Í síðasta mánuði átti yngsta barnið í fjölskyldunni 12 ára afmæli.
Hún hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir á því hvernig afmælisveislurnar eigi að vera og það hefur alltaf verið eitthvað þema í gangi. Í ár var þemað til fyrir tilviljun þegar við mæðgur byrjuðum á því að kaupa servíettur sem við féllum fyrir, okkur fannst þær svo fallegar. Í kjölfarið ákváðum við að það yrði bara einhverskonar fallegt pastel þema.
Ég bað Önnu frænku hjá Önnu konditori að gera uppáhaldstertu afmælisbarnsins (svampbotnar, hindber og karamellukrókant) og hafa hana í stíl við servíetturnar. Það var ekki að spyrja að því, þessi listakona bjó til frábærlega fallega tertu sem skreytt var með blómum og hjóli með blómakörfu, alveg í stíl við servíetturnar.
Ég bjó til súkkulaðiköku og skreytti hana í pastellitum. Ég notaði skúffukökuuppskrift og hafði botnana fjóra (smjörkrem á milli), þá verður kakan fallega há. Hins vegar er ekki gott að skera hana þannig því sneiðarnar verða alltof stórar. Ég hafði því harðspjald á milli botnanna (tveir botnar með kremi á milli – kringlótt harðspjald – tveir botnar með kremi á milli) þannig að fyrst var efsta lag kökunar skorið og síðan sú neðri, mjög praktísk og einföld lausn ef maður vill hafa kökur háar. Ég hef stundum hreinlega líka notað botninnn úr lausbotna kökuforminu og haft hann á milli ef ég hef ekkert annað.
Ein tertan sem ég var með var marengsterta og ég ákvað að gera tilraun og setja eitthvað nýtt í rjómann. Ég notaði súkkulaðirúsínur og græn epli, ótrúlega ferskt og gott. Ég mæli sannarlega með þessari bombu í næstu veislu! 🙂
Uppskrift:
Marengs:
- 3 dl sykur
- 5 eggjahvítur
- 3 bollar Rice Krispies
Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.
Rjómafylling:
- 5 dl rjómi
- 3-4 græn epli (fer eftir stærð), skorin smátt
- 150 g súkkulaðirúsínur
Rjóminn er þeyttur og eplum ásamt súkkulaðirúsínum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.
Súkkulaði krem:
- 5 eggjarauður
- 5 msk flórsykur
- 100 g Síríus pralín súkkulaði með karamellu
- 100 g suðusúkkulaði
Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir.