Rocky road súkkulaðismákökur


img_4254

Þá er aðventan gengin í garð, nokkrum hefðbundunum aðventuverkum lokið og fleiri í bígerð. Í síðstu viku átti ég frábæra stund með skemmtilegu fólki þegar við vinkonurnar fórum í árlega kransagerð þar sem ég bjó til bæði hurðarkrans og aðventukrans.

img_4285

Sem betur fer er Fríða æskuvinkona mín blómaskreytir og getur leiðbeint mér í kransagerðinni því föndur er ekki mín sterka hlið. Ég get til dæmis aldrei munað hvernig vefja á þennan blessaða krans og þarf að fá hjálp frá Fríðu á hverju einasta ári! 🙂

img_4284

 

Ég er aðeins sterkari á svellinu í eldhúsinu og nú þegar eru komnar tvær sortir inn í frysti. Ég gerði tæpar 400 sörur með mömmu og Ingu frænku. Auk þess gerði ég um helgina hvítar sörur í fyrsta sinn, sem mér finnst hrikalega góðar. Þar með er upptalið það sem ég ætla að eiga tilbúið í kökuboxum fyrir jólin, allt annað má borða strax. Ég þurfti ekki að segja fjölskyldunni það tvisvar þegar ég bakaði þessar kökur eitt kvöldið í síðustu viku. Kökurnar runnu ljúflega niður með mjólkurglasi og kláruðust allar sama kvöld! 🙂 En smákökur eru líka bestar nýbakaðar og um jólin er maður hvort sem er alltaf að borða, það er algjör óþarfi að bæta á sig smákökum þá! 🙂 Þessar kökur eru svo hrikalega góðar, seigar og djúsí súkkulaðikökur með stökkum salthnetum, karamellum og seigum sykurpúðum, dúndurblanda og algjört nammi!

img_4245

Uppskrift: 

  • 350 g suðusúkkulaði
  • 40 g smjör
  • 2 egg
  • 150 g sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 35 g hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • ca. 40 st litlir sykurpúðar (fást m.a. í Söstrene Grene)
  • ca. 60 g karamellukurl, hjúpað (Nói Siríus)
  • ca. 1 dl salthnetur
Suðusúkkulaði og smjör brætt í potti við vægan hita og leyft að kólna aðeins. Egg, sykur og vanillusykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er hveiti og lyftidufti bætt út í og síðustu er brædda súkkulaðinu og smjörinu bætt varlega saman við deigið. Deigið er kælt í ísskáp í um það bil 30 mínútur.
Ofn hitaður í 175 gráður við undir-yfirhita. Bökunarplata er klædd bökunar pappír og deigið er sett í litlar hrúgur á pappírinn með tveimur teskeiðum og flatt örlítið út með blautum fingurgómum ef með þarf. Þá er sett dálítið af salthnetum og karamellukurli á hverja köku ásamt 2-3 litlum sykurpúðum. Bakað í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur. Kökurnar eiga að vera mjúkar þegar þær koma út, þær harðna þegar þær kólna.
img_4232img_4250

Karamellu- og súkkulaðibitakökur


IMG_6300IMG_6298Í dag eru tvær vikur síðan við lögðum upp í skemmtilega Bandaríkjaför og nú er dvölin hálfnuð. Við byrjuðum á því að fara til New York í nokkra daga og erum núna í Michigan þar sem við gerðum húsaskipti. Við búum eins og blóm í eggi í stóru húsi með öllum þægindum, sundlaug sem tilheyrir húsinu, flottar strendur í nágrenninu og síðast en ekki síst njótum við sólar og sumaryls á hverjum degi! Ég er aðeins búin að missa mig í matvöruverslununum hér. Þvílíkt úrval af dásamlega góðum mat og verðið allt annað en heima. Við byrjum til dæmis alltaf daginn á amerískum pönnukökum með sírópi og öllum þeim ferskum berjum sem hugurinn girnist, beikoni og eggjum. Við fórum til Shipshewana sem er Amish-bær og þar keyptum við ótrúlega góða nautalund, hamborgara og fleira sem er að sjálfsögðu 100% lífrænt hjá Amishfólkinu. Það er því alltaf eitthvað gúrmei í matinn hjá okkur á kvöldin líka – sem sagt algjört matarævintýri! Endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram, þar set ég reglulega inn myndir. Það er líka hægt að fara á forsíðu Eldhússagna og sjá þar myndirnar frá Instagram, þær eru hægra megin á síðunni.

Það voru farnar að safnast upp uppskriftir sem ég ætlaði að setja inn á síðuna í fríinu en satt best að segja hef ég bara ekkert nennt að sinna blogginu í þessu ljúfa fríi! 🙂 Ég get þó ekki staðist mátið og sett inn þessa uppskrift að dásamlega góðum karamellu- og súkkulaðibita kökum sem Jóhanna og Katla vinkona hennar bökuðu rétt áður en við fórum af landinu. Jóhanna er afar hrifin af Subway smákökum og við erum alltaf að reyna útfæra uppskriftir sem ná þeim standard og ég held svei mér þá að þessi uppskrift komist ansi nálægt því!

IMG_6308

Uppskrift (ca. 20 kökur):

  • 120 gr smjör (við stofuhita)
  • 2 dl púðursykur
  • 2 dl sykur
  • 2 egg
  • 400 g Kornax hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/4 tsk salt
  • 1 poki karamellukurl hjúpað súkkulaði frá Nóa og Siríus (150 g)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, púðursykri og sykri er hrært saman. Því næst er eggjunum bætt út í, einu í senn. Þá er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Að lokum er karamellukurlinu bætt út í.

Kúlur á stærð við litlar plómur eru mótaðar með höndunum og raðað á ofnplötu (passað að gefa þeim pláss til að fletjast út). Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 10 mínútur.

IMG_6302