Pönnubuff með steinseljusmjöri


IMG_8374Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga að ég hef lítið getað sinnt blogginu. Eldhússögur hafa þó lifað sínu eigin lífi á meðan. Í dag kom uppskrift af blogginu í fermingarblaði Fréttablaðsins. Ég gaf uppskrift af kirsuberjakökunni góðu sem er líka hægt er að finna hér. Hér að neðan er alvöru ljósmyndari að störfum! 🙂

IMG_8358

Að auki er bloggið komið í útrás norður í land! 🙂 Eldhússögur eru komnar með fastan uppskriftadálk í N4 dagskrána sem gefin er út vikulega. Fyrsta uppskriftin birtist í blaðinu sem kom út í síðustu viku. En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Í vikunni bjó ég til þessi girnilegu pönnubuff. Smjörið var ekki sparað í þessari uppskrift en það er nú bara hollt!

Uppskrift f. 4

 • 125 g smjör, við stofuhita
 • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
 • ca 30 g steinselja, söxuð smátt
 • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 600 g nautahakk
 • 1 lítill laukur, saxaður smátt
 • 2 egg
 • 1 dl rjómi (eða mjólk)
 • ½ msk kartöflumjöl
 • ½ dl brauðmylsna
 • salt & pipar
 • annað gott krydd

IMG_8370

Rjóma, kartöflumjöli og brauðmylsnu er blandað saman í skál og látið þykkna í ca. 10 mínútur. Skarlottulauknum og steinseljunni er blandað við smjörið og sett í ísskáp. Þá er laukurinn steiktur á pönnu þar til hann verður mjúkur og honum síðan blandað saman við hakkið ásamt eggjunum og brauðmylsnublöndunni. Kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi sem hugurinn girnist. Ég notaði blöndu af ítölskum kryddum (steinselja, basilika, timjan og fleiru). Þegar allt hefur blandast vel saman er mótuð bolla úr hakkinu sem flött er út og dálítið af steinseljusmjörinu sett inn i hakkið. Buffinu er þá lokað vel svo að smjörið renni ekki út við steikinguna. Þá eru bollurnar steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Ég bar þær fram með hrísgrjónum, fersku brokkolí og heimagerðri brúnni sósu.

IMG_8372

Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu og útskriftarveisla


IMG_8352Útskriftardagurinn minn í gær var frábær! Mér fannst gaman að vera viðstödd athöfnina í Háskólabíói, hún var hátíðleg og passlega löng. Mér leist reyndar ekkert á blikuna þegar kom í ljós að ég var sú fyrsta sem átti að stíga á svið! En mér tókst að komast frá þessu skammarlaust og gera allt rétt! Svona eftir á að hyggja er ég nú bara frekar stolt yfir því að hafa klárað þetta meistaranám með stóra fjölskyldu og fremur annasamt líf. Ég er eiginlega langstoltust af því að hafa tekist að klára meistararitgerðina mína á einni önn en slíkar ritgerðir eru oft flöskuháls í svona framhaldsnámi. Mér virðist líka hafa tekist vel upp með ritgerðina því ég fékk 9 fyrir hana í einkunn og náði þar með 8.98 í meðaleinkunn. Ég er reyndar pínu svekkt samt að vera bara 0.02 frá því að ná 1. einkunn! 🙂 Seinni partinn í gær var svo útskriftarveisla hér heima og í boði voru smáréttir frá Marentzu Poulsen sem starfar nú hjá Cafe Flóru í Laugardal. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með matinn, hann var rosalega góður og hráefnið afar vandað. Ég mæli sannarlega með veislumatnum hennar Marentzu.

IMG_8212Útskrift1

ÚtskriftÚtskrift2Útskrift3Útskrift5

Útskrift6

Í kvöld eldaði ég einfaldan en afar góðan kjúklingarétt. Ég notaði til tilbreytingar leggi og læri af kjúklingnum en það er mjúkt og bragðgott kjöt. Ekki spillir fyrir að þeir bitar eru ódýrir.

Uppskrift: 

 • 1 kíló kjúklingaleggir og læri
 • salt & pipar
 • 4 tsk oregano
 • beikon
 • 4-5 dl matreiðslurjómi
 • 2-3 msk balsamik edik
 • 1.5 msk kjúklingakraftur
 • 4 hvítlauksrif, söxuð fínt
 • smjör og/eða olía til steikingar

Ofninn hitaður í 225 gráður. Kjúklingurinn kryddaður með salti, pipar og oregano. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu þar til þeir ná lit. Þá er beikoni vafið utan um bitana og þeir settir í eldfast mót. Rjóma, balsamik edik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í ofninum í ca. 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_8347IMG_8355

Kjúklingaleggir í sweet chili marineringu með satay sósu


Kjúklingaleggir með satay sósuTveggja daga vetrarfríið mitt hefur verið annasamt. Í gær var bókamarkaðurinn opnaður fyrir skólabókasöfnin og ég fór því í bókainnkaup fyrir safnið mitt. Ég starfa enn við rannsóknarverkefnið á Landspítalanum sem ég tók að mér meðfram náminu mínu við Háskólann og í gær þurfti ég að hitta nokkrar sjúklinga í tengslum við það. Kvöldmaturinn í gær var bara samloka á hlaupum því að lokinni vinnu á sjúkrahúsinu brunuðum við hjónin í Borgarleikhúsið og þar sem yngstu börnin biðu með ömmu, afa og Ingu frænku. Við sáum þar seinni forsýningu á Mary Poppins. Það má með sanni segja að við öll höfum verið uppnumin enda stórkostleg sýning, hvert atriðið öðru glæsilegra. Ég held að þetta sé ein flottasta sýning sem ég hef séð hér á landi með tilliti til leikmyndar, búninga, tæknibrella auk söng- og dansatriða. Jóhanna Inga er harður gagnrýnandi og við förum á allar barnaleiksýningar sem sýndar eru hér í leikhúsunum. Fram að hléi sagði hún að þetta væri frábær sýning en að sér þætti Óliver enn besta sýningin. En að lokinni sýningu var hún með stjörnur í augum og sagði að þetta væri besta leiksýning sem hún hefði nokkurn tíma séð og vildi vita hvort hún mætti sjá sýninguna aftur! 🙂 Í dag hef ég verið á fullu við að þrífa og taka til. Á morgun er útskriftin mín og það verður dálítið boð hér heima í tilefni þess. Ég ákvað að gefa sjálfri mér frí í eldhúsinu og pantaði smárétti frá Marentzu Poulsen. Bestu smáréttir sem ég hef bragðað hafði hún útbúið fyrir brúðkaup vinkonu minnar fyrir nokkrum árum. Ég hef því miklar væntingar og er spennt að gæða mér á veitingunum á morgun! 🙂 En uppskrift dagsins er ljúffengur kjúklingur sem ég bjó til um daginn.

Kjúklingaleggir með sweet chilimarineringu:

 • 16 kjúklingaleggir
 • 1 dl sweet chili sósa
 • 1 dl olía
 • 1 dl sojasósa

Öllum hráefnunum er blandað saman. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót og marineringunni helt yfir, kjúklingnum er velt vel upp úr marineringunni. Gott er að láta kjúklinginn standa í klukkutíma í ísskáp í marineringunni. Ofninn er stilltur á 200 gráður og grill og kjúklingurinn eldaður í 20-30 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Það þarf að passa að hann brenni ekki.

Satay sósa

 • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 1 rauður chili, fræhreinsað og saxað smátt
 • 100 g jarðhnetur
 • 1 dós kókosmjólk
 • salt & pipar
 • olía

Laukurinn, hvítlaukur og chili steikt á pönnu upp úr olíu. Helmingurinn af hnetunum er sett í matvinnsluvél, hinn helmingurinn saxað gróft með hníf. Hnetunum er bætt út á pönnuna. Því næst er kókosmjólkinni bætt út í, saltað og piprað. Látið malla á vægum hita í ca. 15 mínútur. Borið fram með kjúklingnum, hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_7996

Sesamkjúklingur með ristuðum kartöflum


SesamkjúklingurÉg veit ekki hvort nokkur hefur áhuga á hversdagslegri kjúklingauppskrift eftir snickerskökuna ógurlegu! 🙂 Sú kaka var svo vinsæl að aðsóknarmet var slegið á Eldhússögur í gær, 13 þúsund manns komu í heimsókn á einum degi sem er óraunverulega margt fólk! Ekki nóg með það heldur hefur uppskriftinni verið deilt svo mikið á Facebook að það sjást engar deilingatölur lengur, bara „1K+“! Ég hef aldrei komist upp í 1K áður fyrir neina uppskrift en það eru meira en 1000 deilingar. Sem betur fer stendur kakan undir þessum væntingum því góð var hún! Þó svo að þetta matarblogg sé fyrst og fremst fyrir sjálfa mig þá verð ég að viðurkenna að það er ákaflega gaman að bloggið nái til svona margra. Ég eflist við hvert „like“, deilingu, komment og hrós og það hvetur mig áfram til að gera enn betur í eldhúsinu. Takk fyrir stuðninginn ykkar kæru lesendur! 🙂

En uppskrift dagsins er ákaflega góður og einfaldur sesamkjúklingur og kartöflur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst. Ég notaði rósapiparsósu með réttinum en eftir á hyggja þá held ég að fersk köld sósa hefði verið enn betri. Næst ætla ég að hafa þennan kjúkling með tzatziki sósu eða jafnvel gulrótar-tzatziki sósu sem væri örugglega eðalgóð með kjúklingnum.

Uppskrift:

 • 800 gr kjúklingabringur
 • 
1 egg, hrært
 • 
1 1/2 dl brauðmylsna
 • ca 100 g sesamfræ
 • salt & svartur grófmalaður pipar
 • 
smjör og eða ólífuolía

Brauðmylsnu, sesamfræum, salti og pipar er blandað saman. kjúklingabringurnar eru skornar í þrjá bita á lengdina. Hverjum bita er velt upp úr eggi fyrst og svo blöndunni með sesamfræjum og brauðmylsnu. Kjúklingabitarnir eru steiktir upp úr smjöri og/eða ólífuolíu á pönnu við meðalhita þar til þeir eru eldaðir í gegn. Bitunum er snúið reglulega.

IMG_8114

Ristaðar kartöflur:

 • kartöflur
 • brauðmylsna
 • ólífuolía
 • maldon salt

Kartöflurnar eru þvegnar vel og skornar í tvennt. Þeim er svo raðað á ofnplötu, penslaðar vel með ólífuolíu, dálítið af brauðmylsnu er dreift yfir þær ásamt salti. Bakaðar í ofni við 225 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

IMG_8124

Rósapiparsósa

 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 1 msk smjör
 • 1/2 msk rósapipar, mulinn
 • 400 ml kjúklingasoð
 • 2-3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
 • salt & pipar
 • sósujafnari

Smjörið brætt í potti og laukurinn steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er restinni af hráefnunum bætt út. Suðan látin koma upp, sósujafnara bætt út og sósunni leyft að malla í ca. 10 mínútur. Sósan er sigtuð áður en hún er borin fram.

IMG_8123

Snickerskaka


IMG_8101Í gær buðum við foreldrum mínum í hægeldað lambalæri. Við fórum í barnaafmæli seinnipartinn og komum ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat. En þegar maður er með svona læri og meðlæti í ofninum sem sér um sig sjálft þá er lítið mál að bjóða í mat þó lítill tími sé til eldamennsku. Ég bakaði köku í eftirrétt sem var algjört hnossgæti. Í raun er þetta sænsk „kladdkaka“ með hnetu- og súkkulaðikremi. Sænsku klessukökurnar eru ákaflega góðar, til dæmis er þessi sænska klessukaka ein sú vinsælasta á blogginu mínu. Öllum fannst okkur Snickerskakan jafngóð þeirri köku og sumum fannst hún meira að segja enn betri! Eins og með margar kökur þá var hún enn betri daginn eftir. Í gærkvöldi náði ég ekki að kæla hana alveg í tvo tíma með kreminu á þannig að kremið var enn mjúkt. En núna var ég að smakka þessa sneið sem myndin er af hér að neðan, kremið var þá orðið stökkt og kakan búin að brjóta sig …. namm, þvílíkt sælgæti! Eitt er allavega víst að það verður ekki hafin megrun hér á bæ á þessum mánudegi! 🙂 Þessa köku þurfa allir sælkerar að prófa!

IMG_8135

Uppskrift:

 • 4 egg
 • 4,5 dl sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 8 msk kakó
 • 3 dl hveiti
 • 200 g smjör, brætt
 • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu (má sleppa)

Krem:

 • 2 dl salthnetur
 • 200 g rjómasúkkulaði

IMG_8080

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og ca 26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti hrært út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og pippmolunum þrýst ofan í deigið hér og þar. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í 30 til 40 mínútur, kakan á að vera blaut í miðjunni.

(Í mínum ofni dugði 30 mínútna bökunartími en hjá sumum hefur kakan verið of blaut eftir 30 mínútur – það þarf að finna út rétta tímann fyrir hvern og einn ofn og fylgjast vel með kökunni. Athugið að hitinn er gefinn upp fyrir undir- og yfirhita, sami hiti á blæstri er í raun hærri hiti.)

Á meðan er rjómasúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og hnetunum bætt út í þegar súkkulaðið hefur bráðnað. Þegar kakan er komin úr ofninum og hefur kólnað dálítið er kreminu hellt yfir kökuna og hún kæld í minnst tvo tíma áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_8091IMG_8105

Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

 • 2 kúrbítar
 • ólífuolía
 • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
 • salt & pipar
 • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
 • kokteiltómatar
 • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
 • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

 • kartöflur
 • smjör og ólífuolía
 • salt & pipar
 • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

 • smjör
 • 200 gr sveppir
 • 2-3 tsk nautakraftur
 • 1 piparostur
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl mjólk
 • 2 tsk rifsberjahlaup
 • 1 msk soyjasósa
 • sósujafnari
 • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022

Tómatsúpa með pasta


IMG_8064Ég sagði frá því í gær að ég hefði gert tvenns konar ljúffengar súpur. Hér kemur uppskriftin af þeirri seinni. Það er pasta í þessari súpu og í raun getur maður spurt sig hvenær slík súpa hættir að vera súpa og er orðin pastaréttur. Grunnurinn er alveg sá sami nema að „sósan“ í súpunni er þynnri og það er meira magn af henni heldur en ef gerður er pastaréttur með svipuðu hráefni. Ég átti töluvert af rjóma eftir bolludaginn og notaði alveg þrjá desilítra af rjóma í súpuna. Kannski ekki það hollasta en ó svo gott! 🙂 Þetta er virkilega góð súpa og ákaflega gott að nota út í hana bæði beikon og fetaost. Ég mæli með þessari!

Uppskrift:

 • 3 dósir tómatar í dós (ég valdi með basilku og oregano)
 • 3 skarlottulaukar, fínsaxaðir (líka hægt að nota hluta úr venjulegum lauk)
 • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • olía
 • 7 dl vatn
 • 1 dl rjómi (ég notaði notaði reyndar 3, mæli með því!)
 • 2 grænmetisteningar (eða 2 tsk grænmetiskraftur í lausu)
 • 1 1/2 msk sykur
 • salt og pipar
 • cayenne-pipar
 • jurtakrydd eftir smekk (t.d. basilka og oregano)
 • 4 dl pasta (ég notaði makkarónur)
 • beikon, skorið í bita og steik þar til stökkt
 • fetaostur (án olíu), mulið

Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin glær. Þá er kryddunum bætt út í og þau látin malla í stutta stund með lauknum ásamt smá hluta af vatninu. Því næst er tómötunum bætt út í, grænmetiskrafti auk sykursins og restinni af vatninu. Súpan er látin malla í hálftíma. Þegar ca. 15-20 mínútur eru liðnar af suðutímanum er súpan maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél (hægt að sleppa en mér finnst það betra) og svo er ósoðnu pastanu bætt út í. Í lok suðutímans er súpan smökkuð til með meira kryddi og rjómanum bætt út í. Súpan er borin fram með steiktum beikonbitum og muldum fetaosti.

IMG_8070

Sjóræningjasúpa


IMG_0362Ég veit ekki hvað er að gerast með mig og súpur þessa dagana. Á stuttum tíma hef ég gert tvenns konar súpur sem ég var mjög hrifin af, ég sem er alltaf að tala um að ég sé engin súpumanneskja! Hér gef ég upp uppskriftina af annarri þeirra. Þessi súpa er matarmikil og afar bragðgóð. Brauðteningarnir setja punktinn yfir i-ið og reyndar finnst mér ferski kóríanderinn líka gera það – hann setur alltaf punkt yfir i-ið í hjá mínum bragðlaukum! 🙂 Ég notaði uppskrift sem ég fann á sænskum vef en breytti henni frekar mikið. Til dæmis voru ekki sætar kartöflur í upprunalegu uppskriftinni en mér fannst það koma mjög vel út. Ég var eitthvað að velkjast með nafnið á súpunni, fannst frekar óþjált að kalla hana „súpu með hakki, kartöflum og sætum kartöflum“! Ég ákvað því án mikillar umhugsunar að kalla hana Sjóræningjasúpu, hvers vegna ekki?! 🙂 Líklega var ofarlega í huga mér bókin hans Jóns Gnarrs, Sjóræninginn, sem er ég var að klára að lesa og fannst frábær.

