Tómatsúpa með tortellini og mozzarella


IMG_0164

Ég hef áður fjallað hér á síðunni um fyrirtækið Eldum rétt sem er með frábærlega sniðuga þjónustu. Fyrirtækið býður upp á matarpakka þar sem maður fær sent heim hráefni og uppskriftir fyrir kvöldmáltíðir vikunnar. Í næstu viku verða Eldum Rétt með þrjá nýja rétti sem byggðir eru á vinsælum uppskriftum af Eldhússögum.

lax

Lax með pekanhnetusalsa, blómkálsmús og chili-smjörsósu

bollur

Epla og beikon kjötbollur  með ofnbökuðum kartöflum og fetaostasósu

kjúlli

Ítalskur parmesan kjúklingur með hrísgrjónum og salati

Þetta er frábær leið til að gera matargerðina einfalda. Þið leggið einfaldlega inn pöntun og fáið sent heim brakandi ferskt hráefni sem passar nákvæmlega fyrir uppskriftirnar þrjár. Matargerðin verður leikur einn, engar innkaupaferðir og spurningin „hvað á ég að hafa í matinn?“ heyrir sögunni til. Ég hvet ykkur til að prófa – pöntunarfrestur rennur út á miðnætti í kvöld! 🙂

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift að súpu sem er afar vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Eftir að við fjölskyldan fórum í frábæra ferð til Toskana á Ítalíu í sumar er ég ekki frá því að mozzarella, tómatar og basilika séu orðin ein aðaluppistaðan í matargerðinni á heimilinu. Í þessari súpu sameinast allt sem okkur fjölskyldunni finnst gott og það er alltaf einstaklega gaman að geta boðið upp á kvöldmat sem hugnast öllum jafnvel, bæði börnum og fullorðnum.  Ekki er verra hversu fljótgerð þessi súpa er, það er stór kostur í amstri hversdagsleikans. Mozzarella osturinn og basilolían setja punktinn yfir i-ið og hver súpuskeið færir okkur tilbaka til sólríkra sumardaga á Ítalíu þrátt fyrir að haustið bíði handan við hornið.

IMG_0167

Uppskrift: 

  • 1 meðalstór laukur, saxaður smátt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 180 g grilluð paprika í olíu, söxuð smátt
  • 2 msk ólífuolía til steikingar
  • 1 msk balsamedik
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar, bragðbættir með basiliku, hvítlauk og oregano (ca 400 g dósin)
  • 1 l kjúklingasoð (1 l sjóðandi vatn + 2 msk kjúklingakraftur eða 2 teningar)
  • 2 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk basilika
  • chili krydd eða flögur
  • salt og pipar
  • 250 g tortellini
  • 120 g ferskur mozzarella, skorin í litla bita

Basilolía:

  • 30 g fersk basilika
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti. Laukur, hvítlaukur og grilluð paprika steikt við meðalhita í 3-4 mínútur þar til mjúkt. Þá er balsamediki, niðursoðnum tómötum, kjúklingasoði og rjóma bætt út í ásamt kryddi. Þegar súpan nær suðu er tortellini bætt út í og látið malla þar til tortellini er passlega soðið. Undir lokin er nokkrum smátt söxuðum basiliku laufum bætt út í og súpan smökkuð til með kryddum við þörfum. Súpan er borin fram með ferskum mozzarella og basilolíu.

Basilolía: Afganginum af fersku basilikunni er maukað saman við ólífuolíuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota, smakkað til með salti og pipar. IMG_0166 IMG_0163

Tómatsúpa með pasta


IMG_8064Ég sagði frá því í gær að ég hefði gert tvenns konar ljúffengar súpur. Hér kemur uppskriftin af þeirri seinni. Það er pasta í þessari súpu og í raun getur maður spurt sig hvenær slík súpa hættir að vera súpa og er orðin pastaréttur. Grunnurinn er alveg sá sami nema að „sósan“ í súpunni er þynnri og það er meira magn af henni heldur en ef gerður er pastaréttur með svipuðu hráefni. Ég átti töluvert af rjóma eftir bolludaginn og notaði alveg þrjá desilítra af rjóma í súpuna. Kannski ekki það hollasta en ó svo gott! 🙂 Þetta er virkilega góð súpa og ákaflega gott að nota út í hana bæði beikon og fetaost. Ég mæli með þessari!

Uppskrift:

  • 3 dósir tómatar í dós (ég valdi með basilku og oregano)
  • 3 skarlottulaukar, fínsaxaðir (líka hægt að nota hluta úr venjulegum lauk)
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía
  • 7 dl vatn
  • 1 dl rjómi (ég notaði notaði reyndar 3, mæli með því!)
  • 2 grænmetisteningar (eða 2 tsk grænmetiskraftur í lausu)
  • 1 1/2 msk sykur
  • salt og pipar
  • cayenne-pipar
  • jurtakrydd eftir smekk (t.d. basilka og oregano)
  • 4 dl pasta (ég notaði makkarónur)
  • beikon, skorið í bita og steik þar til stökkt
  • fetaostur (án olíu), mulið

Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin glær. Þá er kryddunum bætt út í og þau látin malla í stutta stund með lauknum ásamt smá hluta af vatninu. Því næst er tómötunum bætt út í, grænmetiskrafti auk sykursins og restinni af vatninu. Súpan er látin malla í hálftíma. Þegar ca. 15-20 mínútur eru liðnar af suðutímanum er súpan maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél (hægt að sleppa en mér finnst það betra) og svo er ósoðnu pastanu bætt út í. Í lok suðutímans er súpan smökkuð til með meira kryddi og rjómanum bætt út í. Súpan er borin fram með steiktum beikonbitum og muldum fetaosti.

IMG_8070