Laxabuff með ferskum kryddjurtum, tómatakúskús og avókadó/chilisósu


Laxabuff með avókadó-chilisósuÞað er lengri aðdragandi að sumum réttum en öðrum. Þessi réttur er einn af þeim, samt er þetta þó einn fljótlegasti réttur sem ég hef gert lengi. Þetta byrjað allt með því að ég fékk svo góðan laxaborgara á Nauthól – það var fyrir þremur árum. Ég reyndi að endurskapa hann heima með ágætis árangri – það var fyrir tveimur árum (uppskriftin er hér). Það var svo í sumar að Vilhjálmur minn átti 14 ára afmæli og ákvað að bjóða til hamborgaraveislu fyrir stórfjölskylduna. Einn fjölskyldumeðlimurinn borðar ekki kjöt og ég ákvað því að kaupa lax og gera svona laxaborgara fyrir hann. Eitthvað skolaðist skipulagið til hjá mér því bókstaflega fimm mínútum áður en afmælið byrjaði mundi ég allt í einu eftir þessum laxaborgurum og ég átti ekki einu sinni til allt hráefnið í þá fyrir utan laxinn. Í loftköstum henti ég laxinum í matvinnsluvélina ásamt hráefni sem ég fann til. Ég til dæmis átti ekki brauðmylsnu og ristaði bara brauð í staðinn og sleppti lauknum því ég hafði ekki tíma til að saxa hann. Svo setti ég matvinnsluvélina í gang en viti menn, hún snéri hnífnum í einn hring og dó svo! Það sem ég vissi ekki þá var að þetta var það besta sem gat gerst. Gestirnir voru farnir að streyma inn og ég átti eftir að gera laxaborgarana og mangósósuna. Ég réðst þá með offorsi á laxinn með töfrasprota að vopni og reyndi að mauka allt saman en töfrasprotinn réði illa við laxinn þannig að maukið varð mjög gróft. Ég hafði ekki tíma til að hugsa um það heldur mótaði nokkra grófa borgara í flýti og skellti þeim á pönnuna. Til að gera langa sögu stutta þá voru þetta bestu laxaborgara sem ég hef smakkað og þeir voru mikið vinsælli en venjulegu hamborgararnir. Svo fór að ég þurfti að stoppa gestina af þannig að eitthvað yrði eftir fyrir gestinn sem var ætlað að fá laxaborarana. Galdurinn var nefnilega að leyfa hráefninu að njóta sín og hafa laxinn grófan, ekki mauka hann í hakk. Einnig þarf að passa að steikja þá bara stutt. Eftir þetta er ég stöðugt búin að hugsa um að mig langi að gera sambærileg laxabuff og var alltaf að velta fyrir mér hvaða sósu ég ætti að prófa með þeim. Um síðustu helgi kom svo sósan til mín! Þá slógum við systkinin saman í hamborgaraveislu og mágkona mín gerði dásemdarsósu úr avókadó, sýrðum rjóma og sweet chili sósu. Ég sá í hendi mér að þetta væri sósa sem myndi passa eins og hönd í hanska við laxabuffin. Í gærkvöldi útbjó ég laxabuffin og sósuna, það tók ekki meira en korter. Ég hafði með þeim tómatkúskús og ferskt salat … Jerimías hvað þetta var gott – sumir mánudagar eru einfaldlega betri en aðrir! 🙂

IMG_7532

Uppskrift (ca. 11-12 buff):

  • 1300 g laxaflök (roðflett og beinhreinsuð)
  • 3 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 mjög vel ristaðar brauðsneiðar, saxaðar eða muldar niður fínt
  • 1 egg
  • 1 knippi (ca. 20 g) ferskt kóríander (eða flatlaufa steinselja)
  • 2 hvítlaukslauf, söxuð smátt eða pressuð
  • grófmalaður pipar
  • maldon salt
  • góð kryddblanda (t.d. Roasted Carlic Peppar frá Santa Maria)
  • olía og/eða smjör til steikingar.

Öllu er maukað saman með gaffli eða mjög gróft í matvinnsluvél. Mikilvægt er að laxinn sé ekki hakkaður alveg niður heldur sé í bitum. Buffin eru mótuð í höndunum og steikt upp úr olíu og/eða smjöri við meðalhita á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið, gætið þess að steikja buffin frekar minna en meira. Borið fram með tómatakúskúsi, fersku salati og avókadó-chilisósu.

