Marengsterta með Freyju karamellurjóma og Hrískúlum


 

img_4119img_4113

Ég hef talað um það áður hér á blogginu, að þegar ég sé nýtt sælgæti á markaðnum, þá er ég alltaf spenntust fyrir því að finna því einhvern skemmtilegan farveg í uppskriftum. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá nýja Hrísið með Freyjukaramellubragði var að þessar súkkulaðikúlur myndu passa eins og hönd í hanska við gómsæta marengstertu. Mér datt síðan í hug að búa til karamellurjóma úr Freyju karamellum. … og herregud hvað þetta varð geggjaður rjómi!

Það munaði litlu að hann kæmist ekki á milli botnanna því ég þurfti ”aðeins” að smakka hann til dálítið of oft! 😉 Það væri örugglega geggjað að útbúa svona karamellurjóma og bera fram með berjum og ávöxtum eða með góðri súkkulaðiköku. Það er allavega næst á dagskrá hjá mér. Það er ekkert flókið að búa hann til, bara tvennt sem þarf að passa. Annars vegar að láta ekki rjómann sjóða og hins vegar að gefa honum góðan tíma til að kólna alveg. Það er því mjög hentugt að nota hann á marengstertu því það er einmitt terta sem maður bakar oftast daginn áður. Ég bakaði marengsbotnanna að kvöldi ásamt því að útbúa rjómann. Daginn eftir þeytti ég rjómann og setti saman tertuna, einfalt og fljótlegt. Ég tók hana með með í vikulega sunnudagskaffið hjá okkur fjölskyldunni og sló tertan í gegn. Þetta er terta sem verður sannarlega bökuð aftur og aftur!

img_4114

Uppskrift:

Marengs:
  • 300 g sykur
  • 6 eggjahvítur
  • 3 bollar Kornflex eða Rice krispies
  • 1 tsk lyftiduft

Rjómafylling:    hris

  • 5 dl rjómi
  • 150 g Freyju karamellur, klipptar í litla bita
  • 200 g Hrís með Freyjukaramellum
  • 250 g fersk jarðarber, skorin í bita

Súkkulaðikrem:

  • 6 eggjarauður
  • 6 msk flórsykur
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 50 g Freyjukaramellur, klipptar í litla bita
  • 1-2 msk rjómi eða mjólk
Marengs: Ofn hitaður í 140 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar ásamt lyftidufti og sykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Kornflexi eða Rice krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Karamellurjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu lækkað í meðalhita og karamellunum, sem búið er að klippa í minni bita, er bætt út rjómann. Þá er hrært þar til karamellurnar hafa bráðnað. Athugið að rjóminni má alls ekki sjóða! Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli, í minnst 4 tíma, eða þar til blandan er orðin alveg köld. Best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og loks er jarðaberjunum og hrískúlunum blandað varlega saman við með sleikju.img_4110

Súkkulaðikrem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Suðusúkkulaði og karamellur er sett í pott ásamt 1-2 msk af rjóma eða mjólk (eftir þörfum) og brætt við meðalhita. Þegar súkkulaðiblandan er bráðnuð er hún látin kólna dálítið og því næst bætt út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Ef súkkulaðiblandan er mjög þunn er hægt að setja hana í ísskáp í dálítla stund til þess að hún þykkni áður en henni er dreift yfir tertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum, hindberjum og blæjuberjum. img_4112img_4115

Marengsterta með súkkulaðirúsínum og eplum


img_4036-6

Í síðasta mánuði átti yngsta barnið í fjölskyldunni 12 ára afmæli.

img_4047

Hún hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir á því hvernig afmælisveislurnar eigi að vera og það hefur alltaf verið eitthvað þema í gangi. Í ár var þemað til fyrir tilviljun þegar við mæðgur byrjuðum á því að kaupa servíettur sem við féllum fyrir, okkur fannst þær svo fallegar. Í kjölfarið ákváðum við að það yrði bara einhverskonar fallegt pastel þema.

