Mér finnst bakaðar ostakökur mikið lostæti og held einnig mikið upp á gulrótarkökur. Ég var því mjög spennt fyrir því að smakka gulrótarostakökuna á Cheesecake Factory þegar ég var í Chicago í sumar. Hún var að sjálfsögðu dásamlega góð og ég gat ekki beðið eftir því að búa til slíka köku sjálf. Það er hægt að blanda þessum tveimur kökum saman á ýmsan hátt. Til dæmis tvinna saman gulrótarkökudeigi og ostaköku. En í þessari uppskrift ákvað ég að fara eins fljótlega leið og hægt var og setti gulræturnar út í ostakökuna. Mér fannst útkoman ljúffeng og held að gestirnir sem gæddu sér á kökunni í afmælisveislunni hafi verið á sama máli því hún kláraðist upp til agna! 🙂
Uppskrift:
- 200 g Digestive kex, mulið smátt
- 100 g smjör, brætt
- 1 msk sykur
- 600 g Philadelphia rjómaostur
- 1.5 dl sykur
- 2 msk púðursykur
- 3 egg
- 60 ml rjómi
- 2 msk kartöflumjöl
- 2 tsk vanillusykur
- 1 tsk límónusafi (lime)
- 1 tsk kanill
- 150 g rifnar gulrætur
ofan á kökuna:
- 8 Lu kanilkexkökur eða Digestive kex (ca. 100 g), mulið smátt
- 2 msk púðursykur
- 1 tsk kanill
- 60 g smjör, kalt
Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
Rjómaostur, sykur og púðursykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Kartöflumjöli, vanillusykri, límonusafa og kanill er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Að síðustu er rifnu gulrótunum bætt út í og blandað saman við deigið með sleikju. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og bakað við 175 gráður í 45 mínútur. Á meðan er hráefnunum ofan á kökuna hnoðað saman í höndunum. Þegar 45 mínútur eru liðnar af bökunartímanum er kakan tekin úr ofninum, deiginu dreift yfir kökuna og hún sett aftur inn í ofn í ca. 8-10 mínútur. Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram.
Hvað notaru stórt form og er hægt að nota eldfast form?
Ég notaði venjulegt 24 cm smelluform en það er vel hægt að nota eldfast mót af svipaðri stærð.
Þessi kaka er geggjuð. Einföld og ótrúlega góð. Mæli með að prófa.
Gaman að heyra! 🙂