IMG_7531

 

Avókadó-chilisósa:

  • 2 meðalstór, vel þroskuð avókadó (lárperur)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 3 msk sweet chili sauce
  • grófmalaður svartur pipar og maldon salt

Avókadó, sýrðum rjóma og sweet chili sósunni er blandað saman með til dæmis töfrasprota. Það er líka hægt að hafa sósuna grófari og mauka hráefnin saman með gaffli. Smakkað til með salti og pipar.

IMG_7537

IMG_7536

Bakaður lax með smjörsteiktu kúskús og taragondressingu


Bakaður lax með smjörsteiktu kúskús og taragondressingu Í vor verða komin sex ár frá því að við fluttum heim frá Stokkhólmi eftir 15 ára dvöl í borginni. Þá þegar fyrir sex árum voru Svíar farnir að bjóða upp á sniðuga þjónustu sem var, og er enn, afar vinsæl þar í landi. Þetta er matarpakkaþjónusta þar sem heimili fá send heim hráefni ásamt uppskriftum fyrir kvöldmatinn. Í Svíþjóð hefur þessi þjónusta verið að þróast undanfarinn áratug og nú er svo komið að það er hægt að fá allskonar tegundir af máltíðum, grænmetismáltíðir, barnvænar máltíðir, LKL-máltíðir og fleira. Ég prófaði þetta í Svíþjóð og líkaði vel en hér á Íslandi hefur ekki verið til slík þjónusta fyrr en núna. Ég rakst á fyrirtækið Eldum rétt á Facebook en það fyrirtæki er nýfarið að bjóða upp á þessa þjónustu. Eftir að hafa skoðað heimasíðuna þeirra ákvað ég að slá til og prófa.

IMG_4218

Það eru margir þættir sem þarf að huga að ef svona þjónusta á að ganga upp. Í fyrsta lagi þarf heimasíðan að vera í lagi því hún er fyrsti viðkomustaðurinn. Hráefnið þarf að vera ferskt og gott, passlega skammtað og uppskriftirnar þurfa að vera auðveldar en að sama skapi spennandi og bragðgóðar. Eldum rétt nær strax fullu húsi stiga með ákaflega flotta og notendavæna heimasíðu. Eftir að ég var búin að leggja inn pöntunina, sem var auðvelt, fékk ég greinagóðan og skýran tölvupóst þar sem kom fram hvaða matrétti ég mundi fá, innihaldslýsingu og slíkt.

Ég fékk sendinguna í dag og ég varð satt að segja yfir mig hrifin! Öllum hráefnunum var pakkað afar vel inn, allt skilmerkilega merkt með litum svo auðveldlega sæist hvaða hráefni tilheyrði hvaða uppskriftum.

IMG_4220Síðast en ekki síst var allt hráefnið ákaflega ferskt og spennandi. Ég fékk hráefni í laxarétt, kjúklingarétt og lasagna. Það var mælt með því að byrja á laxaréttinum sem ég og gerði. Það var einstaklega þægilegt og fljótlegt að elda réttinn þar sem allir skammtar voru fyrirfram tilbúnir og auðvelt að fara eftir uppskriftinni.

IMG_4222

Það er tilvalið að leyfa krökkunum að hjálpa til við eldamennskuna þar sem hráefnin og uppskriftirnar eru svo aðgengileg. Það er líka svo sniðugt að nota svona hráefni og uppskriftir sem aðrir hafa fundið til fyrir mann. Þannig neyðist maður til þess að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Það liðu nákvæmlega 20 mínútur frá því að ég hóf eldamennskuna þar til að maturinn var kominn á borðið. Við vorum öll stórhrifin af matnum, hann var frábærlega góður. Ég hafði haft dálitlar áhyggjur af því að skammtarnir væru kannski litlir – við fjölskyldan erum ekki þekkt fyrir að vera matgrönn! 😉 En það voru óþarfa áhyggjur, skammtarnir voru vel útilátnir. Ég hlakka mikið til að elda hina réttina tvo og mér finnst mikið tilhlökkunarefni að einhver annar sé búinn að hafa allt tilbúið fyrir mig – ég þurfi ekkert annað að gera en að vinda mér í eldamennskuna! 🙂

Ég hafði samband við Eldum rétt og fékk leyfi til þess að deila með ykkur þeim uppskriftum sem ég fékk frá þeim. Hér kemur sú fyrsta sem ég eldaði í kvöld, dásamlega góður laxaréttur.

