Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!
Blómkálsmús
- 1 stór blómkálshaus
- 1/2 rautt chili, fræhreinsað
- ca. 1 msk smjör
- 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
- ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
- salt og pipar
- chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)
Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).
- ca 800 g lax
-
salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
-
3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
-
2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
-
1 msk olífuolía
- fersk kóríander eða steinselja, söxuð
Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.
Sojasmjörsósa
- 150 g smjör
- 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
- 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
- 1 tsk rautt chili, saxað fínt
- 4-5 msk sojasósa
- 2 msk steinselja, söxuð smátt
Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því
Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.
Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂
er þetta ekki frekar brúnað smjör en skírt? Ég hef allavega alltaf haldið að skírt smjör (ghee) eigi ekki að brúnast öfugt við beurre noisette. Gæti samt vel haft rangt fyrir mér.
Þetta er rétt hjá þér Hildigunnur, auðvitað er þetta brúnað smjör. Þegar smjör er skírt þá eru þurrefnin fjarlægð auk vatnsins sem er í smjörinu þannig að smjörfitan ein er eftir. Ég er búin að laga þetta í textanum.
🙂 uppáhalds fiskrétturinn minn er einmitt sólkoli með brúnuðu smjöri.
Sæl. Frábær réttur, algjör veislumatur. Bætti aðeins við mangó chutney í hnetusalsann og setti laxaflakið á álpappír á grillið. Soyjasmjörsósan frábær og á örugglega eftir að gera blómkálsmúsina oft. Takk fyrir þessa uppskrift.
Sniðugt að setja mango chutney í hnetusalsað Erna! 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Þessi réttur er hreinj snilld og brúnaða smjörsósan óviðjafnanleg! Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég nota sem er á blogginu þínu en þær verða fleiri….
Frábært að heyra Guðrún, mikið er gaman að fá svona góða kveðju! 🙂
Sæl og takk fyrir alveg einstaklega góða uppskrift. Þetta er sannkallaður sælkeraréttur. Hef gert nokkrar uppskriftir af blogginu þínu og hafa þær allar verið sérlega góðar. Þúsund þakkir fyrir þetta.
Frábært að heyra Lóa, kærar þakkir fyrir kveðjuna – hún gleður mig mikið! 🙂
Hæ! Ég er svilkona Ragnhildar Söru og var að segja henni um daginn að eiginlega alltaf þegar ég elda eitthvað nýtt þá er það af síðunni þinni og hefur það aldrei klikkað! Hriklaegar góðar uppskriftir. Þessi uppskrift verður sunnudagsmaturinn á morgun hjá okkur hér í Noregi!
Sæl Hjördís! Mikið var gaman að heyra þetta! 🙂 Ég held þú verðir ekki svikin með laxinn! 🙂
Þessi smjörsósa er algert æði, takk kærlega!
Gaman að heyra Magna! Ég er alveg sammála, elska þessa sósu! 🙂
Þessi sojasmjörssósa er algjörlega TO DIE FOR, elskuð af öllum fjölskyldumeðlumum !! Takk fyrir frábæra uppskrift