Laxabuff með ferskum kryddjurtum, tómatakúskús og avókadó/chilisósu


Laxabuff með avókadó-chilisósuÞað er lengri aðdragandi að sumum réttum en öðrum. Þessi réttur er einn af þeim, samt er þetta þó einn fljótlegasti réttur sem ég hef gert lengi. Þetta byrjað allt með því að ég fékk svo góðan laxaborgara á Nauthól – það var fyrir þremur árum. Ég reyndi að endurskapa hann heima með ágætis árangri – það var fyrir tveimur árum (uppskriftin er hér). Það var svo í sumar að Vilhjálmur minn átti 14 ára afmæli og ákvað að bjóða til hamborgaraveislu fyrir stórfjölskylduna. Einn fjölskyldumeðlimurinn borðar ekki kjöt og ég ákvað því að kaupa lax og gera svona laxaborgara fyrir hann. Eitthvað skolaðist skipulagið til hjá mér því bókstaflega fimm mínútum áður en afmælið byrjaði mundi ég allt í einu eftir þessum laxaborgurum og ég átti ekki einu sinni til allt hráefnið í þá fyrir utan laxinn. Í loftköstum henti ég laxinum í matvinnsluvélina ásamt hráefni sem ég fann til. Ég til dæmis átti ekki brauðmylsnu og ristaði bara brauð í staðinn og sleppti lauknum því ég hafði ekki tíma til að saxa hann. Svo setti ég matvinnsluvélina í gang en viti menn, hún snéri hnífnum í einn hring og dó svo! Það sem ég vissi ekki þá var að þetta var það besta sem gat gerst. Gestirnir voru farnir að streyma inn og ég átti eftir að gera laxaborgarana og mangósósuna. Ég réðst þá með offorsi á laxinn með töfrasprota að vopni og reyndi að mauka allt saman en töfrasprotinn réði illa við laxinn þannig að maukið varð mjög gróft. Ég hafði ekki tíma til að hugsa um það heldur mótaði nokkra grófa borgara í flýti og skellti þeim á pönnuna. Til að gera langa sögu stutta þá voru þetta bestu laxaborgara sem ég hef smakkað og þeir voru mikið vinsælli en venjulegu hamborgararnir. Svo fór að ég þurfti að stoppa gestina af þannig að eitthvað yrði eftir fyrir gestinn sem var ætlað að fá laxaborarana. Galdurinn var nefnilega að leyfa hráefninu að njóta sín og hafa laxinn grófan, ekki mauka hann í hakk. Einnig þarf að passa að steikja þá bara stutt. Eftir þetta er ég stöðugt búin að hugsa um að mig langi að gera sambærileg laxabuff og var alltaf að velta fyrir mér hvaða sósu ég ætti að prófa með þeim. Um síðustu helgi kom svo sósan til mín! Þá slógum við systkinin saman í hamborgaraveislu og mágkona mín gerði dásemdarsósu úr avókadó, sýrðum rjóma og sweet chili sósu. Ég sá í hendi mér að þetta væri sósa sem myndi passa eins og hönd í hanska við laxabuffin. Í gærkvöldi útbjó ég laxabuffin og sósuna, það tók ekki meira en korter. Ég hafði með þeim tómatkúskús og ferskt salat … Jerimías hvað þetta var gott – sumir mánudagar eru einfaldlega betri en aðrir! 🙂

IMG_7532

Uppskrift (ca. 11-12 buff):

  • 1300 g laxaflök (roðflett og beinhreinsuð)
  • 3 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 mjög vel ristaðar brauðsneiðar, saxaðar eða muldar niður fínt
  • 1 egg
  • 1 knippi (ca. 20 g) ferskt kóríander (eða flatlaufa steinselja)
  • 2 hvítlaukslauf, söxuð smátt eða pressuð
  • grófmalaður pipar
  • maldon salt
  • góð kryddblanda (t.d. Roasted Carlic Peppar frá Santa Maria)
  • olía og/eða smjör til steikingar.

Öllu er maukað saman með gaffli eða mjög gróft í matvinnsluvél. Mikilvægt er að laxinn sé ekki hakkaður alveg niður heldur sé í bitum. Buffin eru mótuð í höndunum og steikt upp úr olíu og/eða smjöri við meðalhita á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið, gætið þess að steikja buffin frekar minna en meira. Borið fram með tómatakúskúsi, fersku salati og avókadó-chilisósu.

IMG_7531

 

Avókadó-chilisósa:

  • 2 meðalstór, vel þroskuð avókadó (lárperur)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 3 msk sweet chili sauce
  • grófmalaður svartur pipar og maldon salt

Avókadó, sýrðum rjóma og sweet chili sósunni er blandað saman með til dæmis töfrasprota. Það er líka hægt að hafa sósuna grófari og mauka hráefnin saman með gaffli. Smakkað til með salti og pipar.

IMG_7537

IMG_7536

12 hugrenningar um “Laxabuff með ferskum kryddjurtum, tómatakúskús og avókadó/chilisósu

  1. namm Læknirinn í eldhúsinu hefði nú skellt sér á eitt hvítvínsglas með þessu:)

    • Hahaha … þú segir satt Helga! Mér fannst það bara aðeins of langt gengið svona á mánudagskvöldi. En ef að það er samkvæmt doktorsráði þá mun ég ekki mótmæla! 😉

  2. Er hægt að kaupa roðflettan lax út í fiskbúð eða þarf maður að roðfletta sjálfur?

    • Það er örugglega hægt að fá fisksalann þinn til þess að roðfletta laxinn og ég mæli með því, það sparar tíma og fyrirhöfn! 🙂 Ég veit að þeir í Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni myndu roðfletta laxinn fyrir þig með glöðu geði, þar kaupi ég alltaf minn fisk. 🙂

  3. Æðislegur föstudagskvöldmatur hrein snilld 🙂
    Það koma 12 buff út úr þessari uppskrift hjá okkur og borðuðum við fjölskyldan helminginn og frystum rest. Jiminn hvað eg hlakka til að fá svona aftur og sósa VÁ VÁ VÁ algjört æði.

  4. Bakvísun: Hakkhleifur fylltur með beikoni, döðlum og fetaosti | Eldhússögur

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.