Fljótlegt brauð með rósmarín og flögusalti


IMG_4971

*Unnið í samstarfi við Urtu*

Eitt af því besta sem ég veit er nýbakað brauð. Þó svo að heimabökuð brauð séu fljótleg að búa til þá tekur alltaf dálítinn tíma að láta gerdeig hefa sig. Mér finnst því alltaf gott að geta gripið til einhvers sem er fljótlegt en þó jafngott og nýbakað brauð. Þessi uppskrift lætur kannski lítið yfir sér við lestur en maður verður bara að prófa til að fatta hversu ljúffengt þetta brauð er! 😉 Ótrúlega einfalt en sjúklega gott. Frábær leið til að bjóða upp á heitt, stökkt og djúsí brauð með matnum á mettíma! Ég nota hér þara hvítlaukssaltið frá Urtu og það fæst Hagkaup, Kringlunni.

IMG_4961

Uppskrift

  • 400 g tilbúið pítsadeig
  • 3-4 msk ólífuolía
  • ca. 1 msk fersk rósmarín, saxað
  • Þara hvítlaukssalt eða annað gott flögusalt

IMG_4946

 Pítsadeiginu er rúllað út og skorið í ferninga. Olía hituð á pönnu og þegar hún er orðin mjög vel heit eru fjórar sneiðar af deiginu settar á pönnuna og þær steiktar á fremur háum hita, um það bil 1 mínútu á hvorri hlið eða þar til þær verða gullinbrúnar. Gott er að þrýsta deiginu dálítið niður á pönnuna með spaða. Um leið og brauðið er tekið af pönnunni er rósamaríni og þara hvítlaukssalti dreift yfir brauðið. Meiri olíu er bætt á pönnuna við þörfum og restin af brauðinu steikt á saman hátt. Mikilvægt er að hita olíuna mjög vel áður en brauðið er steikt. Borið fram heitt.

IMG_4959IMG_4968IMG_4954

Döðlubrauð


Döðlubrauð

Við fjölskyldan erum nýkomin heim úr rúmlega vikulöngu fríi. Við keyrðum hringinn í kringum landið og dvöldum í sumarbústaði rétt fyrir utan Vopnafjörð. Við vorum orðin dálítið leið á því að fara alltaf bara austur fyrir fjall í bústað og höfum því undanfarin ár sóst eftir því að fara á meira „framandi“ staði og sjá þá í leiðinni meira af landinu okkar. Í ár var það sem sagt Vopnafjörður, í fyrra Patreksfjörður og árið þar áður vorum við á Seyðisfirði. Það sem er svo skemmtilegt við svona ferðir er meðal annars það að borgarbörnin okkar fá meiri tilfinningu fyrir landinu og hrópa alltaf upp yfir sig ef þau heyra til dæmis fréttir frá þeim stöðum sem við höfum dvalið á.

Matarlega séð voru tveir toppar í ferðinni okkar (fyrir utan okkar eigin grilltoppa í bústaðnum! 😉 ). Annar þeirra var Humarhöfnin á Höfn í Hornafirði. Það er afar notalegur staður sem býður upp á ljúffengan humar (reyndar á alltof háu verði samt að mínu mati). Hins vegar var það gistihúsið Egilsstaðir. Þvílíkur dásemdarstaður, það má enginn láta þann stað fram hjá sér fara þegar ferðast er um austurland! Sjálft húsið býr yfir mikilli sögu og hefur verið gert upp á ákaflega fallegan hátt. Það er hægt að gleyma sér við að skoða alla antíkmunina sem komið hefur verið fyrir smekklega í húsinu. Húsið sjálft og umhverfi þess er eitt og sér tilefni til heimsóknar en maturinn er líka dásamlega góður. Elfar fékk sér æðislega humarsúpu og ég fékk mér lambahamborgara með sultuðum lauk og camembertsósu, hnossgæti – ég á eftir að reyna við hann í eldhúsinu mínu! Það er mjög sniðugt að heimasækja staðinn á milli kl. 11.30 – 17.00. Þá er í boði léttur matseðill með girnilegum matréttum á afar sanngjörnu verði – þið bara verðið að prófa ef þið eigið leið þarna um! 🙂

Egilsstaðir

Takið eftir því hvað gömlu gluggarnir eru endurnýttir á skemmtilegan hátt, þeir eru notaðir sem myndarammar.

Þó svo að við höfum alls ekki fengið neitt dandalaveður (elsk’etta vopnfirska orð fyrir „bongóblíðu“! ) þá áttum við frábæra daga í bústaðnum. Fórum reglulega í sund í Selárdalslaug og skoðuðum Burstarfell sem er einstaklega skemmtilegt. Við fórum líka í löggu- og bófa í fallega skóginum í kringum bústaðinn.

IMG_1295Búin á því eftir mikinn hamagang í löggu og bófa! Mamman var svo æstur bófi að hún snéri sig á ökkla þar sem hún var á háskalegum flótta yfir læk og stökk beint ofan í gjótu! 

