Þá er enn ein annasöm en skemmtileg vika þotin hjá. Reyndar var kannski aðeins of mikið að gera hjá mér, ég þurfti að vera í aukavinnunni minni á kvöldin og náði því til dæmis ekkert að blogga eins og mig langaði til. En síðastliðið fimmtudagskvöld fór ég á frábært matreiðslunámskeið hjá Salti eldhúsi. Ég valdi að fara á námskeið í indverskri matargerð og sé ekki eftir því. Kennarinn á námskeiðinu var Shabana Zaman sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Hún er ekki bara snillingur í eldhúsinu heldur er hún líka Waldorf-kennari, sjáandi, söngkona, heilari og fleira. Til að gera langa sögu stutta átti ég frábæra kvöldstund við matargerð í góðum félagsskap.
Hápunktur kvöldsins var svo að snæða dásamlega indverska rétti, sem hópurinn bjó til undir handleiðslu Shabana, með góðu hvítvíni og hlusta á Shabana fræða okkur um Indland, indversk krydd og matargerð auk annars fróðleiks. Shabana hefur í mörg ár boðið upp á þá þjónustu að fara á heimili fólks og elda indverskan mat fyrir matargesti. Það er þó ekki það eina sem Shabana gerir því með heillandi persónuleika sínum færir hún matargerðina upp á annað stig með fróðleik, söng og skemmtilega nálgun á heilandi og andleg málefni, hvort sem um er að ræða lækningamátt krydda eða annað.
Hér er Shabana að sýna okkur ákaflega einfalt og gott indverskt brauð sem gott er að dýfa í gómsætu sósurnar.
Allir að reyna að feta í fótspor Shabana!
Gott að bera smjör á heitt brauðið
Ég hef aldrei áður farið á námskeið hjá Salti eldhúsi, bara heyrt ótrúlega góðar sögur sem fara af námskeiðunum þar. Núna er ég komin í hópinn með „frelsaða“ fólkinu og get ekki beðið eftir því að komast þangað á annað námskeið! 🙂 Eftir þessa kvöldstund þá veit ég vel hvað það er sem heillar alla sem farið hafa á Salt námskeiðin. Það er í raun ofureinföld jafna sem er samt ekki á færi allra að framkvæma, hún er eftirfarandi; Húsið sem hýsir eldhúsið er sjarmerandi og fallegt. Þar er lögð áhersla á smáatriði, hlýlegt og fallegt umhverfi en ekki síst fullkomna aðstöðu til matargerðar og allt er spikk og span!
Skemmtilegt matarstell sem kemur héðan og þaðan.
Auður Ögn, sem rekur eldhúsið, vakir og sefur greinilega með námskeiðunum sínum, til dæmis eru öll hráefnin sem hún kaupir inn þau bestu og þar er augljóslega hvergi til sparað.
Ferskt og gott hráefni
Eitt dæmi er að þegar allra dásamlega góðu réttanna, sem matreiddir eru á námskeiðinu, er neytt þá er ekki boðið upp á eitt lítið hvítvínsglas með matnum úr ódýrustu „beljunni“ úr Ríkinu. Nei, Auður sendir inn uppskriftirnar til „sommelier“ (vínþjóns) sem finnur út hvaða vín hæfir matnum best. Á meðan námskeiðinu stendur er boðið upp á bjór og með matnum er svo boðið upp á besta vínið sem hæfir matnum hverju sinni og fyllt á glösin að vild! Vatnið er borið fram í fallegum flöskum með hindberjum og myntu. Þegar mætt er á námskeiðið er boði upp á girnilegar veitingar – þetta eru svona smáatriði sem skipta svo miklu máli.
Á meðan námskeiðinu stendur þá er Auður sjálf á staðnum, auk kennarans, og sér til þess að allt gangi vel og stjanar í kringum alla og auk þess er stúlka sem sér um allt uppvask. Ég skoðaði að gamni umsagnir útlendinga (Salt eldhús er með námskeið í íslenskri matargerð fyrir erlent ferðafólk) um Salt eldhús á Trip advisor og það kom ekki á óvart að þar gefa allir námskeiðunum fullt hús stiga og segja gjarnan að þessi kvöldstund hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Mér finnst alltaf svo magnað þegar maður hittir fyrir fólk sem tekur sér eitthvað fyrir hendur og gerir það svona 100% eins og Auður hjá Salti eldhúsi! 🙂
Auður Ögn, Shabana og ég
Allir réttirnir þetta kvöld voru dásamlega góðir. Nokkrir heilluðu mig þó aðeins meira en aðrir. Það var meðal annars Korma kjúklingurinn, blómkáls- og kartöflurétturinn auk dásamlegs banana- og gúrkusalats. Ég hef einmitt oft boðið upp á niðursneidda banana og ristað kókos með indverskum mat en ekki búið til salat úr því áður en það er dásamlega gott meðlæti með svona indverskum mat. Shabana var svo góð að leyfa mér að deila þessum frábæru uppskriftum með ykkur.
