Súkklaðikaka með lakkrís og karamellukremi


Súkkulaðikaka með lakkrís

Núna erum við hjónin komin heim úr hreint út sagt dásamlegri ferð. Við dvöldum 6 nætur á Rhodos þar sem Elfar sótti ráðstefnu. Mikið var yndislegt að komast í sólina, slaka á og auðvitað borða góðan mat. Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram hafa getað fylgst með myndum úr ferðinni en það er líka hægt að skoða þær hér á síðunnni, velja forsíðu og þar er hægra meginn á síðunni dálkur merktur „Eldhússögur á Instagram“. Eftir frábæra daga í Grikklandi var ákaflega gott að koma heim aftur til barnanna og alls hér heima. Næstu vikur eru þéttskipaðar með allskonar skemmtilegum viðburðum. Einn af þeim er í næstu viku. Þá fer ég á námskeið hjá Salt eldhúsi í indverskri matargerð. Ég hef heyrt svo margt gott um námskeiðin þarna. Eldhúsið sjálft er rómað fyrir það hversu fallegt það er og hve góður andi er þar inni. Ég meina, hvern langar ekki til þess að elda og borða í þessu fallega umhverfi?

Salt

Það eru mjög mörg spennandi námskeið í boði og erfitt að velja bara eitt! Ég endaði á því að velja þetta námskeið, Töfrar indveskrar matargerðar. Mér finnst indverskur matur svo góður en ég hef miklað það fyrir mér að gera hann frá grunni. Shabana Zaman sem hefur búið hér um árabil kennir á námskeiðinu og mér fannst svo ótrúlega spennandi að læra um indverska matargerð hjá einhverjum sem kemur frá landinu og er sérfræðingur í matargerð.  Ég er því ekkert lítið spennt fyrir þessu námskeiði og vona að ég geti deilt með mér hér á síðunni indverskri snilld að því loknu!

En svo ég víki að uppskrift dagsins. Nói og Siríus efndu til uppskriftasamkeppni nú á dögunum. Ég hafði í nokkurn tíma hugleitt hvort ekki væri hægt að baka súkkulaðiköku með lakkrís. Súkkulaði og lakkrís eru jú þjóðarréttur okkar Íslendinga! 🙂 Mér fannst því upplagt að reyna að baka þannig köku fyrir uppskriftasamkeppnina. Ég gerði nokkrar tilraunir og endaði á því að leggja fram þessa uppskrift í samkeppnina að ljúffengri súkkulaði-lakkrísköku með karamellukremi sem sló í gegn hjá fjölskyldunni.

IMG_0033

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 3,5 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk kakó
  • 3 dl hveiti
  • 200 g smjör, brætt
  • 100 g Nissa með lakkrís (hægt að nota meira)

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og 24-26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti bætt út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og Nizzamolunum er þrýst ofan í deigið hér og þar, einum í einu. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í ca. 30 mínútur kakan á að vera blaut í miðjunni.

Karamellukrem:

  • 1/2 dl rjómi
  • 1/2 dl síróp
  • 100 g pippsúkkulaði með karamellu
  • 50 g smjör

Rjómi, síróp og pippsúkkulaði sett í pott og látið malla í nokkrar mínútur við meðalhita þar til að blandan þykknar. Gott að hræra í blöndunni öðru hvoru á meðan. Þá er potturinn tekinn af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að láta kremið standa í smá stund til að fá það þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Skreytt með lakkrís og borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_0136

Ein hugrenning um “Súkklaðikaka með lakkrís og karamellukremi

  1. Girnileg kaka! Ein spurning, hvar er hægt að fá svona hreint lakkrískurl? (sumsé ekki með súkkulaði utanum? ) 🙂

  2. Þetta líst mér vel á, ég hef séð dálítið af uppskriftum í dönskum blöðum, þar sem lakkrís duft er notað, þetta efni virðist ekki vera til hérlendis ennþá, en lakkrískökur eru bara æði.

    • Já, ég hef líka séð þannig uppskriftir en ekki fundið slíkt duft hér á landi. Ég varð því mjög glöð að uppgötva að ég gæti notað venjulegan lakkrís í kökuna! 🙂

  3. Èg bakaði þessa ì dag og hùn er sjùklega gòð, notaði reynar pipp með lakkrìsfyllingu ì staðinn fyrir nizza 🙂

  4. Ég er ekki alveg sammála með þessa köku fannst hún alttof þung og þétt og hugsaði þegar ég var að búa hana til allt þetta hveiti 3 dl. og það sannaðist í barnaafmælinu sem hún var borin fram að það fór eiginlega ekkert af henni!

  5. Er nauðsynlegt að baka hana samdægurs eða er í lagi að baka hana deginum áður og gera kremið sama dag og hún er borin fram?

  6. Ég bakaði hana og veit ekki hvað gengið var oft frá henni en alltaf tekin aftur fram til að fá sér bara aðeins meir alveg þangað til hún var búin….. Geggjuð uppskrift og frábær síða hjá þér

  7. Sjúklega góð þessi Dröfn 🙂 Ég ætla að baka hana fyrir skírnarveislu á sunnudag og hún mun pottþétt slá í gegn 😀 Knús

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.