Þegar ég var með afmæli um daginn langaði mig að breyta út af venjunni og hafa öðruvísi rúllutertubrauð. Ég var ekkert viss um að þetta yrði gott en svo fór að þessi rúllutertubrauð kláruðust fyrst af öllum réttunum. Mér finnst galdurinn liggja í að búa til sitt eigið pestó, það er svo ákaflega gott! En auðvitað er líka hægt að kaupa tilbúið pestó og nota það í staðinn. Eins og stundum þegar ég prófa einhvern nýjan rétt í veislum þá eru engin góð tækifæri til þess mynda afraksturinn en ég náði þó að smella einni mynd af sneið áður en allt kláraðist.
Uppskrift:
- 1 rúllutertubrauð
- ca. 140 g skinka (ég notaði reykta skinku frá Ali), skorin í bita
- ca. 15 svartar ólífur, saxaðar gróft
- 2 msk smátt saxaðaðir sólþurrkaðir tómatar (gott að nota dálítið af olíunni með)
- 1 mozzarella ((kúlan í bláu pokunum, 120 g), skorin í bita
- 1 dl rifinn parmesan ostur
- salt og pipar
- rifinn ostur og/eða parmesan ostur ofan á brauðið
- ca. 2 dl pestó – tilbúið eða heimagert.
- Heimagert pestó:
- 30 g fersk basilika
- 3 hvítlauksgeirar
- 70 g kasjúhnetur (eða furuhnetur)
- 1 dl rifinn parmesan ostur
- ca. 1.5-2 dl ólífuolía
- salt og pipar
Öllu blandað vel saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
Ofn hitaður í 180 gráður. Pestóinu er blandað saman við skinku, ólífur, sólþurrkaða tómata, mozzarella ost og rifinn parmesan ost. Smakkað til með salti og pipar. Rúllutertubrauðið er lagt á bökunarpappír. Blöndunni er því næst smurt á rúllutertubrauðið og því rúllað varlega upp með hjálp bökunarpappírsins, samskeytin látin snúa niður. Rúllan er þá færð á bökunarpappírnum yfir á ofnplötu. Rifnum osti og/eða rifnum parmesan osti dreift yfir rúlluna (ég notaði líka nokkrar sneiðar af mozzarella osti) og hún hituð í ofni í ca. 15 mínútur við 180 gráður eða þar til að rúllan er orðin heit í gegn og osturinn farinn að bráðna.
Búin að prufa þessa og mæómæ hvað hún er góð. Sló í gegn í dömuboði.
Gaman að heyra Birna, takk fyrir að skilja eftir komment! 🙂
Þessi kláraðist í saumó hjá mér, notaði svartar og grænar ólífur til helminga og svo er hægt að kaupa niðursneidda sólþurrkaða tómmata í Nettó, mjög handhægt og fljótlegt
Hljómar vel Anna Sif hin eina og sanna vinkona! 😀 Ég hef einmitt keypt þessa niðursneiddu sólþurrkuðu tómata, mjög þægilegt.
Bakvísun: Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti | Eldhússögur