Grillaður lax með kryddjurtamaríneringu og klettasalatssósu


IMG_9833

Mér finnst lax ákaflega góður. Það liggur við að mér finnist hver einasti laxaréttur vera „sá besti sem ég hef bragðað“! En ég held að það sé vegna þess að það er varla hægt að klúðra svona góðu hráefni eins og laxinn er. Að þessu sinni grillaði ég laxinn með einkar góðri maríneringu og gerði með honum ofsalega góða klettasalatssósu. Þessa klettasalatssósu væri einnig gott að nota með til dæmis grilluðum kjúklingi. Ég grillaði imagesgrænmeti með laxinum, sætar kartöflur, gulrætur og blómkál. Grænmetið skar ég niður í bita, velti því upp úr ólífuolíu, góðum kryddum og grillaði í snilldar grillbakkanum frá Weber. Ég mæli svo mikið með þessum grillbakka. Hér um alltaf þegar ég grilla, set ég eitthvað grænmeti í bakkann, það slær ekkert meðlæti grilluðu grænmeti við! Ég hef séð þennan grillbakka ódýrastan hjá Bauhaus.

Ég fékk um daginn sendingu frá Saltverk Reykjaness.

IMG_9846

Fyrirtækið framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt sem eru stórar og stökkar saltflögur. Saltið er unnið með aldagamalli íslenskri aðferð sem stunduð var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á 18.öld. Frábært salt sem ég mæli sannarlega með. Það var svo spennandi að ég fékk líka prufur af nýju bragðbættu Saltverks-salti sem er ekki enn komið á markaðinn. Meðal annars lakkríssalti og blóðbergssalti. Ég er búin að vera að þefa og smakka á saltinu og reyna að átta mig á hvernig best væri að nota það. Einna spenntust er ég að finna góða leið til þess að nota lakkríssaltið! En ég notaði blóðbergsaltið í maríneringuna á laxinn og það kom afar vel út.

IMG_9844Uppskrift:

800 g laxaflak

Marínering:

  • 1 dl fínsöxuð blaðasteinselja (eða kóríander)
  • 1 límóna (lime), hýði fínrifið og safinn
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 2 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði blóðbergssalt frá Saltverki) og pipar

IMG_9826

Hráefninu í maríneringuna er hrært saman. Laxinn er lagður á þar til gerða grillgrind eða einnota grillbakka. Maríneringunni er dreif fyrir laxinn og hann grillaður við meðalhita í um það bil 10 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn – það þarf að gæta þess að ofelda hann ekki. Borið fram með grilluðu grænmeti og klettasalatssósu.

IMG_9832

Klettasalatssósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • ca. 2 stórar lúkur klettasalat
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl furuhnetur
  • 1 dl fínrifinn parmesanostur
  • salt och grófmalaður svartur pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél og borið fram með fisknum.

IMG_9836

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

  • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
  • 1/2 dl ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
  • 1/4 tsk sykur
  • salt og pipar
  • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

  • 1 stórt mangó, skorið í teninga
  • 2 avókadó, skornir í teninga
  • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1/2 límóna (lime)
  • 2 msk góð ólífuolía
  • 1 msk hvítvínsedik
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!