IMG_4221

Uppskrift f. 4:

  • 700 g lax
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • salt og pipar
  • 3 dl kúskús
  • 60 sólþurrkaðir tómatar
  • 2 rauðlaukar
  • 30 g kapers
  • 60 g strengjabaunir
  • 1 sítróna
  • taragondressing (sýrður rjómi, sítrónusafi, graslaukur, balsamik edik, taragon krydd, salt og pipar – öllu blandað saman)

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. 8 dl af vatni sett í pott ásamt smá salti og hitað að suðu. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er potturinn tekinn af hellunni og kúskús sett út í. Lokið sett á pottinn og hann lagður til hliðar. Laxinn er skolaður og skorinn í hæfilega stóra bita. Olía er hituð á pönnu, laxinn saltaður og pipraður og því næst steiktur í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið. Laxinn er lagður í eldfast mót. Strengjabaunirnar eru steiktar í heilu lagi í 1-2 mínútur á pönnunni og settar í mótið með laxinum. Bakað í ofni í 10-12 mínútur.IMG_4223

Á meðan er rauðlaukurinn afhýddur og skorinn smátt ásamt kapers og sólþurrkuðum tómötum og þetta er allt steikt saman á pönnu upp úr 2-3 msk af olíu. Þá er kúskúsinu bætt á pönnuna ásamt 2 msk af smjöri og steikt í 2-3 mínútur til viðbótar.

IMG_4227 Smakkað til með salti, pipar og dálítið af sítrónusafa kreist yfir. Laxinn er svo borinn fram með steikta kúskúsinu, taragondressingunni og sítrónubátum.

IMG_4239

Sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati


IMG_9632

Enn ein frábær helgi er liðin hjá og dásamlegur júnímánuður runninn upp. Í gærkvöldi átti ég yndislegt kvöld með vinkonum mínum úr meistaranáminu. Þvílík lukka að námið leiddi okkur þrjá sálufélagana saman! 🙂 Við fórum á Austurlandahraðlestin á nýja staðinn í Lækjargötu og fengum ákaflega góðan mat þar. Því næst lá leiðin í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum sýninguna Engla alheimsins sem er frábær sýning. Því næst var bærinn málaður rauður … tja, eða allavega fölbleikur! 😉

En ég ef ég vík að uppskrift dagsins þá ætla ég að gefa ykkur langbestu laxauppskriftina mína hingað til! Já ég veit, ég segi oft að þær laxauppskriftir sem ég set inn séu þær bestu! En trúið mér, þessi ER sú besta! Þessi uppskrift er afskaplega einföld en maður minn hvað hún er góð! Meðlætið er dásamlegt, mangó- og avókadó salsa er auðvitað hrein snilld með laxi en smjörsteikta spínatið er líka ofsalega gott, ég ætla sannarlega að notað það oftar. Okkur fannst marineringinn dásamlega ljúffeng, hún gerði laxinn að hnossgæti! Við mælum sannarlega með þessum frábæra rétti!

Uppskrift: 

  • 800 g lax, roðflettur og skorinn í bita
  • olía til steikingar

IMG_9625

Marinering:
 
  • 1.5 dl sojasósa
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1-2 tsk ferskur engifer, rifinn
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • límónusafi (lime)
  • hunang, fljótandi (eða sykur)
Hráefnunum fyrir marineringuna blandað saman, smakkað til með hunangi og límónusafa. Laxinn er því næst steiktur á pönnu upp úr olíu í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til laxinn hefur fengið fallegan steikingarlit. Þá er marineringunni hellt yfir laxinn og honum leyft að malla á vægum hita á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Laxinn er þá lagður upp á fat og marineringunni dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum, smjörsteiktu spínati og mangó-avókadósalsa.

IMG_9627
Smjörsteikt spínat
  • 300 g ferskt spínat
  • smjör
  • 6 vorlaukar, skornir í sneiðar
  • salt og pipar
Rétt áður en laxinn er borinn á borð er spínatið og vorlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

Mangó-avókadó salsa
  • mangó, skorið í bita
  • 1 stórt eða 2 lítil avókadó, skorið í bita
  • 1/2 – 1 rauður ferskur chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • kóríander eftir smekk, saxað
Öllu blandað vel saman og borið fram með laxinum.

