Ofnbakaður lax með mangósósu


Ofnbakaður lax með mangósósu

Það er með eindæmum hversu annasöm aðventan er, það er svo margt að gera og margt um að vera. Þetta er skemmtilegur og viðburðaríkur tími en vissulega mætti sólarhringurinn vera aðeins lengri. Í vikunni sem leið var margt um að vera bæði í vinnunni minni og utan hennar. Ég hélt til dæmis  jólasaumaklúbb fyrir „sænska“ saumaklúbbinn minn sem er alltaf tilhlökkunarefni, pakkaleikurinn okkar er alltaf sérstaklega spennandi! Ég bauð stelpunum upp á ekta jólamat, kalkúnabringur með öllu tilheyrandi meðlæti. Alexander átti einnig afmæli í vikunni og ég hélt matarboð í tilefni þess. Sökum anna á öllum vígstöðum ákvað ég að hafa matarboðið eins einfalt og hugsast gæti. Satt best að segja þurfti ég að taka á honum stóra mínum varðandi einfaldleikann. Ef ég býð fólki í mat þá finnst mér mikilvægt að allt sé spikk og span og er kannski ekki alltaf með einfaldasta matinn. Mér varð hins vegar hugsað til Jóhönnu Ingu dóttur minnar þegar hún var svona sex ára. Þá var ég í loftköstum að undirbúa matarboð, lagaði til og þreif milli þess sem ég undirbjó matinn. Jóhanna var fremur hissa á þessum látum í mér og spurði hvers vegna ég væri á svona miklu spani að laga til. Ég svaraði því til að það væru að koma gestir. Þá sagði hún: „Mamma, það verður hvort sem er drasl þegar gestirnir fara, það er mikið sniðugra að laga bara til eftir á!“ Svo bætti hún við: „þú skalt bara hafa góða stemmningu í matarboðinu, lækka ljósin, setja á rólega tónlist og kveikja á fullt af kertum, þá kemur svo góð stemmning!“ Þarna hitti sex ára dóttir mín naglann á höfuðið og það kemur örugglega ekki þeim á óvart sem þekkja þennan snilling.

Ég bað Alexander að skoða bloggið mitt og koma með óskir mat. Hann kom bara með eina ósk og hún var um meðlæti, mangósósuna sem hann dýrkar – honum fannst aukaatriði hvað væri með mangósósunni! Þetta hentaði mér fullkomlega, ég valdi það sem var fljótlegt en örugglega gómsætt, ofnbakaðan lax.

IMG_1978

Uppskrift f. ca 3

  • 1 flak lax (ca 800 g)
  • salt og pipar
  • 2-3 msk mango chutney
  • 2-3 msk sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxinn er lagður í eldfast mót og hann kryddaður með salti og pipar. Því næst er mango chutney smurt á laxinn og sesamfræunum stráð yfir. Bakað í ofni í ca 20 mínútur, fer eftir þykkt laxins, eða þar til hann er eldaður í gegn. Borið fram með ofnbökuðum kartöflum og sætum kartöflum, fersku salati og mangósósu.

IMG_1992

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið – sem búið er að afþýða eða ferskt)
  • 2-3 msk mango chutney
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

IMG_1990

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Grillaður lax með kryddjurtamaríneringu og klettasalatssósu


IMG_9833

Mér finnst lax ákaflega góður. Það liggur við að mér finnist hver einasti laxaréttur vera „sá besti sem ég hef bragðað“! En ég held að það sé vegna þess að það er varla hægt að klúðra svona góðu hráefni eins og laxinn er. Að þessu sinni grillaði ég laxinn með einkar góðri maríneringu og gerði með honum ofsalega góða klettasalatssósu. Þessa klettasalatssósu væri einnig gott að nota með til dæmis grilluðum kjúklingi. Ég grillaði imagesgrænmeti með laxinum, sætar kartöflur, gulrætur og blómkál. Grænmetið skar ég niður í bita, velti því upp úr ólífuolíu, góðum kryddum og grillaði í snilldar grillbakkanum frá Weber. Ég mæli svo mikið með þessum grillbakka. Hér um alltaf þegar ég grilla, set ég eitthvað grænmeti í bakkann, það slær ekkert meðlæti grilluðu grænmeti við! Ég hef séð þennan grillbakka ódýrastan hjá Bauhaus.

Ég fékk um daginn sendingu frá Saltverk Reykjaness.

