Grillað Naan brauð eða bakað


Þvílíkur dásemdar sumardagur í gær! Ég þurfti bara að vinna fram að hádegi og fór því heim og útbjó brunch úti á palli fyrir krakkana og þá vini sem voru í húsinu. Jóhönnu og Gyðu vinkonu hennar fannst svo heitt að það urðu að nota „sól“hlíf á á meðan þær snæddu! Síðan var uppblásna sundlaugin dregin fram ásamt vatnsslöngunni, afar vinsæl afþreying á heitum degi. Á brunch borðinu var ég meðal annars með crousant sem maður kaupir frosið og óbakað (fæst í Bónus). Crousantin eru bökuð í ofni og borin fram heit og fersk, hrikalega góð, öll tíu stykkin hurfu eins og dögg fyrir sólu! Hvet ykkur til að kippa með einum svona poka í næstu Bónus ferð!

Um kvöldið var að sjálfsögðu grillað eins og heyrir til á svona góðum degi. Meðal þess sem rataði á grillið var uppáhaldsbrauð fjölskyldunnar, naan brauð. Þetta brauð baka ég oft á hefðbundinn hátt en eftir að hafa verið kynnt fyrir grilluðu naanbrauði af góðum vinum okkar, matgæðingunum Frissa og Jóhönnu, grillum við yfirleitt naan brauðið á sumrin. Þetta er afar einföld og góð uppskrift. Krakkarnir elska þetta brauð, ég geri oft tvöfalda uppskrift en samt klárast brauðið á mettíma! Það er best að bera það fram nýbakað og rjúkandi heitt en það helst mjög safaríkt lengi. Í uppskriftinni er hrein jógúrt en ég hef notað ab-mjólk með góðum árangri og núna notaði ég gríska jógúrt sem kom mjög vel út. Hér að neðan fylgir uppskrift af brauðinu bæði grilluðu og bökuðu á hefðbundinn hátt.

Nanbrauð (10 stykki) 

200 ml. mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180 gr við stofuhita, má líka nota ab-mjólk eða gríska jógúrt)

Ofan á brauðið:

1 msk. maldon salt
1 msk indversk kryddblanda (garam masala)
25 gr. smjör (brætt)
1-2 hvítlauksrif
ferskt kóríander (má sleppa)

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir, pískið létt saman. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið degið þar til að það verður mjúkt. Látið deigið hefast í skál í klukkustund við stofuhita. Hitið ofninn í 275 gráður. Blandið kryddinu og saltinu saman á disk. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar nokkuð þunt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Bræðið smjörið í potti, setjið pressaðan hvítlaukinn saman við smjörið og dreypið því strax á heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir brauðin ef þið viljið. Berið fram strax á meðan brauðin eru heit.

Ef brauðin eru grilluð er kryddblandan sett á eftir grillun Það er lítið mál að grilla brauðin í stað þess að baka þau í ofni. Það þarf að smyrja þau með ólífuolíu á báðum hliðum. Einnig þarf að passa að hafa brauðin ekki of stór og hafa þau vel flöt þannig að þau nái að bakast í gegn. Þau geta nefnilega verið mjög stutt á grillinu áður en þau byrja að brenna að utan, ca. 1-3 mínútur á hvorri hlið á háum hita. Fylgist bara með þeim mjög vel, um leið og þau fara að dökkna mikið þarf að snúa þeim við. Það er svo hægt að pensla brauðin strax eftir grillun með smjör- og kryddblöndunni, leyfa þeim að jafna sig í nokkrar mínútur og bera þau svo fram. Ég nota oft bara smjör, hvítlauk og salt og sleppi kryddinu eða jafnvel bara smjör og salti.

Grillbrauð


Síðasta kvöldið í sumarbústaðnum ákvað ég að reyna nýta afganga í kvöldmatinn. Fyrir utan ávexti og grænmeti átti ég einn pylsupakka en ekkert pylsubrauð. Ég ákvað því að búa til brauðdeig:

Uppskrift
 
6 dl hveiti
3 dl vatn
1 pk þurrger
2 msk ólífuolía
1 tsk sykur
1 tsk salt

Deig 
Hafið vatnið fingurvolgt. Olían sett út í volgt vatnið í skál, þurrgeri, sykri og salti blandað vel saman við hveitið og þurrefnunum loks hrært saman við vökvann. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og samfellt. Látið deigið í hveitistráða skál og látið það lyfta sér á hlýjum stað í 1 klst. eða þar til það hefur tvöfaldað umfang sitt.

Bakstur 
Hnoðið deigið aftur og skiptið því í tvo hluta. Skiptið hvorum deighluta í 5-6 hluta og búið til pylsu úr hverjum þeirra sem síðan er vafið utan um grillspjót. Stráið örlitlu hveiti yfir deigspjótin og látið hvíla í 20 mín. á bakka eða plötu. Raðið deigspjótum á grillið og látið bakast þar til þau eru fallega steikt. Snúið spjótunum nokkrum sinnum þannig að úr verði 3-4 hliðar á hverju brauði. Bökunartíminn fer eftir glóðarhitanum í grillinu en þau eru fljót að bakast, u.þ.b. 2 mín. á hverri hlið við meðalhita. Úr uppskriftinni fást 10-12 smábrauð. Ég vafði sumum deighlutum upp á spjót en öðrum utan um pylsurnar. Einnig setti ég ólífur í sum brauðin.

Það þarf bara að passa að hafa grillið ekki á of háum hita, fylgjast vel með brauðinu og snúa því reglulega.

Úr þessu varð alveg ágætis máltíð! 🙂