Töfrar indverskrar matargerðarlistar hjá Salti eldhúsi


IMG_0431

Þá er enn ein annasöm en skemmtileg vika þotin hjá. Reyndar var kannski aðeins of mikið að gera hjá mér, ég þurfti að vera í aukavinnunni minni á kvöldin og náði því til dæmis ekkert að blogga eins og mig langaði til. En síðastliðið fimmtudagskvöld fór ég á frábært matreiðslunámskeið hjá Salti eldhúsi. Ég valdi að fara á námskeið í indverskri matargerð og sé ekki eftir því. Kennarinn á námskeiðinu var Shabana Zaman sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Hún er ekki bara snillingur í eldhúsinu heldur er hún líka Waldorf-kennari, sjáandi, söngkona, heilari og fleira. Til að gera langa sögu stutta átti ég frábæra kvöldstund við matargerð í góðum félagsskap.

IMG_0485Hápunktur kvöldsins var svo að snæða dásamlega indverska rétti, sem hópurinn bjó til undir handleiðslu Shabana, með góðu hvítvíni og hlusta á Shabana fræða okkur um Indland, indversk krydd og matargerð auk annars fróðleiks. Shabana hefur í mörg ár boðið upp á þá þjónustu að fara á heimili fólks og elda indverskan mat fyrir matargesti. Það er þó ekki það eina sem Shabana gerir því með heillandi persónuleika sínum færir hún matargerðina upp á annað stig með fróðleik, söng og skemmtilega nálgun á heilandi og andleg málefni, hvort sem um er að ræða lækningamátt krydda eða annað.

IMG_0457Hér er Shabana að sýna okkur ákaflega einfalt og gott indverskt brauð sem gott er að dýfa í gómsætu sósurnar.

IMG_0467

Allir að reyna að feta í fótspor Shabana!

IMG_0474 IMG_0476Gott að bera smjör á heitt brauðið

Ég hef aldrei áður farið á námskeið hjá Salti eldhúsi, bara heyrt ótrúlega góðar sögur sem fara af námskeiðunum þar. Núna er ég komin í hópinn með „frelsaða“ fólkinu og get ekki beðið eftir því að komast þangað á annað námskeið! 🙂 Eftir þessa kvöldstund þá veit ég vel hvað það er sem heillar alla sem farið hafa á Salt námskeiðin. Það er í raun ofureinföld jafna sem er samt ekki á færi allra að framkvæma, hún er eftirfarandi; Húsið sem hýsir eldhúsið er sjarmerandi og fallegt. Þar er lögð áhersla á smáatriði, hlýlegt og fallegt umhverfi en ekki síst fullkomna aðstöðu til matargerðar og allt er spikk og span!

IMG_0448Skemmtilegt matarstell sem kemur héðan og þaðan.

Auður Ögn, sem rekur eldhúsið, vakir og sefur greinilega með námskeiðunum sínum, til dæmis eru öll hráefnin sem hún kaupir inn þau bestu og þar er augljóslega hvergi til sparað.

IMG_0424

Ferskt og gott hráefni

Eitt dæmi er að þegar allra dásamlega góðu réttanna, sem matreiddir eru á námskeiðinu, er neytt þá er ekki boðið upp á eitt lítið hvítvínsglas með matnum úr ódýrustu „beljunni“ úr Ríkinu. Nei, Auður sendir inn uppskriftirnar til „sommelier“ (vínþjóns) sem finnur út hvaða vín hæfir matnum best. Á meðan námskeiðinu stendur er boðið upp á bjór og með matnum er svo boðið upp á besta vínið sem hæfir matnum hverju sinni og fyllt á glösin að vild! Vatnið er borið fram í fallegum flöskum með hindberjum og myntu. Þegar mætt er á námskeiðið er boði upp á girnilegar veitingar –  þetta eru svona smáatriði sem skipta svo miklu máli.

