Ég hef áður fjallað hér á síðunni um fyrirtækið Eldum rétt sem er með frábærlega sniðuga þjónustu. Fyrirtækið býður upp á matarpakka þar sem maður fær sent heim hráefni og uppskriftir fyrir kvöldmáltíðir vikunnar. Í næstu viku verða Eldum Rétt með þrjá nýja rétti sem byggðir eru á vinsælum uppskriftum af Eldhússögum.
Lax með pekanhnetusalsa, blómkálsmús og chili-smjörsósu
Epla og beikon kjötbollur með ofnbökuðum kartöflum og fetaostasósu
Ítalskur parmesan kjúklingur með hrísgrjónum og salati
Þetta er frábær leið til að gera matargerðina einfalda. Þið leggið einfaldlega inn pöntun og fáið sent heim brakandi ferskt hráefni sem passar nákvæmlega fyrir uppskriftirnar þrjár. Matargerðin verður leikur einn, engar innkaupaferðir og spurningin „hvað á ég að hafa í matinn?“ heyrir sögunni til. Ég hvet ykkur til að prófa – pöntunarfrestur rennur út á miðnætti í kvöld! 🙂
Í dag ætla ég að setja inn uppskrift að súpu sem er afar vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Eftir að við fjölskyldan fórum í frábæra ferð til Toskana á Ítalíu í sumar er ég ekki frá því að mozzarella, tómatar og basilika séu orðin ein aðaluppistaðan í matargerðinni á heimilinu. Í þessari súpu sameinast allt sem okkur fjölskyldunni finnst gott og það er alltaf einstaklega gaman að geta boðið upp á kvöldmat sem hugnast öllum jafnvel, bæði börnum og fullorðnum. Ekki er verra hversu fljótgerð þessi súpa er, það er stór kostur í amstri hversdagsleikans. Mozzarella osturinn og basilolían setja punktinn yfir i-ið og hver súpuskeið færir okkur tilbaka til sólríkra sumardaga á Ítalíu þrátt fyrir að haustið bíði handan við hornið.
Uppskrift:
- 1 meðalstór laukur, saxaður smátt
- 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 180 g grilluð paprika í olíu, söxuð smátt
- 2 msk ólífuolía til steikingar
- 1 msk balsamedik
- 2 dósir niðursoðnir tómatar, bragðbættir með basiliku, hvítlauk og oregano (ca 400 g dósin)
- 1 l kjúklingasoð (1 l sjóðandi vatn + 2 msk kjúklingakraftur eða 2 teningar)
- 2 dl rjómi eða matreiðslurjómi
- 1 tsk oregano
- 1 tsk basilika
- chili krydd eða flögur
- salt og pipar
- 250 g tortellini
- 120 g ferskur mozzarella, skorin í litla bita
Basilolía:
- 30 g fersk basilika
- 1/2 dl ólífuolía
- salt og pipar
Ólífuolía hituð í stórum potti. Laukur, hvítlaukur og grilluð paprika steikt við meðalhita í 3-4 mínútur þar til mjúkt. Þá er balsamediki, niðursoðnum tómötum, kjúklingasoði og rjóma bætt út í ásamt kryddi. Þegar súpan nær suðu er tortellini bætt út í og látið malla þar til tortellini er passlega soðið. Undir lokin er nokkrum smátt söxuðum basiliku laufum bætt út í og súpan smökkuð til með kryddum við þörfum. Súpan er borin fram með ferskum mozzarella og basilolíu.
Basilolía: Afganginum af fersku basilikunni er maukað saman við ólífuolíuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota, smakkað til með salti og pipar.