Ég bað Önnu frænku hjá Önnu konditori að gera uppáhaldstertu afmælisbarnsins (svampbotnar, hindber og karamellukrókant) og hafa hana í stíl við servíetturnar. Það var ekki að spyrja að því, þessi listakona bjó til frábærlega fallega tertu sem skreytt var með blómum og hjóli með blómakörfu, alveg í stíl við servíetturnar.

img_4043img_4031

Ég bjó til súkkulaðiköku og skreytti hana í pastellitum. Ég notaði skúffukökuuppskrift og hafði botnana fjóra (smjörkrem á milli), þá verður kakan fallega há. Hins vegar er ekki gott að skera hana þannig því sneiðarnar verða alltof stórar. Ég hafði því harðspjald á milli botnanna (tveir botnar með kremi á milli – kringlótt harðspjald – tveir botnar með kremi á milli) þannig að fyrst var efsta lag kökunar skorið og síðan sú neðri, mjög praktísk og einföld lausn ef maður vill hafa kökur háar. Ég hef stundum hreinlega líka notað botninnn úr lausbotna kökuforminu og haft hann á milli ef ég hef ekkert annað.

img_4040img_4041

Ein tertan sem ég var með var marengsterta og ég ákvað að gera tilraun og setja eitthvað nýtt í rjómann. Ég notaði súkkulaðirúsínur og græn epli, ótrúlega ferskt og gott. Ég mæli sannarlega með þessari bombu í næstu veislu! 🙂

img_4037

Uppskrift:

Marengs:

  • 3 dl sykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
 settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 3-4 græn epli (fer eftir stærð), skorin smátt
  • 150 g súkkulaðirúsínur

Rjóminn er þeyttur og eplum ásamt súkkulaðirúsínum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

img_4033

Súkkulaði krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 100 g Síríus pralín súkkulaði með karamellu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir.

img_4035-5

Marengsterta með karamellurjóma og hindberjum


IMG_0561

Nú er kominn einn og hálfur mánuður frá því að við fengum nýja húsið okkar afhent og þar eru miklar framkvæmdir í gangi. Eins og gengur og gerist þá vinda svona framkvæmdir upp á sig og staðan er núna sú að við erum að skipta um eiginlega allt í húsinu, allt frá rafmagni og lögnum upp í innréttingar og gólfefni. Þetta eru afar spennandi framkvæmdir og að mörgu að huga, margar ákvarðanir sem þarf að taka. Við hjónin erum sem betur fer svo skemmtilega samstíga að við erum yfirleitt sammála um allt og ákaflega fljót að taka ákvarðanir sem hentar vel í svona framkvæmdum. Það er þó eitt þessa dagana sem við sveiflumst fram og tilbaka með, það eru borðplötur í eldhúsinu. Við vorum ákveðin í að hafa svartar granítplötur (eldhúsinnréttingin er hvít) en svo fór ég efast eftir að hafa lesið á netinu um að sumum finnist of kalt að hafa granít á öllu, að það glamri mikið í öllu sem maður leggur frá sér og að það sjáist mikið á svörtu graníti. Í eldhúsinu sem við erum með núna er granít í einu horninu og svo eikarborðplötur á restinni. Mér finnst frábært að hafa granítið, gott að hnoða deig á því og ég legg allt heitt beint úr ofninum á það. En það er spurning hvort að það sé of mikið að hafa granít á öllu. Endilega segið mér frá ykkar reynslu af borðplötum og hverju þið mælið með!

En víkjum að þessari dásemd!

IMG_0577

Bóndadagurinn er á morgun og ég ætla sannarlega að dekra við minn bónda. Rauðvín og steik hljómar algjörlega í takt við daginn en ég held líka að ein svona hnallþóra yrði ekki óvinsæl á borðum bænda landsins! 🙂 Mér finnst Dumle súkkulaðiðfrauðið svo gott að ég ákvað að prófa mig áfram með það í tertu og hér er gómsæt útkoman:

IMG_0571

Dumlerjómi með hindberjum:

  •   5 dl rjómi
  •   120 g Dumle orginal, saxaðar eða klipptar í minni bita
  •   300 g hindber (fersk eða afþýdd)

Marengs:

  •   220 sykur
  •   4 eggjahvítur (stór egg)
  •   3 bollar Kornflex
  •   1 tsk lyftiduft

Dumle snacks krem:

  •   4 eggjarauður
  •   4 msk flórsykur
  •   175 g Dumle Snacks, saxað
  •   50 g 50-70% súkkulaði, saxað
  •   3-4 msk rjómi
  •   Til skrauts. Nokkrir Dumle snacks molar saxaðir niður og hindber.

Dumlerjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Gæta þarf þess að rjóminn sjóði ekki. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, í minnst 3-4 tíma, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og þá er hindberjunum blandað varlega saman við með sleikju.

Marengs: Ofn hitaður í 120 gráður við blástur. Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er kornflexi bætt varlega út í með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Að lokum er marengsinn bakaður við 120°C, blástur í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum. Þegar marengsinn er orðinn kaldur er Dumlerjóminn með hindberjunum settur á milli botnanna og og Dumle snacks kremið sett ofan á.

Dumle Snacks krem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Dumle snacks og súkkulaði er sett í pott ásamt 3-4 msk af rjóma eða mjólk og brætt við meðalhita, hrært í blöndunni á meðan. Súkkulaðiblöndunni er því næst blandað út í eggjakremið og kreminu svo leyft að standa í smá stund (jafnvel í ísskáp) þar til það stífnar hæfilega. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. hindberjum og/eða jarðaberjum ásamt nokkrum niðursöxuðum Dumle snacks molum.

IMG_0569

IMG_0576

Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi


Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Ég hef talað um það áður að um leið og Nói Siríus kemur með eitthvað nýtt sælgæti á markað þá endar það yfirleitt mjög fljótt í tertu eða köku hjá mér. Núna kom á markað nýtt Nóa kropp, að þessu sinni með piparmyntubragði. Hingað til hefur ekkert Nóa kropp slegið út hinu eina og sanna en ég held svei mér þá að þetta komi ansi nálægt því. Ég veit ekki hvort þið kannist við Remi piparmyntu súkkulaðikexið (ef ekki – þá mæli ég með þeim kynnum!), nýja Nóa kroppið minnir mikið á það ljúffenga kex. Ég ákvað að baka margengstertu fyrir afmæli litlu frænku minnar og nota nýja piparmyntu Nóa kroppið ásamt piparmyntu Pippi. Vissulega er þessi marengsterta engin nýjung, bara tilbrigði við þessa gömlu góðu en hún var allavega mjög vinsæl í veislunni og ég mæli sannarlega með henni. Það mætti kannski halda að þessi færsla væri styrkt af Nóa Siríus en svo er ekki … það er eiginlega öfugt, ég er öflugur styrktaraðili Nóa! 😉 Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Marengs:

  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 250 g fersk jarðaber, skorin í bita
  • ca. 150 g Nóa kropp með piparmyntu
  • 50 g Pipp með piparmyntu, skorið smátt

Rjóminn er þeyttur og jarðaberjunum ásamt Nóa kroppi og Pippi er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

Pipp krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 150 g Pipp með piparmyntu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir. IMG_8843 IMG_8846

