluð! Einföld og bragðgóð sósan kórónar þennan dásemdar kjúklingarétt. Það er svo þægilegt og auðvelt að setja fyllingu í úrbeinuð kjúklingalæri enda tekur örskamma stund að útbúa þennan rétt fyrir ofninn.

IMG_6685

 Uppskrift f. 4

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2 tsk þurrkuð basilika
  • 120 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum)
  • ca 15 g fersk basilika
  • 7 sneiðar beikon eða sem samsvarar fjölda kjúklingalæra
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 100 g Philadelphia hreinn rjómaostur
  • 1 dl vatn
  • 2 1/2 msk sojasósa

IMG_6675IMG_6679

Ofninn er stilltur á 225 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti, pipar og basiliku kryddi. Mozzarella osturinn er skorin í jafn margar sneiðar og kjúklingalærin segja til um. Ein sneið af mozzarella osti ásamt blöðum af basiliku eftir smekk eru lögð inn í hvert læri. Þeim er svo lokað með því að vefja beikonsneið utan um lærið. Þau eru því næst sett í eldfast mót með samskeitin niður. Sýrðum rjóma, rjómaosti, vatni og soyjasósu er hrært saman og hellt í formið. Bakað í ofni við 225 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og beikonið hefur tekið góðan lit. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskúsi og fersku salati.

IMG_6690Green gate matarstell frá Cup Company.

Gulrótarostakaka


GulrótarostakakaMér finnst bakaðar ostakökur mikið lostæti og held einnig mikið upp á gulrótarkökur. Ég var því mjög spennt fyrir því að smakka gulrótarostakökuna á Cheesecake Factory þegar ég var í Chicago í sumar. Hún var að sjálfsögðu dásamlega góð og ég gat ekki beðið eftir því að búa til slíka köku sjálf. Það er hægt að blanda þessum tveimur kökum saman á ýmsan hátt. Til dæmis tvinna saman gulrótarkökudeigi og ostaköku. En í þessari uppskrift ákvað ég að fara eins fljótlega leið og hægt var og setti gulræturnar út í ostakökuna. Mér fannst útkoman ljúffeng og held að gestirnir sem gæddu sér á kökunni í afmælisveislunni hafi verið á sama máli því hún kláraðist upp til agna! 🙂

IMG_7347

Uppskrift: 

  • 200 g Digestive kex, mulið smátt
  • 100 g smjör, brætt
  • 1 msk sykur
  • 600 g Philadelphia rjómaostur
  • 1.5 dl sykur
  • 2 msk púðursykur
  • 3 egg
  • 60 ml rjómi
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk límónusafi (lime)
  • 1 tsk kanill
  • 150 g rifnar gulrætur

ofan á kökuna:

  • 8 Lu kanilkexkökur eða Digestive kex (ca. 100 g), mulið smátt
  • 2 msk púðursykur
  • 1 tsk kanill
  • 60 g smjör, kalt

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.

Rjómaostur, sykur og púðursykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Kartöflumjöli, vanillusykri, límonusafa og kanill er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Að síðustu er rifnu gulrótunum bætt út í og blandað saman við deigið með sleikju. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og bakað við 175 gráður í 45 mínútur. Á meðan er hráefnunum ofan á kökuna hnoðað saman í höndunum. Þegar 45 mínútur eru liðnar af bökunartímanum er kakan tekin úr ofninum, deiginu dreift yfir kökuna og hún sett aftur inn í ofn í ca. 8-10 mínútur. Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram.

IMG_7431

Laxabuff með ferskum kryddjurtum, tómatakúskús og avókadó/chilisósu


Laxabuff með avókadó-chilisósuÞað er lengri aðdragandi að sumum réttum en öðrum. Þessi réttur er einn af þeim, samt er þetta þó einn fljótlegasti réttur sem ég hef gert lengi. Þetta byrjað allt með því að ég fékk svo góðan laxaborgara á Nauthól – það var fyrir þremur árum. Ég reyndi að endurskapa hann heima með ágætis árangri – það var fyrir tveimur árum (uppskriftin er hér). Það var svo í sumar að Vilhjálmur minn átti 14 ára afmæli og ákvað að bjóða til hamborgaraveislu fyrir stórfjölskylduna. Einn fjölskyldumeðlimurinn borðar ekki kjöt og ég ákvað því að kaupa lax og gera svona laxaborgara fyrir hann. Eitthvað skolaðist skipulagið til hjá mér því bókstaflega fimm mínútum áður en afmælið byrjaði mundi ég allt í einu eftir þessum laxaborgurum og ég átti ekki einu sinni til allt hráefnið í þá fyrir utan laxinn. Í loftköstum henti ég laxinum í matvinnsluvélina ásamt hráefni sem ég fann til. Ég til dæmis átti ekki brauðmylsnu og ristaði bara brauð í staðinn og sleppti lauknum því ég hafði ekki tíma til að saxa hann. Svo setti ég matvinnsluvélina í gang en viti menn, hún snéri hnífnum í einn hring og dó svo! Það sem ég vissi ekki þá var að þetta var það besta sem gat gerst. Gestirnir voru farnir að streyma inn og ég átti eftir að gera laxaborgarana og mangósósuna. Ég réðst þá með offorsi á laxinn með töfrasprota að vopni og reyndi að mauka allt saman en töfrasprotinn réði illa við laxinn þannig að maukið varð mjög gróft. Ég hafði ekki tíma til að hugsa um það heldur mótaði nokkra grófa borgara í flýti og skellti þeim á pönnuna. Til að gera langa sögu stutta þá voru þetta bestu laxaborgara sem ég hef smakkað og þeir voru mikið vinsælli en venjulegu hamborgararnir. Svo fór að ég þurfti að stoppa gestina af þannig að eitthvað yrði eftir fyrir gestinn sem var ætlað að fá laxaborarana. Galdurinn var nefnilega að leyfa hráefninu að njóta sín og hafa laxinn grófan, ekki mauka hann í hakk. Einnig þarf að passa að steikja þá bara stutt. Eftir þetta er ég stöðugt búin að hugsa um að mig langi að gera sambærileg laxabuff og var alltaf að velta fyrir mér hvaða sósu ég ætti að prófa með þeim. Um síðustu helgi kom svo sósan til mín! Þá slógum við systkinin saman í hamborgaraveislu og mágkona mín gerði dásemdarsósu úr avókadó, sýrðum rjóma og sweet chili sósu. Ég sá í hendi mér að þetta væri sósa sem myndi passa eins og hönd í hanska við laxabuffin. Í gærkvöldi útbjó ég laxabuffin og sósuna, það tók ekki meira en korter. Ég hafði með þeim tómatkúskús og ferskt salat … Jerimías hvað þetta var gott – sumir mánudagar eru einfaldlega betri en aðrir! 🙂

