Marengsterta með créme brulée skyri og piparlakkrískurli


IMG_6408

Um daginn fór ég í matarboð og fékk svo dæmalaust góða marengstertu í eftirrétt. Ég kom ekki fyrir mig bragðinu, það var eitthvað svo óvenjulegt og óhemjugott bragð af rjómanum. Það kom í ljós að það var créme brulée skyr sem er einmitt að gera góða hluti í allskonar eftirréttauppskriftum þessa dagana (þetta er samt ekki styrkt færsla sko! 🙂 ). Samsetning tertunnar var líka harla óvenjuleg því það voru í henni bananar og lakkrís, svakalega góð blanda fannst mér. Ég tók því til við að endurtaka leikinn hér heima og betrumbætti með því að nota ekki lakkrís heldur piparlakkrískurl. Alveg sjúklega góð terta finnst mér, vona að ykkur finnist það líka! 🙂

IMG_6400

Botnar:

 • 5 eggjahvítur
 • 3 1/2 dl púðursykur
 • 1 dl sykur

Á milli:

 • 2 dl rjómi
 • 250 g créme brulée skyr
 • 2 stórir eða 3 litlir bananar, vel þroskaðir

Ofan á:

 • ca. 2 dl rjómi
 • ca 100 g piparlakkrískurl
 • rifið suðusúkkulaði

Ofn hitaður í 130 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar og sykri og púðursykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Diskur eða kökuform sem er ca. 20-22 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 130°C (blástur) í heitum ofni í ca. 55-60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_6404

Þegar marengsinn er orðinn kaldur er rjóminn þeyttur og skyrinu bætt varlega út í með sleikju. Blandan er borin á annan botninn. Bananar eru skornir i sneiðar og þeim raðað yfir rjómann. Hinn marengsbotninn er lagður ofan á. Þá er þeyttur um það bil 2 dl af rjóma og honum dreift yfir marengsinn. Að lokum er piparlakkrískurli og vel af rifnu suðusúkkulaði dreift yfir rjómann.

IMG_6405

 

7 hugrenningar um “Marengsterta með créme brulée skyri og piparlakkrískurli

 1. Sæl
  Ég gjörsamlega elska bloggið þitt og uppskriftinar þannig alls ekki hætta ! Finnst mjög leiðinlegt hvað það koma sjaldan færslur frá þér undanfarið. Margir réttir af síðunni þinni eldaðir mánaðarlega á mínu heimili og slá alltaf jafn mikið í gegn 🙂

  • Sæl og takk fyrir góða kveðju.
   Ég er ekki formlega hætt með bloggið en sökum anna bæði í vinnu og einkalífi þá hef ég ekki getað sinnt blogginu neitt í vetur. Ég hef alltaf sinnt blogginum samhliða yfir 100% annarri vinnu og það er krefjandi. Sumir spyrja mig hvort ég græði eitthvað á blogginu og ég svara venjulega: „já, aukakíló, svefnleysi og ánægju!“ 😉
   Það er nefnilega ákaflega mikil vinna að halda úti svona matarbloggi, ef það á að vera vandað, og ég vil ekki að það verði að kvöð eða gera það illa eða með hangandi hendi. Ég vonast til að koma sterk inn fljótlega aftur! 🙂 Sérstaklega núna þegar dagsbirtan er mætt aftur og það er hægt að taka myndir eftir venjulegan vinnutíma. 🙂

 2. Sæl Dröfn,
  Mikið sakna ég uppskrifta þinna en með stórafjölskyldu og fulla vinnu er erfitt að halda út svona flottri síðu. Mig langar að kanna hjá þér með fallega bláa litinn á eldhúsinu ykkar, hvað heitir hann og hvar fæst hann? Þetta er einhver fallegasti litur sem ég hef séð.

  Bestu kveðjur
  Sigríður

  • Sæl Sigríður og takk fyrir fallega kveðju. Endilega fylgstu með Eldhússögum á Instagram, þó ég sé í óformlegri hvíld frá blogginu þá set ég oft í „story“ á Instagram það sem ég er að bralla í eldhúsinu. Þessi blái litur heitir ekki neitt sérstakt heldur kemur af litakorti og er því bara með númer. Ég þarf að grafa upp heima hvert númerið er og set það hér inn.

   • Takk kærlega fyrir skjót viðbrögð ég fylgist með þér á instagram og hef gaman af.
    Kveðja
    Sigríður

 3. Mikið sakna ég að sjá ekki nýjar uppskriftir frá þér. Lít reglulega inn. Ég er ekki á instragram. Vonandi birtist blogg frá þér aftur. Er mjög hrifin af uppskriftunum þínum.
  Kær kveðja Elsa

  • Mikið sakna ég að sjá ekki nýjar uppskriftir frá þér. Lít reglulega inn. Ég er ekki á instragram. Vonandi birtist glöggt frá þér aftur. Ég er mjög hrifin af uppskriftunum þínum.
   Kær kveðja Elsa

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.