Jólamolar með karamellu Pippi


Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

  • 120 g smjör (við stofuhita)
  • 100 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk bökunarkakó
  • 280 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ¼ – ½ tsk salt
  • 200 g Pipp með karamellu
  • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948