Nokkur atriði sem Shabana lagði áherslu á var meðal annars að þegar ferskur chili pipar er í uppskriftum þá þarf að smakka aðeins á honum til að vita styrkleikann, hann getur verið mjög misjafn (minnkar því eldri sem chili piparinn verður). Einnig er mikilvægt að nota góð krydd, til dæmis sagði hún að hægt væri að treysta gæði kryddana frá Pottagöldrum. Í þriðja lagi er mikilvægt að prófa sig áfram með magn kryddana, þó gefið sé upp ákveðið magn af kryddi er best að byrja með fremur lítið en mikið og bæta frekar við, þetta á sérstaklega við um sterk krydd eins og chili og cayanne pipar.
Korma kjúklingur:
- 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir, skornir í bita
- olía til steikingar
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 1 dós kókosmjólk
- 4-5 cm bútur engifer
- 8 stórir hvítlauksgeirar
- 2 laukar, saxaðir smátt
- 1/2 bolli AB-mjólk
- 4 msk kasjú-hnetur, malaðar í duft í matvinnsluvél eða í morteli
- salt eftir smekk
Kryddblanda:
- 2 msk kóríander duft
- 1 tsk cummin
- 1 tsk turmerik (gætið þess að liturinn í turmerik smitast og festist auðveldlega)
- 1 tsk Garam Masala
- 1 tsk chiliflögur eða duft
- 1 tsk svartur pipar
Kryddunum er blandað vel saman. Sett í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni og maukað.
Olía er hituð á pönnu og laukurinn mýktur á pönnunni við meðalhita þar til hann hefur tekið lit (ca. 10 mín). Þá er kryddblöndunni hellt út á pönnuna og henni velt saman við laukinn í ca. 5 mínútur. Gott er að bæta við góðri slettu af olíu þannig að kryddblandan brenni ekki við pönnuna. Þá er kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og þeir brúnaðir í nokkrar mínútur. Því næst er tómötunum og AB-mjólk bætt við, öllu blandað vel saman og látið malla í ca. 20 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kasjú-hnetudufti bætt út í og látið malla í 20-30 mínútur þar til sósan er orðin þykk og góð, því lengri tíma sem henni er gefið því betri verður hún. Saltað eftir smekk.
Borið fram með hrísgrjónum, naanbrauði, raita sósu og banana og gúrkusalati.
Banana- og gúrkusalat (Khera kachumber)
- 3 meðalstórir vel þroskaðir bananar, skornir í tenginga
- 1/2 stór agúrka, skorin í tenginga
- 1/2 grænn chili pipar (eða eftir smekk), saxað smátt
- 25 g gróft malaðar hnetur
- 1-2 tsk kókos
- 1/2 – 1 tsk sykur
- 1-2 tsk sítrónusafi
- salt eftir smekk
Banönum og gúrku blandað ásamt restinni af hráefnunum. Borið fram kalt og fallegt er að strá yfir salatið kókos áður en það er borið fram.
Ef margir eru í mat er ekki verra að hafa þennan blómkáls- og kartöflurétt með ofantöldum réttum með á borðum.
Blómkáls- og kartöfluréttur:
- 1 lítill blómkálshaus (líka hægt að nota 1 stórt eggaldin
- 300 g kartöflur
- olía til steikingar
- 1 tsk cummin
- 1 tsk ristuð og mulin cummin-fræ
- 1 msk heil cummin fræ
- 1 tsk kóríander krydd
- 1 tsk turmerik
- 1/2 tsk cayennepipar (gott að byrja á minna magni og auka eftir smekk)
- 1 grænt chilialdin, fræhreinsað og saxað fínt (hægt að nota minna magn)
- salt og pipar eftir smekk
- ferskt kóríander
Kartöflurnar eru soðnar (gæta þess að ofsjóða þær ekki) látnar kólna, skrældar ef þarf og svo skornar í bita. Blómkálshausinn er skorinn í meðalstóra bita.
Kryddin eru tekin til í lítinn bolla eða skál að heilu cummin fræjunum undanskildum. Ristuðu og muldu cummin fræin eru útbúin. Cummin fræin eru ristuð á þurri pönnu þar til þau byrja að dekkjast, því næst eru þau mulin í morteli eða með hnífsskafti.
Olía er hituð á pönnu og heilu cummin fræin eru sett á pönnuna. Því næst er blómkálinu strax bætt við og steikt í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa næga olíu þannig að blómkálið brenni ekki. Þá er öllum kryddunum bætt út í ásamt chili piparnum, saltað og piprað. Kartöflunum er bætt við, hitinn lækkaður og allt steikt saman í nokkrar mínútur til viðbótar, hrært í reglulega. Borið fram með fersku kóríander.