IMG_0385

Uppskrift:

 • 5-8 kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
 • 1 sæt kartafla, flysjuð og skorin í bita
 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • ólífuolía
 • 1.2 líter nautakraftur
 • 1 gul paprika, skorin í bita
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 500-600 g hakk
 • 1 tsk cumin
 • 2 tsk paprikuduft
 • 2 tsk oregano
 • salt og pipar
 • 2-3 dl tómatasósa (ég notaði Jamie Oliver tómat/basiliku pastasósu, 1 krukku)
 • 2 tsk sambal oelek eða annað chilimauk
 • brauðteningar (t.d. með hvítlauk og osti)
 • ferskt kóríander (má sleppa)

Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er hakkinu bætt út í og það steikt. Því næst er paprikunni bætt út í ásamt tómatsósunni og kryddunum. Svo er nautakraftinum bætt út í. Suðan er látin koma upp og þá er kartöflubitarnir og sætu kartöflubitarnir settir út í og súpan látin malla í ca. 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar. Súpan er smökkuð til með salti, pipar, sambal oelek og fleiri kryddum ef þarf. Súpan er borin fram með brauðteningum og fersku kóríander.

Fyrir þá sem vilja búa til eigin brauðteninga sem eru auðvitað enn betri en þessir tilbúnu þá er hér uppskrift:

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

IMG_0387

Sænskar rjómabollur


IMG_4186

Bolludagurinn er að bresta á. Í Svíþjóð er líka bolludagur en þeir hafa eitthvað misskilið þetta (eða við!) því bolludagurinn þeirra er á sprengidag og kallast fettisdagen. Nafnið er dregið af „fet“ og „tisdag“, þ.e. feitur þriðjudagur! Svíarnir taka „fettisdagen“ ekki jafn hátíðlegan og við tökum bolludaginn. Þeir eru með um það bil mánaðartímabil þar sem bollur eru til sölu í matvöruverslunum, bakaríum og á kaffihúsum.  Sænsku bollurnar kallast semlor og eru gerdeigsbollur. Á þær er settur „mandelmassa“ eða möndlumassi auk rjóma og yfir bollurnar er stráð flórsykur. Eftir að hafa búið í Svíþjóð í 15 ár er ekki í boði á okkar heimili að baka bara vatnsdeigsbollur. Vilhjálmur minn er sérstaklega hrifinn af sænsku bollunum, þær eru með því því besta sem hann veit! Ég bakaði því um helgina bæði sænskar „semlor“og íslenskar vatnsdeigsbollur. Möndlumassinn er seldur tilbúinn í sænskum verslunum en hann fæst ekki hér á landi (stöku sinnum í Íkea samt). Það er mjög einfalt að búa hann til og heimatilbúni möndlumassinn er mikið betri en sá tilbúni. Það er líka hægt að nota bara venjulegt Odense marsípan til að flýta fyrir sér og til dæmis finnst honum Vilhjálmi mínum það alveg jafn gott. Í þessum sænsku bollum er kardimomma en ef maður vill gera hefðbundnar íslenskar gerdeigsbollur þá er bara hægt að sleppa kardimommunum, setja sultu og rjóma ásamt glassúr eða súkkulaði á toppinn – þar með eru komnar íslenskar bollur!

Sænskar rjómabollur

Uppskrift, ca. 18 bollur:

 • 1 msk kardimommukjarnar (sleppa ef gera á íslenskar gerbollur)
 • 3 dl mjólk
 • 1 pakki þurrger
 • 1 1/2 dl sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 150 g mjúkt smjör við stofuhita
 • 1 egg
 • 10-12 dl hveiti

Sænskar rjómabollur

Fylling:

 • ca. 400 g möndlumassi (líka hægt að nota hefðbundið Odense Marsípan sem er rifið niður og blandað við ca. 1-2 dl af mjólk þar til marsípanið verður mjúkt)
 • 8 dl rjómi
 • egg til að pensla með
 • flórsykur

Sænskar rjómabollur

Möndlumassi:

 • 250 g möndlur (afhýddar)
 • 2 1/2 dl sykur
 • mjólk, ca. 1 msk

Aðferð:

Bollurnar: Kjarnarnir úr kardimommunum maldir fínt í morteli. Mjólkin sett í pott, muldu kardimommurnar út í og hitað upp í 37 gráður. Gerið sett í skál og það leyst upp með mjólkinni, smjöri, sykri, salti og eggi. Þá er hveitinu bætt út í smátt og smátt og deigið hnoðað þar til það verður slétt og sprungulaust. Því næst er deigið látið hefast undir klút á hlýjum stað í 40-60 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast. Þá eru hnoðaðar ca. 18 bollur sem er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bollunum er leyft að hefast undir klút í ca. 45-60 mínútur til viðbótar. Því næst eru þær penslaðar með eggi og bakaðar við 200 gráður í um það bil 10 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Bollurnar eru þá látnar kólna á grind.

Sænskar rjómabollur

Möndlumassi: Möndlunar er maldar mjög fínt í matvinnsluvél. Þá er sykri bætt út í og blandan keyrð í matvinnsluvél í ca. 5-7 mínútur þar til massinn verður sléttur. Þá er smá skvettu af mjólk bætt út í þannig að massinn verði dálítið blautur og haldist saman. Sumir taka aðeins innan úr bollunum og bæta því út í möndlumassann.

Í stað þess að gera möndlumassa er líka gott að nota 400 g af marsípani rifið niður og blandað við ca. 1 dl mjólk.

Toppurinn er skorinn af bollunum og skorin smá dæld í neðri hluta bollunnar. Þar er settur möndlumassi, því næst er settur þeyttur rjómi, bollunni lokað og flórsykur sigtaður yfir.

Sænskar rjómabollur

Eplakaka með karamelliseruðum eplum


IMG_7974Við Jóhanna bökuðum þessa gómsætu eplaköku í vikunni. Jóhanna er svo hrifin af eplakökum að hún er alltaf að ítreka við mig að hún vilji ekki súkkulaði afmælisköku heldur eplaköku á afmælinu sínu – hún á afmæli í ágúst! 🙂 Þessi kaka er dásamlega mjúk og bragðgóð. Uppskriftin er frekar stór, hún passar í form sem er ca. 25 x 35 cm. Hún var hrikalega góð sjóðandi heit en ég ákvað að taka myndir af kökusneiðinni þegar hún væri orðin köld og auðveldara væri að skera hana. Þessi ákvörðun varð til þess að ég náði ekki neinni mynd af stakri kökusneið! Nokkrum tímum eftir að við mæðgur bökuðum kökuna og ég ætlaði að mynda hana var kakan hér um bil búin! Það má því með sanni segja að fjölskyldan hafi verið ánægð með kökuna, Vilhjálmur sagði til dæmis að þetta væri besta eplakakan sem hann hefði smakkað! Það gerir hana sérstaklega góða að nota eplabáta sem hafa verið karamelliseraðir áður.

IMG_7961

Uppskrift:

 • 4 egg
 • 4 dl + 4 msk sykur
 • 200 g + 1 msk smjör
 • 2 msk púðursykur (má líka nota sykur)
 • 2 dl mjólk
 • 6 dl hveiti
 • 4 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • ca 5 epli
 • 4 tsk kanill

Ofninn er hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smjörið er brætt í potti, hann svo tekinn af hellunni, smjörinu leyft að kólna örlítið og mjólkinni svo bætt út í. Epli eru afhýdd, kjarnhreinsuð, skorin í báta og þeim svo velt upp úr 4 msk sykri og 4 tsk kanilssykri. Þá er 1 msk smjör og púðursykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað. Því næst er eplunum bætt út í og þeim velt vel upp úr heitu sykurblöndunni við meðalhita þar til eplabátarnir hafa náð góðri karamelliseringu. Egg og 4 dl sykur þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, vanillusykri og lyftidufti bætt út í og því næst mjólkinni og smjörinu. Deigið sett í smurt stórt bökunarform (mitt form er 25 x 35 cm). Eplabátunum er raðað ofan í deigið og kakan bökuð í ca. 20-25 mínútur í miðjum ofni við 200 gráður. Ég stráði dálítið af perlusykri yfir kökuna en því er vel hægt að sleppa.

IMG_7967