IMG_0488

Á meðan námskeiðinu stendur þá er Auður sjálf á staðnum, auk kennarans, og sér til þess að allt gangi vel og stjanar í kringum alla og auk þess er stúlka sem sér um allt uppvask. Ég skoðaði að gamni umsagnir útlendinga (Salt eldhús er með námskeið í íslenskri matargerð fyrir erlent ferðafólk) um Salt eldhús á Trip advisor og það kom ekki á óvart að þar gefa allir námskeiðunum fullt hús stiga og segja gjarnan að þessi kvöldstund hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Mér finnst alltaf svo magnað þegar maður hittir fyrir fólk sem tekur sér eitthvað fyrir hendur og gerir það svona 100% eins og Auður hjá Salti eldhúsi! 🙂

IMG_0497

Auður Ögn, Shabana og ég

Allir réttirnir þetta kvöld voru dásamlega góðir. Nokkrir heilluðu mig þó aðeins meira en aðrir. Það var meðal annars Korma kjúklingurinn, blómkáls- og kartöflurétturinn auk dásamlegs banana- og gúrkusalats. Ég hef einmitt oft boðið upp á niðursneidda banana og ristað kókos með indverskum mat en ekki búið til salat úr því áður en það er dásamlega gott meðlæti með svona indverskum mat. Shabana var svo góð að leyfa mér að deila þessum frábæru uppskriftum með ykkur.

IMG_0483

Nokkur atriði sem Shabana lagði áherslu á var meðal annars að þegar ferskur chili pipar er í uppskriftum þá þarf að smakka aðeins á honum til að vita styrkleikann, hann getur verið mjög misjafn (minnkar því eldri sem chili piparinn verður). Einnig er mikilvægt að nota góð krydd, til dæmis sagði hún að hægt væri að treysta gæði kryddana frá Pottagöldrum. Í þriðja lagi er mikilvægt að prófa sig áfram með magn kryddana, þó gefið sé upp ákveðið magn af kryddi er best að byrja með fremur lítið en mikið og bæta frekar við, þetta á sérstaklega við um sterk krydd eins og chili og cayanne pipar.

Korma kjúklingur:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir, skornir í bita
  • olía til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4-5 cm bútur engifer
  • 8 stórir hvítlauksgeirar
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 1/2 bolli AB-mjólk
  • 4 msk kasjú-hnetur, malaðar í duft í matvinnsluvél eða í morteli
  • salt eftir smekk

Kryddblanda:

  • 2 msk kóríander duft
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk turmerik (gætið þess að liturinn í turmerik smitast og festist auðveldlega)
  • 1 tsk Garam Masala
  • 1 tsk chiliflögur eða duft
  • 1 tsk svartur pipar

Kryddunum er blandað vel saman. Sett í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni og maukað.

Olía er hituð á pönnu og laukurinn mýktur á pönnunni við meðalhita þar til hann hefur tekið lit (ca. 10 mín). Þá er kryddblöndunni hellt út á pönnuna og henni velt saman við laukinn í ca. 5 mínútur. Gott er að bæta við góðri slettu af olíu þannig að kryddblandan brenni ekki við pönnuna. Þá er kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og þeir brúnaðir í nokkrar mínútur. Því næst er tómötunum og AB-mjólk bætt við, öllu blandað vel saman og látið malla í ca. 20 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kasjú-hnetudufti bætt út í og látið malla í 20-30 mínútur þar til sósan er orðin þykk og góð, því lengri tíma sem henni er gefið því betri verður hún. Saltað eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum, naanbrauðiraita sósu og banana og gúrkusalati.

IMG_0499

Banana- og gúrkusalat (Khera kachumber)

  • 3 meðalstórir vel þroskaðir bananar, skornir í tenginga
  • 1/2 stór agúrka, skorin í tenginga
  • 1/2 grænn chili pipar (eða eftir smekk), saxað smátt
  • 25 g gróft malaðar hnetur
  • 1-2 tsk kókos
  • 1/2 – 1 tsk sykur
  • 1-2 tsk sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Banönum og gúrku blandað ásamt restinni af hráefnunum. Borið fram kalt og fallegt er að strá yfir salatið kókos áður en það er borið fram.

Ef margir eru í mat er ekki verra að hafa þennan blómkáls- og kartöflurétt með ofantöldum réttum með á borðum.

