Þá er aðventan gengin í garð, nokkrum hefðbundunum aðventuverkum lokið og fleiri í bígerð. Í síðstu viku átti ég frábæra stund með skemmtilegu fólki þegar við vinkonurnar fórum í árlega kransagerð þar sem ég bjó til bæði hurðarkrans og aðventukrans.
Sem betur fer er Fríða æskuvinkona mín blómaskreytir og getur leiðbeint mér í kransagerðinni því föndur er ekki mín sterka hlið. Ég get til dæmis aldrei munað hvernig vefja á þennan blessaða krans og þarf að fá hjálp frá Fríðu á hverju einasta ári! 🙂
Ég er aðeins sterkari á svellinu í eldhúsinu og nú þegar eru komnar tvær sortir inn í frysti. Ég gerði tæpar 400 sörur með mömmu og Ingu frænku. Auk þess gerði ég um helgina hvítar sörur í fyrsta sinn, sem mér finnst hrikalega góðar. Þar með er upptalið það sem ég ætla að eiga tilbúið í kökuboxum fyrir jólin, allt annað má borða strax. Ég þurfti ekki að segja fjölskyldunni það tvisvar þegar ég bakaði þessar kökur eitt kvöldið í síðustu viku. Kökurnar runnu ljúflega niður með mjólkurglasi og kláruðust allar sama kvöld! 🙂 En smákökur eru líka bestar nýbakaðar og um jólin er maður hvort sem er alltaf að borða, það er algjör óþarfi að bæta á sig smákökum þá! 🙂 Þessar kökur eru svo hrikalega góðar, seigar og djúsí súkkulaðikökur með stökkum salthnetum, karamellum og seigum sykurpúðum, dúndurblanda og algjört nammi!
Uppskrift:
- 350 g suðusúkkulaði
- 40 g smjör
- 2 egg
- 150 g sykur
- 1 tsk vanillusykur
- 35 g hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- ca. 40 st litlir sykurpúðar (fást m.a. í Söstrene Grene)
- ca. 60 g karamellukurl, hjúpað (Nói Siríus)
- ca. 1 dl salthnetur

