Marengsterta með karamellurjóma og hindberjum


IMG_0561

Nú er kominn einn og hálfur mánuður frá því að við fengum nýja húsið okkar afhent og þar eru miklar framkvæmdir í gangi. Eins og gengur og gerist þá vinda svona framkvæmdir upp á sig og staðan er núna sú að við erum að skipta um eiginlega allt í húsinu, allt frá rafmagni og lögnum upp í innréttingar og gólfefni. Þetta eru afar spennandi framkvæmdir og að mörgu að huga, margar ákvarðanir sem þarf að taka. Við hjónin erum sem betur fer svo skemmtilega samstíga að við erum yfirleitt sammála um allt og ákaflega fljót að taka ákvarðanir sem hentar vel í svona framkvæmdum. Það er þó eitt þessa dagana sem við sveiflumst fram og tilbaka með, það eru borðplötur í eldhúsinu. Við vorum ákveðin í að hafa svartar granítplötur (eldhúsinnréttingin er hvít) en svo fór ég efast eftir að hafa lesið á netinu um að sumum finnist of kalt að hafa granít á öllu, að það glamri mikið í öllu sem maður leggur frá sér og að það sjáist mikið á svörtu graníti. Í eldhúsinu sem við erum með núna er granít í einu horninu og svo eikarborðplötur á restinni. Mér finnst frábært að hafa granítið, gott að hnoða deig á því og ég legg allt heitt beint úr ofninum á það. En það er spurning hvort að það sé of mikið að hafa granít á öllu. Endilega segið mér frá ykkar reynslu af borðplötum og hverju þið mælið með!

En víkjum að þessari dásemd!

IMG_0577

Bóndadagurinn er á morgun og ég ætla sannarlega að dekra við minn bónda. Rauðvín og steik hljómar algjörlega í takt við daginn en ég held líka að ein svona hnallþóra yrði ekki óvinsæl á borðum bænda landsins! 🙂 Mér finnst Dumle súkkulaðiðfrauðið svo gott að ég ákvað að prófa mig áfram með það í tertu og hér er gómsæt útkoman:

IMG_0571

Dumlerjómi með hindberjum:

  •   5 dl rjómi
  •   120 g Dumle orginal, saxaðar eða klipptar í minni bita
  •   300 g hindber (fersk eða afþýdd)

Marengs:

  •   220 sykur
  •   4 eggjahvítur (stór egg)
  •   3 bollar Kornflex
  •   1 tsk lyftiduft

Dumle snacks krem:

  •   4 eggjarauður
  •   4 msk flórsykur
  •   175 g Dumle Snacks, saxað
  •   50 g 50-70% súkkulaði, saxað
  •   3-4 msk rjómi
  •   Til skrauts. Nokkrir Dumle snacks molar saxaðir niður og hindber.

Dumlerjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Gæta þarf þess að rjóminn sjóði ekki. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, í minnst 3-4 tíma, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og þá er hindberjunum blandað varlega saman við með sleikju.

Marengs: Ofn hitaður í 120 gráður við blástur. Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er kornflexi bætt varlega út í með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Að lokum er marengsinn bakaður við 120°C, blástur í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum. Þegar marengsinn er orðinn kaldur er Dumlerjóminn með hindberjunum settur á milli botnanna og og Dumle snacks kremið sett ofan á.

Dumle Snacks krem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Dumle snacks og súkkulaði er sett í pott ásamt 3-4 msk af rjóma eða mjólk og brætt við meðalhita, hrært í blöndunni á meðan. Súkkulaðiblöndunni er því næst blandað út í eggjakremið og kreminu svo leyft að standa í smá stund (jafnvel í ísskáp) þar til það stífnar hæfilega. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. hindberjum og/eða jarðaberjum ásamt nokkrum niðursöxuðum Dumle snacks molum.

IMG_0569

IMG_0576

18 hugrenningar um “Marengsterta með karamellurjóma og hindberjum

  1. Ég er með grátt/yrjótt granít á öllu eldhúsinu hjá mér og hef aldrei eitt augnablik séð eftir þeirri ákvörðun. Myndi ekki fá mér neitt annað hugsa ég ef ég væri að velja núna. Áferðin á því er einhvernvegin þannig að það sér alls ekki mikið á því. Ég hef aldrei tekið eftir glamri eða svoleiðis leiðindum.. Hef til samanburðar unnið við svartar granítplötur og þær eru vissulega fallegar en afþurrkunaráráttan fær þá mun meira að finna fyrir því 😉 Mín plata er mjög lík þessari: http://i1.wp.com/www.kylieminteriors.ca/wp-content/uploads/2014/10/benjamin-moore-white-dove-is-a-great-colour-for-kitchen-cabinets-trim-doors-and-walls.jpg

    (p.s. klikkað girnileg hnallþóra!!)

    • Frábært að fá þessa punkta Helena, takk! 🙂 Ég held að ég sé barasta að hallast á að taka granít á allt en hafa það dálítið yrjótt til þess að það sjáist minna á því. 🙂

  2. Granít alla leið en svarta er svolítið erfitt til að þrífa, mér finnst betra að hafa það aðeins munstrað þá sér ekki alveg eins mikið á því, það er bara snilld að hnoða, baka og leggja frá sér og svo er þetta svo lekkert:)

    • Gott að heyra Helga, ég er sammála, rosalega gott að hnoða á og leggja heitt. Svo viljum við nú vera lekkerar líka öllum stundum ..! 😉

  3. Er að baka þessa núna – Jeminn! 🙂 en við erum með svart granít með gráum kornum í á öllu hér og það er mega þægilegt en leiðinlegt að halda hreinu…. Alltaf fingraför og allt kusk sést vel!

    • Spennandi! 🙂 Við enduðum á að velja svarta plötu með smá yrjum en áferðin kallast „leather“, þe. er með „leður“áferð sem er mött og einhvern veginn hlýlegri en þessi sem glansar. Þá einmitt sést líka lítið á henni og fingraför sjást ekki.

      • Frábært! Heyrðu, ég lét rjómablönduna standa yfir nótt, passaði að hún sauð aldrei í gær en nú er ég að reyna að þeyta og það bara gerist ekkert. Er búin að þeyta í 10 mín og hún er bara alveg eins ennþá…. ?

      • Svo varð hún allt í einu að kögglum og svo 3 sek seinna skildi blandan sig í skálinni…. :/

      • Æ, leiðinlegt! Ég hef margoft gert svona blöndu og hef bara einu sinni lent í þessu, þá hafði ég ekki kælt hana nógu vel. Það eru í raun bara þrjú atriði sem mér dettur í hug að valdi þessu vandamáli, að rjóminn hafi soðið, að karamellurnar hafi ekki bráðnað alveg eða að rjóminn hafi ekki verið nógu kaldur (ekki meira en 8 gráður).

      • Ég held þetta sé því ég var með laktósafríann rjóma…, Gerði þetta aftur og sama gerðist, en svo gerði ég þetta með venjulegum rjóma og allt í besta lagi…. Takk fyrir svörin!

  4. Var með þessa í afmæli seinustu helgi og hún sló heldur betur í gegn, allir að dásema hana enda ekki skrítið alveg sjúklega góð 🙂

  5. Bakvísun: DA?samleg marengsterta meA� karamellurjA?ma | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.