IMG_0436

Blómkáls- og kartöfluréttur: 

  • 1 lítill blómkálshaus (líka hægt að nota 1 stórt eggaldin
  • 300 g kartöflur
  • olía til steikingar
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk ristuð og mulin cummin-fræ
  • 1 msk heil cummin fræ
  • 1 tsk kóríander krydd
  • 1 tsk turmerik
  • 1/2 tsk cayennepipar (gott að byrja á minna magni og auka eftir smekk)
  • 1 grænt chilialdin, fræhreinsað og saxað fínt (hægt að nota minna magn)
  • salt og pipar eftir smekk
  • ferskt kóríander

Kartöflurnar eru soðnar (gæta þess að ofsjóða þær ekki) látnar kólna, skrældar ef þarf og svo skornar í bita. Blómkálshausinn er skorinn í meðalstóra bita.

Kryddin eru tekin til í lítinn bolla eða skál að heilu cummin fræjunum undanskildum. Ristuðu og muldu cummin fræin eru útbúin. Cummin fræin eru ristuð á þurri pönnu þar til þau byrja að dekkjast,  því næst eru þau mulin í morteli eða með hnífsskafti.

Olía er hituð á pönnu og heilu cummin fræin eru sett á pönnuna. Því næst er blómkálinu strax bætt við og steikt í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa næga olíu þannig að blómkálið brenni ekki. Þá er öllum kryddunum bætt út í ásamt chili piparnum, saltað og piprað. Kartöflunum er bætt við, hitinn lækkaður og allt steikt saman í nokkrar mínútur til viðbótar, hrært í reglulega. Borið fram með fersku kóríander.

IMG_0482

Heilsteiktur kjúklingur með kryddjurtarjómasósu


Heilsteiktur kjúklingur með kryddjurtarjómasósu

Mikið var nú gott að fá svona milt og fallegt veður um helgina, vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal nú síðhausts. Í gærkvöldi kom stórfjölskyldan saman með ömmu og afa til þess að fagna 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra. Allir lögðust á eitt að útbúa margrétta veislumáltíð sem var dásamlega góð. Í forrétt var salat með risarækjum sem við erum afar hrifin af, uppskriftin er hér. Í aðalrétt var grillað lambaribeye með kartöflugratíni, sveppasósu, grilluðu grænmeti og fersku salati. Í eftirrétt var dásamlega góður daimréttur sem ég var ekki lengi að fá uppskriftina að og ætla að setja hér inn á síðuna við fyrsta tækifæri.

IMG_0280

Hér er ég að vinna í risarækjuforréttinum með líka svona fína svuntu! 🙂

 Í dag fórum við á barnaleikritið Hættuför í Huliðsdal í Þjóðleikhúsinu. Afar skemmtileg sýning og ákaflega hugvitsamleg og sniðug sviðsmynd. Leikritið virðist vera sýnt í stuttan tíma þannig að endilega drífið ykkur að kaupa miða, þetta er leiksýning sem við mælum sannarlega með.

Uppskriftin sem ég ætla að gefa að sinni er mjög einföld en ofsalega góð. Mér finnst helsteiktur kjúklingur svo góður og passa svo vel sem sunnudagsmatur. Ég hef verið að nota heila kjúklinginn frá Rose Poultry, hann er mjög safaríkur og góður en svo hentar stærðin líka svo vel því hann er svo stór, ca. 1.6 kíló. Ég prófaði mig áfram með sósu með kjúklingnum og þessi sem ég gef uppskrift að hér að neðan sló í gegn hjá fjölskyldunni og hún var bókstaflega sleikt innan úr skálinni. Auk kjúklingsins og sósunnar útbjó ég ferskt salat og ofnbakaðar kartöflur og gulrætur – einföld og ljúffeng veislumáltíð!

Uppskrift: 

  • 1 heill kjúklingur frá Rose Poultry
  • kjúklingakrydd frá Pottagöldrum

Ofn er hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Gott er að taka kjúklinginn úr frysti kvöldið fyrir eldun og leyfa honum að þiðna inni í ísskáp. Ef skammur tími er til stefnu er hægt að þýða kjúklinginn (í umbúðunum) með því að láta hann liggja í köldu vatni sem skipt er um reglulega – það tekur um það bil 3 til 4 tíma. Þegar kjúklingurinn hefur þiðnað er hann skolaður og þerraður með eldhúspappír. Því næst er hann kryddaður vel með kjúklingakryddi. Kjúklingurinn er lagður í steikarpott eða í steikarpoka og steiktur í ofni við 200 gráður í um það bil klukkustund eða þar til hann er eldaður í gegn.

IMG_6846

Kryddjurtarjómasósa f. ca. 4:

  • soðið sem fellur til af kjúklingnum (um það bil 1-2 dl)
  • 2 dl rjómi
  • 1 msk sojasósa
  • ca 120 g Philadelphia ostur með hvítlauk og kryddjurtum
  • salt og pipar eftir smekk (gætið þess að sojasósan er sölt)
  • sósujafnari (ef með þarf)

Soðið af kjúklingnum og sojasósan sett saman í pott og suðan látin koma upp. Þá er rjómanum og Philadelphia osti með hvítlauk og kryddjurtum bætt út í og leyft að malla í um það bil 10 mínútur á meðalhita. Sósan er smökkuð til með pipar og salti. Sósan þykkist vel á meðan hún mallar en ef hún er of þunn er hægt að bæta út í hana sósujafnara.

Ofnsteiktar kartöflur og gulrætur

  • kartöflur
  • gulrætur
  • ólífuolía
  • flögusalt (Falksalt með hvítlauki)
  • grófmalaður svartur pipar
  • ítalskt krydd eða kryddblanda (til dæmis basilika, rósmarín og oregano)

Kartöflur eru þvegnar og skornar í bita. Gulrætur eru flysjaðar og skornar í svipað stóra bita og kartöflurnar. Hvort tveggja er sett í ofnskúffu og ólífuolíu ásamt kryddi dreift yfir, blandað vel saman. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_6869

Súkklaðikaka með lakkrís og karamellukremi


Súkkulaðikaka með lakkrís

Núna erum við hjónin komin heim úr hreint út sagt dásamlegri ferð. Við dvöldum 6 nætur á Rhodos þar sem Elfar sótti ráðstefnu. Mikið var yndislegt að komast í sólina, slaka á og auðvitað borða góðan mat. Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram hafa getað fylgst með myndum úr ferðinni en það er líka hægt að skoða þær hér á síðunnni, velja forsíðu og þar er hægra meginn á síðunni dálkur merktur „Eldhússögur á Instagram“. Eftir frábæra daga í Grikklandi var ákaflega gott að koma heim aftur til barnanna og alls hér heima. Næstu vikur eru þéttskipaðar með allskonar skemmtilegum viðburðum. Einn af þeim er í næstu viku. Þá fer ég á námskeið hjá Salt eldhúsi í indverskri matargerð. Ég hef heyrt svo margt gott um námskeiðin þarna. Eldhúsið sjálft er rómað fyrir það hversu fallegt það er og hve góður andi er þar inni. Ég meina, hvern langar ekki til þess að elda og borða í þessu fallega umhverfi?

Salt

Það eru mjög mörg spennandi námskeið í boði og erfitt að velja bara eitt! Ég endaði á því að velja þetta námskeið, Töfrar indveskrar matargerðar. Mér finnst indverskur matur svo góður en ég hef miklað það fyrir mér að gera hann frá grunni. Shabana Zaman sem hefur búið hér um árabil kennir á námskeiðinu og mér fannst svo ótrúlega spennandi að læra um indverska matargerð hjá einhverjum sem kemur frá landinu og er sérfræðingur í matargerð.  Ég er því ekkert lítið spennt fyrir þessu námskeiði og vona að ég geti deilt með mér hér á síðunni indverskri snilld að því loknu!

En svo ég víki að uppskrift dagsins. Nói og Siríus efndu til uppskriftasamkeppni nú á dögunum. Ég hafði í nokkurn tíma hugleitt hvort ekki væri hægt að baka súkkulaðiköku með lakkrís. Súkkulaði og lakkrís eru jú þjóðarréttur okkar Íslendinga! 🙂 Mér fannst því upplagt að reyna að baka þannig köku fyrir uppskriftasamkeppnina. Ég gerði nokkrar tilraunir og endaði á því að leggja fram þessa uppskrift í samkeppnina að ljúffengri súkkulaði-lakkrísköku með karamellukremi sem sló í gegn hjá fjölskyldunni.

