Sjöholukaka


IMG_0302Um daginn héldum við upp á afmæli yngsta barnsins og á boðstólum var auðvitað allt sem hugur afmælisbarnsins girntist. Fyrst á lista var eplakaka en það er klárlega uppáhaldskakan hennar. Svo vildi hún fá ljósbláa köku og hafði alveg ákveðnar skoðanir á þvi hvernig hún átti að líta út. Ég hef jafn gaman að bakstri eins og mér finnst leiðinlegt að skreyta kökur, ég er bara ekki mikil föndurmanneskja. Ég leitaði því enn og aftur til Önnu frænku sem er með Önnu konditori og er algjör listakona auk þess sem kökurnar hennar eru lostæti. Jóhanna mín var ekkert smá ánægð með að fá afmælisköku einmitt eins og hún hafði óskað sér.

IMG_0219 IMG_0211IMG_0220

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag langaði Jóhönnu að baka köku sem passaði vel því á „skrolli“ mínu í gegnum Instagram reikningana sem ég fylgi sá ég sömu kökuna hjá tveimur sænskum matarbloggurum sem mig langaði einmitt að prófa. Ég gat auðvitað ekki setið á mér og við prófuðum að baka kökuna. Hins vegar var ég ekki hrifin af bragðinu af glassúrinum í þessari uppskrift og ég ákvað að búa frekar til súkkulaði-karamellukrem og nota í staðinn. Mér fannst það koma mikið betur úr og gera kökuna afar gómsæta. Þetta er er tilvalin kaka fyrir helgarkaffið! 🙂

IMG_0294

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 dl sjóðandi vatn

Ofn hitaður í 175 gráður við undir/yfirhita. Egg og sykur hrært þar til létt og ljóst. Smátt og smátt er hveiti og lyftidufti bætt út í og í lokin heita vatninu. Deiginu hellt í smurt smelluform (24 cm). Kakan bökuð neðarlega í ofninum við 175 gráður í 35-40 mínútur.

Karamellukrem:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör

Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til að hún þykknar, tekur ca. 10 mínútur, gott að hræra í svolítið á meðan. Þá er potturinn tekin af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman.

Sjö holur gerðar með skafti á skeið í heita kökuna þegar hún kemur úr ofninum (ca. 2 cm í ummál) og heitu kreminu hellt yfir kökuna þannig að holurnar fyllast. Kökunni leyft að kólna um stund og kremið stífna áður en kakan er borin fram.

IMG_0290IMG_0305

Kanilsnúðakladdkaka


kanilsnúðakaka4

Ég veit ekki hvað ég er með orðið margar uppskriftir hér á síðunni af „kladdkökum“ (klessukökum), en þær eru orðnar ansi margar. Ástæðan fyrir því er líklega sænsku áhrifin af langri búsetu minni í Svíþjóð og svo sú staðreynd að ég skoða reglulega sænsk matarblogg og þar ber mikið á kladdkökum – fyrir utan auðvitað hvað þær eru góðar og einfaldar að baka. Ég hef séð uppskrift að þessari köku í margskonar útgáfum á mörgum sænskum bloggum undanfarið og ákvað að prófa að baka hana í dag. Það leið innan við hálftími frá því að ég byrjaði að baka þar til kakan var komin á borðið sem er frábær byrjun. Hvern vantar ekki að eiga góða uppskrift að afar fljótlegri og góðri köku? Kakan sjálf fannst mér ákaflega góð og gestirnir mínir voru mér sammála. Hún minnti óneitanlega á heita og ljúffenga kanilsnúða þó svo að það sé eiginlega bara kanillinn sem er sameiginlegur þáttur með þessu tvennu. Ég er svo heppin að eiga sænskan perlusykur (sjá umfjöllun um hann hér) til að strá ofan á kökuna en það er vel hægt að sleppa honum. Það sem er líka svo frábært við þessa köku er að það þarf enga hrærivél og varla nokkur áhöld, bara einn pott, desilítramál og písk og hráefnin á maður öll yfirleitt til, algjör snilld! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 stór egg
  • 1 msk kanill
  • hnífsoddur salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 1/2 dl hveiti
  • perlusykur ofan á kökuna (má sleppa)

Ofn stilltur á 180 gráður við undir/yfirhita. 22-24 cm smelluform smurt að innan. Smjör sett í pott og brætt. Potturinn tekinn af hellunni og smjörið látið kólna dálítið. Þá er restinni af hráefnunum bætt út í pottinn og pískað saman. Deiginu helt í formið og perlusykri dreift yfir (má sleppa). Bakað við 180 gráður í ca. 15-20 mínútur. Athugið að kakan á að vera fremur klesst og blaut og því betra að baka hana styttra en of lengi. Borin fram volg eða köld (hún er ekki síðri daginn eftir) með þeyttum rjóma.

kanilsnúðakaka3 kanilsnúðakaka1