IMG_9639

Grillaður lax með kryddjurtamaríneringu og klettasalatssósu


IMG_9833

Mér finnst lax ákaflega góður. Það liggur við að mér finnist hver einasti laxaréttur vera „sá besti sem ég hef bragðað“! En ég held að það sé vegna þess að það er varla hægt að klúðra svona góðu hráefni eins og laxinn er. Að þessu sinni grillaði ég laxinn með einkar góðri maríneringu og gerði með honum ofsalega góða klettasalatssósu. Þessa klettasalatssósu væri einnig gott að nota með til dæmis grilluðum kjúklingi. Ég grillaði imagesgrænmeti með laxinum, sætar kartöflur, gulrætur og blómkál. Grænmetið skar ég niður í bita, velti því upp úr ólífuolíu, góðum kryddum og grillaði í snilldar grillbakkanum frá Weber. Ég mæli svo mikið með þessum grillbakka. Hér um alltaf þegar ég grilla, set ég eitthvað grænmeti í bakkann, það slær ekkert meðlæti grilluðu grænmeti við! Ég hef séð þennan grillbakka ódýrastan hjá Bauhaus.

Ég fékk um daginn sendingu frá Saltverk Reykjaness.

IMG_9846

Fyrirtækið framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt sem eru stórar og stökkar saltflögur. Saltið er unnið með aldagamalli íslenskri aðferð sem stunduð var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á 18.öld. Frábært salt sem ég mæli sannarlega með. Það var svo spennandi að ég fékk líka prufur af nýju bragðbættu Saltverks-salti sem er ekki enn komið á markaðinn. Meðal annars lakkríssalti og blóðbergssalti. Ég er búin að vera að þefa og smakka á saltinu og reyna að átta mig á hvernig best væri að nota það. Einna spenntust er ég að finna góða leið til þess að nota lakkríssaltið! En ég notaði blóðbergsaltið í maríneringuna á laxinn og það kom afar vel út.

IMG_9844Uppskrift:

800 g laxaflak

Marínering:

  • 1 dl fínsöxuð blaðasteinselja (eða kóríander)
  • 1 límóna (lime), hýði fínrifið og safinn
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 2 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði blóðbergssalt frá Saltverki) og pipar

IMG_9826

Hráefninu í maríneringuna er hrært saman. Laxinn er lagður á þar til gerða grillgrind eða einnota grillbakka. Maríneringunni er dreif fyrir laxinn og hann grillaður við meðalhita í um það bil 10 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn – það þarf að gæta þess að ofelda hann ekki. Borið fram með grilluðu grænmeti og klettasalatssósu.

IMG_9832

Klettasalatssósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • ca. 2 stórar lúkur klettasalat
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl furuhnetur
  • 1 dl fínrifinn parmesanostur
  • salt och grófmalaður svartur pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél og borið fram með fisknum.

IMG_9836

Ofnbakaður lax á spínatbeði með sætum kartöflum


IMG_8722

Ég á litið uppskriftahefti sem Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur gaf út en meðlimir kórsins gefa allir upp eina uppskrift í heftinu. Þar á meðal er að finna afskaplega góða laxauppskrift. Þetta er eiginlega með bestu laxauppskriftum sem ég hef prófað. Þannig að ef ykkur líkar lax og/eða fiskur þá er þetta klárlega réttur sem þið bara verðið að prófa! Ég keypti lax að þessu sinni hjá Fiskikónginum og hann var ofsalega góður. Núna er tilboð hjá Fiskikónginum, hann selur ýmsar tegundir fisks (ekki lax þó) á aðeins 1199 krónur kílóið sem er ótrúlega gott verð. Ég keypti því líka þorskhnakka á tilboði og hlakka til að elda eitthvað spennandi úr þeim á morgun.

