
Dásamlega gott kryddjurtabrauð!

Ohh … ég elska sumarið! Það er með ólíkindum hvað allt verður eitthvað svo mikið léttara og skemmtilegra í birtu, góðu veðri og sól. Þó svo að við í Reykjavík höfum bara fengið þrjá sólardaga í júní þá gildir að nýta þá daga vel. Jóhanna Inga og vinkona hennar fengu að gista úti í tjaldi einn slíkan sjaldséðan sólardag í júní. Það byrjaði með því að þær settu upp lítið tjald sem þeim fannst tilvalið að gista í.

Foreldrunum leist nú ekkert á það og pabbinn sló upp betra tjaldi.

Það var svo spennandi að það endaði á því að Jóhanna gisti tvær nætur í tjaldinu, þá seinni með Vilhjálmi bróður sínum. Stelpurnar gerðu ægilega heimilislegt í kringum tjaldið og útbjuggu meira að segja póstkassa. Þangað streymdu bréf frá nánustu ættingjum. Skemmtilegasta bréfið var frá pabbanum þar sem hann gaf meðal annars ýmisskonar útivistarráð! Ruslapóstur var sko ekki afþakkaður á þessu heimili heldur vildu þær allan póst! 🙂

En að uppskrift dagsins sem er dásamlega gott brauð! Við unnum í garðinum í dag og ég skellti í eitt svona brauð sem við gæddum okkur á úti í garði seinnipartinn. Þetta brauð er ekki bara ákaflega einfalt að baka heldur er það svo hrikalega gott! Ég sá eftir að hafa ekki bakað tvö brauð því brauðið hvarf ofan í fjölskylduna á mettíma. Það hvarflaði að mér að kalla þetta sumarbústaðarbrauð því ég sá svo sterkt fyrir mér hvað það væri notalegt að baka þetta brauð í sumarbústaðinum og njóta með fjölskyldunni. En það verða bara allir að prófa að baka þetta himneska brauð – það er skipun! 🙂

Uppskrift (gefur eitt brauð):
- 280 g hveiti (eða spelt)
- 2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 1 tsk flögusalt, mulið á milli fingranna (ég notaði flögusalt með rósamarín)
- 60 g rifinn parmesan ostur
- 60 g rifinn mozzarella eða cheddar ostur
- ca. 12 grænar ólífur (eða fleiri – fer eftir smekk), skornar í tvennt
- ca. 3 sólþurrkaðir tómatar (fer eftir smekk – ég notaði minna), skornir í litla bita
- 1 tsk nýmalaður svartur pipar
- 1 gott knippi steinselja, söxuð fínt
- 2 tsk ferskt timjan eða 1 tsk timjan krydd
- 2 egg
- 2 1/2 msk ólífuolía
- 300 ml létt-AB mjólk (eða 300 ml mjólk blandað saman við 1 msk hvítvínsedik eða sítrónusafi – látið standa í 10 mínútur)
Ofan á brauðið:

Ofninn hitaður í 180 gráður undir- og yfirhita. Brauðform smurt að innan. Brauðformið sem ég nota er 25 x 11 cm (mælt að ofan, formið mjókkar aðeins niður). Hveiti, lyftiduft, matarsódi, salt, pipar, ostur, parmesan ostur, ólífur, sólþurrkaðir tómatar og steinselja sett í stóra skál og blandað vel saman.

Í annarri skál eru eggjum, ólífuolíu og AB-mjólk blandað vel saman. Því næst er gerð smá dæld í miðjuna á þurrefnunum og vökvanum hellt út í.

Blandað vel saman með sleif þar til deigið er orðið slétt. Deiginu er hellt í smurt brauðformið, það smurt með eggjablöndunni og saltflögum og timjan greinum dreift yfir brauðið.

Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 40 mínútur. Ég vildi að ég gæti sett hér inn ilminn sem lagði um húsið af þessu ljúffenga brauði! 🙂 Brauðið er best nýbakað og volgt.

Svo dásamlega gott og það tekur örstutta stund að útbúa deigið!

Líkar við:
Líka við Hleð...