Fiskisúpa að vestan


 Image

Ég elda afar sjaldan súpur, líklega af því að ég er ekki mikil súpumanneskja sjálf. Samt finnst mér öðru hvoru gott að fá súpu ef þær eru góðar og helst matarmiklar. Þessi súpa er einmitt þannig, bragðmikil, matarmikil og ljúffeng! Það er auðvelt að útbúa hana og hún er sérstaklega sniðug þegar mörgum er boðið í mat. Ég bjó hana til fyrir 12 manns á aldrinum 3ja – 84 ára og allir borðuðu af bestu lyst. Með henni bar ég fram nýbakað naan brauð, uppskriftin er hér, en ég notaði ekki indverskt krydd ofan á brauðið í þetta sinn heldur penslaði brauðið með eggi áður en ég bakaði það.

Uppskrift (fyrir 6-8):

 • 500 g langa, skorin í bita
 • 500 g þorskur, skorin í bita
 • 300 g rækjur (má sleppa)
 • 4 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
 • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
 • 1 stk. laukur, saxaður
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1 gul eða appelsínugul paprika, skorin í bita
 • 2-3 msk tómatpúrra
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar (ekki verra að hafa þá með t.d. basilku eða chili)
 • 3 dl vatn
 • 1 teningur (eða 1 msk) fiskikraftur
 • ½ teningur (eða 1/2 msk) kjúklingakraftur
 • 1 -2 tsk tandoori masala
 • ½ -1 tsk karrí
 • salt og pipar
 • ca. 5-7 sólþurrkaðir tómatar, sneiddir smátt
 • 4 msk mango chutney
 • 1 dl sweet chilisauce
 • 1 líter matreiðslurjómi og/eða hefðbundinn rjómi (hægt að skipta út að hluta fyrir kókosmjólk)
 • steinselja til skreytingar

Aðferð: 

Image

Ein matskeið olíu hituð í potti og hvítlaukurinn steiktur í skamma stund. Áður en hann byrjar að brenna er hann tekinn upp úr og settur til hliðar. Tveimur matskeiðum af olíu bætt við í sama pott og gulrætur, laukur og paprika brúnuð. Því næst er tómatpúrru, niðursoðnu tómötum, vatni, fiskikrafti, kjúklingakrafti, tandoori masala, karríi ásamt hvítlauknum bætt út í. Strax á eftir eru sólþurrkuðu tómatarnir sneiddir niður og þeim ásamt mango chutney, sætu chilisósunni og rjómanum bætt út í. Smakkað til með salti, pipar og meira kryddi ef með þar, látið malla í um það bil fimmtán mínútur (því lengur því betra). Þá er þorsknum og löngunni bætt út í og leyft að malla í súpunni í nokkrar mínútur. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjum bætt út í. Fallegt að skreyta með steinselju. Súpan er borin fram með góðu brauði.

 

Gulrótarkaka með súkkulaði og eplum


Gulrótarkökur eru rosalega góðar, sérstaklega þær sem eru safaríkar og bragðmiklar. Þessi er ein af þeim, þetta er dásamlega góð uppskrift. Þessi gulrótarkaka er best daginn eftir að hún er bökuð.

Uppskrift:

 •  3 stór egg
 • 2.5 dl matarolía (t.d. sólblómaolía)
 • 200 gr. sykur
 • 150 gr púðursykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 tsk kanill
 • 1/2 tsk múskat
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk lyftiduft
 • 320 gr. hveiti
 • 100 gr. suðusúkkulaði, fínsaxað
 • 400 gr gulrætur, rifnar
 • 1-2 græn epli, rifin

Rjómaostakrem

 •  100 gr. smjör, við stofuhita
 • 200 gr. flórsykur
 • 200 gr. rjómaostur, við stofuhita
 • 3 tsk vanillusykur

Aðferð:

Hitð ofinn í 180 gráður. Þeytið saman egg, sykur og olíu þar til blandan verður ljós. Bætið út í hveiti og öðrum þurrefnum og blandið varlega saman. Bætið við súkkulaði, rifnum gulrótum og rifnum eplum og blandið við deigið. Bakið í lausbotna smurðu formi (25 cm) í miðjum ofni í 50-60 mínútur.

Krem:

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til það verður létt og ljóst, bætið þá við rjómaostinum og vanillusykri. Smyrjið kremið á kökuna þegar hún er orðin köld.

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

 • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
 • 1/2 dl ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
 • 1/4 tsk sykur
 • salt og pipar
 • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

 • 1 stórt mangó, skorið í teninga
 • 2 avókadó, skornir í teninga
 • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
 • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
 • 1/2 límóna (lime)
 • 2 msk góð ólífuolía
 • 1 msk hvítvínsedik
 • salt og pipar
 • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!