Í kvöldfréttunum var frétt um málþing sem snérist um matarleifar og sóun. Ég hef alltaf nýtt mat vel og hendi eiginlega aldrei mat. Reyndar þá erum við líka svo mörg í fjölskyldunni að það eru alltaf einhver börn svöng, það stuðlar að góðri nýtingu matarins! Ísskápshurðin er allavega klárlega sú hurð sem oftast er opnuð á heimilinu! 🙂 Þegar við bjuggum í Stokkhólmi tókum við hjónin alltaf mat með okkur í vinnuna/skóla. Í dag eru það elstu krakkarnir sem eru dugleg að taka með sér afgang í skóla og vinnu. Ég eldaði extra mikið af laxinum í kvöld og það náðist því afgangur fyrir alla fjölskyldumeðlimi (og einn auka sem býr hjá okkur þessa dagana) öllum til mikillar gleði þar sem að laxarétturinn sló í gegn. Já og miðar eru algengir í ísskápnum okkar! Sumir fjölskyldumeðlimir eru búnir að eigna sér hillur, skúffur og slíkt í ísskápnum, þar er maturinn „off limits“. En ef matur er á sameiginlegu svæði þá þarf að merkja hann ef maður vill vera viss um að ganga að honum vísum! 😉 Það er hins vegar bara ein regla sem snýr að mér. Ef einhver finnur súkkulaði í eldhúsinu þá eru 99% líkur á því að ég eigi það! Það má því ALDREI borða súkkulaði án þess að spyrja mig fyrst, þetta gildir bæði um lítil og uppkomin börn sem og eiginmann! 🙂

IMG_8729

Uppskrift:

  • 2 msk ólífuolía
  • 200 g ferskt spínat
  • 700 g laxaflök
  • salt & pipar
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), rifin gróft
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2 dl kókosmjólk
  • 1 tsk karrímauk
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • 1 tsk hrásykur (eða sykur)

IMG_8715

Ofn er hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Ólífuolían er smurð á botninn á stóru eldföstu móti og spínatið lagt í botninn. Laxinn er roðflettur og beinhreinsaður, skorinn í hæfilega stór stykki og þau lögð ofan á spínatið. Þá er laxinn saltaður og pipraður vel. Því næst er sæta kartaflan flysjuð og rifinn gróft, sama er gert við gulræturnar. Þessu er blandað saman og dreift yfir laxinn. Þá er kókosmjólk, karrímauki, fiskisósu, límónusafa og hrásykri blandað saman í skál og hellt yfir sætukartöflurnar/gulræturnar. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til fiskurinn er mátulega eldaður. Borið fram með hrísgrjónum og klettasalati (eða öðru fersku salati).

IMG_8725

Ofnbakaður lax og grænmeti með teriyaki sósu


IMG_1466

 

Mér finnst svolítið gaman að sjá hér á blogginu hvaða leitarorð leiða lesendurna inn á síðuna mína. Þegar uppskriftunum fer fjölgandi eru fleiri og fleiri sem koma í gegnum leitarsíður inn á bloggið, mörg hundruð daglega. Stundum renni ég yfir listann og fæ innblástur af leitarorðunum. Til dæmis hafði einhver leitað að: lax + teriyaki sósu en sú leit beindi viðkomandi inn á síðuna mína. Mér fannst það hljóma svo girnilega að ég ákvað að elda teriyaki lax í kvöldmatinn! Hins vegar held ég að sá sem leitaði að „blautar sögur“ hafi orðið fyrir vonbrigðum þegar viðkomandi lenti hér inni á Eldhússögum! 😉

Rétturinn er ákaflega einfaldur að matreiða, ég notaði bara það grænmeti sem ég átti til en það er hægt að nota gulrætur, kúrbít, lauk, sveppi, blómkál eða bara það sem hugurinn girnist. Ég gef líka upp magn hér að neðan en það fer eiginlega bara eftir smekk og plássi í eldfasta mótinu. Öllum í fjölskyldunni fannst þessi laxaréttur æðislega góður og hann verður sannarlega eldaður aftur.

IMG_1464

Uppskrift:

  • 1 kíló laxaflök
  • salt og pipar, eftir smekk
  • ca. 100 ml teriyaki sósa, magnið fer dálítið eftir smekk (ég nota sósu frá La Choy)
  • ca. 100 gr sveppir, skornir í fernt
  • ca. 200 gr gulrætur, sneiddar gróft
  • ca. 100 gr. brokkolí, skorið í stóra bita
  • 3 fersk chili, kjarnhreinsuð og sneidd langsum
  • salatblanda (ristaðar blandaðar hnetur, t.d. frá Náttúru)
  • sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxaflakið/flökin eru roðflett, skorin í hæfilega bita og lögð í stórt eldfast mót. Laxinn saltaður og pipraður eftir smekk. Grænmetið skorið eins og segir hér að ofan og raðað í kringum laxinn. Teriyaki sósunni helt yfir laxinn og aðeins yfir grænmetið, því næst er salatblöndunni og sesamfræunum dreift yfir. Bakað í ofni í ca 20-25 mínútur eða þar til laxinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu brauði.

IMG_1469