Rocky road súkkulaðismákökur


img_4254

Þá er aðventan gengin í garð, nokkrum hefðbundunum aðventuverkum lokið og fleiri í bígerð. Í síðstu viku átti ég frábæra stund með skemmtilegu fólki þegar við vinkonurnar fórum í árlega kransagerð þar sem ég bjó til bæði hurðarkrans og aðventukrans.

img_4285

Sem betur fer er Fríða æskuvinkona mín blómaskreytir og getur leiðbeint mér í kransagerðinni því föndur er ekki mín sterka hlið. Ég get til dæmis aldrei munað hvernig vefja á þennan blessaða krans og þarf að fá hjálp frá Fríðu á hverju einasta ári! 🙂

img_4284

 

Ég er aðeins sterkari á svellinu í eldhúsinu og nú þegar eru komnar tvær sortir inn í frysti. Ég gerði tæpar 400 sörur með mömmu og Ingu frænku. Auk þess gerði ég um helgina hvítar sörur í fyrsta sinn, sem mér finnst hrikalega góðar. Þar með er upptalið það sem ég ætla að eiga tilbúið í kökuboxum fyrir jólin, allt annað má borða strax. Ég þurfti ekki að segja fjölskyldunni það tvisvar þegar ég bakaði þessar kökur eitt kvöldið í síðustu viku. Kökurnar runnu ljúflega niður með mjólkurglasi og kláruðust allar sama kvöld! 🙂 En smákökur eru líka bestar nýbakaðar og um jólin er maður hvort sem er alltaf að borða, það er algjör óþarfi að bæta á sig smákökum þá! 🙂 Þessar kökur eru svo hrikalega góðar, seigar og djúsí súkkulaðikökur með stökkum salthnetum, karamellum og seigum sykurpúðum, dúndurblanda og algjört nammi!

img_4245

Uppskrift: 

  • 350 g suðusúkkulaði
  • 40 g smjör
  • 2 egg
  • 150 g sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 35 g hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • ca. 40 st litlir sykurpúðar (fást m.a. í Söstrene Grene)
  • ca. 60 g karamellukurl, hjúpað (Nói Siríus)
  • ca. 1 dl salthnetur
Suðusúkkulaði og smjör brætt í potti við vægan hita og leyft að kólna aðeins. Egg, sykur og vanillusykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er hveiti og lyftidufti bætt út í og síðustu er brædda súkkulaðinu og smjörinu bætt varlega saman við deigið. Deigið er kælt í ísskáp í um það bil 30 mínútur.
Ofn hitaður í 175 gráður við undir-yfirhita. Bökunarplata er klædd bökunar pappír og deigið er sett í litlar hrúgur á pappírinn með tveimur teskeiðum og flatt örlítið út með blautum fingurgómum ef með þarf. Þá er sett dálítið af salthnetum og karamellukurli á hverja köku ásamt 2-3 litlum sykurpúðum. Bakað í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur. Kökurnar eiga að vera mjúkar þegar þær koma út, þær harðna þegar þær kólna.
img_4232img_4250

Hakkhleifur fylltur með beikoni, döðlum og fetaosti


img_4167

Síðastliðið sumar fór ég í fyrsta sinn í 17 sortir og smakkaði allskonar gúmmelaði bollakökur. Þar sem ég sat og naut hvers bita renndi ég augunum yfir afgreiðsluborðið og fannst hver kakan þar annarri girnilegri. Ég ákvað að leggja fljótt leið mína aftur í 17 sortir og prófa einhverja góða köku. Þegar við vorum með sænska gesti hjá okkur um daginn var aldeilis gott tilefni að bjóða upp á ljúffenga köku því svo vildi til að þau áttu brúðkaupsafmæli og fengu sama dag þær fréttir að þau væru orðin íbúðareigendur. Við skáluðum fyrst yfir góðum kvöldverði.

img_3825

Því næst reiddi ég fram þessa glæsilegu köku úr 17 sortum, súkklaðiköku með saltkaramellu og poprocks.

img_3829img_3831img_3859

Hrikalega góð kaka og sænsku gestirnir okkar áttu ekki orð yfir þessari dásemdarköku! 🙂

img_3836img_3844

Ég mæli með því að þið smakkið á þessum gómsætu hnallþórum hjá 17 sortum!

En ef ég vík þá að uppskrift dagsins. Mér finnst afar gaman að gera tilraunir með nautahakk og búa til eitthvað gott úr því. Mér finnst sömuleiðis voðalega gott að blanda saman fetaosti, döðlum og beikoni og nota það óspart tilraunum mínum. Hérna gerði ég tilraun með að blanda slíku gúmmelaði saman við nautahakk og útkoman kom skemmtilega á óvart. Öll fjölskyldan var sammála um að þessi tilraun hefði heppnast feykivel og ég mæli með því að þið prófið! 🙂

img_4188

Uppskrift:

  • 600-700 g nautahakk
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  • ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • 180 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 120 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd
  • chili krydd eða annað gott krydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hann veiddur af pönnunni og bætt saman við hakkið, eggið, brauðmylsnuna, mjólk og krydd, allt blandað vel saman. Helmingurinn af kjötblöndunni er settur ofan í smurt eldfast mót og mótað í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum. Beikonið er því næst steikt á pönnu. Þegar það nálgast að verða stökkt er rauðlauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Ca. 1/2-1/3 af blöndunni er tekinn af pönnunni og hleifurinn fylltur með henni. Restinni af kjötblöndunni er lögð ofan á og hleifurinn mótaður og gerður vel þéttur svo blandan leki ekki út. Gott er að smyrja kjöthleifinn með bræddu smjöri. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki, paprikukryddi og chilikryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni yfir og í kringum kjöthleifinn. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hleifurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með t.d. sætkartöflumús eða hrísgrjónum og aioli sósu.

Einföld aioli sósa:

  • 1 dl majónes
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk sítrónusafi
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman og kælt vel áður en borið fram.

img_4219