Ofnbakaður lax með klettasalati og fetaosti


IMG_1130

Mér finnst fátt betra en ferskur lax og oftast er hann bestur þegar hann er útbúinn á sem einfaldasta máta. Þessi uppskrift er bæði fljótleg og einstaklega ljúffeng. Ég mæli með því að þið prófið! 🙂

Uppskrift f. 4

Lax

  • 800 g lax
  • 50 g klettasalat
  • 3 msk olífuolía
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 150 g fetaostur (kubbur – ekki með olíu)
  • 8 kartöflur

Dillsósa:

  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • ferskt dill (ca 15 g)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt & pipar

IMG_1105

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflur eru skornar í báta, velt upp úr salti og pipar, þær lagðar á annan helming ofnplötu (klædda bökunarpappír) og hún sett inn í ofn í um það bil 15 mínútur. Á meðan er laxinn er skorinn í 4 bita. Klettasalatið er saxað gróft og blandað saman við ólífuolíu, salt, pipar og chiliflögur. Þegar kartöflurnar eru teknar úr ofninum eru laxabitarnir lagðir á hinn helming ofnplötunnar. Klettasalatsblöndunni er dreift yfir laxabitana og því næst er fetaosturinn mulinn yfir. Ofnplatan er sett aftur inn í ofn í um það bil 15 mínútur eða þar til laxinn og kartöflurnar eru eldaðar í gegn. Borið fram með grænmeti (ég steikti sveppi, brokkolí og kokteiltómata upp úr hvítlaukssmjöri) og dillsósu.

Dillsósa: Dillið er saxað smátt og hrært saman sýrða rjómann ásamt hvítlauki og kryddi.

IMG_1125

 

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati


IMG_9632

Enn ein frábær helgi er liðin hjá og dásamlegur júnímánuður runninn upp. Í gærkvöldi átti ég yndislegt kvöld með vinkonum mínum úr meistaranáminu. Þvílík lukka að námið leiddi okkur þrjá sálufélagana saman! 🙂 Við fórum á Austurlandahraðlestin á nýja staðinn í Lækjargötu og fengum ákaflega góðan mat þar. Því næst lá leiðin í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum sýninguna Engla alheimsins sem er frábær sýning. Því næst var bærinn málaður rauður … tja, eða allavega fölbleikur! 😉

En ég ef ég vík að uppskrift dagsins þá ætla ég að gefa ykkur langbestu laxauppskriftina mína hingað til! Já ég veit, ég segi oft að þær laxauppskriftir sem ég set inn séu þær bestu! En trúið mér, þessi ER sú besta! Þessi uppskrift er afskaplega einföld en maður minn hvað hún er góð! Meðlætið er dásamlegt, mangó- og avókadó salsa er auðvitað hrein snilld með laxi en smjörsteikta spínatið er líka ofsalega gott, ég ætla sannarlega að notað það oftar. Okkur fannst marineringinn dásamlega ljúffeng, hún gerði laxinn að hnossgæti! Við mælum sannarlega með þessum frábæra rétti!

Uppskrift: 

  • 800 g lax, roðflettur og skorinn í bita
  • olía til steikingar

IMG_9625

Marinering:
 
  • 1.5 dl sojasósa
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1-2 tsk ferskur engifer, rifinn
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • límónusafi (lime)
  • hunang, fljótandi (eða sykur)
Hráefnunum fyrir marineringuna blandað saman, smakkað til með hunangi og límónusafa. Laxinn er því næst steiktur á pönnu upp úr olíu í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til laxinn hefur fengið fallegan steikingarlit. Þá er marineringunni hellt yfir laxinn og honum leyft að malla á vægum hita á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Laxinn er þá lagður upp á fat og marineringunni dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum, smjörsteiktu spínati og mangó-avókadósalsa.

IMG_9627
Smjörsteikt spínat
  • 300 g ferskt spínat
  • smjör
  • 6 vorlaukar, skornir í sneiðar
  • salt og pipar
Rétt áður en laxinn er borinn á borð er spínatið og vorlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

Mangó-avókadó salsa
  • mangó, skorið í bita
  • 1 stórt eða 2 lítil avókadó, skorið í bita
  • 1/2 – 1 rauður ferskur chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • kóríander eftir smekk, saxað
Öllu blandað vel saman og borið fram með laxinum.

IMG_9639