Grillað Naan brauð eða bakað


Þvílíkur dásemdar sumardagur í gær! Ég þurfti bara að vinna fram að hádegi og fór því heim og útbjó brunch úti á palli fyrir krakkana og þá vini sem voru í húsinu. Jóhönnu og Gyðu vinkonu hennar fannst svo heitt að það urðu að nota „sól“hlíf á á meðan þær snæddu! Síðan var uppblásna sundlaugin dregin fram ásamt vatnsslöngunni, afar vinsæl afþreying á heitum degi. Á brunch borðinu var ég meðal annars með crousant sem maður kaupir frosið og óbakað (fæst í Bónus). Crousantin eru bökuð í ofni og borin fram heit og fersk, hrikalega góð, öll tíu stykkin hurfu eins og dögg fyrir sólu! Hvet ykkur til að kippa með einum svona poka í næstu Bónus ferð!

Um kvöldið var að sjálfsögðu grillað eins og heyrir til á svona góðum degi. Meðal þess sem rataði á grillið var uppáhaldsbrauð fjölskyldunnar, naan brauð. Þetta brauð baka ég oft á hefðbundinn hátt en eftir að hafa verið kynnt fyrir grilluðu naanbrauði af góðum vinum okkar, matgæðingunum Frissa og Jóhönnu, grillum við yfirleitt naan brauðið á sumrin. Þetta er afar einföld og góð uppskrift. Krakkarnir elska þetta brauð, ég geri oft tvöfalda uppskrift en samt klárast brauðið á mettíma! Það er best að bera það fram nýbakað og rjúkandi heitt en það helst mjög safaríkt lengi. Í uppskriftinni er hrein jógúrt en ég hef notað ab-mjólk með góðum árangri og núna notaði ég gríska jógúrt sem kom mjög vel út. Hér að neðan fylgir uppskrift af brauðinu bæði grilluðu og bökuðu á hefðbundinn hátt.

Nanbrauð (10 stykki) 

200 ml. mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180 gr við stofuhita, má líka nota ab-mjólk eða gríska jógúrt)

Ofan á brauðið:

1 msk. maldon salt
1 msk indversk kryddblanda (garam masala)
25 gr. smjör (brætt)
1-2 hvítlauksrif
ferskt kóríander (má sleppa)

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir, pískið létt saman. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið degið þar til að það verður mjúkt. Látið deigið hefast í skál í klukkustund við stofuhita. Hitið ofninn í 275 gráður. Blandið kryddinu og saltinu saman á disk. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar nokkuð þunt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Bræðið smjörið í potti, setjið pressaðan hvítlaukinn saman við smjörið og dreypið því strax á heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir brauðin ef þið viljið. Berið fram strax á meðan brauðin eru heit.

Ef brauðin eru grilluð er kryddblandan sett á eftir grillun Það er lítið mál að grilla brauðin í stað þess að baka þau í ofni. Það þarf að smyrja þau með ólífuolíu á báðum hliðum. Einnig þarf að passa að hafa brauðin ekki of stór og hafa þau vel flöt þannig að þau nái að bakast í gegn. Þau geta nefnilega verið mjög stutt á grillinu áður en þau byrja að brenna að utan, ca. 1-3 mínútur á hvorri hlið á háum hita. Fylgist bara með þeim mjög vel, um leið og þau fara að dökkna mikið þarf að snúa þeim við. Það er svo hægt að pensla brauðin strax eftir grillun með smjör- og kryddblöndunni, leyfa þeim að jafna sig í nokkrar mínútur og bera þau svo fram. Ég nota oft bara smjör, hvítlauk og salt og sleppi kryddinu eða jafnvel bara smjör og salti.

Súkkulaðimús


Það eru til nokkrar útfærslur af súkkulaðifrauði. Mér finnst eiginlega hægt að flokka þær gróflega í fjórar útgáfur. Ein útgáfan er súkkulaði, sykur og bara eggjahvítur. Í annarri útgáfu er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið, sem sagt eggjarauðurnar notaðar auk eggjahvítanna. Í þriðju útgáfunni bætist rjómi við grunnhráefnið. Í þeirri fjórðu er enginn rjómi notaður en í stað hans kemur smjör. Í bókinni hennar Juliu Child notar hún einmitt síðastnefndu aðferðina (mæli með kvikmyndinni Julie & Julia ef þið hafið ekki séð hana enn!). Ég er enn að prufa mig áfram. Núna notaði ég uppskrift með hvorki smjöri né rjóma sem telst líklega mest hefðbundin og upprunaleg uppskrift af súkkulaðifrauði og það kom afar vel út. Ég notaði 70% súkkulaði en það er með 70% kakóinnihaldi og 30% sykri. Það er talað um að það þurfi aðeins að venjast svona kröftugu og lítið sætu súkkulaði og mörgum finnst það fullrammt við fyrstu kynni. Fyrir þá sem finnst þetta of rammt súkkulaði geta notað 56% súkklaði í uppskriftina hér að neðan. Næst ætla ég að prófa uppskriftina frá Juliu Child sem er með smjöri og mun auðvitað uppfæra hér á blogginu hvers konar súkkulaðifrauð hafi vinninginn!

