Marengsterta með créme brulée skyri og piparlakkrískurli


IMG_6408

Um daginn fór ég í matarboð og fékk svo dæmalaust góða marengstertu í eftirrétt. Ég kom ekki fyrir mig bragðinu, það var eitthvað svo óvenjulegt og óhemjugott bragð af rjómanum. Það kom í ljós að það var créme brulée skyr sem er einmitt að gera góða hluti í allskonar eftirréttauppskriftum þessa dagana (þetta er samt ekki styrkt færsla sko! 🙂 ). Samsetning tertunnar var líka harla óvenjuleg því það voru í henni bananar og lakkrís, svakalega góð blanda fannst mér. Ég tók því til við að endurtaka leikinn hér heima og betrumbætti með því að nota ekki lakkrís heldur piparlakkrískurl. Alveg sjúklega góð terta finnst mér, vona að ykkur finnist það líka! 🙂

IMG_6400

Botnar:

  • 5 eggjahvítur
  • 3 1/2 dl púðursykur
  • 1 dl sykur

Á milli:

  • 2 dl rjómi
  • 250 g créme brulée skyr
  • 2 stórir eða 3 litlir bananar, vel þroskaðir

Ofan á:

  • ca. 2 dl rjómi
  • ca 100 g piparlakkrískurl
  • rifið suðusúkkulaði

Ofn hitaður í 130 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar og sykri og púðursykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Diskur eða kökuform sem er ca. 20-22 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 130°C (blástur) í heitum ofni í ca. 55-60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_6404

Þegar marengsinn er orðinn kaldur er rjóminn þeyttur og skyrinu bætt varlega út í með sleikju. Blandan er borin á annan botninn. Bananar eru skornir i sneiðar og þeim raðað yfir rjómann. Hinn marengsbotninn er lagður ofan á. Þá er þeyttur um það bil 2 dl af rjóma og honum dreift yfir marengsinn. Að lokum er piparlakkrískurli og vel af rifnu suðusúkkulaði dreift yfir rjómann.

IMG_6405

 

Kornflex marengsterta með karamellukurli


Kornflex marengsterta með karamellukurliÞegar það er yfirvofandi óveður í júlí þá er bara eitt ráð í stöðunni, að borða eitthvað gott! Reyndar finnst mér það vera óbrigðult ráð í öllum stöðum. 🙂 Það er eitthvað ómótstæðilegt við marengstertur og þessi terta er þar engin undantekning. Marengsinn er með Kornflexi og það er líka hægt að nota Rice Krispies ef maður kýs það heldur. Mér finnst óskaplega gott að nota karamellukurl og banana saman í svona marengstertur og jarðarberin og banana-Pippið kóróna verkið. Þetta er „must try“ fyrir marengstertu-aðdáendur gott fólk! 🙂
IMG_6218IMG_6235
Marengs:
  • 220 sykur
  • 4 eggjahvítur (stór egg)
  • 2.5 bollar Kornflex
  • 1 tsk lyftiduft

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 150 g Nóa karamellukurl (1 poki)
  • 250 g fersk jarðarber, skorin í bita
  • 1-2 þroskaðir bananar, skornir í bita

Karamellukrem:

  • 4 eggjarauður
  • 4 msk flórsykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með bananakremi
  • 2 msk rjómi eða mjólk
Ofn hitaður í 120 gráður við blástur Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er kornflex bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjóminn er þeyttur og Nóa karamellukurlinu ásamt jarðarberjunum og banönunum er bætt út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna.

IMG_6219IMG_6220

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pippið er sett í skál ásamt 2 msk af rjóma eða mjólk og brætt yfir vatnsbaði. Eggjarauðu- og flórsykurblöndunni er svo blandað út í súkkulaðið. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum.

IMG_6231