Kornflex marengsterta með karamellukurli


Kornflex marengsterta með karamellukurliÞegar það er yfirvofandi óveður í júlí þá er bara eitt ráð í stöðunni, að borða eitthvað gott! Reyndar finnst mér það vera óbrigðult ráð í öllum stöðum. 🙂 Það er eitthvað ómótstæðilegt við marengstertur og þessi terta er þar engin undantekning. Marengsinn er með Kornflexi og það er líka hægt að nota Rice Krispies ef maður kýs það heldur. Mér finnst óskaplega gott að nota karamellukurl og banana saman í svona marengstertur og jarðarberin og banana-Pippið kóróna verkið. Þetta er „must try“ fyrir marengstertu-aðdáendur gott fólk! 🙂
IMG_6218IMG_6235
Marengs:
  • 220 sykur
  • 4 eggjahvítur (stór egg)
  • 2.5 bollar Kornflex
  • 1 tsk lyftiduft

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 150 g Nóa karamellukurl (1 poki)
  • 250 g fersk jarðarber, skorin í bita
  • 1-2 þroskaðir bananar, skornir í bita

Karamellukrem:

  • 4 eggjarauður
  • 4 msk flórsykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með bananakremi
  • 2 msk rjómi eða mjólk
Ofn hitaður í 120 gráður við blástur Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er kornflex bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjóminn er þeyttur og Nóa karamellukurlinu ásamt jarðarberjunum og banönunum er bætt út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna.

IMG_6219IMG_6220

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pippið er sett í skál ásamt 2 msk af rjóma eða mjólk og brætt yfir vatnsbaði. Eggjarauðu- og flórsykurblöndunni er svo blandað út í súkkulaðið. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum.

IMG_6231

 

Fazermint marengsterta


IMG_4594

 

IMG_4600Í gær var ég svolítið eins og sprungin blaðra, ánægð blaðra – en sprungin! 🙂 Fermingin hans Vilhjálms var í fyrradag og heppnaðist ákaflega vel. Ég er orðin hressari núna og nýt þess að vera loksins í fríi. Ég á eftir að blogga meira um þennan dásamlega fermingardag, matinn, uppskriftir og skreytingar en ég þarf að vinna úr myndunum betur áður.

Á meðan ætla ég hins vegar að setja hér inn í dag uppskrift að frábærri marengstertu með myntusúkkulaði. Það er fátt sem slær út gómsætum marengstertum og ég mæli með að þið skellið þessa og bjóðið sem eftirrétt eftir góða páskamáltíð!

IMG_4611

Marengs:

▪   2 dl sykur
▪   1 dl púðursykur
▪   4 eggjahvítur
▪   3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Fazermint marengsterta

Rjómafylling:

▪   5 dl rjómi
▪   250 g fersk jarðarber, skorin í bita
▪   ca. 200 g fersk bláber
▪   8 molar Fazermint (ca. 60 g), saxaðir smátt

Rjóminn er þeyttur og berjunum ásamt Fazermint molunum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

Fazermint krem: 

  • 4 eggjarauður
  • 4 msk flórsykur
  • 12 molar Fazermint (ca. 90 g)
  • 100 g Toms extra súkkulaði 70%

IMG_4925

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Toms extra súkkulaðið er brotið niður í skál ásamt Fazermint molunum og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Eggjarauðu- og flórsykurblöndunni er svo blandað út í súkkulaðið. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er góð, ef ekki betri, daginn eftir.

IMG_4585

Karamellu marengsterta


Karamellu marengsterta

Í afmælisveislu pabba um daginn var mamma með svo góða marengstertu. Þegar ég fór að spyrjast fyrir um uppskriftina þá kom í ljós að þetta var uppskrift sem hún hafði fengið frá mér! Ég mundi þá allt í einu að þetta var terta sem ég gerði reglulega hér áður fyrr en hafði svo bara gleymt. Það vill nefnilega oft verða þannig með uppskriftir. Þar kemur þetta matarblogg sterkt inn! Hér set ég inn allar góðar uppskriftir sem ég prófa og því engin hætta á því að þær gleymist. Margengstertan góða sem ég hafði gleymt er nú dregin aftur fram í dagsljósið. Ég reyndar breytti uppskriftinni aðeins. Ég er búin að horfa grindaraugum á nýja Nóa kroppið með karamellubragði í verslunum. Ég sá í hendi mér að það myndi smellpassa í þessa köku sem það gerði auðvitað. Reyndar virðist það bara eiga að vera til tímabundið þannig að ef það fæst ekki þá er gamla góða Nóa kroppið líka afar gott í þessa tertu. Venjulega nota ég jarðarber og/eða bláber í rjómafyllinguna líka. Ég gerði það ekki í þetta sinn en ég mæli með því. Mér finnst tertan verða enn betri fyrir vikið og ferskari.