Einnig veiddum við á höfninni á Vopnafirði. Við veiddum ýmislegt; bæði þorsk og ýsu, kræktum í stóran krabba og nældum óvart í rassinn á mávi! Við fengum bæði síld og makríl hjá sjómönnunum fyrir beitu og við það varð mávurinn óþarflega spenntur í kringum okkur. Jóhanna Inga lagði stöngina frá sér á bryggjuna og þá notaði einn mávurinn tækifærið og ætlaði að stela beitunni en þar með flaug hann líka af stað með stöngina! Það varð upp fótur og fit þegar við reyndum að bjarga stönginni og rétt gátum komið í veg fyrir að hún færi í sjóinn!

IMG_1316

Jóhanna Inga krækti í krabba!

Í þessu fríi hef ég lítið sinnt blogginu en bæti úr því í dag með uppskrift af dásamlega góðu og einföldu döðlubrauði. Ég er í raun ekki mikið fyrir döðlubrauð – eða það hélt ég þar til að ég smakkaði þetta brauð. Það slær fátt þessu brauði við þegar það er nýbakað, enn volgt og með góðu lagi af íslensku smjöri og jafnvel góðum osti og sultu líka!

IMG_6542

Uppskrift (1 brauð):

  • 2 bollar hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli vatn
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 msk smjör
  • 1 egg

Ofninn er hitaður í 180 gráður undir- og yfirhita. Brauðform er smurt að innan (stærð ca. 22 cm x 8 cm – þegar botninn á forminu er mælt en það víkkar út að ofan) Döðlur, vatn og smör sett í pott og hitað að suðu og látið malla í 1 – 2 mínútur, hrært á meðan. Síðan er blandan hrærð í hrærvél þar til hún er orðin að mauki. Restinni að hráefninu er bætt út í hrærivélaskálina og öllu blandað saman. Deigið er sett í brauðform og bakað við 180 gráður í 50 mínútur.

IMG_6548

Kryddjurtabrauð með parmesan og ólífum


IMG_1233

Dásamlega gott kryddjurtabrauð! 

IMG_1231

Ohh … ég elska sumarið! Það er með ólíkindum hvað allt verður eitthvað svo mikið léttara og skemmtilegra í birtu, góðu veðri og sól. Þó svo að við í Reykjavík höfum bara fengið þrjá sólardaga í júní þá gildir að nýta þá daga vel. Jóhanna Inga og vinkona hennar fengu að gista úti í tjaldi einn slíkan sjaldséðan sólardag í júní. Það byrjaði með því að þær settu upp lítið tjald sem þeim fannst tilvalið að gista í.

IMG_0537

Foreldrunum leist nú ekkert á það og pabbinn sló upp betra tjaldi.

IMG_0539

Það var svo spennandi að það endaði á því að Jóhanna gisti tvær nætur í tjaldinu, þá seinni með Vilhjálmi bróður sínum. Stelpurnar gerðu ægilega heimilislegt í kringum tjaldið og útbjuggu meira að segja póstkassa. Þangað streymdu bréf frá nánustu ættingjum. Skemmtilegasta bréfið var frá pabbanum þar sem hann gaf meðal annars ýmisskonar útivistarráð! Ruslapóstur var sko ekki afþakkaður á þessu heimili heldur vildu þær allan póst! 🙂

IMG_0538

IMG_0540En að uppskrift dagsins sem er dásamlega gott brauð! Við unnum í garðinum í dag og ég skellti í eitt svona brauð sem við gæddum okkur á úti í garði seinnipartinn. Þetta brauð er ekki bara ákaflega einfalt að baka heldur er það svo hrikalega gott! Ég sá eftir að hafa ekki bakað tvö brauð því brauðið hvarf ofan í fjölskylduna á mettíma. Það hvarflaði að mér að kalla þetta sumarbústaðarbrauð því ég sá svo sterkt fyrir mér hvað það væri notalegt að baka þetta brauð í sumarbústaðinum og njóta með fjölskyldunni. En það verða bara allir að prófa að baka þetta himneska brauð – það er skipun! 🙂

IMG_1199 IMG_1228

Uppskrift (gefur eitt brauð): 

  • 280 g hveiti (eða spelt)
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 tsk flögusalt, mulið á milli fingranna (ég notaði flögusalt með rósamarín)
  • 60 g rifinn parmesan ostur
  • 60 g rifinn mozzarella eða cheddar ostur
  • ca. 12 grænar ólífur (eða fleiri – fer eftir smekk), skornar í tvennt
  • ca. 3 sólþurrkaðir tómatar (fer eftir smekk – ég notaði minna), skornir í litla bita
  • 1 tsk nýmalaður svartur pipar
  • 1 gott knippi steinselja, söxuð fínt
  • 2 tsk ferskt timjan eða 1 tsk timjan krydd
  • 2 egg
  • 2 1/2 msk ólífuolía
  • 300 ml létt-AB mjólk (eða 300 ml mjólk blandað saman við 1 msk hvítvínsedik eða sítrónusafi – látið standa í 10 mínútur)

Ofan á brauðið:

IMG_1204

Ofninn hitaður í 180 gráður undir- og yfirhita. Brauðform smurt að innan. Brauðformið sem ég nota er 25 x 11 cm (mælt að ofan, formið mjókkar aðeins niður). Hveiti, lyftiduft, matarsódi, salt, pipar, ostur, parmesan ostur, ólífur, sólþurrkaðir tómatar og steinselja sett í stóra skál og blandað vel saman.