IMG_7532

Uppskrift (ca. 11-12 buff):

  • 1300 g laxaflök (roðflett og beinhreinsuð)
  • 3 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 mjög vel ristaðar brauðsneiðar, saxaðar eða muldar niður fínt
  • 1 egg
  • 1 knippi (ca. 20 g) ferskt kóríander (eða flatlaufa steinselja)
  • 2 hvítlaukslauf, söxuð smátt eða pressuð
  • grófmalaður pipar
  • maldon salt
  • góð kryddblanda (t.d. Roasted Carlic Peppar frá Santa Maria)
  • olía og/eða smjör til steikingar.

Öllu er maukað saman með gaffli eða mjög gróft í matvinnsluvél. Mikilvægt er að laxinn sé ekki hakkaður alveg niður heldur sé í bitum. Buffin eru mótuð í höndunum og steikt upp úr olíu og/eða smjöri við meðalhita á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið, gætið þess að steikja buffin frekar minna en meira. Borið fram með tómatakúskúsi, fersku salati og avókadó-chilisósu.

IMG_7531

 

Avókadó-chilisósa:

  • 2 meðalstór, vel þroskuð avókadó (lárperur)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 3 msk sweet chili sauce
  • grófmalaður svartur pipar og maldon salt

Avókadó, sýrðum rjóma og sweet chili sósunni er blandað saman með til dæmis töfrasprota. Það er líka hægt að hafa sósuna grófari og mauka hráefnin saman með gaffli. Smakkað til með salti og pipar.

IMG_7537

IMG_7536

Rúllutertubrauð með pestó og mozzarella


Rúllutertubrauð með pestói og mozzarellaÞegar ég var með afmæli um daginn langaði mig að breyta út af venjunni og hafa öðruvísi rúllutertubrauð. Ég var ekkert viss um að þetta yrði gott en svo fór að þessi rúllutertubrauð kláruðust fyrst af öllum réttunum. Mér finnst galdurinn liggja í að búa til sitt eigið pestó, það er svo ákaflega gott! En auðvitað er líka hægt að kaupa tilbúið pestó og nota það í staðinn. Eins og stundum þegar ég prófa einhvern nýjan rétt í veislum þá eru engin góð tækifæri til þess mynda afraksturinn en ég náði þó að smella einni mynd af sneið áður en allt kláraðist.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 140 g skinka (ég notaði reykta skinku frá Ali), skorin í bita
  • ca. 15 svartar ólífur, saxaðar gróft
  • 2 msk smátt saxaðaðir sólþurrkaðir tómatar (gott að nota dálítið af olíunni með)
  • 1 mozzarella ((kúlan í bláu pokunum, 120 g), skorin í bita
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • salt og pipar
  • rifinn ostur og/eða parmesan ostur ofan á brauðið
  • ca. 2 dl pestó – tilbúið eða heimagert.
  • Heimagert pestó:
  • 30 g fersk basilika
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 70 g kasjúhnetur (eða furuhnetur)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • ca. 1.5-2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.pestó

Ofn hitaður í 180 gráður. Pestóinu er blandað saman við skinku, ólífur, sólþurrkaða tómata, mozzarella ost og rifinn parmesan ost. Smakkað til með salti og pipar. Rúllutertubrauðið er lagt á bökunarpappír. Blöndunni er því næst smurt á rúllutertubrauðið og því rúllað varlega upp með hjálp bökunarpappírsins, samskeytin látin snúa niður. Rúllan er þá færð á bökunarpappírnum yfir á ofnplötu. Rifnum osti og/eða rifnum parmesan osti dreift yfir rúlluna (ég notaði líka nokkrar sneiðar af mozzarella osti) og hún hituð í ofni í ca. 15 mínútur við 180 gráður eða þar til að rúllan er orðin heit í gegn og osturinn farinn að bráðna.