IMG_0652

Uppskrift:

Marengs:

  • 2-3 bollar Rice Krispies (eða Korn Flakes)
  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 4 eggjahvítur

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_0602

Hringur, ca. 23 cm í þvermál, gerður á bökunarpappír

IMG_0603

Marengsinum skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn

IMG_0605

Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða.

IMG_0608

Marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum. 

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 200 g Nóa kropp með karamellubragði (eða þetta hefðbundna)
  • 1 askja fersk jarðarber skorin í bita og/eða bláber (má sleppa en ég mæli með því að hafa ber!)

Rjóminn er þeyttur og Nóa kroppinu ásamt berjunum er bætt út í rjómann. Blandan er svo sett á milli marengsbotnanna.

IMG_0612IMG_0619

Rolokrem:

  • ca 2 og 1/2 rúllur af Rolo (ég keypti 3 rúllur í pakka og skreytti tertuna með hálfu rúllunni sem eftir var)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • örlítill rjómi til að þynna kremið með

Suðusúkkulaðið brotið niður í skál og Roloinu bætt út í. Brætt yfir vatnsbaði, ef þess þarf þá er hægt að þynna blönduna með dálítið af rjóma. Kreminu er svo hellt yfir tertuna. Það er fallegt að skreyta hana með jarðarberjum eða hindberjum, nokkrum niðurskornum Rolobitum og rifnu suðusúkkulaði. Tertan er geymd í ísskáp og er langbest daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig.

IMG_0627

IMG_0643

Pavlova í fínu formi


Ég hef áður sett hér inn uppskrift af Pavlovu, þeirri dásemdar tertu. Þetta er hins vegar rosalega góð öðruvísi útgáfa af Pavlovu, bökuð af móður minni, gestabloggara dagsins! 🙂 Hér er marengsinn settur í eldfast mót sem getur verið handhægt og sniðugt. Nóa kroppi er svo bætt út í rjómann sem gerir réttinn sérstaklega góðan! Það er líka hægt að nota súkkulaðirúsínur ef maður kýs það frekar. Ofan á rjómann er hægt að nota hvaða ávexti eða ber sem er. Hér notaði mamma jarðaber, vínber og íslensk bláber.

Uppskrift:

  • 8 eggjahvítur
  • 400 gr sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk edik
  • 1/2 líter rjómi
  • Nóa kropp eða súkkulaðirúsínur
  • ávextir og/eða ber
  • 100 gr suðusúkkulaði

Eggjahvítur stífþeyttar, sykri bætt smám saman út í ásamt edik og salti. Marengsinn settur í eldfast mót og bakaður við 175 gráður í 30 mínútur, þá er lækkað niður í 135 gráður og bakað í 30 mínútur til vibótar. Eftir það er slökkt á ofninum og marengsinn látin kólna í ofninum, helst yfir nóttu. Rjómi þeyttur, Nóa kroppi bætt út í og rjómanum síðan smurt yfir marengsinn. Skreytt með berjum og eða ávöxtum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, kiwi eða ástaraldin. Að lokum er suðusúkkulaði brætt og dreift yfir berin og ávextina. Það er hægt að dreifa brædda súkkulaðinu yfir réttinn með skeið. En það er líka hægt að setja súkkulaðið í lítin poka, klippa örlítið gat á eitt hornið og sprauta því svo yfir (það má þó ekki vera það heitt að það bræði pokann).