IMG_1158

Í annarri skál eru eggjum, ólífuolíu og AB-mjólk blandað vel saman. Því næst er gerð smá dæld í miðjuna á þurrefnunum og vökvanum hellt út í.

IMG_1166

Blandað vel saman með sleif þar til deigið er orðið slétt. Deiginu er hellt í smurt brauðformið, það smurt með eggjablöndunni og saltflögum og timjan greinum dreift yfir brauðið.

IMG_1186

Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 40 mínútur. Ég vildi að ég gæti sett hér inn ilminn sem lagði um húsið af þessu ljúffenga brauði! 🙂 Brauðið er best nýbakað og volgt.

IMG_1232

Svo dásamlega gott og það tekur örstutta stund að útbúa deigið! 

IMG_1191

Grillað Naan brauð eða bakað


Þvílíkur dásemdar sumardagur í gær! Ég þurfti bara að vinna fram að hádegi og fór því heim og útbjó brunch úti á palli fyrir krakkana og þá vini sem voru í húsinu. Jóhönnu og Gyðu vinkonu hennar fannst svo heitt að það urðu að nota „sól“hlíf á á meðan þær snæddu! Síðan var uppblásna sundlaugin dregin fram ásamt vatnsslöngunni, afar vinsæl afþreying á heitum degi. Á brunch borðinu var ég meðal annars með crousant sem maður kaupir frosið og óbakað (fæst í Bónus). Crousantin eru bökuð í ofni og borin fram heit og fersk, hrikalega góð, öll tíu stykkin hurfu eins og dögg fyrir sólu! Hvet ykkur til að kippa með einum svona poka í næstu Bónus ferð!

Um kvöldið var að sjálfsögðu grillað eins og heyrir til á svona góðum degi. Meðal þess sem rataði á grillið var uppáhaldsbrauð fjölskyldunnar, naan brauð. Þetta brauð baka ég oft á hefðbundinn hátt en eftir að hafa verið kynnt fyrir grilluðu naanbrauði af góðum vinum okkar, matgæðingunum Frissa og Jóhönnu, grillum við yfirleitt naan brauðið á sumrin. Þetta er afar einföld og góð uppskrift. Krakkarnir elska þetta brauð, ég geri oft tvöfalda uppskrift en samt klárast brauðið á mettíma! Það er best að bera það fram nýbakað og rjúkandi heitt en það helst mjög safaríkt lengi. Í uppskriftinni er hrein jógúrt en ég hef notað ab-mjólk með góðum árangri og núna notaði ég gríska jógúrt sem kom mjög vel út. Hér að neðan fylgir uppskrift af brauðinu bæði grilluðu og bökuðu á hefðbundinn hátt.

Nanbrauð (10 stykki) 

200 ml. mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180 gr við stofuhita, má líka nota ab-mjólk eða gríska jógúrt)

Ofan á brauðið:

1 msk. maldon salt
1 msk indversk kryddblanda (garam masala)
25 gr. smjör (brætt)
1-2 hvítlauksrif
ferskt kóríander (má sleppa)

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir, pískið létt saman. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið degið þar til að það verður mjúkt. Látið deigið hefast í skál í klukkustund við stofuhita. Hitið ofninn í 275 gráður. Blandið kryddinu og saltinu saman á disk. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar nokkuð þunt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Bræðið smjörið í potti, setjið pressaðan hvítlaukinn saman við smjörið og dreypið því strax á heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir brauðin ef þið viljið. Berið fram strax á meðan brauðin eru heit.

Ef brauðin eru grilluð er kryddblandan sett á eftir grillun Það er lítið mál að grilla brauðin í stað þess að baka þau í ofni. Það þarf að smyrja þau með ólífuolíu á báðum hliðum. Einnig þarf að passa að hafa brauðin ekki of stór og hafa þau vel flöt þannig að þau nái að bakast í gegn. Þau geta nefnilega verið mjög stutt á grillinu áður en þau byrja að brenna að utan, ca. 1-3 mínútur á hvorri hlið á háum hita. Fylgist bara með þeim mjög vel, um leið og þau fara að dökkna mikið þarf að snúa þeim við. Það er svo hægt að pensla brauðin strax eftir grillun með smjör- og kryddblöndunni, leyfa þeim að jafna sig í nokkrar mínútur og bera þau svo fram. Ég nota oft bara smjör, hvítlauk og salt og sleppi kryddinu eða jafnvel bara smjör og salti.