Ég sagði frá því í gær að ég hefði gert tvenns konar ljúffengar súpur. Hér kemur uppskriftin af þeirri seinni. Það er pasta í þessari súpu og í raun getur maður spurt sig hvenær slík súpa hættir að vera súpa og er orðin pastaréttur. Grunnurinn er alveg sá sami nema að „sósan“ í súpunni er þynnri og það er meira magn af henni heldur en ef gerður er pastaréttur með svipuðu hráefni. Ég átti töluvert af rjóma eftir bolludaginn og notaði alveg þrjá desilítra af rjóma í súpuna. Kannski ekki það hollasta en ó svo gott! 🙂 Þetta er virkilega góð súpa og ákaflega gott að nota út í hana bæði beikon og fetaost. Ég mæli með þessari!
Uppskrift:
- 3 dósir tómatar í dós (ég valdi með basilku og oregano)
- 3 skarlottulaukar, fínsaxaðir (líka hægt að nota hluta úr venjulegum lauk)
- 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
- olía
- 7 dl vatn
- 1 dl rjómi (ég notaði notaði reyndar 3, mæli með því!)
- 2 grænmetisteningar (eða 2 tsk grænmetiskraftur í lausu)
- 1 1/2 msk sykur
- salt og pipar
- cayenne-pipar
- jurtakrydd eftir smekk (t.d. basilka og oregano)
- 4 dl pasta (ég notaði makkarónur)
- beikon, skorið í bita og steik þar til stökkt
- fetaostur (án olíu), mulið
Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin glær. Þá er kryddunum bætt út í og þau látin malla í stutta stund með lauknum ásamt smá hluta af vatninu. Því næst er tómötunum bætt út í, grænmetiskrafti auk sykursins og restinni af vatninu. Súpan er látin malla í hálftíma. Þegar ca. 15-20 mínútur eru liðnar af suðutímanum er súpan maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél (hægt að sleppa en mér finnst það betra) og svo er ósoðnu pastanu bætt út í. Í lok suðutímans er súpan smökkuð til með meira kryddi og rjómanum bætt út í. Súpan er borin fram með steiktum beikonbitum og muldum fetaosti.