IMG_9846

Fyrirtækið framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt sem eru stórar og stökkar saltflögur. Saltið er unnið með aldagamalli íslenskri aðferð sem stunduð var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á 18.öld. Frábært salt sem ég mæli sannarlega með. Það var svo spennandi að ég fékk líka prufur af nýju bragðbættu Saltverks-salti sem er ekki enn komið á markaðinn. Meðal annars lakkríssalti og blóðbergssalti. Ég er búin að vera að þefa og smakka á saltinu og reyna að átta mig á hvernig best væri að nota það. Einna spenntust er ég að finna góða leið til þess að nota lakkríssaltið! En ég notaði blóðbergsaltið í maríneringuna á laxinn og það kom afar vel út.

IMG_9844Uppskrift:

800 g laxaflak

Marínering:

  • 1 dl fínsöxuð blaðasteinselja (eða kóríander)
  • 1 límóna (lime), hýði fínrifið og safinn
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 2 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði blóðbergssalt frá Saltverki) og pipar

IMG_9826

Hráefninu í maríneringuna er hrært saman. Laxinn er lagður á þar til gerða grillgrind eða einnota grillbakka. Maríneringunni er dreif fyrir laxinn og hann grillaður við meðalhita í um það bil 10 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn – það þarf að gæta þess að ofelda hann ekki. Borið fram með grilluðu grænmeti og klettasalatssósu.

IMG_9832

Klettasalatssósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • ca. 2 stórar lúkur klettasalat
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl furuhnetur
  • 1 dl fínrifinn parmesanostur
  • salt och grófmalaður svartur pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél og borið fram með fisknum.

IMG_9836

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu


þorskur

Þessi fiskréttur er einn sá besti sem við höfum bragðað, svo einfalt er það!  Bragðgóður fiskurinn með ljúffengu pistasíusalsanu, sætu kartöflumúsinni með mildu chili og límónubragði og svo sósunni sem er hnossgæti, gerð úr meðal annars smjöri og sojasósu, vá hvað þetta kom á óvart! Þetta var eins og að snæða fiskrétt á einhverjum frábærum veitingastað! Það hljómar núna eins og ég sé að mæra eldamennskuna hjá mér í bak og fyrir en það er uppskriftin sem er svona frábær, það getur hver sem er eldað þennan rétt! Enn og aftur undrast maður yfir því hvað hægt er að galdra fram dásamlega bragðgóða rétti með fremur fáum og einföldum hráefnum. Sósan var algjör snilld! Sem betur fer tvöfaldaði ég uppskriftina því sósan var hreinlega sleikt upp úr skálinni, sem og fiskurinn og kartöflumúsin. Næst ætla ég að prófa þessa sósu með laxi, það er örugglega líka meiriháttar gott. Með þessum rétti sauð ég nýtt og ferskt brokkolí. Ég sýð það afar stutt, það er ekki gott að borða mauksoðið brokkolí auk þess sem þá fara öll næringarefni úr því!

Sumum finnst erfitt að tímasetja matargerð og setja því kannski fyrir sig að það þarf að útbúa þrenns konar uppskriftir fyrir þennan rétt. En það er auðvelt. Best er að byrja á kartöflunum, afhýða þær, skera niður og byrja á að sjóða þær. Þegar þær eru komnar í pottinn er fiskurinn útbúinn og gerður tilbúinn fyrir ofninn. Eina sem er viðkvæmt fyrir biðinni er fiskurinn, maður vill bera hann á borð þegar hann er nýkominn úr ofninum. Þess vegna er best að setja hann í ofninn þegar kartöflurnar eru komnar vel á stað og jafnvel sósan líka. Kartöflumúsin er stöppuð, hrærð og bragðbætt í potti og þá þarf að skerpa á henni en það er hægt að gera hvenær sem er þannig að hún þolir vel að bíða.

Uppskrift f. 3

Sætkartöflumús
  • ca 5-600 gr sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita
  • 1-2 kartöflur, skrældar og skornar í bita
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • ca 1 msk smjör
  • salt og pipar

Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.

Þorskur með pistasíusalsa:
  • ca  600 gr þorskhnakkar eða þorskflök
  • salt og pipar
  • 3-4 msk pistasíuhnetur, saxaðar (má líka nota furuhnetur)
  • 3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • ca 1 dl fersk steinselja, söxuð
  • 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað

Ofninn hitaður í 220 gráður. Þorskflökin skorin í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pistsíuhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

 Sojasmjörsósa

  • 3 msk smjör
  • 1 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 2-3 msk sojasósa
  • 1 msk steinselja, söxuð smátt

Smjör brætt í potti og látið krauma við fremur vægan hita í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt. Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram. Njótið gjarnan með góðu hvítvínsglasi!

14031Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með franska hvítvíninu Arthur Metz Pinot Gris. Lýsing: Roðagult. Meðalfylling, hálfþurrt, mild sýra. Hýði, reykur.