IMG_0033

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 3,5 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk kakó
  • 3 dl hveiti
  • 200 g smjör, brætt
  • 100 g Nissa með lakkrís (hægt að nota meira)

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og 24-26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti bætt út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og Nizzamolunum er þrýst ofan í deigið hér og þar, einum í einu. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í ca. 30 mínútur kakan á að vera blaut í miðjunni.

Karamellukrem:

  • 1/2 dl rjómi
  • 1/2 dl síróp
  • 100 g pippsúkkulaði með karamellu
  • 50 g smjör

Rjómi, síróp og pippsúkkulaði sett í pott og látið malla í nokkrar mínútur við meðalhita þar til að blandan þykknar. Gott að hræra í blöndunni öðru hvoru á meðan. Þá er potturinn tekinn af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að láta kremið standa í smá stund til að fá það þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Skreytt með lakkrís og borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_0136

Eplakaka með rjómaosti


Eplakaka með rjómaosti

Jóhanna Inga dóttir mín er ekkert sérstaklega hrifin af súkkulaðikökum. Helst vill hún þá bara hafa kökuna án súkkulaðikrems. Það kom því ekki annað til greina á afmælinu hennar um daginn en að baka líka uppáhaldskökuna afmælisbarnsins, eplaköku. Við mæðgur deilum þessari ást á eplakökum. Reyndar þá finnst mér eplakökur og flestar aðrar kökur sem byggðar eru á einhverskonar sandkökugrunni ekkert henta sérstaklega vel á afmælishlaðborð. Slíkar kökur eru hins vegar himneskar einar og sér sem til dæmis sunnudagskaka eða til þess að bjóða í kaffiboði þar sem bara ein eða tvær kökur eru á borðum. Í afmælisboðum er ég hrifnari af því að vera með marengstertur, súkkulaðikökur, ostakökur og aðrar slíkar kökur sem eru meira svona gúmmelaði. Ég tek líka eftir því að þær kökur eru vinsælli í afmælum heldur en sandkökur. Þessari eplaköku var reyndar gerð afar góð skil í afmælinu. Að þessu sinni prófaði ég að gera hana rjómaosti og það gerði hana ákaflega safaríka og mjúka.

IMG_6984

Uppskrift:

  • 2 dl sykur
  • 120 ml olía
  • 1 tsk vanillusykur
  • 200 g rjómaostur
  • 2 stór egg
  • 2 dl hveiti
  • 1.5 tsk lyftiduft
  • kanelsykur
  • 3 epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í báta

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og ca. 24 cm smelluform smurt að innan. Sykur, olía, vanillusykur og rjómaostur er hrært vel saman. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært vel. Því næst er hveiti og lyftidufti bætt út í og hrært við lágan hraða þar deigið hefur blandast vel saman. Deiginu er svo hellt í smurt formið. Eplabátunum er velt vel upp úr kanelsykri og því næst stungið hér og þar ofan í deigið. Að síðustu er dálítið af kanelsykrinu stráð yfir kökuna. Bakað í ofni í ca 50-60 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn í miðjunni og farin að losna frá forminu. Ef kakan fer að verða dökk í ofninum áður en hún er bökuð í gegn er gott að setja álpappír yfir hana. Best borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_7078

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku


Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Dagarnir líða svo ótrúlega hratt hjá mér nú um mundir. Á hverjum degi finnst mér ég rétt komin á fætur þegar það er komið aftur kvöld. Ég á það til að taka að mér of mikið af verkefnum. Það er mikið að gera í aðalvinnunni minni, nóg að gera í aukavinnunni og komið að skiladögum í auka-aukavinnunni minni. Ég á erfitt með að segja nei við verkefnum og þegar ég hef tekið þau að mér þá vil ég gera þau 110% og tímarnir í sólarhringnum duga ekki til. Ég er samt að æfa mig að segja nei og tekst það öðru hverju! 🙂 Núna er sérstaklega mikið að gera því ég er að auki að undirbúa og pakka fyrir ferðalag okkar Elfars sem hefst á morgun. Hann er að fara að flytja fyrirlestur á ráðstefnu á Rhodos og ég gat ekki staðist mátið að fara með. Mikið verður gott að fara í sólina í nokkra daga eftir sólarlaust sumar hér á Íslandi! Amman og afinn eru svo góð að flytja inn til barnanna á meðan þannig að við getum notið þess að vera í fríi áhyggjulaus – mikið hlakka ég til! 🙂

Áður en ég vík að uppskrift dagsins þá langar mig að benda á frábæra bók sem kom út í síðustu viku. Steingrímur Sigurgeirsson rekur vefinn Vínótek sem er dæmalaust öflugur og flottur uppskriftavefur en að auki eru þar umfjöllun og dómar um vín og veitingastaði ásamt vefverslun með til dæmis vínglösum. Steingrímur var að gefa út bókina „Vín – frá þrúgu í glas„, bók sem hefur að geyma margvíslegan fróðleik um vín. Ég hef ekkert vit á vínum, vel oftar en ekki vín út frá fallegum myndum á flöskunni, finnst sæt hvítvín best því þau bragðast eins og ávaxtasafi og býð gestum mínum blygðunarlaust upp á rauðvín af „belju“ ef því er að skipta. Botninum náði ég þó í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Þá var ég að vinna á sjúkrahúsinu með íslenskum lækni sem leysti af á deildinni minni um tíma. Við buðum honum í mat og ég eldaði góða máltíð. Rétt áður en hann kom þá datt mér allt í einu í hug að kannski væri huggulegt að bjóða upp á rauðvínslögg með kjötinu. Við áttum eina ræfilslega rauðvínsflösku frá Californiu sem hafði kostað 50 sænskar krónur, sem sagt ekkert gæðavín þar á ferðinni en ég ákvað að láta það duga. Rétt áður en gesturinn mætti þá tók ég eftir því að eiginmaðurinn hafði lagt hvítvínsglös á borðið, ég ætlaði að láta hann skipta um glös en gleymdi því. Því fór svo að gestinum var boðið upp á 50 króna bandarískt rauðvín í hvítvínsglösum. Gesturinn var svo ljúfur og hógvær að hann hrósaði máltíðinni bak og fyrir og lét eins og honum hefði verið boðið eðalvín. Það var ekki fyrr en alllöngu seinna að við komumst að því að hann er einn helsti og besti hvítvínssérfræðingur landsins! Eftirleiðis þegar hann kom til okkar í mat þá lét ég hann um að koma með vínið með sér og einbeitti mér að því sem ég kann betur, að elda mat! Það mætti halda að þessi saga hefði frést út því ég fékk sent eintak af bókinni „Vín – frá þrúgu í glas“ í síðustu viku – kærar þakkir Forlagið, ég þurfti á henni að halda! 😉 Ég er heilmikið búin að lesa í bókinni sem er algjörlega frábær. Upplýsingarnar eru afar aðgengilegar, jafnvel fyrir einhvern eins og mig sem kann ekkert um vín, og settar fram á skemmtilegan hátt. Nú veit ég til dæmis hver er munurinn á Reserva og Grand Reserva! 🙂 Lesturinn æsir upp í mér enn frekar löngunina að fara í matar- og vínferð til Frakklands og Ítalíu, draumur sem ég mun láta rætast einn daginn!

IMG_0037Mér finnst rauðvínsglasahringirnir á bókakápunni og inni í bókinni svo flottir og vel til fundnir!

Það er skemmtileg tilviljun að rauðvínshringirnir á bókinni eru einmitt í sama lit og rétturinn sem ég ætla að gefa uppskrift að í dag – þetta er vinsæll litur! Í afmælisveislu Jóhönnu um daginn bauð ég upp á rúllutertubrauð sem ég hef ekki prófað áður en uppskriftina sá ég í Gestgjafanum og breytti henni, notaði annarskonar ost og sultu. Það verður að segjast að brauðrétturinn var ákaflega sérstakur á litinn en góður var hann. Anna vinkona benti mér pent á að brauðrétturinn og buxurnar hennar og hálsmenið voru nákvæmlega eins á litinn og ég held ég geti fullyrt að það sé sjaldgæft að afmælisgestir klæði sig í stíl við brauðrétti eða að brauðréttir séu í tískulitunum! Þrátt fyrir sérstakan lit þá var þessi brauðréttur mjög góður og skemmtileg tilbreyting í brauðréttaflóruna. Þar sem að brauðrétturinn var ekkert sérstaklega aðlaðandi fyrir myndartöku af tók ég fáar myndir af honum en hér flikkar Anna vinkona verulega upp á eina brauðréttamyndina – allt í stíl! 🙂

IMG_7001

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 200 g hindberjasulta
  • skinkusneiðar (ég notaði tæpt box af silkiskorni reyktri skinku frá Ali)
  • 1 Gullostur, mjög kaldur (gott að setja í frysti í 3-4 tíma – ég mundi þetta auðvitað ekkert þannig að ég setti ostinn bara í frysti í 1 tíma og það var í lagi)

Ofn hitaður í 180 gráður. Penslið rúllutertubrauðið með sultu og leggið skinku ofan á. Skerið kalda ostana í sneiðar og leggið á rúlluna. Brauðinu er rúllað upp og hjúpnum (sjá uppskrift hér neðar) smurt á brauðið. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 15 mínútur.

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Hjúpur:

  • 3 msk. bláberjasulta
  • 3 msk rjómaostur
  • 1 eggjarauða

Sultu og rjómaosti hrært vel saman í potti og hitað upp.  Því næst er blandan kæld og eggjarauðunni hrært út í.

Rifsberjabaka


Rifsberjabaka

Auk þess sem ég rækta grænmeti þá er ég með stæðilegan rifsberjarunna. Í fyrra var einstaklega þurrt sumar, í minningunni finnst mér ég hafa vökvað garðinn hér um bil daglega. Síðastliðið sumar var hins vegar svo blautt að ég tók aldrei fram garðslönguna, ekki einu sinni! það eina jákvæða við þetta blauta sumar var uppskeran úr garðinum var góð. Í fyrrahaust fékk ég nefnilega engin rifsber en í ár er runninn stútfullur af berjum sem reyndar voru óvenjulengi að verða rauð, líklega vegna sólarleysis.

IMG_7299

IMG_7303Ljúf rifsber í dásamlega fallegri skál frá Cup Company

IMG_7304

Mig langaði að prófa að gera eitthvað annað úr rifsberjunum en hefðbundna rifsberjahlaupið. Ég bjó því til rifsberjaböku sem var æðislega góð, við mælum með henni!

IMG_7315

Uppskrift:

  • 200 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 110 g smjör, við stofuhita
  • 100 g sykur
  • 2 eggjarauður

Marengs:

  • 2 eggjahvítur
  • 100 g sykur
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 150 g rifsber

IMG_7295

Hveiti, lyftiduft, smjör, sykur og eggjarauður er hnoðað saman í vél eða höndum og geymt í ísskáp í um það bil 20-30 mínútur. Ofn hitaður í 165 gráður. Því næst er deigið flatt út með höndunum í smurt bökuform (eða lausbotna form) sem er ca. 24-26 cm. Gott er að pikka aðeins í deigið með gaffli. Bakað 25 mínútur við 165 gráður eða þar til bakan er orðin gullinbrún.

IMG_7306

Á meðan er marengsinn undirbúinn. Eggjahvítur, sykur og kartöflumjöl er þeytt saman þar til stífþeytt. Þá er rifsberjunum blandað varlega út í. Þegar botninn er tilbúinn er hann tekinn úr ofninum og ofninn hækkaður í 200 gráður. Marengsinum er dreift yfir botninn og bakað í ofninum við 200 gráður í ca. 8 mínútur eða þar til marengsinn hefur tekið fallegan lit. Gott er að fylgjast vel með eftir að ca. 5 mínútur eru liðnar. Borið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