Uppskrift f. 6-8 (fer eftir skammtastærð)

200 gr gott dökkt súkkulaði (56-70%)

8 eggjahvítur

75 gr sykur

3 eggjarauður

Súkkulaði brætt í vatnsbaði og kælt dálítið. Eggjarauður ásamt helmingnum af sykrinum þeytt þar til blandan verður ljós. Brædda súkkulaðinu hellt varlega saman við eggjarauðurnar og hrært vel í á meðan. Eggjahvíturnar hálfþeyttar og afganginum af sykrinum bætt út í smátt og smátt meðan þær eru stífþeyttar. Blandið þriðjungi af þeyttu eggjahvítunum rösklega saman við súkkulaðiblönduna með písk eða sleif. Að því búnu er afganginum af eggjahvítunum blandað varlega saman saman við með sleikju. Hér sést rétt tækni hvernig blanda á þeyttum eggjahvítum við annað hráefni án þess að þær missi ,,loftið“.

Setjið súkkulaðifrauðið í skálar eða glös og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 2-3 klukkutíma áður en það er borið fram. Það er falleg og gott að skreyta með þeyttum rjóma og berjum, t.d. hindberjum eða jarðaberjum

Franskar Crêpes með Nutella og banönum


Í fyrra fórum við hjónin í dásamlega ferð til Parísar. Við þræddum stórborgina í rúma viku, skoðuðum söfn, hlýddum á tónleika, fórum í lautarferðir í Lúxemburgargarðinn, sigldum eftir Signu en síðast en ekki síst snæddum við ljúfengan mat og drukkum dásamleg frönsk vín! Mörgum mánuðum fyrir ferðina kortlagði ég veitingastaðina í París, skoðaði matseðla, vefsíður og veitingahúsadóma. Þetta heppnaðist afar vel, við fórum á frábæra veitingastaði og fengum ljúffengan mat alla ferðina.  En satt best að segja þá voru það ekki fínu veitingastaðirnir sem stóðu upp úr matarlega hjá okkur. Eftir að við komum heim gátum við ekki hætt að hugsa um crêpes, frönsku pönnukökurnar, sem eru seldar hér og þar um París í litlum sölustöndum! Crêpes með osti, skinku og eggi var hrikalega gott (ég er með uppskrift af því hér). En crêpes með Nutella og banönum …. Mon Dieu! 🙂 Og mér sem finnst ekki hnetusmjör gott! Eftir að heim var komið reyndi ég að endurskapa þessa dásemd en það gekk brösuglega. Málið með Crêpes er að þær eiga að vera þunnar og stórar en því er erfitt að ná með íslenskri pönnukökupönnu. En viti menn, ég fann Crepe rafmagnspönnu í Elkó sem var alls ekki svo dýr! Eftir að ég keypti hana fór ég að reyna að fullkomna uppskriftina og held að ég sé komin niður á uppskrift sem ég er sátt við. Svo þarf reyndar smá lagni við að steikja pönnukökurnar næfurþunnar og smyrja þær heitar með Nutella. En enginn í fjölskyldunni kvartar yfir þessum æfingum hjá mér! 😉 Fyrir þá sem vilja búa til alvöru Crêpes mæli ég með að setja þessa pönnu á jólagjafaóskalistann. En það er alveg hægt að búa til gómsætar crêpes á venjulegri pönnukökupönnu eða bara á venjulegi steikarpönnu með teflonhúð, ég hvet ykkur til að pófa!

Uppskrift

 • 190 gr sigtað hveiti
 • 1/4 tsk salt
 • 3 egg
 • 360 ml mjólk
 • 45 gr smjör, brætt
 • Nutella
 • Vel þroskaðir bananar.

Skerið banana í sneiðar. Sigtið hveitið. Þeytið saman egg og hveiti, bætið smám saman mjólkinni við og að lokum bræddu smjör og salti. Þeytið vel.

Setjið örþunnt lag af deiginu á pönnu og steikið, snúið pönnukökunni við, bíðið í ca. 30 sekúndur, brjótið pönnukökuna í tvennt. Smyrjið Nutella á pönnukökuna og dreifið banönum yfir. Það þarf að hafa frekar hröð handtök. Brjótið svo pönnukökuna aftur saman, og steikið í skamma stund á hvorri hlið til að Nutella og bananar bráðni vel saman.

Berið fram pönnukökurnar sjóðheitar og ekki er verra að bera þær fram með vanilluískúlu og/eða þeyttum rjóma.

Nýr kökudiskur og uppskriftabók


Mín kæra vinkona Brynja kom í örstutta heimsókn til Íslands frá Stokkhólmi og við náðum að hittast í nokkrar mínútur á hlaupum. Af sinni alkunnu hugulsemi hafði hún rogast með stóran pakka á milli landa sem hafði að geyma fertugsafmælisgjöf til mín! Í pakkanum leyndist spennandi sænsk köku og tertu uppskriftabók ásamt dásamlega fallegum kökudisk. Bókin heitir  Lomelinos Tårtor en höfundurinn heldur úti flottu matarbloggi á bæði sænsku og ensku: http://www.callmecupcake.se/ Gjöf sem hitti sannarlega í mark og ég hlakka mikið til að vígja hvor tveggja! 🙂