Rocky road súkkulaðismákökur


img_4254

Þá er aðventan gengin í garð, nokkrum hefðbundunum aðventuverkum lokið og fleiri í bígerð. Í síðstu viku átti ég frábæra stund með skemmtilegu fólki þegar við vinkonurnar fórum í árlega kransagerð þar sem ég bjó til bæði hurðarkrans og aðventukrans.

img_4285

Sem betur fer er Fríða æskuvinkona mín blómaskreytir og getur leiðbeint mér í kransagerðinni því föndur er ekki mín sterka hlið. Ég get til dæmis aldrei munað hvernig vefja á þennan blessaða krans og þarf að fá hjálp frá Fríðu á hverju einasta ári! 🙂

img_4284

 

Ég er aðeins sterkari á svellinu í eldhúsinu og nú þegar eru komnar tvær sortir inn í frysti. Ég gerði tæpar 400 sörur með mömmu og Ingu frænku. Auk þess gerði ég um helgina hvítar sörur í fyrsta sinn, sem mér finnst hrikalega góðar. Þar með er upptalið það sem ég ætla að eiga tilbúið í kökuboxum fyrir jólin, allt annað má borða strax. Ég þurfti ekki að segja fjölskyldunni það tvisvar þegar ég bakaði þessar kökur eitt kvöldið í síðustu viku. Kökurnar runnu ljúflega niður með mjólkurglasi og kláruðust allar sama kvöld! 🙂 En smákökur eru líka bestar nýbakaðar og um jólin er maður hvort sem er alltaf að borða, það er algjör óþarfi að bæta á sig smákökum þá! 🙂 Þessar kökur eru svo hrikalega góðar, seigar og djúsí súkkulaðikökur með stökkum salthnetum, karamellum og seigum sykurpúðum, dúndurblanda og algjört nammi!

img_4245

Uppskrift: 

  • 350 g suðusúkkulaði
  • 40 g smjör
  • 2 egg
  • 150 g sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 35 g hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • ca. 40 st litlir sykurpúðar (fást m.a. í Söstrene Grene)
  • ca. 60 g karamellukurl, hjúpað (Nói Siríus)
  • ca. 1 dl salthnetur
Suðusúkkulaði og smjör brætt í potti við vægan hita og leyft að kólna aðeins. Egg, sykur og vanillusykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er hveiti og lyftidufti bætt út í og síðustu er brædda súkkulaðinu og smjörinu bætt varlega saman við deigið. Deigið er kælt í ísskáp í um það bil 30 mínútur.
Ofn hitaður í 175 gráður við undir-yfirhita. Bökunarplata er klædd bökunar pappír og deigið er sett í litlar hrúgur á pappírinn með tveimur teskeiðum og flatt örlítið út með blautum fingurgómum ef með þarf. Þá er sett dálítið af salthnetum og karamellukurli á hverja köku ásamt 2-3 litlum sykurpúðum. Bakað í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur. Kökurnar eiga að vera mjúkar þegar þær koma út, þær harðna þegar þær kólna.
img_4232img_4250

Hafradraumur með súkkulaði og döðlum


Hafradraumur með döðlum og súkkulaði1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! 🙂 Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.

Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! 🙂 Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra. IMG_8039

Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)

  • 
230 g smjör, við stofuhita
  • 
200 g púðursykur
  • 
60 g sykur
  • 
2 egg
  • 
2 tsk vanillusykur
  • 
220 g hveiti
  • 
1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 
270 g haframjöl
  • 200 g döðlur, saxaðar smátt
  • 150 g suðusúkkulaðidropar

Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír.  Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð. 
IMG_8037

IMG_8033

Jólamolar með karamellu Pippi


Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

  • 120 g smjör (við stofuhita)
  • 100 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk bökunarkakó
  • 280 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ¼ – ½ tsk salt
  • 200 g Pipp með karamellu
  • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948