RifsberjabakaRifsberjabakaRifsberjabaka

Bökuð ostakaka með hindberjum


Bökuð ostakaka með hindberjum

Ég hef sett inn nokkrar uppskriftir að ostakökum hingað á síðuna og talað um hver munurinn sé á bökuðum og óbökuðum ostakökum. Uppistaðan í óbökuðum ostakökum er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér prófaði ég mig áfram með bakaða ostaköku með hindberjum. Ég ákvað að nota grunnuppskrift að bakaðri ostaköku, setja í hana hindber auk þess sem ég bjó til hindberjakrem ofan á kökuna. Að þessu sinni notaði ég hindberin ósigtuð, þ.e. þá voru fræin með. En ef maður vill þá er hægt að sigta fræin frá og hafa kremið slétt. Mér fannst þetta koma dásamlega vel út, bökuð ostakaka er svo ofsalega góð! Ekki spillir þegar uppáhaldsberin mín, hindber, ganga í hjónaband með þessari ljúfu köku!

IMG_6977

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex (ca. 20 kexkökur)
  • 150 g smjör

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.

Ostakaka:

  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 g rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 300 g frosin hindber (afþýdd)
  • 2 msk sykur
  • 2 blöð matarlím

IMG_6928

Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkend. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í að lokum. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og ca. 10-15 hindberjum stungið ofan í deigið hér og þar. Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu. Ostakan er látin kólna í forminu og hindberjakremið er útbúið. Matrlímið er lagt í skál með köldu vatni í ca. 5 mínútur. Restin af hindberjunum eru sett í pott á samt sykrunum og þau hituð upp, hrært í þeim á meðan með gaffli þar til þau verða að mauki. Þegar blandan er orðin heit er mesta vatnið kramið úr matarlíminu og því bætt út í hindberjablönduna. Þegar blandan hefur kólnað aðeins er dreift úr henni yfir kalda ostakökuna (enn í forminu). Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7065

Einfaldur kjúklingapottréttur í rjómasósu


Einfaldur kjúklingaréttur

Þá er enn eitt haustið runnið upp. Að vanda hef ég setið sveitt með stundaskrár barnanna og reynt að púsla saman skipulaginu. Eftir vinnu þarf að fara í píanótíma, gítartíma, tónfræði, sænsku, fermingafræðslu, badmington og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa leyst úr nokkrum árekstrum í stundatöflunni er allt orðið niðurnjörvað, prentað út, plastað og komið upp á ísskáp! Þó svo að það sé alltaf gott að komast í rútínu þá sakna ég þess að hafa ekki fengið almennilegt sumar í ár. Þá er nú gott að geta hlakkað til tveggja utanlandsferða í nánustu framtíð.

Þessi kjúklingaréttur sem ég ætla að setja inn uppskrift að í dag er feykilega einfaldur en svo dæmalaust góður. Mér líkar svo vel við svona fljótlega matrétti þar sem allt fer á eina pönnu og mallar þar. Yfirleitt forðast ég sólþurrkaða tómata því mér finnst bragðið af þeim oft verða of ríkjandi. Í þessum rétti njóta þeir sín hins vegar vel. Hér notaði ég fryst úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry og satt best að segja tók ég þau úr frystinum rétt áður en ég fór að elda. Ég setti þau inn í örbylgjuofn í nokkrar mínútur allra lægsta hitann, þannig fór mesta frostið úr þeim án þess þó að kjötið færi að eldast. Það er mjög þægilegt að skera niður kjúklingakjöt hálffrosið og það er líka allt í lagi að steikja bitana þó það sé smá frost í þeim enn.

IMG_6741

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • ólífuolía eða smjör til steikingar
  • 2 msk sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir frá Paradiso
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk mango chutney frá Patak’s
  • 2 dl vatn
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18%)
  • 1 msk rifið engifer
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Kjúklingurinn er skorinn í bita, saltaður og pipraður og því næst steiktur  á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu. Sólþurrkuðum tómötum (gott að taka svolítið með af olíunni sem þeir liggja í), hvítlauksrifjum og mango chutney er blandað vel saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er svo bætt út á pönnuna ásamt rjóma, sýðrum rjóma, engifer og kjúklingakrafti. Látið malla í um það bil 10 mínútur. Gott er að bera réttinn fram með kúskús eða hrísgrjónum, fersku salati og brauði.

IMG_6744